24.05.1960
Neðri deild: 87. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2779 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

112. mál, útsvör

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Um það leyti, sem þingmenn voru að fara í páskaleyfi, sat hér á rökstólum í Reykjavík fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga. Þetta fulltrúaráð var kvatt saman til þess að fjalla um frv. til l. um bráðabirgðabreyt. á l. nr. 66 12. apríl 1945, um útsvör. Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. hafði lagt til, að frv. yrði sent sveitarstjórnarþinginu til athugunar, og var það gert. Á þessum fundi fulltrúaráðsins var m.a. samþykkt till., þar sem Alþ. var bent á það, að mál þetta þyrfti nánari athugunar við í ýmsum atriðum. Benti fundurinn á það m.a., að varhugavert væri að gera útsvör fyrra árs frádráttarhæf, og svo hitt að leggja á félagsmannaverzlun samvinnufélaganna eins og kaupmannaverzlun. Satt að segja hafði ég gert mér von um, að hæstv, ríkisstj. mundi láta þessar aðvaranir fulltrúafundarins sér að varnaði verða. Ekki sízt var ástæða til að ætla, að svo mundi verða, þar sem að samþykktum á fulltrúaráðsfundinum stóðu þrír af þeim mönnum, sem í n. sátu, sem frv. samdi. Það sýndi sig þess vegna á þessum fundi hjá fulltrúaráði sveitarfélaganna, hver vilji þeirra er, þegar hann fær að njóta sín. Þá óskuðu þeir eftir því, að þetta mál yrði betur undirbúið og betur athugað en hæstv. ríkisstj. hefur látið gera.

Það hefur verið sýnt fram á það hér í umr., að það bar enga nauðsyn til að hraða þessu máli núna, og ég mun víkja að því síðar, og það hefur komið fram í ræðum hv. þm. hér á Alþ., m.a. hjá frsm. meiri hl., að það er unnið áfram að málinu, og ég held, að hæstv. ríkisstj. hefði átt að láta vinna áfram að þessu máli, en ekki drífa það gegnum Alþ. að þessu sinni.

Þá hefur á þessu tímabili, sem frv. hefur verið til meðferðar hér á hv. Alþ., rignt yfir Alþ. mótmælum út af frv., — mótmælum, sem hafa verið rökstudd. Ekki hafa þar verið eingöngu að verki pólitískir andstæðingar stjórnarliða. Nei, þar hafa verið að verki menn, sem vissu, hvað þeir voru að segja, og sýndu fram á það með rökum, að sú þróun, sem frv. stefndi að, væri til óheilla fyrir byggðarlögin, og þess vegna vöruðu þeir við. Ég hafði því satt að segja vonað, að það yrði stefna hæstv. ríkisstj., að frv. færi ekki lengra en til n. í fyrri deild og yrði svo tekinn tími til þess að athuga málið með gaumgæfni og festu og reyna að finna það bezta út úr því. Það hefur hins vegar ekki orðið ofan á, heldur er nú sjáanlegt, að hæstv. ríkisstj. ætlar að drífa málið í gegn hér á hv. Alþ., áður en þingslit fara fram. En þar sem því er margyfirlýst, að þetta frv. eða lög eigi að vera áfram til athugunar, þá hef ég kosið að láta á þessu stigi málsins koma fram mínar athugasemdir, enda þótt það sé ljóst, að stjórnarliðar muni ekki samþykkja mikið af brtt. á þessu stigi málsins. Það hefur þó hins vegar sýnt sig, að fyrir harða andstöðu við 1. umr. hafa stjórnarliðar þó hörfað nokkuð og m.a. eru svo rausnarlegir nú, að þeir ætlast ekki til, að útsvar verði lagt á þá, sem hafa ekki tekjur fyrir fæði. Nú er svo komið, að það á ekki að fara að leggja útsvör á fólk, fyrr en það hefur fæðistekjur. Samkv. skattaframtali munu fæðistekjur nú vera um 7000 kr., og það er það markmið, sem hæstv. stjórnarliðar ætlast til að verði byrjað að leggja útsvar á. Ef maður hefur að borða, þá skal hann bera útsvar. Hins vegar var það svo, er frv. kom fram fyrst, að þá þurfti ekki svo mikið til.

Þá vil ég spyrja í sambandi við brtt. þeirra stjórnarliða, þar sem talað er um, að sláturhús og mjólkurbú skuli vera undanþegin veltuútsvari: Hvað er átt við hér með sláturhúsi? Er það sá aðilinn, sem kaupir féð af bændunum? Er það það, sem er undanþegið veltuútsvarinu, t.d. kaupfélag, sem á sláturhús og þar sem bóndinn leggur sitt fé inn, þegar kaupfélagið selur næsta aðila, næsta heildsala eða smásala, þá er þessi sala undanþegin? Ég óska eftir að fá skýringar á þessu. Ég skil þetta svo, að það sé þetta, sem er undanþegið veltuútsvarinu, þar sem talað er um sláturhús, því að ef það væri ekki, þá er það næsta óskiljanlegt, hvað við er átt, og þessi skýring er hliðstæð því, sem er hjá mjólkurbúunum.

Þegar hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir þessu frv. við 1. umr. málsins og hv. frsm. hér í dag, töldu þeir, að höfuðþáttur þessa frv. væri það, að nú væri felld niður reglan um að leggja á útsvör eftir efnum og ástæðum. Sú regla hefði skapað lausung í þessum málum og nú yrði sköpuð meiri festa, meira öryggi, útsvörin yrðu samræmd meira en áður hefði verið, svo sem hv. frsm., 3. þm. Sunnl., orðaði það, þar sem nú yrðu útsvarsstigarnir þrír, en áður hefðu þeir verið um 200. Þetta mundi verða til þess að draga úr tortryggni og skapa gjaldendunum meira öryggi, eins og ég áður gat um. Nú má um það deila, hvort reglan um efni og ástæður hefur verið sú regla, sem æskilegt er að losna við. Það hafa verið leidd rök að því hér í dag, að einmitt reglan um efni og ástæður, það er sú regla, sem er réttlátust, og hafa útsvör ekki komið nær því að vera réttlát en þegar hún hefur verið notuð. Hins vegar hefur verið á það bent, að vegna þess að fjölmenni gerist nú meira en áður, þá sé erfiðara að meta efni og ástæður en áður tíðkaðist.

En nú vil ég víkja nokkuð að því, hvernig það verður með framkvæmd á þessari löggjöf, ef að lögum verður, hvort þar eru ekki æðimörg matsatriði, sem nálgast það að vera eins og reglan um efni og ástæður.

Í 3. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Útsvör skal miða við hreinar tekjur og eign samkv. skattskrá með þeim frávikum, sem hér greinir: a) Heimilt er að vefengja skattframtal og áætla tekjur og eignir, þó að skattayfirvald hafi metið framtalið gilt.“ Hér mundi ég segja, að væri verið að meta efni og ástæður manna. Ég mundi segja, að hreppsnefnd og niðurjöfnunarnefnd, sem fengi þessa heimild, gæti sagt við hv. 3. þm. Sunnl.: Þú hafðir 20–30 þús. kr. meiri tekjur en skattframtalið þitt segir, og við leggjum á 20–30 þús. kr. meiri tekjur hjá þér en framtalið gefur tilefni til, vegna þess að samkv. l. um bráðabirgðabreyt. á l. um útsvör er okkur heimilt að gera þetta. Okkur er heimilt að hækka tekjur þínar, okkur er heimilt að hækka eignir þínar, af því að okkur sýnist, að það ætti að vera annað. —Þetta frávik er í þessum lögum, og það er fullkomin ástæða til einmitt, að hreppsnefndir og bæjarstjórnir noti þetta, og það er ekki nokkur vafi á því, að þetta frávik er hægt að nota alveg eins og atriðið um efni og ástæður. Þess vegna hefur þeim mönnum, sem ætluðu sér að víkja því til hliðar, sézt hér yfir, þegar þetta er látið standa eftir. Hitt veit ég, af hverju það er. Það er af þeirri einföldu ástæðu, að þegar átti að fara að binda hendur sveitarstjórna og niðurjöfnunarnefnda, sáu mennirnir, sem voru að semja frv., að þeir gátu ekki bundið það svo, að það mætti þar í engu hreyfa. Þá var búið að gera þetta mál þannig, að ósvífinn gjaldþegn, sem hefði getað komizt í gegn með sitt framtal hjá skattyfirvaldi, hafði valdið, en ekki niðurjöfnunarnefndin. Þess vegna stendur þetta eftir þrátt fyrir allt.

Þá kemur næsta atriði í þessari sömu grein. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Víkja má frá ákvæðum skattalaga um sérstakan frádrátt frá tekjum samkv. 4. gr. l. nr. 36 1958,“ — það er sjómannafrádráttur, — „um tapfrádrátt á milli ára og um fyrningarfrádrátt og afskriftir eigna hjá atvinnufyrirtækjum og félögum.“ Hvað er hér á ferðinni? Halda þessir hv. þm., að það verði ekki einhver sveitarfélög á landinu, sem noti sér þetta ákvæði? Og halda þeir, að það verði þá samræmi á milli þessa og hjá hinum, sem nota það ekki? Hæstv. fjmrh. benti á það í sinni framsöguræðu, að ýmis sveitarfélög hefðu ekki farið eftir þessari reglu, önnur hefðu notað hana. Þau geta það jafnt eftir sem áður. Þau þurfa ekki að virða þennan frádrátt, þó að í skattalögum sé, samkv. þessum lögum. Og þess vegna getur Keflavíkurbær virt þetta, en Vestmannaeyjabær ekki — eða öfugt. Þess vegna er ekkert samræmi á milli útsvaranna í Keflavík og Vestmannaeyjum t.d., vegna þess að annar tók þetta atriði, en hinn hitt.

Svo höldum við áfram, og þá komum við í 9. gr. frv. Þar segir, að lækka skuli útsvar vegna sjúkrakostnaðar, slysa, dauðsfalla, eignatjóns, tekjurýrnunar, annarra óhappa eða menntunar barna. Haldið þið, að það verði ekki mat hreppsnefndar og niðurjöfnunarnefndar,

hvernig á að framkvæma þessi atriði? Haldið þið, að það verði sama reglan um allt land, hvernig á að framkvæma þessi atriði? Nei, það verður það ekki. Ein niðurjöfnunarnefndin metur þetta svona og önnur á hinn veginn. Og það má um þessi atriði deila, eins og hv. 3. þm. Sunnl. sagði um útsvör kaupfélaganna, sem ég kem að síðar.

Ég hef heyrt því haldið fram í sambandi við kostnað af menntun, að menn hafa sagt sem svo: Er það eðlilegt, að ungi maðurinn, sem vinnur á eyrinni og menntar sig ekki, hans útsvar sé hærra, vegna þess að hinn fær frádrátt vegna sinnar menntunar? Þessi rök eru líka til, og þið skuluð sanna, að það verður deilt um þessi ákvæði og þau verða ekki samræmd frekar en verið hefur. Þess vegna er það svo, ef þið farið, flm., að skoða frv. ykkar, þá kemur í ljós, að það er hægt að ganga í gegnum löggjöfina uppréttur og það fyrir stærstu menn. Hún er ekki felldnari en svo, og matið um efni og ástæður, sem á að þurrka út samkv. þessu frv., það er hægt að finna alls staðar ástæður fyrir því, að það sé enn þá í gildi.

Og ef við höldum svo áfram að leita að þessu samræmda, sem á að vera í þessari löggjöf, þá kemur nú rúsínan í pylsuendanum, og það eru reglurnar, sem þessir hv. herrar koma með í þessu frv. Hér eru settir upp þrír útsvarsstigar. Það er sagt: Einn skal vera fyrir Reykjavík, annar fyrir önnur bæjarfélög og hinn þriðji fyrir sveitarfélög. — Hefði nú ekki verið hægt að setja þetta upp á þann veg að setja upp þrjá útsvarsstiga og segja: Sveitar- og bæjarfélögum landsins er skylt að leggja á eftir einhverjum af þessum stigum? Þurfti endilega að taka það fram, að Reykjavík ætti að nota einn, sveitirnar annan og kaupstaðirnir þriðja? Þurfti að brennimerkja þetta eins og gert er í frv.? Halda þessir hv. þm. og hæstv. ríkisstj., sem að þessu frv. standa, halda þeir, að þetta geti ekki náð tilgangi sínum, þó að þetta hefði verið sett upp á þennan hátt? Og ég verð að segja það, að ég sé fram á mikil vandkvæði við útsvarsálagningu í Borgarnesi á þessu ári. Við höfum tvö s.l. ár notað þá reglu, sem Reykjavík hefur notað, og höfum meira að segja verið lægri en Reykjavík. Við höfum notað nákvæmlega útsvarsstigann úr Reykjavík, nema við höfum lækkað hann um 14%. Nú er okkur gert að skyldu að nota sveitastigann, þriðja stigann, og megum fara upp í kaupstaðastigann, en við megum alls ekki nota Reykjavíkurstigann, hvað þá að við megum fara að puða fyrir neðan hann. Ég veit satt að segja ekki, hvernig við komumst fram hjá þessu atriði. Og hér er ekki um neitt smáatriði að ræða. Ef maður, sem býr í Reykjavík, hefur 40 þús. kr. tekjur, þá á hann að greiða 3900 kr. Ef hann er í öðrum kaupstöðum, þá á hann að greiða 5700 kr. En ef hann er í sveit, þá á hann að greiða 4900 kr. samkv. þessu. En hér eru ekki öll kurl komin til grafar, því að það er nefnilega meira eftir í þessum samræmdu reglum, þar sem á ekki að nota 200 útsvarsstiga á landinu, heldur aðeins 3, eins og hv. frsm. sagði. Það er það, að ef það eru hjón með barn, þá er frádrátturinn í Reykjavík 1800 kr. fyrir þessa aðila, ef það er í öðrum kaupstöðum, þá er það sama, en ef það er úti á landsbyggðinni, þá er það 1000 kr. Og ef það eru hjón með 10 börn, þá lækka þeirra útsvör í Reykjavík og öðrum kaupstöðum um 15300 kr. vegna persónufrádráttar, en ef þau eiga heima í sveitum og kauptúnum landsins, 5500. Og svo segja menn, að það sé verið að samræma útsvarsreglurnar í landinu, þegar þannig er að farið. Trúi þeir, sem trúa vilja, að þetta sé til þess að samræma, að setja upp slíkar reglur, að persónufrádráttur skuli vera 500 kr. á barn úti á landsbyggðinni og ekki stighækkandi, en hann byrjar á 1000 kr. og stighækkar um 100 kr. við hvert barn í öðrum stöðum.

Hér er unnið flausturslega að málum, og ég hef ekki trú á því, að þessir hv. þm. og hæstv. ríkisstj., þó að ég treysti henni ekki of vel, hafi gert sér grein fyrir því, hvers lags afskræmi þetta frv. er.

Eins og ég tók fram áðan, var hægt að setja upp þrjár reglur eða þrjá útsvarsstiga í þessari löggjöf. En það þurfti ekki að nota þá sem sérstaka auglýsingu, það þurfti ekki að fara að nota löggjöf landsins til þess að auglýsa það, að í Reykjavík væri bezt búið að þegnunum. Og svo skulum við bara hugsa okkur eitt. Við skulum hugsa okkur það, að hugmyndin um landsútsvör nái fram að ganga. Og það skulu menn sanna, að henni vex nú fylgi, eftir að slík auglýsingastarfsemi er hafin, og þá skulum við bara hugsa okkur það, að svo langt yrði gengið, að útsvarsstiginn fyrir Reykjavík dygði ekki. En hún má ekki nota nema þennan eina stiga, hún má ekki nota stigann, sem aðrir kaupstaðir landsins hafa. Hún er þrælbundin við þennan eina stiga, þó að hann nægi henni ekki. Og er nokkur skynsemi að setja slíkt í löggjöf, að það sé ekki hægt í raun og veru að snúa sér í hálfhring án þess að rekast á lögin sjálf? Þess vegna er þetta einnig gagnvart Reykjavík svo fráleitt að vera að binda þetta við Reykjavík, aðra kaupstaði og sveitir, en segja ekki bara, þessar reglur mega sveitarfélögin í landinu nota. Nú munu hv. fylgismenn málsins segja sem svo: Ja, hinir kaupstaðirnir mega nota Reykjavíkurstigann, og þið megið nota kaupstaðastigann. — En þetta er ekki eins einfalt og slíkt tal gefur til kynna, að lækka allan útsvarsstigann, eftir að búið er að leggja á eftir honum og hann gefið of há útsvör, eins og ég benti á áðan um útsvör í Borgarnesi, þar sem við vorum með reglur, sem voru lægri en í Reykjavík, en eigum nú að nota reglur, sem eru mun hærri. Við t.d. byrjuðum að leggja á 25 þús. kr. tekjur. Nú megum við það ekki. Nú verðum við a.m.k. að byrja með 15 þús. kr., og svo eigum við að lækka öll útsvörin hlutfallslega. En að lækka útsvörin hlutfallslega, það er ekki jafneinfalt og menn ætla. Með því móti að lækka útsvörin hlutfallslega er verið að eyða aftur hluta af persónufrádrættinum. Einhleypur maður, sem hefði 70 þús. kr. tekjur, ætti að greiða 13500 kr. í útsvar, en hjón með þrjú börn ættu þá að greiða af þessum sömu tekjum 8400. Ef við nú lækkum stigann um 20%, þá lækkar einhleypi maðurinn um 2700 kr., á sama tíma sem hinn lækkar um 1680 kr. Hér er verið að færa saman bilið, það er verið að eyða af persónufrádrættinum, sem þeim var áður veittur. Þess vegna eru þessir hlutir ekki svo einfaldir í framkvæmd eins og í fljótu bragði virðist vera.

Þá er það annað atriði, sem einnig er í 3. gr. frv., og það er það að gera fyrra árs útsvar frádráttarhæft við álagningu nú. Hv. frsm. meiri hl., 3. þm. Sunnl., lagði mikið upp úr því, að þetta auðveldaði bæjarfélögum innheimtuna verulega mikið. Það má vel vera, að hv. þm. hafi þessa reynslu af útsvarsinnheimtu, en ég þekki hana ekki, enda höfum við ekki gefið afslátt á útsvörum í sambandi við innheimtu þeirra og innheimtast þau samt. En hér kemur miklu fleira til en þetta með innheimtuna, og því er, eins og hann benti réttilega á, þannig farið með innheimtuna, að aðallega er innheimt hjá fyrirtækjum. Þess vegna er það ekki nema mjög litill hluti af fólkinu, sem þetta ætti við. En það eru allsæmileg innheimtulaun, sem sumir menn fá fyrir það að greiða sín útsvör samkv. þessari reglu. Maður, sem hefði 50 þús. kr. tekjur, hans útsvar lækkar um 1400 kr., en maður, sem hefur 100 þús. kr., hans útsvar lækkar um 5400. Ef hann hefur 150 þús., þá er þetta komið upp í 10200, og ef það eru 200 þús., þá fær hann 14700 kr. lækkun á sínu útsvari, og ég held, að það muni margir telja sæmilega greidd innheimtulaun, þó að minna sé greitt en þetta. Hér ber að sama brunni og fyrr hjá þessari hæstv. ríkisstj. Það stefnir allt að því að hygla þeim, sem mestar hafa tekjurnar, og það er tekið af þeim, sem minna hafa. Máli mínu til sönnunar um, að það sé tekið af þeim, sem minna hafa, vil ég benda á í grg. fyrir þessu frv. á bls. 7, að þar er tekið fram, að jöfnunarsjóðsframlagið muni lækka útsvör að öðru jöfnu um 19–20% og það sé framkvæmanlegt að gera útsvörin frádráttarhæf vegna þess atriðis. Það er lagður almennur söluskattur á fisk, kjöt og brýnustu neyzluvörur, til þess að það sé hægt að lækka útsvör á hátekjumönnum. Hér er ekki verið að skera við neglur sér, þar sem hugmyndin er að hygla að.

Þetta atriði, að gera útsvörin frádráttarbær, mun verða þess valdandi, að sum sveitarfélög verða þrátt fyrir framlag jöfnunarsjóðsins að hækka sín útsvör. Þar, sem bezt lætur, er kannske hægt að halda í horfinu, með því þó að draga úr framkvæmdum. En sveitarfélögin, sem líka hafa haft við vanskil að etja og missa eitthvað af jöfnunarsjóðstekjum sínum þannig, þeirra hlutur verður ekki stór út úr þessum ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. Það, sem eðlilegast var í þessu sambandi, var að lækka útsvarsstigana, gera þá lægri í heild vegna jöfnunarsjóðsframlagsins, en ekki láta þá njóta mests, sem hæst hafa útsvörin og mestar tekjurnar. Það var sú leið, sem hæstv. ríkisstj. átti að fara. Þá var hægt að réttlæta að nokkru leyti söluskattinn, en ekki með því að nota hann til þess að lækka útsvör þeirra manna, sem mestar hafa tekjurnar.

Ef við höldum svo áfram að virða fyrir okkur frv., sem á að samræma, eyða tortryggni og gefa fáar útsvarsreglur í staðinn fyrir margar, þá komum við næst að því, að það á að leggja á veltuútsvör og það er beinlínis heimilað í lögum. En þar er bara um heimild að ræða, og það geta nokkur sveitarfélög á landinu notað sér þetta og önnur ekki. Eitt getur notað þessa prósentu, annað hina, þriðja allt aðra o.s.frv. Og svo koma menn og segja, að það sé verið að samræma útsvörin, skapa meiri festu en áður, eyða tortryggni o.s.frv., þar sem er hægt að fara þannig með það, að engin regla felst í þessu, enda ekki framkvæmanleg, og það er hægt að hagnýta sér þetta eftir geðþótta. Þess vegna geta á þessu ári orðið líka 200 útsvarsreglur í landinu, eins og var s.l. ár. Það er ég sannfærður um að muni líka verða. Þetta frv. útilokar það ekki, og sem betur fer bindur það ekki svo hendur sveitarstjórnanna, að þær geti ekki eitthvað snúið sér við á eðlilegan hátt.

Til hvers er þetta? Til hvers er verið að setja þessa löggjöf núna, þegar sömu dagana er því lýst yfir, að þetta sé bara bráðabirgðaatriði, sem eigi að nota þangað til annað betra sé komið? Af hverju er verið að þessu? Af hverju er ekki haldið áfram við það, sem er, og reynt að gera svo frv. þannig úr garði, að það sé hv. Alþ. sæmandi að afgreiða það? Hér er, eins og ég hef bent á, fullt af undanþágum, alls konar frávikum, sem er hægt að hagræða eftir vild, svo að það er hægt að hafa 200 reglur gildandi í landinu, alveg eins og þrjár. Þetta er þannig úr garði gert, því að eftir öll frávikin, allar undanþágurnar, sem nöfnum tjáir að nefna, þá má svo breyta þessu öllu með því að hækka og lækka eftir vild. Þannig er þetta, og ég er satt að segja mjög undrandi yfir því, að hæstv. ríkisstj. skuli vera að eyða tíma sínum í að flana út í mál, sem er ekki betur úr garði gert en þetta frv. er. Og eins og ég gat um áðan, hefði hún átt að hagnýta sér þá bendingu, sem fulltrúaráð sveitarfélaganna gaf henni.

En það eru ekki öll kurl komin til grafar í þessu máli, og það er ónefnt, sem fyrst og fremst er að stefnt með þessu frv., og það er það að leggja útsvör á samvinnufélögin, verzlun félagsmanna eins og utanfélagsmanna. Hæstv. fjmrh. sagði í sinni framsöguræðu fyrir þessu frv. við 1. umr., með leyfi. hæstv. forseta: „Það þykir ekki eðlilegt og ekki sanngjarnt, að ein tegund atvinnurekstrar njóti að þessu leyti annars og meiri réttar en atvinnureksturinn almennt.“ Það er ástæða til að víkja nokkuð að þessu.

Það hefur verið bent á það hér um samvinnufélögin og annan atvinnurekstur, að hann er ekki sambærilegur. Í því sambandi vil ég nefna það, sem hv. 3. þm. Sunnl. talaði hér um, að samvinnufélögin yrðu eins og aðrir að taka þátt í þeim kostnaði, sem af starfsemi þeirra leiddi á hverjum stað. Þar sem ég þekki til, hefur þeirra hlutur ekki legið eftir. Það má vel vera, að þar sem hv. þm. þekkir til, sé þessu öðruvísi varið. En það er bara allt annars eðlis að ræða um samvinnufélög heldur en önnur félög. Þegar ég fluttist í Borgarnes fyrir 5 árum, átti ég ekki kost á því að gerast félagsmaður í Verzlunarfélagi Borgarfjarðar. Ég átti ekki kost á því að gerast félagsmaður í öðrum hlutafélögum á staðnum. Verzlunarfélag Borgarfjarðar var þar engin undantekning. Þetta voru hlutafélög, rekin eftir formi hlutafélaga og lokuð félög. En ég þurfti ekki að fara að biðja stjórn Kaupfélags Borgfirðinga eða kaupfélagsstjórann um leyfi til að gerast félagsmaður í Kaupfélagi Borgfirðinga. Ég fór á skrifstofu félagsins og gerðist félagsmaður. Og því er nú svo varið með flesta Borgnesinga, að þeir eru félagsmenn í Kaupfélagi Borgfirðinga. Þegar þetta félag skilaði sínum reikningum og ársarði eftir árið 1959, var honum deilt út til félagsmannanna. Þessu var skipt út til félagsmannanna. Það er þeirra eign, og það er þess vegna ekki sambærilegt að bera þetta saman við lokuð félög. Félagsmennirnir, eins og hefur verið bent á, greiða skatt af tekjum sínum og eignum í Kaupfélagi Borgfirðinga, og svo er með önnur kaupfélög. Þess vegna er ekki hægt að bera þetta saman, og eins og hv. frsm. 2. minni hl. benti á, er þetta álíka og að gera kaupmanninum skylt að greiða veltuútsvar af afslætti þeim, sem hann gæfi viðskiptafólki sínu. Það mundi ekki vera farið fram á, að hann gerði það, enda ekki réttmætt, því að það eru fjármunir, sem hann tekur ekki til sin, heldur greiðir hann af hinu, sem hann ræður með. Ég benti á það hér um daginn og vil endurtaka það nú, að það fjármagn, sem kaupfélögin safna, er kyrrt á staðnum og það er ekki hægt að flytja þaðan. Það er ekki hægt að flytja það burt úr byggðarlaginu. Það er kyrrt, og hreppsfélagið nýtur þess áfram, þó að mannaskipti verði. Hér er líka meginmunur. Það er meginmunur á þessu eða þegar hægt er að flytja fjármagnið burt. Það er annað sjónarmið frá bæjardyrum þeirra, sem sveitarfélögunum stjórna, þegar öryggi er fyrir því, að fjármagnið verði notað í þágu byggðarlagsins. Hér er svo mikill munur, að það er ekki hægt með neinum rökum að bera þetta tvennt saman. Þess vegna er það bæjarfélag, sem tekur veltuútsvar af viðskiptum kaupfélaganna eins og af kaupmannaviðskiptunum, að skaða sjálft sig. Það er að skaða sjálft sig, vegna þess að gróði kaupmannsins er ekki bundinn við staðinn og getur orðið fluttur burt eftir nokkra daga eða mánuði, en hitt er kyrrt á staðnum og tekur þátt í uppbyggingunni þar. Það er því reginmunur, þegar á að bera þetta tvennt saman, og ég veit, að þessi hv. þm., sem brosir, hv. 2. þm. Vesturl. (SÁ), veit þetta vel. (Gripið fram í.) Hann veit betur, hann veit það ósköp vel, þegar hann hættir sínum atvinnurekstri vestur í Stykkishólmi, þá er engin sönnun fyrir því, að atvinnureksturinn verði þar áfram eða það fjármagn, sem hann hefur safnað þar, þegar hann er hættur að stjórna því fyrirtæki. Það er engin trygging fyrir því. En hann veit það líka jafnvel, að þó að kaupfélagsstjóraskipti hafi orðið í Stykkishólmi, þá hefur ekkert fjármagn verið flutt þaðan burt, — ekkert fjármagn: Þetta er meginmunur, og það þýðir ekki að hrista höfuðið yfir því, það sannar ekki neitt. Móti þessu verður ekki mælt. Og þegar menn koma svo hér á hv. Alþ, og tala um þetta sem hliðstæðu, þá hlýtur það að vera af því, að þeir hafa ekki sett sig inn í málið.

Ég ætla ekki að þreyta hv. þm, með langri ræðu að þessu sinni. Ég vil að endingu segja það, að ég held, að það væri öllum fyrir beztu og ekki sízt þeim, sem fyrir þessu máli standa, að þetta mál yrði ekki afgreitt hér á hv. Alþ. nú, og það er röng stefna að búa þannig að sveitarfélögunum, að þau hafi ekki nægilegt olnbogarými. En að setja upp löggjöf, sem er ábending í hina og þessa áttina og hefur engan heildarsvip, það á ekki að gera hér á hv. Alþingi.