25.05.1960
Neðri deild: 88. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2804 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

112. mál, útsvör

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var hér til 1. umr., var sýnt fram á það allýtarlega, hvað frv. var meingallað og illa frá því gengið þar að auki í veigamestu atriðum. Það kom fljótt í ljós, að þeim, sem stóðu að frv., kom þessi gagnrýni talsvert illa. Og eins kom ýmislegt fram, sem benti til þess, að þeim, sem ætlað var að samþykkja lögin hér á Alþingi, þ.e.a.s. stuðningsliði hæstv. ríkisstj. á Alþ., litist ekki alls kostar á blikuna, þegar búið var að sýna fram á við 1. umr., hvað það var, sem þeim var ætlað að samþykkja. Á hinn bóginn kom í ljós með ýmsu móti í framhaldi af þessum umr. sú ömurlega vitneskja, að þetta frv. hafði sýnilega ekki verið undirbúið í samráði við þá, sem ætlað var að samþykkja það á Alþingi. Var því augljóst, að þarna mundi leiða til verulegra átaka í stjórnarliðinu, þar sem annars vegar væru þeir, sem höfðu ekki verið hafðir með í ráðum, en sáu margvísleg missmíði á þeim grip, sem gerður hafði verið, og svo hinir, þ.e.a.s. hæstv. ríkisstj. og einhver innsti hringur kringum hana, sem hafði látið setja saman frv. og ráðið efni þess án þess að ráðgast við hina, sem ætlað var að leggja til hendurnar til að samþykkja það.

Það var nokkuð augljóst mál, að svo mundi fara sem fyrr, að þeir, sem höfðu látið gera málið eftir sínu höfði, mundu leggja metnað sinn í, að frv. yrði barið í gegn, hvað sem hinum sýndist og hvaða missmíði sem kynnu að koma fram á því við athugun í þinginu, enda hefur þessi orðið raunin á. Það er alþjóð kunnugt, að í margar vikur hefur staðið sífelld orrusta innan stjórnarliðsins um marga þýðingarmestu þætti þessa máls, og loks kemur það nú fyrir á nýjan leik. Kemur þá fram, að hæstv. ríkisstj. er ráðin í því að reyna að berja málið fram á þinginu þrátt fyrir alla gallana og virðist hafa tekizt að berja niður þá mótstöðu, sem kom fram í stjórnarherbúðunum gegn málinu, þegar fyrir lá, hvernig það var vaxið. Að vísu hafa nú verið gerðar á því nokkrar breytingar í leiðréttingarátt, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja, en þó verður að segja, að meginefni frv. er enn eins og í upphafi var til stofnað. Meginstefna frv. er sú sama.

Á hinn bóginn sýna sumar af þeim breytingum, sem gera á, hvílíkur óskapnaður frv. var í öndverðu og hvað fyrir stjórnarherrunum vakti, eins og t.d. það, sem nú kemur glöggt í ljós, að það vakti fyrir ríkisstj. að leggja veltuútsvar á afurðir landbúnaðarins mörgum sinnum, m.a. þegar þær væru teknar til vinnslumeðferðar í sláturhúsum og öðrum slíkum stofnunum. Og enn fremur kemur það glöggt í ljós af þeim breytingum, sem nú hafa verið gerðar, að upphaflega vakti það líka fyrir hæstv. ríkisstj. að leggja álögur á alla mjólk og mjólkurafurðir þegar á fyrsta stigi meðferðar þeirra afurða í mjólkurbúunum sjálfum. En þegar þeir stóðu frammi fyrir þeirri gagnrýni, sem hér kom fram af hendi stjórnarandstæðinga og undir var tekið raunar nokkuð úr stjórnarherbúðunum, þá hafa þeir þó guggnað á þessu. Hæstv. ríkisstj. hefur guggnað á þessu og setur nú inn það ákvæði, að undanþeginn veltuútsvari skuli vera rekstur sláturhúsa og mjólkurbúa. Enn fremur hefur það orðið árangurinn af þeim miklu átökum, sem átt hafa sér stað um veltuútsvörin í stjórnarherbúðunum, og þeirri gagnrýni, sem komið hefur fram, að þau hafa dálítið verið takmörkuð frá því, sem áður var hugsað, þannig að nú er hvergi heimilt að hafa þau hærri en þau voru s.l. ár. En áður var það opið alls staðar utan Reykjavíkur að fara með veltuútsvörin upp í 3% í mörgum greinum og 2% í öðrum greinum. Hefur verið haft ofur lítið vit fyrir stjórninni og hún orðið óttaslegin út af því, sem fyrir lá, og nokkuð hefur því verið dregið í land.

En meginstefna frv. er enn sú sama sem áður var, og mun ég fara um hana nokkrum orðum. Það kemur sjálfsagt mörgum nokkuð undarlega fyrir sjónir, þetta ofurkapp, sem lagt er á að setja nú allt í einu, einmitt nú á þessu þingi, nýja löggjöf um útsvarsmálin, og það þó að fyrir liggi og sé alveg játað af þeim, sem fyrir málinu standa, að málefnið sé svo þýðingarmikið og víðtækt, að þeir geti ekkert við það ráðið að finna viðunandi lausn á þeim tíma, sem þeir hafa til umráða. Þess vegna verði að leggja fram núna það, sem kallað er bráðabirgðalausn. Og það þarf ekki djúpt að skyggnast til að sjá, hvernig á því stendur, að það þarf að gera þetta einmitt núna og má ekkert dragast að dómi þeirra, sem hér standa fyrir málum. Mér virðast ástæðurnar aðallega vera tvær. Það er í fyrsta lagi að koma einmitt núna strax — og það má ekki dragast veltuútsvari á félagsmannaviðskipti samvinnufélaganna. Þetta er önnur ástæðan til, að það þarf að gera þetta nú alveg strax. Það þolir ekki neina bið að dómi þeirra, sem hér að standa, þar er svo mikið þjóðarnauðsynjamál á döfinni, að það er hægt að taka á sig mörg óþægindi til að koma slíku fram frá þeirra sjónarmiði. Hitt atriðið er að koma útsvarslækkun þeirri, sem hugsanlega kynni að verða vegna söluskattsálagningarinnar, þannig fyrir nú strax, að hún komi fyrst og fremst þeim til góða, sem mestar hafa tekjurnar, en almenningur verði hennar ekki aðnjótandi: Þetta er annað aðalatriði þessa frv. og önnur ástæðan til þess, að það verður að reka það fram með þessum ofsahraða, en má alls ekki bíða eftir því, að útsvarslöggjöfin sé athuguð af nokkru viti, eða menn gefi sér tóm til þess að ganga þannig frá því máli, að hugsanlegt væri, að það gæti staðizt til nokkurrar frambúðar.

Ég mun minnast fáeinum orðum á þessi atriði, sem ég hef nefnt, sem mér sýnast vera höfuðatriði í þessu máli, þótt mörg önnur stór atriði komi þar einnig til greina, og mun ég kannske líka víkja að þeim örfáum orðum í leiðinni.

Það er þá fyrst varðandi veltuútsvarið. Allir þeir, sem hafa kynnt sér nokkuð skattamál að ráði eða hugsað um þau, hugleitt þau efni, hafa gert sér grein fyrir því, að skattar og álögur eru einkum með tvenns konar móti. Annars vegar er það, sem kalla mætti beinir skattar, og hins vegar eru óbeinir skattar. Beinu skattarnir eru lagðir þannig á, að miðað er við hreinar tekjur eða hreinar eignir og greitt í hlutfalli við þær. En óbeinu skattarnir eru yfirleitt þannig hugsaðir og á lagðir, að þeir eru lagðir á ýmsa þætti viðskiptanna eða eignir, ekki með tilliti til þess, hversu mikið er þar saman komið í einn stað, heldur koma almennt á viðskipti og þjónustu. Þar undir koma allir tollar, söluskattar og öll slík gjöld. Þetta er allt það, sem kallað er í daglegu tali óbeinar álögur eða óbeinir skattar.

En svo hefur verið sérstaklega ástatt hér í okkar landi nú alllengi, að útsvörin hafa verið eins konar bastarður, alveg sérstakt fyrirbrigði, kannske alveg sérstakt fyrir Ísland að því leyti til, að það hefur verið nær ómögulegt að gera sér grein fyrir því, að hve miklu leyti útsvörin voru beinn skattur og að hve miklu leyti þau voru orðin óbeinn skattur eða óbeinar álögur. Og ástæðan til þess er sú, að það hefur tíðkazt á ýmsum stöðum nú alllengi að leggja á það, sem kallað hefur verið veltuútsvar. Og þessu veltuútsvari hefur verið háttað þannig, að það hefur verið miðað við viðskiptin hjá hverjum einstaklingi eða hverju félagi fyrir sig og mjög mismunandi eftir tegundum viðskipta. En það hefur ekki verið gerð grein fyrir þessu sérstaklega, heldur hefur því gjaldi, sem mönnum er ætlað að greiða eða félögum hefur verið ætlað að greiða eftir þessum mælikvarða, blandað saman við það, sem mönnum hefur verið gert að greiða eftir tekjum og eignum, og þetta allt í einu lagi kallað útsvar.

Nú hefur það aukið ákaflega mikið glundroðann í þessu, eins og gefur að skilja, að það hefur verið með öllu óljóst um veltuútsvörin, hvort þau væru tekin til greina t.d. við verðlagningu á vörum og þjónustu eða ekki. Og þetta ófremdarástand hefur verið þannig, að ég veit til þess, að í sumum dæmum hafa veltuútsvör verið tekin til greina við verðlagningu vara, tekin inn í vöruverðið og viðurkennd af yfirvöldunum, en í öðrum tilfellum og sennilega í langflestum tilfellum ekki. Þannig hafa veltuútsvörin orðið skattur á einstaklingana og fyrirtækin, en ekki óbeinn skattur, eins og þau þó eftir eðli sínu í raun og veru eru, sbr. t.d., hvernig söluskattur er á lagður og önnur slík gjöld, sem tekin eru til greina í vöruverðinu. Þetta hefur svo aftur orðið til þess þráfaldlega, að bæði félögum og einstaklingum hefur verið gert að greiða, þegar búið var að reikna veltuútsvar og útsvar af tekjum og eignum, hærra útsvar en nam öllum þeirra hreinu tekjum, að ég nú ekki tali um, að þau dæmi hafa sjálfsagt verið mörg, að útsvar ásamt tekjuskatti og eignarskatti hefur verið mun hærra en nam öllum tekjum einstaklinga og fyrirtækja. Þessar aðfarir hafa allar orðið í mörgum dæmum að hreinu eignanámi eða eignaráni, og það verður ekki ofsögum af því sagt, hversu gersamlega óviðunandi það er að haga skattálagningu á þennan hátt, eins og gert hefur verið undanfarið í mörgum bæjarfélögum varðandi álagningu veltuútsvarsins og annarra útsvara um leið.

Það, sem á ríður í þessu sambandi og hefur lengi verið í athugun, en engin endanleg niðurstaða fengizt um, er auðvitað það að greina hér hreinlega á milli. Annaðhvort verða álögurnar að vera miðaðar við tekjur og eignir og vera þá beinir skattar, eða þá að þær verða að vera miðaðar við verzlunarumsetningu og aðra viðskiptaliði, og verður þá að taka þær álögur til greina á sama hátt í verðlagi og söluskatta og annað slíkt.

Ég hygg, að það sé flestum ljóst, að þannig verði að koma þessu fyrir, ef vel á að fara, og að það sé óhugsandi, að þetta geti staðizt áfram eins og verið hefur. Og sannast að segja virðist mér viðleitni þeirra, sem hafa verið að skoða þessi mál undanfarin missirí, helzt hafa beinzt í þá átt að reyna að greiða úr þessari flækju, reyna að koma því þannig fyrir, að því verði gersamlega hætt að gera mönnum að greiða álögur til ríkis og bæja, sem fari langt fram úr þeim tekjuafgangi, sem menn eða félög hafa af rekstri sínum.

Nú hefur þessi aðferð við álagningu útsvara verið gagnrýnd af mörgum, eins og eðlilegt er, og ég geri ráð fyrir, að margir mundu hafa búizt við, að þegar farið væri að endurskoða þessi mál, þá yrði reynt að breyta þessu í þá stefnu að gera þetta hreint upp, gera hrein skil á milli þeirra útsvara, sem lögð væru á sem beinn skattur, og annarra gjalda til bæjarfélaganna, sem lögð væru á sem óbeinir tollar eða óbeinir skattar. Reynt yrði að koma því þannig fyrir, að það öryggisleysi, sem menn hafa búið við að þessu leyti og hefur verið auðvitað algerlega óþolandi, hyrfi úr sögunni. En öryggisleysið hefur sem sé verið fólgið í þessu, að menn og félög hafa átt það yfir höfði sér, að niðurjöfnunarnefndir mældu þeim útsvör, miðað við umsetningu, sem færu langt fram úr hreinum tekjum einstaklinganna eða félaganna. Og það hefur verið á algerri ringulreið, hvort þau útsvör, sem þannig væru mæld sem veltuútsvör, fengjust tekin til greina við verðlagningu eða ekki. Hér er um svo stórfellt öryggisleysi að ræða, að það má teljast hafa verið alveg siðlaust að halda sífellt áfram að leggja útsvörin á með þessum hætti. Það er engin ástæða til að álíta, að þeir, sem stóðu fyrir setningu útsvarslöggjafarinnar, hafi ætlazt til, að svona væri farið að. Það er talað um að leggja á eftir efnum og ástæðum, og liggur miklu beinna við að skilja, að þeir hafi ætlazt til, að útsvörin væru beinn skattur, en ekki að farið væri út á þessa braut. En svona hefur verið á þessu haldið undanfarið og með þeim afleiðingum, sem ég hef aðeins drepið á.

Því hefur stundum verið borið við, að það væri nauðsynlegt að hafa þennan hátt á, vegna þess að framtöl margra væru svo óáreiðanleg, að ef ekki væri partur af útsvarinu óbeinn skattur með þessu móti og miðaður við vörusölu eða þvílíkt eða þjónustu, þá yrðu margir útsvarsfrjálsir, sem ættu að réttu lagi að greiða talsvert til bæjar- og sveitarfélaganna.

Ég vil biðja menn að íhuga, hvert þessi hugsunarháttur leiðir.

Þessu hefur verið komið þannig fyrir, að veltuútsvarið hefur ekki aðeins verið lagt á þá, sem hafa verið grunaðir um að draga undan skatti, heldur hefur veltuútsvarið verið miðað við umsetningu og lagt jafnt á hjá öllum, bæði þeim, sem álitið var að teldu rétt fram, og hinum, sem menn höfðu grun um að teldu rangt fram. Það hefur þess vegna ekki verið að neinu leyti náð til skattsvikaranna með álagningu veltuútsvarsins. Það er ekkert annað en alger rökvilla. Það hefur verið lagt holt og bolt á umsetningu hjá öllum, bæði þeim, sem eru vandaðir í framtali, og hinum, sem menn hafa ástæðu til að halda að vilji skjóta sér undan gjöldum. Síðan hafa tekjuútsvörin og eignaútsvörin verið mæld á eftir, eftir skattstiganum, og bætt ofan á þá, sem telja rétt fram. M.ö.o.: veltuútsvarið, sem sumir hafa verið að tala um að ætti að vera til þess að skattsvikarar væru ekki gjaldfrjálsir til bæjanna, hefur orðið að almennum skatti á alla. En þeir, sem telja rétt fram, eru svo látnir borga útsvarið af tekjunum og eigninni rétt talinni sem sérstaka refsingu fyrir að telja rétt fram.

Það er þess vegna ekkert annað en falskenning, að veltuútsvörin sé hægt að nota til þess að ná í þá, sem ella mundu sleppa undan gjöldum. Það er a.m.k. ekki hægt nema þá með því í leiðinni að íþyngja þeim á óforsvaranlegan hátt, sem telja rétt fram, — á siðlausan hátt. Þess vegna verður þessi röksemd fyrir veltuútsvörunum að engu, gersamlega að engu. Það er ekki hægt að ná til þeirra, sem menn álíta að telji rangt fram, nema með því að áætla þeim hærri tekjur en þeir telja fram og leggja siðan á þá eftir tekju- og eignarskattsstiganum til jafns við hina, sem menn álíta að muni telja rétt fram. Á þann eina hátt er hægt að ná til þeirra, sem menn hafa grunaða um að vilja skjóta sér undan gjöldum, en á engan hátt með veltuútsvörunum.

Veltuútsvörin verða til að auka um allan helming ranglætið í garð þeirra, sem eru vandaðir menn og telja rétt fram. Veltuútsvarið verður líka til að svæfa þá, sem hafa með þessi mál að gera, — svæfa þá algerlega á verðinum og gera þá alveg tilfinningarlausa fyrir því, hvernig farið er með þá, sem telja rétt fram, því að menn hugga sig við, að skattsvikarinn greiði þó veltuútsvarið, og láta svo bara þar við sitja, — svæfa sig og samvizku sína með því, að hann hafi þó útsvar líka, eins og hinir, í stað þess að væri veltuútsvarið ekki, þá mundu allir þeir, sem hér eiga hlut að máli, miklu fremur en nú sameinast um að knýja fram betri framtöl. Bæjaryfirvöld mundu þá ganga í lið með skattstjórum og öðrum slíkum til þess að knýja fram betri framtöl, eða þá beinlínis ganga fram fyrir skjöldu og áætla þeim viðbótartekjur, sem menn álíta að telji ekki rétt fram.

Þannig hafa veltuútsvörin hreinlega orðið til að draga allt stórkostlega niður frá því, sem ella hefði verið.

Ef menn íhuga, hversu þetta ástand hefur verið óþolandi, þá býst ég við, að margir hefðu viljað álíta, að Sjálfstfl., sem a.m.k. hefur talið sig vilja hlynna að einstaklingsrekstri og einkaframtaki og öðru slíku, mundi leggja metnað sinn í það, þegar áhrif hans ykjust, að endurskoða þetta og reyna að koma hér á betri skipan, t.d. að kljúfa þessar álögur alveg greinilega niður og hafa beinu skattana og beinu útsvörin alveg sér og svo aftur sér það, sem ætti að leggja á með óbeinum hætti, en þessu siðleysi yrði hætt, þ.e. álagningu veltuútsvaranna.

Það er að vísu alveg augljóst af því, sem er að gerast, að það hefur aldrei verið nema slagorð, að Sjálfstfl. beri framleiðendur eða atvinnurekstur yfirleitt nokkuð sérstaklega fyrir brjósti. Það getur verið, að einhver hafi haldið það í fyrra eða árið þar áður, en héðan af dettur engum í hug að líta þannig á. Það er alveg augljóst af þeim ráðstöfunum, sem flokkurinn er nú að beita sér fyrir, ekki bara í þessu máli, heldur svo að segja í öllum málum og allri meginstefnu, sem flokkurinn nú hefur tekið upp, að því fer alls fjarri, að hann vilji almennt hlynna að þessu, því að öll efnahagsstefnan er yfirleitt miðuð við að leggja steina í götu þeirra, sem vilja verða sjálfstæðir atvinnurekendur og yfirleitt sjálfstæðir efnalega, þrengja að þeim með öllu hugsanlegu móti og koma í veg fyrir, að þeir geti komið fram áformum sínum um aukinn atvinnurekstur og fjárfestingu í því sambandi. Þeir vilja draga úr öllum opinberum stuðningi, sem átt hefur að miða að því, að sem flestir gætu orðið sjálfstæðir atvinnurekendur og notið sín í einkaframtakinu.

Allar meginráðstafanirnar ganga í þá átt að leggja hér steina í götu og hindranir. Auðvitað er ætlazt til þess, að í staðinn fyrir marga einstaklinga komi hin stóru félög, auðfélög, sem eiga að taka upp þá starfsemi, sem einstaklingarnir eiga samkvæmt þessari stefnu ekki að vera að baksa við. En miðað við það, sem flokkurinn hefur áður haft á oddi um þessi efni, þá hefðu sjálfsagt margir álitið, að flokkurinn mundi reyna að vanda sig á útsvarsmálinu og einmitt alveg sérstaklega á veltuútsvarsmálinu, reyna að koma í það hreinum línum, sem atvinnureksturinn í landinu gæti sætt sig sæmilega við, og að þessi mál yrðu ekki áfram í því fáránlega öngþveiti, sem þau hafa verið.

Að vísu skal játað, að það var náttúrlega ekki við góðu að búast, þegar sá maður, sem hefur staðið fyrir þessu fargani í Reykjavík árum saman á þann hátt, sem landsfrægt er orðið fyrir löngu, var gerður að fjmrh. til þess að standa fyrir þeim endurbótum, sem ættu að verða. Það var sem sé alveg sérstaklega tekið fram í verkaskiptingunni, að hann ætti að hafa með að gera tekjustofna sveitarfélaga. Ég skal játa, að það var ekki beint við góðu að búast, þegar svona var á haldið. Maður, sem er alveg orðinn samdauna þessum aðförum öllum saman, sem ég var að lýsa varðandi álagninguna á útsvörunum, var náttúrlega ekki líklegur til að koma með stórfelldar nýjungar eða endurbætur í þessum efnum. En þó að margir hafi efazt um, að það yrði rösklega snúizt gegn þessum vanda og reynt að lagfæra, þá býst ég varla við, að menn hafi gert ráð fyrir því, sem nú er að gerast, en það er blátt áfram, að hæstv. ríkisstj. beitir sér fyrir því og sækir það með ofurkappi að lögfesta veltuútsvarsfarganið, og þó í enn þá verri og víðtækari mynd, eins og ég mun bráðum koma að. Það eru þær endurbætur, sem eiga að verða á þessu öngþveitisástandi. Áður hafa menn þó verið að leita að leiðum til að geta afnumið þetta fargan eða a.m.k. lagað það stórkostlega frá því, sem það hefur verið. En nú eru úrræðin þau að snarast til og lögfesta þetta, og það liggur svo mikið á, að það má ekki gefa neinn tíma til þess að íhuga málið. Það verður að gera þetta strax.

Hver getur verið ástæðan til þess, að menn vilja nú leggja sig í annað eins og það að lögfesta þetta, eins og það hefur þá líka mælzt fyrir og mælist fyrir enn í dag, eins og dæmin ljósast votta? Það streyma inn andmælin, eins og eðlilegt er, það streyma inn andmælin víðs vegar að af landinu út af því að fara nú að lögfesta þetta ástand, sem nær allir hafa verið sammála um að væri óþolandi. Ég hygg, að eðlilega hafi menn búizt við öðru. En hver er þá ástæðan til þess, að gengið er í þetta með slíkri atorku og ofurkappi að lögfesta þetta dæmalausa fargan? Ég held, að það sé ekki nema ein ástæða til þess, og hún er sú, að að dómi þeirra, sem hér eiga hlut að máli, má það ekki dragast deginum lengur, að hægt sé að koma félagsmannaviðskiptum kaupfélaganna undir þetta sama og ég hef verið að lýsa, sem sagt undir veltuútsvör. Það er ástæðan til þeirrar undarlegu þróunar, sem menn verða nú vitni að. M.ö.o.: hugsunarhátturinn virðist vera eitthvað ámóta og hjá manninum, sem vildi vinna það til að láta stinga úr sér annað augað, ef annað augað yrði líka stungið úr nágrannanum. Stjórnarliðið virðist hugsa þannig: Þið verðið áfram að búa við þennan óskapnað, sem áður hefur verið talinn óalandi og óferjandi, en það er þó mikil bót í máli, að nú verða kaupfélagsviðskiptin færð undir þetta sama. Það verður stungið augað úr þeim líka.

Hvað sem um þetta er að segja að öðru leyti, þá er þetta ekki jákvæður hugsunarháttur. Þetta er fremur neikvætt og dálítið einkennilegur hugsunarháttur. Þótti það aldrei merkur maður, sem hugsaði svona. Hefur aldrei þótt stefna í jákvæða átt að temja sér slíkan hugsunarhátt og breyta samkvæmt honum. Það hefði verið miklu myndarlegra af þeim, sem hér eiga hlut að máli og hafa viljað fram að þessu a.m.k. kenna sig við heilbrigt einstaklingsframtak og frjálsan atvinnurekstur og lítil ríkisafskipti með meiru, að finna einhverja leið til þess að leggja á útsvör, sem glóra væri í og hægt væri að mæla fyrir án þess að roðna, og láta svo þá aðferð gilda, ef þeir svo vildu, um öll viðskipti. Það virðist eins og hatrið á kaupfélögunum stjórni fyrst og fremst gerðum þessara manna, þeir sjái ekki glóru fyrir því hatri og vilji lögleiða hinar verstu fjarstæður, ef þær bara gilda um samvinnufélögin líka.

Þá er ástæða til þess að skoða það ofur litíð, hvernig á því stendur, að hæstv. ríkisstj. og þeir, sem þar ráða, skuli vera svo jafnvægislausir, algerlega úr jafnvægi, að þeir láta stjórnast að verulegu leyti í ráðstöfunum sínum varðandi þýðingarmestu þætti þjóðarbúskaparins af hatri á félagsskap eins og samvinnufélagsskapnum. Hvað getur legið til grundvallar slíkum ósköpum?

Ég skal ekki fara að halda hér langan sögulegan fyrirlestur um þau efni öll saman. En hér er á ferðinni svo dæmalaus þröngsýni og skoðað frá svo þröngu, ímynduðu eiginhagsmunasjónarmiði, að það eru sjálfsagt varla dæmi til annars eins og að slíkt hafi náð til lengdar áður tökum á stórum hópi manna, að slíkt hatur hafi náð að stýra þeirra gerðum að verulegu leyti. En aðdragandinn að öllum þessum málum er nokkuð langur og mikill, og hann er í því fólginn, að það er háð hér mikil samkeppni í landinu um fyrirkomulag viðskipta og ýmiss konar þjónustu. Annars vegar í þeirri samkeppni, sem ég tel á allan hátt eðlilega og holla og heilbrigða og hefur orðið þjóðfélaginu til ómetanlegs gagns, annars vegar í þeirri samkeppni stendur það fólk, sem hefur myndað öflug félög til að annast sjálft viðskipti og þjónustu. Flest af þessum félögum eru kölluð kaupfélög, og yfirleitt eru þau samvinnufélög og hafa samband með sér, eins og kunnugt er. Þau hafa viðskipti og ýmiss konar þjónustu fyrir sína félaga og raunar líka fyrir almenning annan. Annars vegar stendur þessi fylking, ef ég mætti svo segja. Hins vegar standa svo þeir, sem vilja reka viðskiptin í gróðaskyni fyrir sjálfa sig og þá, sem hafa trúað þeim fyrir sínum fjármunum til ávöxtunar í hlutafélögum og öðrum slíkum félögum. Frá þeim kemur mikil samkeppni á þennan hátt, og það er síður en svo ástæða til að amast við því, að menn reki þessi viðskipti í gróðaskyni. Það á auðvitað að vera algerlega frjálst, að menn geri það. Hið eðlilega í þessu efni er, að menn fái reynslu af því, hvaða úrræði duga bezt í þessu tilliti, og þetta fái að vigta sig.

Það hefur löngum viljað vera svo, að það loða talsverðir fjármunir við verzlunina í landinu. Og ég hugsa, að þetta sé ekki aðeins hér á Íslandi, ég held, að það sé yfirleitt svo annars staðar líka. Það loða talsverðir fjármunir við verzlunina, og það kom afar fljótt upp hér, eftir að Íslendingar fóru að fást sjálfir við sín viðskiptamál, sú skoðun hjá almenningi, að það væri afar vonlítið, að almenningur gæti rétt við efnalega, nema hann hefði veruleg ítök í viðskiptunum. Ef menn ættu að verða dæmdir til þess að afhenda vörur sínar og kaupa vörur sínar eða eiga aðeins skipti við þá, sem rækju verzlun og aðra þjónustu í gróðaskyni, þá mundu menn eiga sér litlar viðreisnarvonir. Menn byggðu þetta auðvitað sumpart á viðskiptum sínum við erlendu verzlanirnar, sem hér réðu ríkjum, og höfðu menn ekki góða reynslu af því, þar eð Íslendingar voru arðrændir öldum saman einmitt í gegnum verzlunina. Svo fundu menn það auðvitað fljótt, að þó að kæmu innlendir atorku- og dugnaðarmenn í staðinn fyrir þá erlendu til að reka verzlunina, — þetta gátu verið ágætismenn og mjög duglegir, — þá var svo bezt þess að vænta, að þeir legðu sig fram og væru sanngjarnir, að þeir ættu við harðsnúna samkeppni að etja. Og fljótt sáu menn, að það mundi ekki vera nóg, vegna þess að það mundi sækja í það horf, að þeir, sem rækju verzlun í gróðaskyni, mynduðu samtök með sér um að berjast ekki allt of mikið innbyrðis. Og það efldist sú skoðun í landinu, að ekkert væri einhlítt í þessu annað en að almenningur kæmi sér upp öflugum félögum til að annast viðskipti og þjónustu fyrir sig með sannvirði.

Annað kom þarna líka mjög til greina víðs vegar í landinu. Menn höfðu þá reynslu, að atorkumenn, sem komu og settu upp verzlun og kannske framleiðslu og gekk allvel og eignuðust verulegar eignir, þegar þeir voru búnir að starfa máske allmikinn hluta sinnar ævi, þá vildu þeir flytja í burtu og fluttust þá burt með meginhlutann af þeim gróða, er þeir höfðu haft af viðskiptunum, — burt úr byggðarlögunum. Og það fjármagn, sem þannig hafði safnazt í verzluninni, var byggðarlögunum algerlega glatað.

Öll þessi reynsla, sem menn höfðu af þessu, varð til þess, að almenningur hafði mjög mikinn áhuga á því að stofna til verzlunarsamtaka, sem jafnframt gætu haft ýmiss konar þjónustu með höndum, þegar þeim yxi fiskur um hrygg, t.d. siglingar eða annað slíkt.

Menn þóttust sjá fram á, að þetta væri bókstaflega eina leiðin til að tryggja sannvirði þeirrar vöru, sem þeir framleiddu, hvort sem það voru landbúnaðar- eða sjávarvörur, og eina leiðin líka til, að menn gætu fengið aðkeyptar vörur með réttu verði. Menn sáu ekki fram á annað en að strit þeirra yrði að litlu, ef þetta kæmist ekki í framkvæmd. Menn sáu fram á, að það var engin von til, að verzlunargróðinn, sem alltaf verður talsverður, gæti haldizt í byggðarlögunum öðruvísi en að stofna til slíkra almannasamtaka. Og þessi almannasamtök urðu kaupfélögin, sem uxu upp víðs vegar um landið og ég hika ekkert við að fullyrða að hafa orðið einn þýðingarmesti þátturinn í allri þeirri stórfelldu viðreisn, sem orðið hefur á Íslandi. Og að mínu viti má nefna þau við hliðina á verkamannasamtökunum hvað þetta varðar.

Það kom fljótt í ljós, að þeir, sem höfðu hugsað sér að reka verzlun í gróðaskyni og annan atvinnurekstur, margs konar þjónustu fyrir almenning, tóku illa þeirri samkeppni, sem þarna varð af hendi almennings, — sorglega illa, — fóru beinlínis á stúfana til að reyna að koma þessum samtökum almennings fyrir kattarnef. Þeir vildu ekki sætta sig við þá samkeppni, sem þarna var að komast á. Þeir kölluðu sig samkeppnismenn, en voru það ekki. Þeir voru ekki samkeppnismenn. Þeir vildu ekki sætta sig við þá samkeppni, sem þarna var að verða af hendi almennings eða þeirra samtaka, sem almenningur hafði komið sér upp. Og þeir hófu svæsnar tilraunir til að reyna að hefta framrás þessara félagssamtaka með öllu hugsanlegu móti.

Þessir menn brutust til valda í einum af stjórnmálaflokkum landsins til að hafa þannig aðstöðu til þess að nota ríkisvaldið til að hefta þessa þróun, þessa samkeppnisþróun almennings í viðskiptamálum. Og þeir létu þennan flokk, sem ætíð hefur starfað síðan og heitir núna Sjálfstfl., — þeir létu hann með margvislegu móti gera tilraunir til að koma í veg fyrir, að þessi félagshreyfing gæti orðið sterk. Þeir vildu ekki þessa samkeppni. Þeir vildu fá að sitja að þeirri aðstöðu áreitnislaust, sem þeir höfðu skapað sér í landinu um þær mundir, sem almenningur hófst handa um kaupfélögin.

Það átti að nota löggjöfina, löggjafarvaldið, ósleitilega í þessu. T.d. var áratugum saman ofsalegur bardagi háður um, hvernig skyldi skattleggja þessa félagsmálahreyfingu, þessar viðskiptastofnanir, bæði heima fyrir í byggðarlögunum og eins til ríkisins. Og þá var því t.d. alveg blygðunarlaust haldið fram af þeim mönnum, sem voru á móti þessum samtökum almennings, að félögin skyldu greiða skatta af því fé, sem þau skiluðu aftur til viðskiptamannanna, til félagsmannanna, sem tekjuafgangi af viðskiptum, sem þau höfðu haft fyrir þá. Því var haldið fram, að þetta ætti að skattleggja. En á sama tíma fannst þessum mönnum alveg sjálfsagt auðvitað að draga frá og það átti ekki að telja sem tekjur hjá kaupmanni afslátt, sem hann gaf viðskiptamanni, sem var ekki heldur von. Hvaða óvitlausum manni hefði dottið í hug að kalla tekjur hjá kaupmanni þann afslátt, sem hann gefur viðskiptamanni sínum? Og samvinnumönnum datt auðvitað aldrei slík fjarstæða í hug. En hinum, sem höfðu eflt pólitísk samtök til að reyna að tefja þessa þróun, þeim datt sú fjarstæða í hug, að það væri hægt að tefja fyrir þessari félagsmálahreyfingu og lama hana með því að telja það skattskyldar tekjur hjá félögunum og skattleggja með þungum sköttum, sem félögin gátu látið félagsmenn sína hafa sem afslátt af þeim viðskiptum, sem þeir höfðu haft við félögin.

Ég nefni þetta bara sem dæmi til að sýna fram á, að það, sem við erum að sjá og reyna núna þessar vikur og þessa mánuði í sambandi við allt þetta, er ekkert nýtt í okkar þjóðlífi. Þetta er framhald af áratugalangri baráttu. Ekki baráttu þess fólks, sem stendur að samvinnufélögunum, fyrir neinum sérréttindum eða neinu slíku. Það fólk hefur aldrei reynt að berjast fyrir því að banna nokkrum manni að reka viðskipti í gróðaskyni eða öðru slíku. Hér er framhald baráttu við harðsnúinn flokk, sem hefur sett sér það markmið að reyna að nota ríkisvaldið og allar hugsanlegar aðferðir til þess að koma í veg fyrir, að þessi almannasamtök fólksins fái notið sín.

Nýjasta dæmið um þetta og eitt það fólslegasta, sem þekkzt hefur og sýnir, að andinn er vei vakandi, það er þetta nýjasta, að það er lögleitt hér á Alþ. fyrir frumkvæði þessa flokks, sem alltaf hefur viljað eyðileggja þessi félög, að það skuli taka með valdi helminginn af því fé, sem fólkið, sem byggir upp þessi félög, leggur félaginu sínu sem rekstrarfé, en það er kallað að leggja í innlánsdeild, það skuli taka helminginn af þessu fé með valdi og færa það inn í bankakerfi ríkisstj., — það skuli taka þetta fé frá þessu fólki, frá þessum félögum, og færa það inn í bankakerfi ríkisstj. Þetta er nýjasti meiðurinn á þessu tré, sem hefur vaxið hér undanfarna áratugi og enn ber þessi þokkalegu — ég vil ekki segja blóm, það er náttúrlega óviðeigandi um slíkan ávöxt. Þetta er sem sagt eitt af nýjustu dæmunum. Og þessi þróun öll sýnir okkur, hvernig þessar línur liggja. Þarna hefur verið efldur stór og sterkur flokkur í landinu, sem hefur haft sem eitt af sínum höfuðatriðum að reyna með öllu hugsanlegu móti að koma í veg fyrir, að þessi félagsmálahreyfing geti vaxið eðlilega. Þó er augljóst mál, að það er lífsnauðsyn fyrir þjóðfélagið, að samvinnufélögin geti verið öflug, þau geti vaxið og að það geti verið í landinu samkeppni, raunveruleg samkeppni, við skulum segja á milli fólksins, sem hefur tekið þessi viðskipti í sínar hendur í sínum félögum, og svo aftur þeirra, sem vilja reka þennan rekstur í gróðaskyni. Svo sannarlega á að vera samkeppni þar á milli, og þannig verður bezt fyrir þessu séð. Ég fyrir mitt leyti hef ekki neina verulega trú á verðlagseftirliti. Ég hef mesta trú á slíkri samkeppni, að hún geti komið að gagni. Ég hef alltaf haft litla trú á verðlagseftirliti og öðru slíku, en ég hef haft tröllatrú á því, að ef skynsamlega væri frá þessum málum gengið og hér væri möguleiki til þess, að þessar tvær stefnur í viðskiptum gætu keppt, þá væri þannig bezt séð fyrir þessum málum.

Ég vil í þessu sambandi taka fram það, sem ég veit að öllum er ljóst, hvað hættulegt það er, ef samvinnufélögin væru lömuð eða starfsemi þeirra heft, hver voði væri þá fyrir dyrum. Það er enginn vafi á því, að þeir, sem reka verzlun eða viðskipti í gróðaskyni einvörðungu, — og ég álasa þeim ekki á nokkurn hátt, margir af þeim eru prýðis- og dugnaðarmenn og eiga fullan rétt á sér með sitt starf, — en það er ekki nokkur vafi á því, að þeir hafa sterka tilhneigingu til þess að mynda með sér samtök um að keppa ekki of mikið innbyrðis. Og það er á almannavitorði, að slík samtök eiga sér stað. Ég er því alveg sannfærður um, að ef samvinnufélögin væru ekki jafnöflug og þau eru núna í landinu, þá væri fólk algerlega ofurselt hringum og samtökum, sem mundu myndast í fjölmörgum greinum. Tilhneigingin er svo ákaflega rík í þá átt og ekki sízt í þjóðfélagi heldur fábrotnu eins og okkar, þar sem ekki eru ákaflega margir starfandi í hverri grein og eiga því auðveldara með að ná saman og hafa samtök með sér en í stærri löndum, þar sem erfiðara er að koma slíkum samtökum við. Ég álít þess vegna, að það sé lífsnauðsyn að gera ekkert til að leggja stein í götu samvinnuhreyfingarinnar, og lýsi megnri andúð á þeim ráðstöfunum, sem núverandi ríkisstj. beitir sér fyrir í þessu efni. Og það er víst alveg óhætt að segja, að yfirleitt er mikill skilningur í landinu á því, að hér er farið algerlega rangt að, og menn skilja vel og miklu betur en áður, hvað á bak við liggur. En það út af fyrir sig er náttúrlega þýðingarmikið og mikil bót.

Annað atriði, sem veldur þessu óskiljanlega hatri á samvinnuhreyfingunni og ofsóknum í hennar garð, er svo það, að því miður virðast foringjar Sjálfstfl. haldnir slíku ofstæki, pólitísku ofstæki, að ef mönnum, sem eru annarrar skoðunar en þeir í landsmálum, er trúað fyrir trúnaðarstöðum innan félagssamtaka, eins og t.d. samvinnufélaga, þá missa þeir jafnvægið og leggja hatur á þann félagsskap og ofsækja hann með öllu móti. Þetta er alveg furðulegt, en þetta er nú því miður svona.

Ein af ástæðunum fyrir þessum óstjórnlegu aðförum í garð samvinnufélaganna virðist vera sú, að það hefur orðið þannig, að andstæðingar sjálfstæðismanna hafa valizt til forustu í samvinnuhreyfingunni, sem er heldur ekkert einkennilegt, ef það er skoðað, hvernig flokkurinn hefur leyft sér að koma fram í garð samvinnuhreyfingarinnar. Það hefur því vitanlega farið þannig, að áhugamenn í samvinnufélögunum eru margir andstæðingar sjálfstæðismanna. En af því að þessir andstæðingar sjálfstæðismanna eru margir hverjir manna áhugasamastir í þessum félögum, þá er þeim að sjálfsögðu oft trúað þar fyrir trúnaðarstörfum. Þetta virðist verða til þess, að sjálfstæðismenn sleppa sér alveg, og auka tilhneigingu þeirra til að ofsækja þennan félagsskap, sem er þó ærin fyrir. En svona hugsunarháttur er alveg ósæmilegur. Það er alveg ósæmilegt að leggja fæð á félagsmálahreyfingu eða nýtilega þjóðmálastarfsemi fyrir það eitt, að andstæðingum manna í pólitík hefur verið trúað þar fyrir forustu eða þeir hafa gengið þar fram fyrir skjöldu. Þetta er algerlega ósæmilegur hugsunarháttur, en virðist vera ákaflega ríkur í herbúðum sjálfstæðismanna.

Ég sé ekki betur en allt þetta, sem ég hef verið að lýsa, séu aðalástæður fyrir þessum undarlegu ráðstöfunum, sem nú er verið að gera. Við verðum vitni að því, að ætlunin er að lögleiða veltuútsvarafarganið, bara í enn víðtækari mynd, þannig að nú eiga félagsmannaviðskipti samvinnufélaganna einnig að koma undir þetta. Ég held því fram, eins og ég sagði áðan, að hér liggi á bak við hugsunarháttur, sem er einna líkastur og hjá þeim náunga, sem var þannig hugsandi, að hann vildi vinna það til að láta stinga annað augað úr sjálfum sér, ef það yrði stungið annað augað úr nágrannanum líka. Það getur bókstaflega ekki verið annar hugsunarháttur en þessi, sem liggur til grundvallar því, að flokkur eins og Sjálfstfl. rembist nú eins og rjúpan við staurinn að lögfesta veltuútsvarafarganið, eins og það þá líka hefur verið í framkvæmd og eins og það er þokkað yfir höfuð, ekki sízt hjá þeim, sem hafa einhvern rekstur með höndum. Ég held því fram, að það geti aldrei vel farið, að þessi hugsunarháttur fái að ráða.

En þá kemur spurningin: Hvernig eru þá þessi viðskipti vaxin, sem nú eiga að koma undir þetta nýja veltuútsvar, sem á að lögleiða, félagsmannaviðskipti samvinnufélaganna? Þetta er mjög víða þannig, að í samvinnufélögunum eru menn úr mörgum byggðarlögum í einu félagi og félagið fær sínar vörur í einn stað, verzlunarstaðinn, og þaðan er þeim skipt út á milli félagsmannanna. Það á sem sé að lögleiða, að í þessum eina stað, þar sem vörurnar fara í gegn, sé hægt og eigi að leggja á allar þessar vörur sérstakan skatt. Það er alveg sama, hvaða vörur það eru. Þeir hafa að vísu orðið það skelkaðir, að þeir undanþágu mjólkurbú og sláturhús. En það var fellt hér í gær að undanþiggja vörur eins og t.d. tilbúinn áburð og fóðurbæti, þetta á allt að skattleggjast, og líka fellt að undanþiggja vörur til sjávarútvegsframleiðslu, eins og t.d. salt og veiðarfæri. Þetta var nú flutt til reynslu og til þess að sýna, hvers konar skrípalöggjöf það er, sem hæstv. ríkisstj. er að beita sér hér fyrir, enda held ég sannast að segja, að margur sjálfstæðismaður hafi fengið sig fullsaddan á atkvgr. hér í gær, og fékk það náttúrlega ekki dulizt neinum, sem hér var staddur. En til þess að sýna, hvers konar skrípalöggjöf það er, sem hér er verið að setja, voru þessar brtt. fluttar, og það sýndi sig, að þær voru felldar. Það mátti ekki einu sinni undanþiggja þennan varning. Þetta skal ailt skattleggjast í þeim stað, þar sem vörurnar fara í gegn, og það alveg eins fyrir því, þó að það séu kannske 10 eða 20 byggðarlög, sem standa að þessum viðskiptum. Hvaða vitglóra er í öðru eins og þessu? Það hefur enginn reynt að færa nein rök fyrir því.

Þegar samvinnufélögin fóru að starfa og voru búin að starfa hér æðilengi, og það var, eins og ég sagði, mikill ágreiningur um, hvernig þau skyldu skattlögð og útsvarslögð, þá var það 1921, að sett var löggjöf um þessi mál. Og þeir, sem settu löggjöfina 1921, beygðu sig fyrir staðreyndum, því að þeir sáu, hvernig félögin voru upp byggð og að þetta var ekki hægt, það væri eins og hver önnur endileysa að byggja þetta upp á þennan hátt. Til þess að koma því í veg fyrir, að þannig væru fjöldamörg byggðarlög skattlögð í þágu eins byggðarlags, þá settu þeir um þetta alveg sérstaka reglu. Þeir settu sérstaka reglu, og hún var sú, að félagið skyldi greiða nokkurt gjald til þess byggðarlags, þar sem það starfaði, ekki venjulegt útsvar af félagsmannaviðskiptunum, en sérstakt gjald, sem var miðað við fasteignir. En þetta var auðvitað gert af því, að menn sáu, hvaða rangindi það voru að skattleggja þannig fólk í mörgum byggðarlögum til ágóða fyrir eitt.

Og annað er líka í þessu sambandi. Þessi viðskipti eða þjónusta, sem samvinnufélögin hafa með höndum fyrir sína félagsmenn, er ekki á nokkurn hátt sambærileg við kaup og sölu. Það er ekki verið að kaupa og selja til þess að hafa hagnað af því, heldur er þar verið að útvega vörur eða koma vörum í verð fyrir félagsfólkið. Og þannig er því háttað, að þar getur aldrei neinn gróði orðið í venjulegum skilningi þess orðs, af þeirri einföldu ástæðu, að ef afgangur er, þá er hann annaðhvort látinn ganga til félagsmannsins sem hækkun á vöruverði, ef hann hefur látið framleiðsluvöru í félagið, eða sem lækkun eða afsláttur á aðkeyptum vörum. Og ef allt það, sem afgangs er, er ekki látið úti á þennan hátt, þá rennur það, sem eftir er, í sjóð, sem félagið hefur undir höndum og aldrei getur orðið eign félagsmannanna. Sá sjóður verður ævinlega og ævarandi eign félagsins sjálfs, og félagið er stofnun í byggðarlaginu, og það fé getur því aldrei þaðan farið og aldrei orðið notað í öðru skyni en handa opnu samvinnufélagi, sem vill reka viðskipti fyrir fólkið í byggðarlaginu.

En svo koma þeir menn, sem hér tala fyrir stjórnarliðið, og segja, að þessi viðskipti séu alveg nákvæmlega hliðstæð því að kaupa vöru í því skyni að hafa hag af því að selja hana aftur, — þetta sé nákvæmlega hliðstætt því.

Þessir menn vita miklu betur en þeir segja um þetta. Þeim er vel ljóst, hvernig þetta er. Með þessu er bara verið að gera eina tilraunina til þess að hefta þessa starfsemi — starfsemi samvinnufélaganna — alveg eins og með innlánsdeildirnar. Innlánsdeildirnar eru ekki neinar útlánastofnanir, sem séu hliðstæðar t.d. við banka. Það er ekki nokkur eyrir lánaður nokkru sinni út úr nokkurri innlánsdeild. Það er algerlega bannað. Það er rekstrarfé, sem lagt er inn í félögin. Félagsfólkið leggur það fé inn í sitt eigið félag. Og það mætti alveg nákvæmlega með sams konar rétti taka upp á því næst, — og kannske það verði gert, ef þeir, sem eru í andstöðu við þessa menn, hugsa líka eins og maðurinn með augað, að þá yrði tekið upp á því næst að lögleiða, að ef einhver einstaklingur í landinu legði fjármagn inn í sitt félag, t.d. hlutafélag, þá ætti hann að leggja jafnmikið fé inn í bankakerfi landsins. Það væri alveg hliðstætt, að slíkt væri gert, eins og það, sem þessir hv. meirihlutamenn hafa gert gagnvart kaupfélögunum í sambandi við innlánsdeildirnar. En þessir menn vita þetta allt saman upp á hár. Þeir vita vel, hvert er eðli innlánsdeildanna og hvað þeir eru að gera. Þeir vita líka vel, hver er munurinn á venjulegum gróðaviðskiptum og þeirri þjónustu, sem samvinnufélögin veita, að það er ekki svo hliðstætt, að það geti gilt hispurslaust sama reglan þar um. Þeir vita líka vel um það, sem ég var að segja áðan, hvernig þetta kemur út fyrir fólkið í þeim byggðarlögum, þar sem það verður skattlagt með háum gjöldum fyrir allt annað byggðarlag o.s.frv. Þeim er þetta auðvitað allt ljóst. En þessu er öllu vikið til hliðar fyrir þessari höfuðnauðsyn: að koma fjötri um fót samvinnuhreyfingarinnar. Og þetta er allt vegna þess, að þeir hafa ekki, að því er virðist, manndóm til að taka upp eða halda áfram með eðlilegu móti samkeppni við samvinnuhreyfinguna. Það er það, sem þeir ættu þó að gera, án þess að vera nokkuð að misnota ríkisvaldið til að koma henni á kné. En það er eins og ég hef líka sagt hér, þetta er ekkert nýtt. Það er það sama, sem reynt hefur verið frá byrjun, sbr. orrustuna um skattana og útsvörin á samvinnufélögunum áður fyrr o.s.frv. Nú hefur þetta magnazt upp aftur, vegna þess að Sjálfstfl. hefur fengið það sem kalla má hreinan meiri hluta. Þá er þetta allt saman vakið upp aftur.

Það hefur verið sagt eitthvað um það í þessu sambandi, að það hafi komið fram stórkostlegur galli á útsvarslöggjöfinni, sem hafi þurft að leiðrétta í skyndi, og hann var sá, að Samband íslenzkra samvinnufélaga hafi allt í einu orðið útsvarsfrjálst, af því að það standi í löggjöfinni núna, að það megi ekki leggja hærra útsvar á en nemur hagnaðinum af utanfélagsmannaviðskiptunum. Ég held því alveg hiklaust fram, að þeir hér í Reykjavík hafi eftir áætlun gert Sambandið útsvarsfrjálst. Þeir hefðu vel getað komið útsvari á Sambandið eftir gildandi löggjöf. En þeir vildu ekki gera það, því að þeir vildu hafa þetta svona til þess að hafa það að eins konar skálkaskjóli. Þá hafa þeir auðvitað haft í huga að gera þessar breytingar á löggjöfinni og aðrar slíkar. Það er svo mikið frjálsræði um það, hvernig meta skuli fyrningarafskriftir og annað slíkt í sambandi við útsvarsálagningu, að þetta var vandalaust, ef þeir hefðu viljað. Þeir vildu hins vegar láta S.Í.S. vera útsvarsfrjálst og vitna síðan í það.

En þetta ákvæði var í löggjöfinni, það er alveg rétt. Það skyldi ekki leggja meira á utanfélagsmannaviðskipti samvinnufélaga en næmi öllum hagnaðinum af viðskiptunum. Nú skyldu menn að vísu hafa haldið, að Sjálfstfl., sem hefur þótzt vera, skulum við segja, mikill stuðningsflokkur einstaklingsrekstrar og frjáls atvinnurekstrar, að þeim flokki fyndist þetta ákvæði ekkert óeðlilegt. Það er ákaflega einkennilegt, að Sjálfstfl. skuli ekki finnast það sjálfsagt lagaákvæði, að enginn greiði hærra útsvar en hann hefur í hreinar tekjur. Og sannast að segja hefði maður átt að mega búast við því, að ef hér væri um misrétti að ræða, þá mundi Sjálfstfl. reyna að leiðrétta það misrétti með því, að aðrir í landinu fengju þessi „hlunnindi“ að þurfa ekki að borga meira útsvar en nam öllum tekjunum. Ég býst ekki við, að það hefði þótt nein ofrausn, þó að Sjálfstfl. hefði beitt sér fyrir því. En það er ekki það, sem Sjálfstfl. beitir sér fyrir, því jafnrétti, sem þó lá náttúrlega alveg beint við að takmarka einmitt slíkt hjá öllum.

En þar kemur aftur hugsunarháttur mannsins með augað. Það mátti ekki setja slíkt í lög, heldur varð að vinna það til að lögleiða allt veltuútsvarafarganið eins og það hefur verið og reyna að koma sem sagt um leið höggi á samvinnuhreyfinguna. Eins var það mjög auðvelt að nema þetta ákvæði brott úr löggjöfinni, sem þeir töldu sig hafa steytt á, og þá stóð samvinnuhreyfingin, að því er varðaði utanfélagsmannaviðskiptin, nákvæmlega eins að vígi og aðrir þeir, sem reka verzlun. Og það var alveg réttmætt, vegna þess að utanfélagsmannaviðskipti eru kaup og sala, gerð í hagnaðarskyni, á sama hátt eða hliðstæðan hátt og venjulegur verzlunarrekstur.

Nú þykjast þeir, sem hér eiga hlut að máli, hafa verið ákaflega leiknir. Nú muni þeir koma þungum höggum á samvinnuhreyfinguna, kaupfélögin og Sambandið. Það verði gífurleg útsvör, sem þessir aðilar þurfi að greiða, og verði nú léttari glíman við þessi félög. Ég skal ekkert segja um, hvernig þetta mælist. Þetta er allt saman svo flókið, að það er ákaflega erfitt að gera sér grein fyrir því. Svo sýnist mér sá háttur vera nokkuð á hafður að hafa þetta „mátulega loðið“ allt saman, þannig að þeir, sem eru hæfilega velviljaðir, geti hreyft þetta til í hendi sér, eins og þarf til að koma þá höggi á þá, sem þeir vilja slá. Og mætti færa mörg rök fyrir því, hvernig þetta er einmitt haft á þá lund í ýmsum greinum — kannske til þess. Ég skal þess vegna ekki segja um það, hvernig þetta mælist. En hitt er augljóst mál, að margar vörur koma undir þetta nýja gjald. Og hvar kemur það þá niður, ef þetta nýja gjald verður lögleitt á þessi viðskipti, sem ég hef verið að ræða hér um, félagsmannaviðskipti samvinnufélaganna? Það hefur oftast nær verið þannig, að samvinnufélögin hafa getað skilað nokkrum tekjuafgangi af félagsmannaviðskiptum. En ef þeim tekst með þessu að hafa þessi veltugjöld vel rífleg og koma þungum gjöldum á þessar vörur, sem ég var hér að ræða um, og aðrar neyzluvörur almennings í samvinnufélögunum, þá verður það auðvitað hreinlega til þess, að félögin geta greitt minni afslátt eða minni tekjuafgang en áður hefur verið og kannske engan. Þess vegna verður þetta skattgjald í reyndinni hreinlega skattur á almenning í landinu, sem notfærir sér úrræði samvinnunnar. Það er kannske líka meiningin að draga úr áhuga manna á því að notfæra sér þessa leið til þess að komast fram hjá óeðlilegum verzlunargróða.

Ég held því þess vegna fram og færi fyrir því þær ástæður, sem ég nú þegar hef gert, að það sé með öllu óeðlilegt að gera þessa breytingu, sem nú er fyrirhuguð á veltuútsvörunum. Í fyrsta lagi sé það alveg óverjandi að lögfesta veltuútsvörin, — það sé algerlega óverjandi, ekki bara gagnvart samvinnufélögunum, heldur gagnvart landsmönnum yfirleitt, að lögfesta það siðleysi, sem veltuútsvörin hafa verið, og það öryggisleysi fyrir allan rekstur í landinu, sem þeim er samfara. Í annan stað sé það algerlega óverjandi að setja það nú í lög, að það skuli leggja þessa skatta á félagsmannaviðskipti samvinnufélaganna. Það er svo einn þáttur í þessu máli, að hér getur orðið um æðiþungar búsifjar að ræða fyrir margan með þessu nýja sniði, því að það getur farið svo, að það verði lagt veltuútsvar á sumar vörur mörgum sinnum. T.d. getur farið svo fyrir framleiðendum, að það verði lögð veltuútsvör á þá heima í byggðarlögunum fyrst, miðað við þeirra eigin framtöl, framleiðendanna sjálfra. Þeir guggnuðu á því að leggja á afurðirnar, um leið og þær færu í gegnum mjólkurbúin og sláturhúsin. En það er svo alveg sérstaklega lögboðið á hinn bóginn, að það skuli leggja á afurðirnar, þegar farið er að selja þær t.d. í heildsölu, og það jafnvel þó að um umboðsþjónustu sé að ræða. Og það er gengið svo langt í þessu, að það eru höfð sérákvæði í frv. um, að það skuli skattleggja landbúnaðarafurðir með veltuútsvari, þó að þær séu í umboðssölu. Það er meira að segja þannig frá þessu gengið, að allar aðrar vörur í landinu eru undanþegnar slíku gjaldi, ef þær eru í umboðssölu, — allar aðrar vörur en landbúnaðarafurðirnar. Það á að gilda sérákvæði um þær, að þær skuli koma undir veltuútsvar, verð þeirra, þó að þær séu til umboðssölumeðferðar. Þetta er kveðjan, sem framleiðendur í sveitum landsins fá alveg sérstaklega í þessu frv. Þá kemur veltuútsvar á landbúnaðarvörur, ef þær fá einhvers konar iðnaðarmeðferð í bæjunum. Og loks kemur í fjórða sinn á þær veltuútsvar, þegar þær eru boðnar almenningi í búðum. Það er því dálagleg álagningarkeðja, sem hér er sett upp, og alveg í stíl við aðrar aðfarir hæstv. ríkisstj., — ríkisstj., sem stóð fyrir því að leggja söluskatt á þann fisk, sem almenningur kaupir daglega sér til lífsviðurværis, sem er algert einsdæmi í sögu landsins. Má segja, að það sé í fullum stíl við það, sem það nú er verið að gera í þessu tilliti.

Ég sagði það í upphafi máls míns, að mér skildist, að það væri tvenns konar tilgangur með því að berja þetta mál fram einmitt núna, — og það er furðulegt, að nokkur maður skuli vilja leggja sig í slíkt, miðað við allan þann frágang á málinu, sem nokkuð hefur verið rætt um, og ég sagði, að það væri annars vegar til að koma veltuútsvörum á félagsmannaviðskipti samvinnufélaganna, m.ö.o. að koma veltuútsvörum á félagsfólk samvinnufélaganna, — það er nú kannske réttara að orða það þannig, — þær tugþúsundir alþýðuheimila, sem notfæra sér úrræði samvinnunnar við útvegun nauðsynja og við að koma framleiðslu sinni í verð. Ég hef rætt nokkuð um þennan þátt. En hinn aðalþátturinn í málinu, sem virðist reka svona gífurlega á eftir, er sá að tryggja, að sú lækkun, sem kynni að verða á útsvörunum, komi þeim einum til góða, sem hafa greitt há útsvör, en ekki hinum. Mun ég fara um þennan þátt málsins fáeinum orðum.

Þegar hæstv. fjmrh. og hans menn lögðu hér fyrir söluskattsfrv., var ákveðið, að hluti af söluskattinum skyldi renna til sveitarfélaganna og bæjarfélaganna, 20%, og það var sagt, að þetta ætti að verða til að lækka útsvörin. Nú hafa menn að vísu sumir leyft sér að draga í efa, að lækkun útsvaranna verði veruleg, vegna þess að ráðstafanir hæstv. ríkisstj. í mörgum greinum hafa í för með sér stórfellda hækkun á útgjöldum bæjar- og sveitarfélaga, og við vitum líka, að það er alltaf nokkur útþensla einnig í þessum gjöldum. Það má þess vegna vel vera, að það verði lítið úr heildarlækkun útsvaranna, en e.t.v. verður hún einhver, ég vil ekkert um það fullyrða. En þegar þetta lá fyrir, kom strax upp spurningin um, hverjir skyldu verða aðnjótandi þeirrar lækkunar, sem kynni að verða á útsvörunum, — menn taki eftir því. Og þá hefur auðvitað verið farið að íhuga í stjórnarherbúðunum, þar sem átti að lögfesta veltuútsvör á félagsmannaviðskipti samvinnufélaga og útsvarslöggjöfin yrði þar af leiðandi rifin upp eða yrði hreyfð, þá hefur það auðvitað komið til íhugunar, hvað skyldi setja í lög um þetta. Þá komu auðvitað margar aðferðir til greina. Það kom auðvitað til greina sú aðferð að láta útsvarslækkunina koma þeim til góða, sem höfðu lægstar tekjurnar og verða mest fyrir barðinu á efnahagsmálaráðstöfunum ríkisstj., t.d. fólki, sem hefur ekki nema 50–60–70 þús. kr. tekjur og á að lifa á því og fær á sig gífurlegar hækkanir á öllum sviðum, og svo fólki, sem hefur eitthvað meiri tekjur og vitanlega á fullt í fangi. Það gat vitanlega komið til greina, að þetta fólk nyti fyrst og fremst útsvarslækkunarinnar, ef það auðnaðist að láta hana verða. Þá gat líka komið til greina sú leið að lækka útsvarsstigann hlutfallslega allan saman. Þá var það að vísu svo, að þeir hæstu fengu meiri lækkun í krónutölu en þeir lægri, og var á því stórfelldur hængur, en þó hefðu allir fengið hlutfallslega jafna lækkun. Hvorugur þessi háttur er á hafður, en það er tekið upp alveg nýtt ákvæði, sem er ákaflega meinleysislegt og litur mjög sakleysislega út, og við fljóta íhugun mætti segja mér, að ýmsum þætti ekki óréttmætt. Og það hljóðar þannig, að áður en útsvar er á lagt og áður en tekjurnar eru lagðar á útsvarsstigann, þá skuli draga frá greidd útsvör. Síðan er sett í frv., að útsvarsstiginn fyrir Reykjavík skuli vera sá sami og verið hefur.

Hvernig verkar svo þetta? Þetta verkar þannig, að þeir, sem hafa haft háar tekjur og greitt há útsvör, fá bróðurpartinn eða nær alla útsvarslækkunina, vegna þess að þeir fá svo mikinn frádrátt vegna hinna greiddu útsvara. Með þessari aðferð er sem sagt hægt að tryggja, að meginhlutinn af útsvarslækkuninni, sem kynni að verða, renni til þeirra, sem hafa haft hæstar tekjurnar. Og þeir virðast hafa þorað að leggja út í þetta af því, að hægt var að fela þetta á svona sakleysislegan hátt. Það er bara lítið sanngirnisatriði, sem verið er að lögleiða, að greidd útsvör komi til greina til frádráttar eins og önnur greidd útgjöld.

En í raun og veru er þarna verið að kollvarpa algerlega útsvarsstiganum, því að útsvarsstiginn, sem notaður hefur verið, er miðaður við, að greiddu útsvörin séu ekki dregin frá, og þess vegna er hann eins og hann er. Ef það hefði áður verið í lögum, að útsvörin mætti draga frá, væri útsvarsstiginn áreiðanlega öðruvísi. Það á að nota sama stigann, engu að breyta, — nota sama stigann og setja pínulítið sanngirnisákvæði inn. En það verkar svona, að það er sama sem að gerbreyta útsvarsstiganum til hagræðis fyrir þá, sem hafa hæstu tekjurnar. Og ef verður um nettólækkun á útsvörum að ræða, þá fá þeir með háu tekjurnar mestalla lækkunina, en ef ekki verður um lækkun að ræða á heildarútsvörunum, þá verkar þetta þannig, að verulegur hluti af þeirri útsvarsbyrði, sem þeir með hæstu tekjurnar hafa borið áður, verður færður yfir á hina, því að þá duga ekki útsvörin eftir stiganum, og þá verður að leggja hlutfallslega ofan á allt á eftir.

Þegar þetta er haft í huga, þá skilja menn ofur lítið betur en áður, hvernig stendur á því, að þeir skuli leggja það á sig að reka áfram með ofurkappi annað eins afskræmi og þetta frv. Það er til talsverðs að vinna. Það er í þessu frv. alveg ný stefna í álagningu beinna útsvara, og hún er falin á þennan hátt, sem ég hef verið að lýsa. Og þetta er að verulegu leyti, þó að þarna sé stigið enn stærra skref, sama stefnan og sú, sem kom fram í tekjuskattsbreytingunni, því að sú stefna var einnig þannig, að þeir fengu margfalda lækkun á tekjuskattinum, sem höfðu hærri tekjurnar, en hinir sáralitla, sem höfðu lægri tekjurnar. Samt var til þeirrar breyt. vísað sem þýðingarmikils máls í sambandi við kjaraskerðingu þá, sem stjórnin stendur fyrir, sem sé að það ætti að vera mjög þýðingarmikið fyrir almenning að fá breyt. á tekjuskattslöggjöfinni til þess að vega á móti kjaraskerðingunni, þó að það liggi fyrir, — og það sama er gert í sambandi við útsvörin, — að almenningur í landinu og það meira að segja talsvert hátt upp í tekjustigann fær sama og engar ívilnanir vegna þess, hvernig þessu er fyrir komið, bæði varðandi útsvarið og skattinn.

Það er því ekki aðeins, að hæstv. ríkisstj. stefni að almennri kjaraskerðingu í landinu með ráðstöfunum sínum, og það svo rækilega, að hún ætlar sér að koma neyzluvöruinnflutningnum niður fyrir það, sem hann var 1958, fyrir tveimur árum, þrátt fyrir fjölgun þjóðarinnar, heldur ætlar hún um leið að breyta sjálfri tekjuskiptingunni til óhagræðis fyrir þá, sem hafa haft lægri tekjur. Auðvitað getur þetta alls ekki með nokkru móti staðizt, það er svo heimskulega langt gengið. Það hefur verið sagt, að menn ættu aldrei að vega tvisvar í sama knérunn. En hér er ekki aðeins vegið tvisvar, heldur oft í sama knérunn, og ber þetta auðvitað allt dauðann í sér. Þetta getur ekki staðizt. Að lokum verður verr farið en heima setið, eins og við er að búast, þegar þannig er út siglt. En þetta er sem sagt annað aðalatriðið í þessu frv.

Ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að minnast líka á, að það má segja, að það fari saman þrennt, þ.e. útsvarsbreytingin, tekjuskattsbreytingin og fjölskylduuppbæturnar, sem lögleiddar hafa verið. Þær eru náttúrlega út af fyrir sig stórkostleg útfærsla á styrkjakerfinu. Það er ekkert annað en stórkostleg útfærsla á styrkjakerfinu að innheimta — ætli það séu ekki á milli 60 og 70 millj. til þess að greiða bætur með fyrsta barni og eitthvað um 30 millj. til að greiða bætur með öðru barni, þ.e. 90–100 millj. samanlagt. Þetta er auðvitað stórkostleg útfærsla á styrkjakerfinu. En þar er þessu sama til að dreifa um ójöfnuðinn. Það er hækkun á fyrsta og annað barn, og mun vafalaust ekki veita af fyrir þá, sem þar eiga hlut að máli, en síðan með þriðja barni og fjórða barni í raun og veru engin hækkun. Á þriðja barn mun hækkun vera tvö hundruð þrjátíu og eitthvað krónur og með fjórða barni sama fjárhæð. Ekkert auknar uppbætur til manna, þegar ómegðin fer að vaxa. Alveg sama stefnan kemur fram í sambandi við útsvarsbreytinguna og í sambandi við tekjuskattslagabreytinguna.

Það er ýmislegt fleira, örfá atriði enn, sem ég vildi minnast á í þessu sambandi. Það er t.d. með útsvarsstigana, eins og þeir voru úr garði gerðir í frv. Þar var gert ráð fyrir að leggja þung útsvör á þá, sem höfðu ekki nema ellilaun til að styðjast við. Það átti að skylda sveitarstjórnir með lögum til þess að leggja á þá þung útsvör. Þetta var bara einn vottur um það, hvernig hafði heppnazt með þetta mál. Nú hefur stjórnarliðið séð missmíði á þessu og vill nú ekki lengur lögbjóða þetta og setur nú inn þá breyt., að það sé ekki lögboðið að gera þetta. En það á samt að vera lagleg bending í lögunum um það, að þetta geti vel komið til mála. Það verður ekki hægt að skilja lögin öðruvísi en svo, að þau séu bending um, að þótt þetta sé ekki skylt, þá geri löggjafinn ráð fyrir því, að slíkt geti komið til greina.

Þá er eitt atriði enn, sem ég vildi leyfa mér að benda á, og það benti ég líka á við 1. umr. málsins. Það er tekið fram, að það skuli mega víkja frá ákvæðum skattalaga um sérstaka frádráttarliði, og síðan stendur, að frávik samkvæmt þessu megi þó ekki vera gjaldanda meir í óhag en var í hlutaðeigandi sveitarfélagi á árinu 1959. Ég spurðist fyrir um það við 1. umr. málsins, hvort hæstv. ráðh., sem fyrir málinu stendur, gæti ekki gefið okkur upplýsingar um, hvernig þessar undantekningarreglur væru, sem notaðar hefðu verið í sveitarfélögunum og hann vildi fá Alþingi til þess að heimila í lögum. Ég lét þá í ljós þá skoðun, og ég hef hana enn, að það sé ósæmilegt fyrir Alþingi að lögheimila slíkar undanþágur án þess að vita, hvað það er að gera með því, án þess að hafa hugmynd um, hvað felst í þessu. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri eins og hver önnur fjarstæða, að hann eða þeir, sem hefðu undirbúið málið, gætu vitað, í hverju þessar undanþágur hefðu verið fólgnar. Ég hugsa, að það sé alveg rétt, að hæstv, ráðh. hafi ekki hugmynd um þetta, og kannske ekki þeir heldur, sem hafa sett þetta fyrir hann á blað. En ég held, að einmitt það, að hæstv. ráðh. hefur ekki hugmynd um, hvað hann er að gera í þessu tilfelli og ekki heldur ráðunautar hans, sé einmitt gleggsti votturinn um, hvað þetta mál er með öllu óverjandi smíði og hversu fráleitt það er að ætlast til þess, að Alþingi setji svona lög. Og fátt sýnir máske betur, hve ótímabært það er að flana að þessu, en einmitt það, að skynsamir menn skuli hafa látið sér til hugar koma að leggja fram þvílíka frumvarpsgrein. Og á þessu hefur engin leiðrétting fengizt við meðferðina í hv. n. né verið nokkuð tekið til greina það, sem sagt hefur verið um þetta atriði. En þess í stað kemur nú fram breyt. á frv., sem er athyglisverð og samþykkt var hér í gær, og hún er um, að í nýrri grein, sem þá var sett í málið, 8. gr., eigi að standa, með leyfi hæstv. forseta:

„Útsvar á veltu má ekki nema hærri hundraðshluta, miðað við tegund gjaldstofns, en var á hverjum stað árið 1959.“ M.ö.o.: hér er í raun og veru um framhald af þessu sama að ræða, að það á að festa þarna í lög ákvæði, sem enginn á hv. Alþ., ekki ráðherrar eða neinir hafa hugmynd um, hvað raunverulega þýðir né hvað það er, sem verið er að heimila, því að ég geri ekki ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. hafi fyrir sér eða geti gefið okkur upplýsingar um, hvaða veltuútsvarsreglur giltu fyrir sveitar- og bæjarfélög á árinu 1959. Hér er sem sagt ætlazt til, að Alþingi setji það í lög, að þessar reglur megi gilda áfram, án þess að það sé nokkuð upplýst um, hvað í þessum reglum felist um veltuútsvörin. Það verður þó að segja, að upphaflega var í frv. vísað til veltuútsvarsstigans í Reykjavík, sem ætti að nota áfram. Þá var sá háttur á hafður, að sá veltuútsvarsstigi var birtur sem fskj. með frv., og menn vissu, hver hann var og hvað verið var að lögleiða að því leyti. En nú er ætlazt til að lögleiða með vissum hætti, þótt í heimildarformi sé, alla veltuútsvarsstiga, sem giltu á landinu 1959, án þess að nokkuð liggi fyrir um það, hvernig þessir stigar voru. Og ég spyr hæstv. ráðh.: Getur hann gefið okkur upplýsingar um, hvernig þessir veltuútsvarsstigar voru t.d. í stærstu bæjarfélögunum, hversu langt var gengið í álagningu veltuútsvara, eða er það enn svo, að hann ætlist til, að svona höfuðatriði verði sett í lög, án þess að nokkrar slíkar upplýsingar liggi fyrir? Ég verð að segja, að mér finnst með þessu vera blátt áfram stefnt að því, að löggjafarstarf Alþingis verði fært á lægra plan en það hefur áður verið. Og þó að þessir menn, sem hér að standa, kunni ekkert að vilja gera fyrir mín orð eða annarra þeirra, sem mæla í móti þessu máli, og hafi enga tilhneigingu til að hlusta á þau opnum huga, þá vil ég þó alvarlega beina því til þeirra að hugsa um þá stofnun, sem við störfum í, og virðingu hennar, og reyna að skoða þetta mál og ýmislegt fleira líka frá því sjónarmiði, hvað Alþingi sem æðstu og mestu stofnun þessarar þjóðar er sæmilegt að gera, en gera ekki tilraunir til í ofsa að reka í gegn óviðurkvæmileg ákvæði, þó að þau hafi af einhverjum ástæðum slæðzt inn í frv., sem þeir hafa látið undirbúa. En þetta er aðeins eitt af því, sem sýnir, hversu því fer alls fjarri. að þetta mál sé á því stigi, að það geti með skynsamlegum hætti orðið lögtekið. Þótt litið sé brott frá öllu öðru, þá er það alveg augljóst, að það hafa alls ekki verið þær upplýsingar fyrir hendi, að það hafi verið hægt að semja forsvaranlega löggjöf um tekjustofna sveitar- og bæjarfélaga.

Þetta mál ber það allt með sér og sannleikurinn er sá, að manni sýnist, að það hefði verið sæmilegra fyrir hæstv. ríkisstj., fyrst hún vildi með þessu ofurkappi reka fram ákvæði um að leggja útsvör á félagsmannaviðskipti samvinnufélaga og að fá lögfestan þennan útsvarsfrádrátt, lögfesta, að það mætti draga greidd útsvör frá, þá hefði þó verið sæmilegra og a.m.k. heiðarlegra að flytja þá aðeins breytingu um þessi efni, heldur en að látast vera að setja nýtilega löggjöf um tekjustofna sveitar- og bæjarfélaga með því að beita sér fyrir því að lögfesta það afskræmi, sem hér liggur fyrir, sem þeir líka sjálfir viðurkenna að sé hugsað og eigi að verða til bráðabirgða.

Ég vil svo að lokum aðeins minna á, að þetta mál hefur alls ekki fengið þann undirbúning, sem sæmilegur er á nokkurn hátt. Það er alveg ósæmilegt að setja nýja löggjöf um tekjustofna sveitar- og bæjarfélaga án þess að bera það undir sveitar- og bæjarstjórnir landsins, — alveg með öllu óverjandi. Það hefði verið hægt að forsvara að setja ákvæði um einstök atriði í slíku máli, kannske tiltölulega einföld atriði, en að leyfa sér að láta gera og leggja fram og berja fram með hroka og yfirlæti lagasmið eins og þessa, sem á að heita heildarlöggjöf um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga, án þess að bera það undir sveitarog bæjarstjórnir, slíkt er með öllu óverjandi framkoma og ég hugsa nær algert einsdæmi í löggjafarsögu þessa lands. Enda liggur það fyrir, að þjóðinni hefur ofboðið þessi frekja, sem hér á að sýna, því að það hefur rignt mótmælunum frá ýmsum aðilum yfir Alþingi, þar sem m.a. hefur verið á þetta bent, hvernig á málinu hefur verið haldið, og einstök atriði í því gagnrýnd sterklega og raunar heildarstefna málsins.

Ég vil í því sambandi benda á, að ýmsar sveitarstjórnir í landinu hafa sent mótmæli og kröfur um, að málið væri borið undir sveitarstjórnir, eins og skylt er og siðaðra manna háttur. Þá vil ég einnig benda á margvísleg rökstudd mótmæli, sem hafa komið fram frá samvinnumönnum í landinu eða því fólki, sem notfærir sér úrræði samvinnunnar við sín viðskipti og í sinni framleiðslu, þar sem sýnt hefur verið fram á með sterkum rökum, að það nái engri átt að lögfesta þau ákvæði um veltuútsvör á félagsmannaviðskipti samvinnufélaga, sem í þessu frv. felast.

Ég vil einnig benda á, að Vinnuveitendasamband Íslands hefur sent frá sér mjög harða gagnrýni á þetta mál, þar sem því er, eins og eðlilegt er, alveg sérstaklega mótmælt að lögfesta nú veltuútsvarafarganið, eins og ég hef kallað það, sem notað hefur verið á undanförnum árum, og þar sem þess er krafizt, að þegar þessi mál verði tekin fyrir af löggjafarþinginu, þá verði hreinsað til og reynt að koma einhverju lagi á þann óskapnað, sem hér hefur gilt um þessi efni. Þar er t.d. alveg greinilega bent á, að það verði að gera þetta málefni varðandi veltuútsvörin hreinlega upp. Það verði að gera upp, hvort veltuútsvörin eru beinn skattur, sem fyrirtækin og einstaklingarnir eiga að greiða af tekjum sínum, og þá sé allt annað siðleysi en að ákveða það, að útsvör og tekjuskattur megi ekki fara yfir ákveðinn hluta af tekjunum. Þetta sjónarmið er þar mjög greinilega rakið.

Það verður að gera þetta upp, hvort útsvörin eigi að vera skattur á tekjur gjaldandans eða hvort hér eigi að vera um almennan skatt að ræða, hliðstæðan við söluskattinn. En það er svo vandlega gengið fram hjá því að taka nokkurt tillit til þess, sem þessi samtök og mörg önnur hafa látið í ljós um þetta, að það er á því öllu traðkað af fullkominni fyrirlitningu, því að hér er einmitt gert ráð fyrir, í þessari löggjöf, eins og ég hef sýnt fram á, að lögfesta þann óhæfilega glundroða, sem í þessum efnum hefur ríkt t.d. hér í Reykjavík. Þegar búið verður að samþykkja þessi lög hér, hefur enginn fremur en áður hugmynd um, hvar hann stendur að þessu leyti. Það verður haldið áfram að leggja á veltuútsvörin eftir þessum reglum, sem hér er gerð grein fyrir og menn hafa búið við, algerlega án tillits til þess, hver afkoma einstaklinganna eða fyrirtækjanna er. Og það hefur enginn fremur en áður hugmynd um það, hvort veltuútsvörin verða tekin til greina í verðlagningu t.d. eða hvort það er verið að féfletta hann sjálfan með því að taka af eignum hans árlega nokkurn skerf, að því leyti sem útsvör og tekjuskattur kunna að verða hærri en það, sem hlutaðeigandi

getur haft í tekjur af rekstri sínum. Og fyrir þessu stendur Sjálfstfl., — flokkurinn, sem hefur talið sig forsvarsflokk einstaklingsframtaksins í landinu og hefur lofað því á undanförnum árum æ ofan í æ, að ef hann fengi aðstöðu til þess að hafa áhrif á þessi mál, þá skyldu verða gerðar hér hreinar línur og búið öðruvísi að atvinnurekstrinum en verið hefði.

En hver hefur verið ferill þessara manna í skattamálum, t.d. skattamálum ríkisins? Þeir hafa haft með höndum skattamál Reykjavíkurbæjar á þann hátt, sem ég hef verið að lýsa, og er nú meiningin að lögfesta það fargan allt saman, sem núv. hæstv. fjmrh. hafði beitt sér fyrir. Hann ætlar að flytja það með sér upp í stjórnarráð. Hann ætlar að flytja þetta fargan, sem hann hefur staðið fyrir niðri í miðbæ, á bæjarskrifstofunum, hann ætlar að flytja það með sér upp í stjórnarráð. Hann ætlar að tryggja það með löggjöf, að menn verði að búa við það, þó að hann sé farinn. Þó að hann sé búinn að skila af sér fjármálum Reykjavíkurbæjar, þá ætlar hann að tryggja það með löggjöf, að menn verði að búa áfram við það fargan, sem hann stóð fyrir.

En hverju er svo líka við að búast, þegar maður íhugar, hvernig afstaða Sjálfstfl. hefur verið í skattamálum ríkisins? Þeir hafa sí og æ verið að tala um skattpíningu og skattaálögur annarra. En hvað er það rétta í því? Það rétta í því er, að Sjálfstfl. hefur staðið fyrir lögfestingu hæstu beinna skatta til ríkisins, sem nokkru sinni hafa gilt á Íslandi. Og síðan 1950, að Sjálfstfl. afhenti þau mál eða varð að afhenda þau mál til annarra, hefur sífellt verið sett löggjöf til að draga úr, til að lækka þá skatta, sem Sjálfstfl. hafði beitt sér fyrir. Það var sett löggjöf 1956 um verulega lækkun á tekjuskattinum. Það var sett sérstök löggjöf um skattlagningu félaga, þar sem afnumin var stighækkun á sköttum á tekjur félaga til að mæta þeirri gagnrýni, sem hafði komið fram um, að skattálagningin á félögunum færi algerlega úr hófi fram, miðað við þá skattstiga, sem Sjálfstfl. hafði staðið fyrir að lögleiða. Þess í stað var sem sé lögleidd sú regla, að félög skyldu greiða, að því er mig minnir, 25% af tekjum sínum og ekki undir neinum kringumstæðum meira. Þetta er sú regla, sem aðrir hafa beitt sér fyrir að koma í skattalöggjöf ríkissjóðs. En þegar Sjálfstfl. kemur nú aftur að þessum málum, beltir hann sér fyrir að koma því alveg greinilega í lög, svo að ekki verði um villzt, að það sé fullkomlega heimilt fyrir bæjar- og sveitarstjórnir að leggja á menn hærri beina skatta samtals en nemur öllum tekjum þeirra.

Og þegar fram kemur í gær brtt. til að setja undir þennan leka, að skattar og útsvör skuli þó aldrei samanlagt fara hærra en í 65%, þá raða sjálfstæðismenn sér upp til að fella, að slíkt geti orðið lögfest. Slíka óhæfu má ekki setja í lög. Þetta er einstaklingsframtaksflokkurinn, sem þannig hagar sínum vinnubrögðum.

Ég held því enn fram eins og ég hef gert í þessum fáu orðum, sem ég hef sagt, að hér sé á ferðinni „maðurinn með augað“, — það er sá hugsunarháttur, sem einkennir alla þessa frammistöðu. Það er „maðurinn með augað“, sem er hér á ferðinni. Það er sá hugsunarháttur, sem liggur til grundvallar öllu því, sem hér er verið að gera. En slíkur hugsunarháttur getur ekki góðri lukku stýrt.

Að lokum vil ég svo aðeins minna á, að ég hef ekki orðið var við, — það hefur þá farið fram hjá mér og verður þá leiðrétt, ef það er misskilningur, — ég hef ekki orðið var við, að nokkur aðili hafi sent Alþingi meðmæli með þessu frv. Ég hef ekki orðið þess var. Og ég hef ekki marga hitt, sem hafa mælt þessu frv. bót. Ég hef minnzt hér á ýmsa, sem hafa sent hingað gagnrýni á frv., og ég vil að lokum benda á einn aðila enn, sem hefur sent hingað gagnrýni á frv. og óskað eftir því, að frv. yrði ekki samþykkt. Og það er sá aðili, sem ætti að vera bezt dómbær allra um að meta þetta mál. Það er fulltrúaráð Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Það fékkst þó fram, að þeir fengju að segja álit sitt um málið, enda var ekki hægt að koma í veg fyrir það. Og þá kemur í ljós, að fulltrúaráð þessara samtaka, sem hefur verið mjög hvetjandi þess, að löggjöf um tekjustofna sveitar- og bæjarfélaga væri endurskoðuð, og hefur oft bent á nauðsyn þess, — að einmitt þessi stofnun óskar eftir því, að þetta frv. verði ekki samþykkt, — alls ekki þetta, sem hér er hugsunin að lögleiða, — og hefur bent á þá leið, sem auðvitað er alveg sjálfsögð, að taka meira tóm til þess að skoða málið og reyna að finna skynsamleg úrræði, sem kynnu að geta staðið eitthvað til frambúðar og komið að liði. Ég hefði talið, að það væri nær fyrir hæstv. ríkisstj. að fara eftir leiðbeiningum þessara samtaka en að reyna nú að keyra þetta mál fram með slíku ofurkappi sem raun ber vitni um. Og ég tel það alveg furðulega ófyrirleitni að berja fram löggjöf um þessi efni, án þess að hún hafi áður verið borin undir bæjar- og sveitarstjórnir og fengið að öðru leyti sómasamlegan undirbúning.