30.05.1960
Efri deild: 87. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2885 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

112. mál, útsvör

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Það er aðallega eitt atriði í þessu frv., sem ég vildi vekja athygli á, og gætu raunar verið fleiri. Þó hefur áður verið vakin athygli á því — það er í sambandi við 8. gr. — bæði af hv. 4. þm. Vestf. (SE) og hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK). Það er þetta orðalag: „undanþegin veltuútsvari eru sláturhús og mjólkurbú“.

Það er rétt, að þetta er ekki skýrt orðalag, það getur valdið ágreiningi, hvernig eigi að skilja, og aðalerindi mitt hingað upp var að vekja máls á því, að sú nefnd, sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, hefði máske breytt þessu orðalagi eitthvað, ef hún teldi við nánari athugun, að þetta gæti valdið misskilningi eða mistúlkun. Það, sem þarna er átt við, — mér er vel kunnugt um það, — það er sala mjólkurafurða á fyrsta sölustigi frá mjólkurbúi og sala sláturfjárafurða á fyrsta sölustigi frá sláturhúsi. Þetta er atriði, sem hefur verið mikið rætt hér í vetur við endurskoðun á þessum l., einkanlega við þá endurskoðun, sem fór fram, eftir að þetta lagafrv. var fyrst lagt fram. Það er þetta, sem er alveg ákveðið meiningin, að fyrsta sölustig á þessum vörum sé undanþegið veltuútsvari, m.a. fyrir það, hversu oft þessar vörur koma til með að verða seldar og þar af leiðandi margskattaðar máske.

Þá hefði ég viljað fara fáum orðum um það atriði, sem hv. 4. þm. Vestf. og raunar hv. 1. þm. Norðurl. e. einnig víttu mjög í þessu frv. Það er það að gera skala yfir útsvarsálagningu, sem sé ekki sami yfir allt landið, þ.e.a.s. 3 skala, einn fyrir sveitir, einn fyrir kaupstaði og einn fyrir Reykjavík.

Þetta atriði finnst mér vera mjög eðlilegt, og það er af því, að það ástand, sem veldur því, að þessir skalar hafa verið misjafnir, er enn fyrir hendi. Í sveitunum mundum við t.d. alls ekki komast af með þau útsvör, sem lögð væru á eftir Reykjavíkurskala. Þannig yrði meginþorri af okkar gjaldendum algerlega útsvarslaus, vegna þess að þar eru tekjurnar yfirleitt svo lágar. Hið sama býst ég við að sé fyrir kaupstaðina, að þetta sé einnig þar fyrir hendi, þó að ég sé þar ekki eins kunnugur.

Í sambandi við þetta vil ég koma inn á það, sem hér hefur verið líka rætt, að sá skali, sem hér var gerður til bráðabirgða, til reynslu fyrir sveitarfélögin eða hreppsfélögin úti um land, var algerlega saminn af 5 oddvitum, sem til þess voru kvaddir af stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, og ég var einn í þessum hópi ásamt 4 öðrum, sem sumir hafa verið hér þegar nefndir, og við bárum saman fjöldamarga skala utan af landi, sem farið hafði verið eftir, og reyndum að gera samræmdan skala upp úr þeim, sem væri sem svipaðastur því, sem gilt hafði áður við álagningu útsvara í hinum einstöku byggðarlögum, þar sem okkur virtist, að einna vandlegast hefði verið farið í útsvarsálagningu, miðað við framtöl. Og við komumst, þessir 5 oddvitar, að raun um, að þessi skali, sem við lögðum til að yrði tekinn upp til reynslu og bráðabirgða, væri mjög nærri því lagi, sem við höfðum einmitt farið eftir, allir þessir oddvitar eða hreppsnefndir í viðkomandi sveitum, þó dálítið eftir mismunandi leiðum, sem leiddu til svipaðrar niðurstöðu.

Það má segja, að þessi skali beri blæ af okkar reynslu, og skal ég ekki neitt fullyrða um það, að þetta sé það bezta, sem hægt sé að finna út. En ég held, að þetta sé það nærri lagi, að út af fyrir sig sé ekki mikið út á það að setja að lögfesta þennan skala í eitt skipti til reynslu.

Í sambandi við það, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. lagði fyrir hæstv. fjmrh. í spurnarformi, um það, hvort hin einstöku sveitarfélög hefðu beðið um endurskoðun á útsvarsl., þá hafa náttúrlega ekki komið fram beiðnir frá öllum sveitarfélögum í landinu. Ég er viss um, að það eru yfir 10 ár, — ég man það fyrir víst, — síðan ég mætti fyrst á sambandsfundi íslenzkra sveitarfélaga, og þá var á þeim fundi mjög mikið rætt um, að nauðsynlegt væri að samræma útsvarsálagningu um allt land, og sambandinu var falið að vinna að því. Stuttu síðar var ég skipaður í nefnd til þess að semja útsvarsskala ásamt tveim mönnum öðrum mér færari, með það fyrir augum að fá samræmingu á þessu, og við sátum lengi á fundi norður á Akureyri og sömdum álagningarreglur, sem að vísu hafa ekki komið til neinna framkvæmda. En þetta sýnir, að þetta mál er ekki öldungis nýtt. Og ég get sagt fyrir mig, að ég hef fengizt við útsvarsálagningu í 30 ár, og ég tel það miklu betra sem hreppsnefndarmaður að hafa ákveðnar reglur til að fara eftir við álagningu, sem væru svipaðar eða þær sömu og gilda annars staðar, til þess að ekki sé hægt að núa hreppsnefndum eða niðurjöfnunarnefndum því um nasir, að þessi n. eða önnur hafi allt aðrar reglur en hinar, sem séu máske verri. En hvaða skali kynni að verða réttlátastur út úr þessu, það vil ég ekki fullyrða, en ég held, að þessi skali, að því er snertir sveitarfélögin, sé ekki fjarri lagi til reynslu.

Sá eini ágreiningur eða meiningamunur, sem var í þessari 5 manna oddvitanefnd, sem bjó til þennan skala, — ég tek fram, að hún gerði ekki annað, — var sá, að því er snertir undirbúning á þessum útsvarslögum, að flestir þessir oddvitar töldu, að ekki væri rétt að lögleiða eða lögbinda veltuútsvar. Þó var a.m.k. einn og raunar tveir, sem töldu, að mörg sveitarfélög í hreppunum, — ég tala aðallega um það á þessu stigi, — hefðu þegar farið inn á þessa braut, að hafa veltuútsvör t.d. á framleiðsluvörum bænda, og töldu nauðsynlegt að halda því til þess að ná í vissa, tiltekna menn, sem erfitt væri að treysta framtölum frá. Það varð niðurstaða þessarar n., að hún féllst á það, að rétt mundi vera að leyfa lág veltuútsvör á afurðir búanna í sveitunum til bráðabirgða, meðan þau útsvarslög, sem væntanlega yrðu afgreidd nú til bráðabirgða, væru að sýna sig, hvernig reyndust. Hins vegar get ég sagt það sem mína afstöðu gagnvart veltuútsvörum, að ég tel þau mjög hæpna aðferð til þess að ná inn útsvörum, og raunar hef ég við mjög fáa menn talað, sem eru ánægðir með þá aðferð að taka útsvörin að meira eða minna leyti þannig. Ég tel, að réttara sé í framtíðinni að hugsa sér, að þær tekjur, sem sveitarfélögin ná inn gegnum veltuútsvör, komi heldur gegnum söluskattinn, sem ég geri ráð fyrir að verði nú varanlegur, kannske lengi. Hann er a.m.k. kominn á í bili, og ef honum verður haldið áfram, þá hefði ég talið réttara, að hann væri hækkaður, t.d. um 1%, sem gengi þá til sveitarfélaganna gegnum jöfnunarsjóð. En á þessu stigi hef ég hallazt að því, að ekki væri hægt að ganga fram hjá veltuútsvörunum eins og sakir standa vegna þess, hvað þau hafa verið mikill liður í álagningu svo að segja allra sveitarfélaga, í bæjunum og einnig í vaxandi mæli í sveitunum líka.

Ég veit ekki, hvort ég hef ástæðu til þess að segja fleira um þetta frv. Það hefur tekið talsverðum breytingum, frá því að það var lagt fram hér fyrst, og ég tel þær breyt. allar til bóta, og það hefur verið mikið tillit tekið til ýmissa viðhorfa gagnvart þessu frv. á ýmsum stigum, síðan það kom fram í fyrstu. Í aðalatriðum mun ég styðja þetta frv. sem bráðabirgðaúrlausn. Ég er á öðru máli en sumir hv. þm., sem hér hafa talað, um það, að ekkert sé unnið við það að fá eins árs reynslu á ákvæðum frv., áður en útsvarslög eru endanlega afgreidd, sem væntanlega verður á næsta þingi. Ég tel það mikinn stuðning fyrir þá n., sem hefur málið til endanlegrar afgreiðslu, að hafa fengið reynslu og umsagnir sveitarfélaganna einmitt við næstu álagningu, áður en sú nefnd lýkur störfum. Gæti hún snúið sér til sveitarstjórnanna og beðið þær um ákveðin svör við vissum atriðum, sem væru vafaatriði. Svör sveitarstjórnanna ættu að geta orðið nefnd þeirri, er undirbýr lagafrv. um útsvör, mjög til leiðbeiningar í ýmsum greinum.