28.05.1960
Neðri deild: 90. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2868 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

112. mál, útsvör

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er ætlað að lögfesta ýmsa þætti varðandi útsvör og álagningu þeirra, sem ég fyrir mitt leyti get ekki fallizt á. Hins vegar felst í frv. þessu mikil leiðrétting á útsvarsmálum hinna ýmsu rekstrarforma, og er ætlunin, að verulegur hluti þeirra sitji nú við sama borð hvað útsvarsálögur snertir. Þar sem ég tel þetta mikilsverða leiðréttingu á því misrétti, sem ríkt hefur í útsvarsmálum fyrirtækja, og í því trausti og von, að nefnd sú, sem vinna mun að undirbúningi þess frv. um útsvör, sem fjmrh. skýrði frá að lagt yrði fyrir á næsta þingi, taki þau atriði, sem ég get ekki fallizt á í frv. þessu, til breytingar, vil ég ekki leggja stein í götu þessa frv. og greiði því ekki atkvæði.