24.05.1960
Neðri deild: 87. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2787 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

112. mál, útsvör

Skúli Guðmundsson:

Hæstvirtur forseti. Það frv., sem hér er til umr., mun hafa verið lagt fyrir þingið, fyrir þessa deild, í lok marzmánaðar í vetur. Það er því búið að vera hér í d. og til athugunar hjá einni þingnefndinni hátt á annan mánuð. Þetta frv. er því kunnugt orðið mörgum, ekki aðeins þingmönnum, heldur landsmönnum yfirleitt, öllum þeim, sem hafa áhuga á þingmálum og því, sem hér gerist. Menn hafa rætt um þetta frv., það hefur verið tekið fyrir á fundum víða um land, og það hafa komið fram og verið sendar hingað til Alþ. álitsgerðir um þetta mál víða frá. Ef maður athugar það, sem komið hefur til þingsins um málið, þá kemur það í ljós, að yfirleitt eru það andmæli gegn frv. eða a.m.k. höfuðatriðum þess. Það kann að vera, að einstaka aðili, sem hefur sent um það umsögn, sjái eitthvað í því, sem hann hefur getað fellt sig við, en yfirleitt er þetta gagnrýni og víða hörð andmæli gegn frv. og aðalákvæðum þess.

Það, sem einna almennustum andmælum hefur sætt, það er ákvæði frv. um veltuútsvör. Slík ákvæði hafa aldrei áður verið hér í lögum. Ýmis bæjarfélög og sveitarfélög önnur hafa á undanförnum árum lagt á svonefnd veltuútsvör og eftir ákaflega mismunandi reglum. Þau hafa verið illa þokkuð yfirleitt. Það hefur verið á það bent, að slík skattheimta þekktist hvergi annars staðar á byggðu bóli. Þeir, sem hafa beitt þessum útsvörum, þær sveitarstjórnir, hafa talið sig hafa heimild til þess í ákvæðum útsvarslaganna um, að leggja megi á gjaldþegn eftir efnum og ástæðum.

Þessi veltuútsvör koma þyngst niður á þeim, sem veita þjónustu fyrir minnsta þóknun. Fyrirtæki, sem hafa mikla veltu, en litla álagningu, verða harðast úti í þessu efni. Þau verða sérstaklega illa fyrir barðinu á þessum veltuútsvörum. Önnur fyrirtæki, sem hafa litla umsetningu, en tiltölulega ríflegan hagnað miðað við veltuna, sleppa vitanlega miklu betur. Og það versta við þessi veltuútsvör hefur verið það, að þau eru lögð á alveg án tillits til þess, hver rekstrarafkoman hefur verið hjá fyrirtækinu. Það er alveg eins lagt á þau fyrirtæki, sem engan hagnað hafa, og hin, sem hafa einhvern rekstrarafgang, og það er meira að segja lagt á fyrirtæki, sem eru rekin með tapi, það er ekkert litið á það. Í þeim tilfellum hefur þetta verið eignaupptaka, án þess að nokkrar bætur kæmu fyrir.

Ég nefndi við 1. umr. þessa frv. till., sem mþn. í skattamálum, sem starfaði fyrir nokkrum árum, lagði fram og afhenti ríkisstj. árið 1955. Í þessari mþn. voru 5 menn, og meiri hl. n., 3 nm., var einmitt úr þeim flokkum, sem standa að núv. hæstv. ríkisstj. N. skilaði tillögu, sem hún stóð öll að, og allir nm. voru sammála um þá till. Hún var um það að hækka nokkuð söluskatt, sem þá var í lögum, skipta þeirri hækkun milli allra sveitarfélaga í landinu miðað við íbúatölu, en banna að leggja á veltuútsvör, afnema veltuútsvörin. Þetta var því miður ekki tekið til greina á þeirri tíð og engin breyt. á þessu gerð síðan. Veltuútsvörin hafa verið á lögð viða, þó að mikill fjöldi sveitarfélaga hafi aldrei notað sér þetta, aldrei lagt á veltuútsvör. En nú er komið fram frv., ekki um að afnema þennan rangláta skatt, heldur að lögfesta hann. Það er eðlilegt, að fram komi mótmæli víða frá gegn þessu.

Hv. 4. þm. Reykn. (JSk) hefur lagt hér fram á þskj. 509 till. til rökst. dagskrár í þessu máli, en hann flytur einnig brtt. til vara, ef ekki verður á dagskrártill. fallizt. Ein af till. hans er um það, að ekki megi leggja hærra veltuútsvar á gjaldanda en svo, að samanlögð upphæð tekjuskatts, tekjuútsvars og veituútsvars nemi 65% af hreinum tekjum hans. Krafa um þetta hefur komið víða frá, að ef veltuútsvör verði í lög leidd, þá verði þau þó takmörkuð þannig, að aldrei sé hægt að taka í veltuútsvar að viðbættum tekjuskatti og tekjuútsvari nema ákveðinn hluta af hreinum tekjum gjaldanda. Og það virðist alls ekki til mikils mælzt, þó að á þetta verði fallizt, þessar kröfur frá fjölmörgum aðilum. En ég vil segja það, að ef meiri hluti þings getur ekki á þetta fallizt, þá er þó það minnsta, sem hann ætti að gera, að setja í lög, að veltuútsvör séu frádráttarhæf við álagningu tekjuskatts og tekjuútsvars. Þetta vantar í frv., sem hér liggur fyrir. Það er ekki þörf á þessu, ef síðasta till. á þskj. 509 verður samþ., vegna þess að þá láta menn ekki nema ákveðinn hluta af tekjum sínum í þessi útsvör, en verði hún felld, þá er nauðsynlegt að fá inn slíkt ákvæði, því að þá er veltuútsvar í mörgum tilfellum alveg hliðstætt við eignarskattinn, sem er lagður á án tillits til þess, hvernig rekstrarafkoma gjaldanda hefur verið á skattárinu, og eignarskattur er frádráttarhæfur við álagningu tekjuskatts.

Ég sé, að hv. frsm. meiri hl. hefur vikið úr deildinni, ég vildi nú heldur hafa hann viðstaddan, þegar ég flyt mína ræðu. Það er hv. 3. þm. Sunnl.

Hv. 3. þm. Sunnl., frsm. meiri hl., sagði, að samkv. þessu frv. væri útsvarsstigum fækkað, þeir yrðu nú aðeins þrír, hefðu verið ákaflega margir áður. Ég vil benda á, að þetta fær ekki staðizt hjá hv. þm., því að mér skilst, að útsvarsstigarnir geti orðið næstum því eins margir og sveitarfélögin eru í landinu eftir sem áður. Ákvæðin um veltuútsvör eru þannig, að þar geta orðið, hygg ég, jafnmargir stigar og sveitarfélögin eru. Það er því ekki hægt að fallast á það með honum, að þetta frv. verði sérstaklega til þess að koma á samræmingu.

Hv. þm. talaði um ívilnanir og segir, að allar ívilnanir, sem veittar séu, hljóti að koma niður á öðrum gjaldendum í viðkomandi sveitarfélagi. Hann hefur líklega munað eftir því, sem gerðist hér í höfuðborg vorri árið sem leið.

Þá vitnaði hv. 3. þm. Sunnl. í samvinnulögin og það ákvæði, sem þar er um, að þar til endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga hafi farið fram, skuli samvinnufélögin greiða eftir ákveðnum reglum, sem eru tilgreindar í þeim lögum, og svo segir hv. þm.:

Nú liggur fyrir, að endurskoðun hefur farið fram. — Ég sé á þessu, að hann er ákaflega gamansamur eða hefur það til, ef hann kallar, að þetta sé endurskoðun á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sem hér liggur fyrir. Ég veit ekki betur en bæði hann og aðrir, sem að frv. standa, séu stöðugt að tala um það, að þessi endurskoðun standi nú yfir og bráðum eigi að koma hið fullkomna frv. um þessi efni, byggt á endurskoðun, sem nú sé verið að vinna að, svo að ég held, að það sé alveg í fullkomnu ósamræmi við ákvæði samvinnulaganna að fara að fella niður þær reglur nú, sem hafa gilt undanfarið um greiðslur félaganna til sveitarfélaga. Það er engin forsenda fyrir slíku, hún er ekki til enn. Endurskoðuninni er ekki lokið.

Hv. þm. segir, og sumir fleiri segja það: Veltuútsvör eiga að ná til allra rekstrarforma, samvinnufélaga á sama hátt og annarra. — Það er ástæða til að íhuga þetta svolítið.

Veltuútsvör hafa verið lögð á verzlunarfyrirtæki, og það er hugmyndin að gera það áfram. En hvað er verzlun? Verzlunarrekstur er það að kaupa vörur til að selja þær öðrum, og þeir sem reka verzlun, hvort sem það eru einstakir menn eða fleiri saman, gera það til þess að skapa sér við það atvinnu og í mörgum tilfellum með það fyrir augum að hafa af þessu hagnað eins og af öðrum atvinnurekstri. En útvegun á vörum til eigin nota er ekki verzlun. Það er ekki verzlunarrekstur, þó að ég t.d. panti fyrir sjálfan mig frá útlöndum einhvern hlut, ef hann einhvern tíma yrði settur á frílista. Það er ekki verzlun. Ef ég er þarna bara að kaupa hlut, sem ég þarf að nota, annað hvort til míns heimilis eða til atvinnurekstrar, sem ég hef með höndum, einhverrar framleiðslustarfsemi, það er ekki verzlun. Það er ekki heldur verzlun, þó að ég og hv. 3. þm. Sunnl. tækjum okkur saman og keyptum í félagi eitthvað frá útlöndum, sem við ætluðum að nota á okkar eigin heimilum eða við eitthvað það, sem við erum að starfa við. Það er ekki verzlun. Og það er ekki verzlun, þótt við tækjum fleiri menn í félag við okkur og við keyptum slíka hluti bara til eigin nota. Þess vegna er það, að sá þáttur, meginþátturinn í starfsemi kaupfélaganna hér á landi, að útvega félagsmönnum sínum nauðsynjavörur og láta þá hafa þessa hluti með sannvirði, það er ekki verzlun. Hins vegar hafa mörg þessi félög verzlun líka. Þau selja óviðkomandi mönnum vörur, utanfélagsmönnum. Það er verzlun, og um það eiga að gilda sömu reglur og gilda um aðrar verzlanir. Ef við, ég og hv. 3. þm. Sunnl., förum að panta vörur til að selja öðrum, þá erum við að reka verzlun, en við erum ekki að reka verzlun, þótt við kaupum eitthvað inn til eigin nota.

Já, hv. 5. þm. Vesturl. (BGr) hlustar á þetta með athygli. Þetta mun vera alveg í samræmi við þær kenningar, sem hann hélt fram í bók, sem hann ritaði nýlega og hér hefur verið getið, og ég veit, að hann er mér alveg sammála um þessa hluti. Já, ég veit það.

Það er nú ýmislegt athugavert við þetta frv. Sumir þeir, sem hér hafa talað á undan mér, hafa tekið nokkur atriði þess til meðferðar, og fer ég ekki að endurtaka það.

Ég vil víkja hér næst að einni brtt., sem hv. meiri hl. heilbr: og félmn. flytur á þskj. 497. Það er 6. brtt. Hún er um það, að það komi ný grein inn í frv. viðkomandi veltuútsvörunum. Þeir hafa orðið varir við það, sem að þessari brtt. standa, að það hefur mælzt ákaflega illa fyrir m.a. í þessu frv. að heimila að leggja há veltuútsvör á framleiðsluvörur bænda, og einn af stuðningsmönnum stjórnarinnar reis hér upp við 1. umr. málsins og mótmælti þessu. Skv. till. meiri hl. á þessi nýja grein að hefjast á þessum orðum: „Undanþegin veltuútsvari eru sláturhús og mjólkurbú“. Nú er það svo, að það er vafasamt, að það sé heimild til að leggja á sláturhús og mjólkurbú, eins og frv. er, því að hús er ekki velta. En ég tel alveg víst, að það, sem þeir eiga við þarna, séu þær vörur, sem eru teknar til meðferðar í þessum húsum, það sé mjólkin, sem fer í mjólkurbúin og þar eru unnar úr söluvörur, og það séu þær vörur, sem unnar eru í sláturhúsunum, sauðfjárafurðir, sem þar er unnið að. Ég hygg, að það sé réttur skilningur. En þá er eitt að athuga í þessu sambandi. Nú er það yfirleitt svo, a.m.k. hjá öllum hinum stærri sláturhúsum — ég held undantekningarlítið — og þeim, sem bezt eru búin, að þá er frystihús í sambandi við þau. Yfirleitt er það svo, að þetta eru sambyggingar. Frystihúsin eru áföst við sláturhúsin, og þegar búið er að slátra fénu, þá er kjötið fært úr sláturhúsinu inn í frystihúsið, fryst þar og geymt, þangað til það er flutt á markað. Ég vil skilja þetta svo, að þetta breyti engu. Ég vil skilja þetta svo, að þessar vörur, í þessu tilfelli kjötið, sem ég nefndi, og aðrar sláturfjárafurðir, verði jafnt undanþegnar veltuútsvari, þótt þær séu færðar úr sláturhúsinu inn í frystihúsið. Ég tel víst, að þetta sé meiningin hjá þeim, sem till. flytja, og ef engar aths. koma um þetta frá hv, frsm. meiri hl. eða öðrum, er standa að frv., þá tel ég, að því sé slegið föstu, að þessi skilningur minn sé réttur. Ég tel, að þá megi slá því föstu, að þetta sé réttur skilningur, þó að vitanlega hefði verið hægt að orða þetta upphaf greinarinnar betur en gert hefur verið. En látum það vera. Ég tel, að þetta hljóti að mega skilja á þennan hátt.

Þá segir næst í þessari brtt.: „Útsvar af landbúnaðarafurðum framleiddum innanlands og seldum í umboðs- eða heildsölu má eigi meiru nema en 21/2 af heildarveltu.“ Nú þykist meiri hl. líklega gera vel við framleiðendur landbúnaðarvara að setja þó þetta hámark, að af þessum vörum, þegar þær eru seldar í umboðs- eða heildsölu, megi veltuútsvarið ekki nema meiru en 21/2 af þúsundi. En hvað er að segja um aðra umboðssölu samkvæmt frv.? Reykjavík hefur hér í sínum útsvarsreglum, sem birtar eru með frv., ákvæði um það m.a., að leggja megi allt að 2% veltuútsvar á umboðslaun. Ég skil þetta svo, að þeir, sem útvega vörur frá útlöndum, og það eru ýmis umboðssölufyrirtæki, sem gera það og taka umboðslaun fyrir, þurfi ekki að borga veltuútsvar meira en í mesta lagi 2% af umboðslaununum, og þá liggur það í hlutarins eðli, að það er ekki lagt frekar veltuútsvar á þær vörur, sem umboðssölufyrirtækin eru að útvega. Ef umboðssali hér útvegar vörur frá útlöndum einhverjum öðrum, einhverri verzlun fyrir 1000 kr. og tekur af því 2% umboðslaun, skulum við segja, þá fær hann 20 kr. fyrir ómakið. Þá má Reykjavíkurbær skv. þessu ekki leggja á þetta nema 40 aura í mesta lagi, 2% af umboðslaununum. En samkvæmt till. meiri hluta heilbr.- og félmn. er hægt að leggja á það fyrirtæki, sem selur landbúnaðarafurðir í umboðssölu, kr. 2.50 á hvert þúsund í söluverði vörunnar. Þeir segja hér: Útsvarið má eigi nema meiru en 21/2 af heildarveltu. — Ég skil, að það sé heildarsöluverð varanna, – mér skilst, að þeir meini það, — varanna, sem er verið að selja. Og þá er það mest kr. 2.50 af hverjum 1000 kr., sem fást fyrir þessar landbúnaðarvörur. En eins og ég sagði áður: Fyrirtæki, sem útvegar vöru frá útlöndum gegn umboðslaunum og tekur 2% umboðslaun, þarf ekki að borga nema í mesta lagi 40 aura af hverjum 1000 kr., sem þarna er um að ræða. Það er sem sagt: Meiri hl. n. ætlar bændum að borga meira en sex sinnum hærra veltuútsvar af sínum afurðum heldur en þeim, sem fá vörur hjá umboðssala hér í Reykjavík frá útlöndum. Hvernig stendur á þessu? Þetta er atriði, sem hv. meiri hl. þarf mjög að endurskoða.

En svo er fleira í sambandi við þetta með umboðsviðskiptin. Það er aðeins, að því er snertir Reykjavík, talað um álagningu á umboðslaun, en ef umboðssalinn er búsettur utan Reykjavíkur, við skulum segja, að hann sé í Hafnarfirði eða suður í Keflavík og útvegar vörur gegn umboðslaunum frá útlöndum, þá má e.t.v. skilja frv. svo, að það megi leggja á hann allt að 2%, ekki af umboðslaununum, heldur af heildarverði þeirrar vöru, sem hann er að útvega, því að í 6. gr. frv. stendur, að það megi leggja allt að 2% veltuútsvar á umboðs- og heildverzlun.

Þetta er atriði, eitt af mörgum, sem hv. meiri hl. þarf endilega að taka til endurskoðunar. Það er óhjákvæmilegt. Ég álít, að þarna eigi að koma inn í 6. gr., að það megi aðeins leggja á umboðslaunin, alveg eins og manni skilst að sé að því er varðar Reykjavík. Það nær vitanlega ekki nokkurri átt, að umboðssölufyrirtæki, sem ætti helma suður í Hafnarfirði eða Keflavík eða í Vestmannaeyjum, þurfi að borga margfalt hærra veltuútsvar af sinni starfsemi en slíkt fyrirtæki í Reykjavík. Ég þykist vita, að hv. 3. þm. Sunnl. sé mér sammála um þetta og þetta sé bara atriði, sem farið hefur fram hjá n. Hún hlýtur að taka þetta til athugunar. Og það er í raun og veru ósköp auðvelt að laga þetta. Það er ekki annað en að samþykkja hér eina af till. hv. 2. minni hl. heilbr.- og félmn., hv. 4. þm. Reykn. (JSk). Það stendur hér í 4. brtt. hans, b-lið, að af umboðsviðskiptum, þ. e. útvegun á vörum gegn umboðslaunum og vinnslu og sölu á innlendum vörum í umboði framleiðenda eða eigenda, reiknast veltuútsvarið aðeins af umboðslaununum. Þetta á skv. hans till. að gilda fyrir alla staði á landinu.

Þá er hér enn viðkomandi veltuútsvörunum, þar sem er um mikið ósamræmi að ræða, ef borin er saman höfuðborgin og aðrir staðir. Í 5. gr. frv., sem gildir fyrir Reykjavík, eru talin upp nokkur opinber gjöld, sem á að draga frá veltunni, áður en veltuútsvar er á lagt. Það er í fimm liðum. Hins vegar er frv. þannig úr garði gert, að það er ekki skylt að draga þessi gjöld frá annars staðar, hvorki í öðrum kaupstöðum né hreppsfélögum, og þetta er svo fráleitt, að ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, að hv. meiri hl. ætli sér að lögfesta það svona. Ég trúi því ekki, að veltuskattsskyld fyrirtæki hér í Reykjavík eigi að fá að draga öll þessi gjöld frá veltunni, áður en útsvarið er á lagt, en sams konar fyrirtæki í Hafnarfirði eða Vestmannaeyjum megi ekki draga þetta frá. Þetta hlýtur meiri hl. að taka til athugunar, og það er eins og með það, sem ég nefndi áðan, það er brtt. um þetta atriði hér frá hv. 4. þm. Reykn., sem lagar þetta ósamræmi, ef samþykkt verður.

Það er ákaflega margt skrýtið í þessu frv., sem eðlilegt er, vegna þess að það virðist vera ætlun þeirra, er að því standa, að lögfesta ýmsar reglur, sem gilt hafa hjá einstökum sveitarstjórnum eða niðurjöfnunarnefndum undanfarið, hversu fráleitar sem þær eru. Ég skal taka hér dæmi t.d. úr 6. gr. Þar er veltuútsvarsprósentan tvenns konar: Í fyrsta lagi allt að 3% , og það má leggja allt að 3% á kvikmyndahús, bara og billjardstofur, söluturna, skartgripaverzlanir, tóbaks- og sælgætisverzlanir og eitthvað fleira, og í þessum flokki er líka olíuverzlun. Það má leggja jafnmikið veltuútsvar á olíuverzlun og bara og billjardstofur, tóbaks- og sælgætisverzlanir, skartgripaverzlanir o.s.frv. Hvaða vit er nú í þessu, þó að slíkt hafi viðgengizt í einhverju sveitarfélagi undanfarið? Olían er einhver brýnasta nauðsynjavara landsmanna, t.d. til atvinnurekstrarins í öllum greinum, fyrir sjávarútveginn, landbúnaðinn og iðnaðinn. Og það er meira en það. Þeir, sem eru ekki svo lánsamir að hafa raforku eða heitt vatn til húsahitunar, nota nú mjög margir olíu til húsahitunar. Það er orðið miklu meira um það, bæði í sveitum og kauptúnum og kaupstöðum, að olía sé notuð til húsahitunar, heldur en kolin. Það hefur færzt í það horf á síðari árum, og þessi vara á að vera í sama flokki hvað veltuútsvör snertir og mestu munaðarvörur og ýmsar óþarfavörur, og þetta bara fyrir það, að einhverjar sveitarstjórnir eða bæjarstjórnir hafa fundið það upp á liðnum árum að leggja svona óverjandi há gjöld á olíuna. Menn segja kannske, að þetta sé allt í lagi, olíufélögin séu ekki of góð til að borga. En við megum vita það, að þetta kemur allt niður á notendum olíunnar. Hún verður þeim mun dýrari, sem þessu nemur.

Það er fleira þarna jafnfráleitt. Við skulum taka útsvarsreglur Reykjavíkur, sem nú á að fara að lögfesta. Þar eru farm- og fargjöld, ótalin annars staðar, í flokki, þar sem má leggja á allt að 1.1% , en svo eru í sérflokki, innan um ýmislegt, innan um blómaverzlanir og ýmislegt þess konar, farmgjöld tankskipa. Við vitum ósköp vel, hvernig á þessu stendur. Það er eitt olíutankskip til í eigu þjóðarinnar, og það er af annarlegum ástæðum, sem bæjarstjórnin í Reykjavík leggur miklu hærra veltuútsvar á þetta skip, þetta flutningaskip, sem flytur þessa nauðsynjavöru til landsins, heldur en á önnur skip, sem flytja aðrar vörur, oft margfalt ónauðsynlegri. Þetta er af annarlegum og sérstökum ástæðum, og nú á að fara að setja þetta í lög hér á voru landi.

Já, það er ýmislegt fleira skrýtið í þessu, sem nú á að fara að setja í lög. Ég vík að því aftur. Í 6. gr., í hærri flokknum, allt að 3%, flokknum, eru t.d. söluturnar. Ég geri ráð fyrir, að það sé átt við þær vörur, sem seldar eru í þessum söluturnum, sem megi leggja á allt að 3%. En ef sömu vörurnar eru seldar í húsi með risi eða flötu þaki, þá fara þær niður í 2% flokkinn. Ég sé ekki betur. En þetta hefur verið í reglum niðurjöfnunarnefndar í Reykjavík og jafnvel hjá fleirum, og þá er sjálfsagt að setja þetta í lög. Þetta á að koma í lagasafninu hjá okkur, lög frá Alþingi. Og þarna í þessum hærri flokki eru verzlanir og veitingastaðir, opnir til klukkan 23.30, þ. e. hálftólf að kvöldi. En ef þeir loka nú korter yfir ellefu, þá sleppa þeir náttúrlega með lægra gjaldið.

Nei, það eru ekki einstök atriði, fá, sem hér þyrfti að athuga betur, frv. allt er ósköp flausturslega samið, vægast sagt, og ekki samboðið hinu háa Alþingi að gera þetta að lögum.

Hæstv. forseti. Ég á nú eftir þó nokkuð af minni ræðu. Ég ætlaði að vitna hér í umsagnir, sem komið hafa um málið viða frá, en ef forseti vill, þá gæti ég frestað framhaldinu þar til síðar, vegna þess að nú er komið að kvöldverðartíma. (Forseti: Það var ætlunin að reyna að ljúka fundinum núna, en ef hv. ræðumaður telur sig eiga lengra eftir af ræðu sinni en svo, að hann geti lokið henni innan næsta hálftíma —) Ég er ekki viss um, að ég geti það. (Forseti: Þá verður fundinum frestað þar til að loknum fundi í Sþ.) [Fundarhlé.]

Ég gat þess í upphafi máls míns, að það hefðu borizt til Alþingis mótmæli gegn þessu frv. og einstökum atriðum í því. Mér þykir rétt að minnast nokkuð á þessi erindi, sem Alþingi hafa borizt, þó að þau séu nú víst fleiri en ég hef hér tekið, en elns og ég sagði, eru þau allmörg, sem borizt hafa.

Ég hygg, að það fyrsta, sem kom hingað, hafi verið frá stjórn Kaupfélags Ísfirðinga. Það hefur þegar verið getið um þetta af öðrum, það er áskorun á Alþingi frá félagsstjórn Kaupfélags Ísfirðinga, þar sem segir m.a. í sambandi við fram komið stjfrv. um breyt. á útsvarslögunum: „skorar stjórn Kaupfélags Ísfirðinga mjög ákveðið á hv. Alþingi að fella það ákvæði frv., að veltuútsvar verði lagt á viðskipti meðlima kaupfélaganna.“

Fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga var á fundi hér í Reykjavík 9.–10. apríl í vor. Þetta fulltrúaráð gerði ályktun um það frv., sem hér liggur fyrir. Þar segir: „Fundurinn telur, að frv. það, sem komið hefur fram á Alþingi því, sem nú situr, um bráðabirgðabreyting á útsvarslögum, þurfi nánari athugunar í ýmsum atriðum. Bendir fundurinn á eftirfarandi dæmi um þetta: Varhugavert er að lögbjóða án frekari undirbúnings og athugunar en hér hefur átt sér stað til frádráttar frá tekjum við útflutningsálagningu útsvar fyrra árs, annað en veltuútsvar. Væri því athugandi að þetta ákvæði yrði aðeins heimildarákvæði.“ Og í 2. lið í þessari ályktun segir þannig: „Ekki er rétt, að samvinnufélög greiði útsvör af skiptum sínum jafnt við félagsmenn og utanfélagsmenn eftir sömu reglum og kaupmenn sama staðar, svo sem fyrir er mælt í 12. gr. frv.“ Þetta er í ályktun, eins og ég sagði, frá fulltrúaráði Sambands íslenzkra sveitarfélaga.

Hinn 20. apríl barst svo bréf frá stjórn Kaupmannasamtaka Íslands, þ.e. ályktun, sem stjórn samtakanna hefur gert á fundi sínum hinn 12. apríl. M.a. segir í þessari ályktun, að samtökin mótmæli því, að bæjaryfirvöldunum sé veitt áframhaldandi heimild til þess að leggja útsvör á veltu án nokkurs tillits til hagnaðar viðkomandi atvinnugreinar eða starfsemi. Enn fremur mótmælir stjórnin því misræmi, sem frv. er ætlað að lögbjóða að viðhaldið sé, með því að sama tegund verzlunar þurfi að greiða misháan hundraðshluta af veltunni eftir því, undir hvaða bæjar- eða sveitarfélag hún á að sækja. „Fyrir því leyfir stjórn samtakanna sér allravirðingarfyllst að skora á hið háa Alþingi, að sá fyrirvari verði settur í frv. þetta, ef að lögum verður, að aldrei megi útsvarsfjárhæð ákveðin hærri en ákveðinn hundraðshluti af hreinum tekjum fyrirtækisins, í annan stað, að veltuútsvar skuli hvar sem er á landinu vera að hundraðshluta jafnhátt, miðað við sömu grein verzlunar eða starfsemi, og hvergi hærra en í Reykjavík 1959.“ Þetta er áskorun frá Kaupmannasamtökum Íslands. Þeir benda þarna réttilega á, að það sé óhæfa að leggja á veltuútsvör án tillits til afkomu fyrirtækja, og þeir benda í öðru lagi á, að það sé rangt að gera upp á milli fyrirtækja eftir því, hvar heimilisfang þeirra er.

Næst barst til Alþingis hinn 25. apríl ályktun frá Blönduósdeild Kaupfélags Húnvetninga. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Á aðalfundi Blönduósdeildar Kaupfélags Húnvetninga var eftírfarandi tillaga samþ. með öllum greiddum atkvæðum gegn 4: Deildarfundur Kaupfélags Húnvetninga í Blönduóshreppi 1960 skorar á ríkisstj. og Alþ. að fella niður þau ákvæði í fram komnu frv. ríkisstj. um veltuútsvar á samvinnufélög fram yfir 11/2% af utanfélagsmannaverzlun félaganna, þar sem sannanlegt er, að samvinnufélög greiða félagsmönnum sínum þann arð, er verður ár hvert.“ Enn fremur eru í þessari samþykkt mótmæli gegn því, að veltuútsvör séu lögð á afurðasölufélög, þ.e.a.s. umboðssölu á framleiðslu bænda. Það telur fundurinn að nái engri átt, nema að því marki er viðkomandi sveitarfélag kann að hafa gjöld af rekstri félaganna á hverjum stað.

Enn kom bréf um þetta mál hinn 28. apríl frá stjórn Kaupfélags Siglfirðinga. Stjórnin sendir þar til Alþingis till., sem samþ. var einróma á aðalfundi Kaupfélags Siglfirðinga á Siglufirði 24. apríl 1960. Og ályktunin, sem þar var samþ. einróma, hefst á þessum orðum: „Aðalfundur Kaupfélags Siglfirðinga, haldinn 24. apríl 1960, skorar á hv. Alþ. að fella úr fram komnu frv. um breytingar á útsvarslögunum það ákvæði frv., að veltuútsvar verði lagt á viðskipti meðlima kaupfélaganna. Aðalfundur Kaupfélags Siglfirðinga álítur, að óréttlátt og þjóðhagslega rangt sé að lögleiða veltuútsvar, sem lagt er á án tillits til rekstrarafkomu eða annarra aðstæðna.“

Næst er erindi frá sýslumanni Suður-Þingeyjarsýslu. Það barst hingað til þingsins 5. maí. Það er ályktun sýslufundar S-Þingeyjarsýslu. Í þeirri ályktun segir m.a. á þessa leið: „Lögleiðing veltuútsvars á viðskipti almennt er dulbúin aðferð til að færa mjög verulegan hluta af útsvarsþunga bæja og kauptúna yfir á íbúa þeirra sveitabyggða, sem verða að hafa aðalviðskipti sín í bæjum, en hafa engin skilyrði til gagnkvæmra ráðstafana á hendur þeim.“ Þarna er bent á atriði, sem var nokkuð rætt við 1. umr, þessa máls. Skv. þessu frv. er ætlazt til þess, að viðskiptamiðstöðvar geti með veltuútsvörum skattlagt mjög verulega íbúa þeirra héraða, þeirra sveitarfélaga annarra, sem sækja þangað sín viðskipti. Þeir segja enn fremur, sýslufundarmennirnir í Suður-Þingeyjarsýslu: „Með fyrirhuguðu veltuútsvari á vörur í umboðssölu, sem engin verzlun er í venjulegum skilningi, og þá fyrst og fremst framleiðsluvörur landbúnaðarins, er allra lengst gengið í rangsleitninni, og það því fremur að frv. opnar leið til að leggja á eina og sömu vörueiningu í þremur sveitarfélögum.“ Þeir segja síðan: „Þar sem engar óumflýjanlegar ástæður geta legið til þess, að gera þurfi bráðabirgðabreyt. á útsvarslögunum á þessu þingi, skorar sýslunefndin á hv. Alþ. að afgreiða engar breyt. á nefndri löggjöf, fyrr en n. sú, sem vinnur að breyt. á henni, hefur lagt fram fullnaðartillögur sínar í því efni og landsmönnum gefizt ráðrúm til að gagnrýna þær breyt., sem þar verða væntanlega bornar fram.“

Þá er ályktun frá Kaupfélagi Borgfirðinga, sem kom hingað til þingsins 9. maí, þ.e. tillaga, sem samþ. var á aðalfundi Kaupfélags Borgfirðinga hinn 6. maí næstliðinn. Þar segir: „Aðalfundur Kaupfélags Borgfirðinga, haldinn í Borgarnesi 5. og 6. maí 1960, mótmælir harðlega frv. um útsvör, sem fram er komið á Alþ., og sérstaklega því atriði þess að heimila bæjar- og sveitarstjórnum að leggja veltuútsvör á samvinnuverzlanir, mjólkursamlög og sláturhús eftir sömu reglum og verzlunarfyrirtæki í einkaeign. Telur fundurinn, að veltuútsvör á viðskipti félagsmanna í samvinnufélögum séu ranglát, og skorar á Alþ. að fella frv. í því formi, sem það er fyrir lagt.“ Till. hlaut samþykki fundarins með 53 shlj. atkv. Enga formælendur átti stjórnin þar í þessu máli. Og svo var það víðar, þar sem ályktanir voru gerðar.

9. maí barst þinginu annað bréf um þessi mál. Karl Kristjánsson, 1. þm. Norðurl. e., sendi þá ályktun aðalfundar Kaupfélags Þingeyinga, þar sem mótmælt er tilteknum ákvæðum varðandi veltuútsvar samvinnufélaga í fram komnu frv. til l. um bráðabirgðabreyt. á lögum um útsvör og skorað á Alþ. að fella þau ákvæði úr frv. Það, sem þar er sérstaklega mótmælt, er eins og hjá öðrum veltuútsvarið í sumum greinum. Þeir telja það fjarstæðu og rangsleitni að lögbjóða, að leggja skuli veltuútsvar á heildarsölu hvers konar vöru, engar íslenzkar framleiðsluvörur undanskildar á nokkru sölustigi, svo og á vinnu og þjónustu, jafnt hjá félagsmönnum og utanfélagsmönnum, ef um samvinnufélög eða önnur félög er að ræða. Þeir segja enn fremur: „Bera þau ákvæði og fleiri í frv. vott um hróplegt skilningsleysi á aðstöðu sumrar framleiðslu og samvinnusamtökum almennings í verzlun og viðskiptum.“ Skorar fundurinn á alla þá alþm., er telja sig samvinnumenn, að koma í veg fyrir, að þessi og þvílík ákvæði verði lögleidd. Þessi till. var samþ. þar shlj.

11. maí berst Alþ. ályktun frá aðalfundi Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis, sem haldinn var hér í Reykjavík 8. maí. Þar segir svo:

„Aðalfundur KRON 1960 skorar á Alþ. að fella úr frv. til l. um útsvör, sem nú liggur fyrir, ákvæði um, að leggja skuli á veltuútsvör og að leggja skuli tekjuútsvar á félagsmannaviðskipti samvinnufélaga. Verði ákveðið að leggja tekjuútsvar og veltuútsvar á félagsmannaviðskipti, er brotin grundvallarregla, sem viðurkennd er í flestum löndum, að tekjuafgangur af viðskiptum félagsmanna er sparnaður þeirra, en ekki verzlunarágóði.“

Hinn 13. maí barst hingað til þingsins ályktun frá aðalfundi Kaupfélags Norður-Þingeyinga, sem haldinn var á Kópaskeri 10. maí 1960. Fyrstu tveir liðirnir í þessari ályktun eru um önnur mál, þ.e. um þá ákvörðun að krefja kaupfélag í landinu um að senda til Seðlabankans helming af aukningu innlánsdeilda félaganna. Mótmæli gegn þessu hafa verið hér fleiri í ályktunum. Og einnig eru hér mótmæli í 2. tölulið gegn hóflausri hækkun á vöxtum lánsfjár. En síðan segir í 3. lið ályktunarinnar, að fundurinn andmæli ákveðið að lögbjóða eða leyfa veltuútsvar á kaupfélög og Samband íslenzkra samvinnufélaga, sem byggja rekstur sinn og þjónustu að mestu leyti á umboðsstarfi fyrir allan fjölda smáframleiðenda og neytenda um landið allt og geti ekki brugðizt við þessu á annan hátt en hækka sín umboðslaun fyrir þjónustuna, sem þessum þunga skatti nemur, og kemur því loks niður á öllum almenningi.

Hinn 19. maí barst hingað ályktun frá aðalfundi Kaupfélags Húnvetninga á Blönduósi, sem haldinn var 10. og 11. maí. Þar segir m.a.: „Fundurinn telur fráleitt, að heimild sé gefin til að leggja veltuútsvar á viðskipti kaupfélaga við félagsmenn sína, þar sem það er meginregla, að verði hagnaður af þessum viðskiptum, þá endurgreiði kaupfélögin hann. Fundurinn skorar því á hæstv. Alþ. að fella þetta ákvæði úr lagafrv., þar sem fundurinn telur það alveg óþolandi.“

Þá vil ég að síðustu geta um ályktun, sem gerð var á aðalfundi Vinnuveitendasambands Íslands, sem haldinn var hér í Reykjavík 12. –14. maí 1960. Þar segir svo m.a.:

„Aðalfundur Vinnuveitendasambands Íslands, haldinn 12.–14, maí 1960, mótmælir fyrirhugaðri lögfestingu veltuútsvara, sem lögð séu á án tillits til afkomu félags, svo sem ráðgert er í frv. um þetta efni, sem nú liggur fyrir Alþingi.“

Mér þótti rétt að láta þetta koma fram, það sem ég hef nú lesið. Það er áreiðanlega ástæða til þess fyrir hv. þdm. að íhuga þessi mótmæli, rökstudd mótmæli, sem komið hafa frá mörgum stöðum á landinu, viðkomandi þessu máli, ekki sízt viðkomandi ákvæðum frv. um veltuútsvörin.