27.05.1960
Neðri deild: 89. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2854 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

112. mál, útsvör

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Hér hefur verið beint til mín nokkrum fyrirspurnum í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, um bráðabirgðabreyt. á útsvarslögunum. Hv. 5. þm. Norðurl. v. (JK) bar hér fram tvær fyrirspurnir, sem hann óskaði svars við. Í fyrsta lagi, hver væri orsök þeirrar bráðabirgðabreyt., sem nú er verið að gera á frv., og í öðru lagi, hver væri forsenda fyrir því, að veltuútsvarsgreiðendur hér í Reykjavík fengju heimild til þess að draga ýmis gjöld frá umsetningu samkv. 5. gr., c-lið, áður en veltuútsvar er lagt á þar, en þetta er ekki heimilað annars staðar.

Í sambandi við fyrri fsp. skal ég upplýsa það, að n. sú, sem ætlað var að undirbúa löggjöf um heildarendurskoðun útsvarslaganna, undirbúa þá löggjöf, sem yrði lögð fram í því sambandi, var alveg sammála um, að bezta og raunhæfasta leiðin til þess að fá einhvern grundvöll til þess að vinna eftir í því sambandi, væri að láta í ár fara fram niðurjöfnun útsvara um land allt eftir ákveðnum reglum, sem fyrir fram væru markaðar hér á hinu háa Alþ., þ.e.a.s. gera till. um að samræma útsvarsstigana og láta síðan, eftir að niðurjöfnunarnefndir hefðu lagt á eftir þeim, vinna úr þeim gögnum, sem þá lægju fyrir, til þess að reyna að finna út grundvöll, sem hæfur væri fyrir kaupstaðina sér í lagi og hin smærri sveitarfélög sér í lagi að vinna á við niðurjöfnun útsvaranna eftirleiðis. Ég gat um það í framsöguræðu minni, að að vísu hefðu verið til fleiri leiðir í þessu sambandi, t.d. að láta fara fram skýrslusöfnun um land allt í þessu sambandi. En slíkt er mjög mikið verk, það lá alveg ljóst fyrir. Og í öðru lagi hefur orðið veruleg breyt. á í þessu sambandi, eftir að lög um jöfnunarsjóð sveitarfélaga voru samþ., þannig að nokkuð er ljóst, að sá tekjugrundvöllur, sem kaupstaðirnir og sveitarfélögin hafa haft áður til að leggja á, ef hann helzt óbreyttur, þá þolir hann lægri útsvarsstiga en áður en lögin um jöfnunarsjóð voru samþykkt, þar sem jöfnunarsjóður gefur sveitarfélögunum og þá frekast hinum smærri sveitarfélögum auknar tekjur, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, allt að 35%, miðað við þau útsvör, sem lögð voru á 1959, og má ætla að óbreyttum ástæðum nokkru hærri prósentutölu við álagningu útsvara eftirleiðis. Hjá kaupstöðum er þetta allmiklu lægra hlutfallslega, en lá þó nokkuð ljóst fyrir, að jöfnunarsjóðsframlag til kaupstaðanna mundi nema 10–12%, miðað við þau útsvör, sem þar hefðu verið lögð á áður. Það liggur í augum uppi, að nýr tekjustofn á að auka líkurnar fyrir því, að hægt sé að samræma útsvarsstigana, fækka þeim, eins og við höfum trú á, sem að þessu höfum starfað, þannig að eftirleiðis verði hægt að hafa aðelns einn útsvarsstíga fyrir kaupstaðina alla, þar með talda Reykjavík, og annan, sem sveitarfélögin öll gætu notað til þess að ná inn heildarupphæð útsvara hvert hjá sér. Þetta er ástæðan fyrir því, að n. lagði til, að þessi bráðabirgðabreyt., sem hér liggur fyrir, yrði gerð á útsvarslögunum nú á þessu þingi, í því skyni að fá einhvern raunhæfan grundvöll til þess að vinna eftir við heildarendurskoðun útsvarslaganna síðar á þessu ári.

Forsenda fyrir því, að veltuútsvarsgreiðendur í Reykjavík fá að draga ýmis útgjöld frá heildarveltu, áður en veltuútsvar er lagt á þá, er sú, að þetta hefur verið gert undanfarið í Reykjavík, en ekki í öðrum kaupstöðum. Útsvarsstigi Reykjavíkur var tekinn inn í frv. óbreyttur, og n. sá ekki ástæðu til og taldi ekki eðlilegt að taka þetta eina atriði út úr, þar sem þetta hafði verið hér árum saman, og sá heldur ekki ástæðu til að skylda kaupstaðina til að gera þetta, þar sem þeir höfðu ekki gert það áður, þar sem hér var um breyt. að ræða, sem aðeins á að gilda við niðurjöfnun útsvaranna í ár.

Ég vona, að þetta sé fullnægjandi svar við fsp. þessa hv. þm.

Hv. 4. þm. Reykn. (JSk) bar hér einnig fram fsp., sem hann beindi til mín sem frsm. fyrir till. heilbr.- og félmn., og skal ég leitast við að svara þeim einnig.

Það var í fyrsta lagi varðandi veltuútsvör á vörur í umboðssölu og í öðru lagi, hver væri velta mjólkurbúa og sláturhúsa.

Um álagningu veltuútsvars á vörur í umboðssölu er það að segja, að fram að þessu hafa niðurjöfnunarnefndir um land allt verið látnar ákveða hver um sig og eftir sínum eigin reglum, hvenær útsvar væri lagt á umboðslaun og hvenær á andvirði seldra vara. Mér er það kunnugt, að reglur hinna einstöku n. í þessu sambandi eru nokkuð mismunandi, en víðast hvar hefur þó í höfuðdráttum verið fylgt þeirri reglu, að þar sem umboðslaun eru mjög há, eins og á sér stað um einstakar vörur og ég tilgreindi í framsöguræðu minni, eins og t.d. í sambandi við bókasölu og tímaritasölu, þar sem umboðslaun nema 20–25% af andvirði vörunnar, að þar mun í flestum tilfellum hafa verið lagt á andvirði vörunnar eftir þeim reglum, sem gilt hafa á hverjum stað, en ekki á umboðslaunin. Umboðslaun þessara vara eru svo há, að þau eru mun hærri en leyfð álagning á marga aðra vöruflokka, sem veltuútsvar hefur verið lagt á. Veltuútsvar á vörur í umboðssölu, sem eru með lágum umboðslaunum, mun því víðast hvar hafa verið fellt niður eða þá aðeins lagt á umboðslaunin eða þær tekjur, sem þau hafa gefið.

Eins og margsinnis hefur verið tekið fram, er hér aðeins um bráðabirgðabreyt. á útsvarslögunum að ræða, sem gert er ráð fyrir að gildi aðeins við niðurjöfnun útsvara nú í ár.

Er ekki í frv. gert ráð fyrir, að breyt. verði á þessu við þá niðurjöfnun, sem í hönd fer. Það er í því ekkert ákvæði um að breyta þeirri aðstöðu, sem sveitarfélögin hafa haft í þessu sambandi, og reiknað með, að það haldist óbreytt og hvert þeirra hafi þær reglur, að því er þetta varðar, sem verið hafa fram að þessu. Ég tók það fram í framsöguræðu minni, að þetta er atriði, sem þarf mjög náinnar og mjög nákvæmrar athugunar við. En að sjálfsögðu hlýtur við heildarendurskoðun útsvarslaganna að verða mörkuð þarna föst og ákveðin leið, þannig að það verði ekki um það deilt, hvenær ber að leggja á umboðslaun og hvenær á andvirði vara, sem seldar eru í umboðssölu.

Um mjólkurbú og sláturhús er það að segja, að telja verður, að ákvæði 1. mgr. 8. gr. sé alveg tæmandi hvað þessa aðila varðar, þar sem beinlínis segir, að þeir skuli undanþegnir veltuútsvari. Það skiptir því að sjálfsögðu minna máli, hvað talin er veita þessara fyrirtækja, þegar það liggur ljóst fyrir samkv. þessari tilvitnuðu grein, að hún er útsvarsfrí. En ég skal þó ræða þetta nokkru nánar.

Eins og fram kom í framsöguræðu minni og ég hef hér bent á, er andvirði þeirra vara, sem þessir aðilar hafa til meðferðar, undanskilin því, að á hana verði lagt veltuútsvar. Vegna spurningar hv. 4. þm. Reykn. vil ég láta það koma fram hér sem mitt álit, að ég tel engan vafa á því, að þær vörur, sem hjá þessum aðilum eru á vinnslustigi, séu jafnt undanþegnar útsvari, þó að þær einhvern tíma séu t.d. í frystigeymslu og afhentar aftur þaðan til sölu. Ég tel engan stigsmun á því, þó að þær séu einhvern tíma hjá þessum aðilum í ákveðnu geymsluformi, að á þær ber ekki að leggja fyrr en þessir aðilar hafa skilað þeim frá sér. Þó skal það tekið fram, að ef þessir aðilar, t.d. sláturhús, önnuðust úr opnum sölubúðum sölu þessara vara og dreifingu þeirra til neytenda, þá mundi ég telja, að það kæmi undir þá heimild, er sveitarstjórnunum er gefin til að leggja á veltuútsvar, en meðan þær eru á vinnslustiginu hjá sláturhúsunum, þá væri ekki heimilt að leggja á þær, fyrr en þær væru þaðan afhentar.

Varðandi mjólkurbúin er alveg sama að segja, nema að því viðbættu, að Mjólkursamsalan er með sérstökum lögum undanþegin veltuútsvari. Og ég vil ítreka það, sem ég sagði í framsöguræðu minni, að ég teldi það óeðlilegt, að lagt væri á vöruna á vinnslustigi hjá þeim aðila, sem vinnur hana, ef síðan ætti að gefa heimild til að leggja á hana við sölu, þar sem aðalútsala mjólkurinnar hér í höfuðborginni er undanþegin þessu ákvæði með sérstökum lögum, þannig að ég tel, að 8. gr. sé fullskýr um það, að ekki sé heimild til álags veltuútsvars á þessa aðila, fyrr en þeir hafa skilað vörunum frá sér, nema svo sé, að þeir sjálfir hafi sölubúðir, sem annist dreifinguna til neytenda, þá hljóti þeir eins og aðrir að koma undir þær reglur, sem gilda þar um samkvæmt frv.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) var hér með ábendingar um þann mun, sem er á ákvæðum 5. gr. varðandi Reykjavík og ákvæði 6. gr. varðandi aðra kaupstaði, þar sem í frv. er gert ráð fyrir, að í Reykjavík sé aðeins lagt á umboðslaun, en öðrum kaupstöðum heimilað að leggja allt að 2% á umboðssölu. Þetta byggist á því sama, sem ég benti á í svari mínu til hv. 5. þm. Norðurl. v., að aðstaðan hefur fram að þessu verið þannig, og n. þótti ekki rétt við þessa bráðabirgðabreyt., sem ná á til niðurjöfnunar aðeins í ár, að raska þeim grundvelli, sem þar er. Þó er það svo, að samkv. 8. gr. er fram tekið, að útsvar á veltu megi ekki nema hærri hundraðshluta miðað við tegund gjaldstofns en var á hverjum stað árið 1959. Þetta vill segja, að hafi niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur t.d. í einhverjum sérstökum tilfellum lagt á andvirði seldra vara í umboðssölu, en ekki umboðslaunin, þá gefur þessi málsgr. 8. gr. aðstöðu til, að svo verði, þar sem stiginn frá s.l. ári er tekinn óbreyttur inn, að þá hljóta einnig þau frávik, sem frá honum kunna að hafa verið, sem mér er ekki kunnugt um, einnig að gilda.

Ég held, að ég hafi með þessu svarað þeim fsp., sem til mín hefur verið beint í sambandi við þetta mál.

Það hefur komið fram við þessar umr., nokkuð verið rætt og allýtarlega t.d. af hv. 3. þm. Reykv., sem mér þykir ástæða til þess að fara nokkrum orðum um, en það var um ákvæði útsvarslaganna um efni og ástæður. Þessi hv. þm. fordæmdi það mjög, að taka ætti þetta ákvæði út úr útsvarslögunum, og taldi, að það mundi jafnvel svipta sveitarfélögin sjálfsforræði sínu. Ég er þar mjög á annarri skoðun af þeirri reynslu, sem ég um margra ára skeið hef af þessu haft, þar sem þetta ákvæði útsvarslaganna er mörg undanfarin ár búið að vera gersamlega dauður bókstafur í útsvarslögunum og óvirkt. Ég þarf ekki að fara að fjölyrða um það frekar en ég gerði í framsöguræðu minni, að svo er við niðurjöfnun útsvara, að ef niðurjöfnunarnefndirnar vilja gera breyt. á framtölum; þá er þess krafizt af þeim beinlínis, að þær sanni tölulega þær breyt., sem þær gera. Það mundu ekki vera, hvorki af yfirskattanefndum né af ríkisskattanefnd, talin fullgild rök af hendi niðurjöfnunarnefndar, þó að hún vildi halda því fram, að þessi og þessi aðilinn hefði efni og ástæður til að greiða svo og svo mikið, heldur mundu yfirskattanefndirnar krefjast þess, að niðurjöfnunarnefndir héldu sér gagnvart þessum aðilum eins og öðrum innan þess ramma, innan þeirra reglna, sem starfað væri eftir. Ég sé ekki, að það geti verið nein röskun eða hætta á, að sjálfsforræði sveitarfélaganna fari forgörðum, þó að þetta ákvæði sé tekið út úr útsvarslögunum, þar sem, eins og ég hef sagt, það hefur verið dauður bókstafur þar um mörg ár. Aðstæður allar um rekstur sveitarfélaganna hafa gerbreytzt síðustu áratugina, og er svo komið, að útgjöld þeirra eru bundin samkvæmt lögum að mjög miklu leyti og víst í flestum sveitarfélögum að 75–80%. Það má þá segja, að ef það er að svipta sveitarfélögin sjálfsforræði að taka þetta ákvæði út úr útsvarslögunum, þá er það ekki siður að svipta þau fjárhagslegu sjálfsforræði að ákveða með lögum, hvernig meginhluti útgjalda þeirra skuli vera. Ég er, eins og ég sagði, alveg á öndverðri skoðun við hv. 3. þm. Reykv. Ég tel það til bóta fyrir sveitarfélögin, að þetta ákvæði er tekið út úr lögum, frekar en það sé þeim til ama.

Þá hefur því mjög verið haldið hér á loft í sambandi við það ákvæði, sem í þessu frv. er, um heimild sveitarfélaga til að leggja veltuútsvar á samvinnufélögin, að félagsmannaviðskipti samvinnufélaganna væru ekki verzlunarviðskipti, heldur væri þar um þjónustu að ræða, þar fari ekki fram kaup og sala, eins og það hugtak almennt er túlkað, heldur væri þarna um þjónustu frá hendi samvinnufélaganna að ræða. Ég get ekki túlkað þetta atriði á þá leið og ekki fallizt á þá túlkun, sem hér hefur komið fram í þessu sambandi. Ég sé ekki, hvaða stigsmunur er á því, þegar maður, sem er félagi t.d. í Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis, kemur inn í sölubúðir þess hér í höfuðstaðnum, kaupir þar ákveðnar vörur, greiðir þær við búðarborðið, fer með þær út úr verzluninni, — þá sé ég ekki, hvaða munur er á því og venjulegum viðskiptum milli kaupmanna og þeirra, sem þeir selja. Ég held, að þetta ákvæði verði aldrei túlkað undir annað en að þarna fari fram kaup og sala. Það er það, sem gerist. Viðkomandi aðilar fá sínar vörur, greiða fyrir þær og hafa þar með eignazt þær, og verður varla vefengt með nokkrum rökum, að þetta séu mjög eðlileg viðskipti og þarna eigi sér sala á vörum stað.

Ég held því fram, eins og ég gerði í framsöguræðu minni, að þeim sveitarfélögum, sem þess óska, eigi að vera heimilt að láta samvinnufélög eins og aðra aðila og eftir alveg sömu reglum, hvorki betri né verri, greiða þá þjónustu, sem sveitarfélögin láta þessum aðilum í té: Ef samvinnufélögin, eins og hér hefur verið staðhæft, láta sínum viðskiptamönnum í té þjónustu umfram það, sem á sér stað í venjulegum viðskiptum, þá eiga þau að láta þá, sem þjónustunnar njóta, greiða hana, en ekki að vera að rugla því saman við útgjöld sveitarfélagsins og krefjast af þeim orsökum annarrar aðstöðu um greiðslu til síns sveitarog bæjarfélags heldur en aðrir hafa. Ég tel miklu eðlilegra og heilbrigðara, að samvinnufélögin láti greiða þá þjónustu, sem þau láta í té, en séu ekki að reka hana á kostnað síns sveitarfélags og í skjóli þess að krefjast annarrar aðstöðu en aðrir, sem þar búa.

Ég held, að fleiri fsp. hafi ekki verið til mín beint en ég hef hér svarað, og vona, að svör mín séu nægileg skýring fyrir þá, sem fsp. hafa til mín beint.