02.06.1960
Efri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2891 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

112. mál, útsvör

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Við hv. 9. þm. Reykv. (AGI) urðum í minni hl. í hv. heilbr.- og félmn. og höfum gefið út sameiginlegt nál., sem sagt er að muni koma úr prentun eftir nokkrar mínútur. Enn fremur höfum við gefið út á sérstöku blaði nokkrar brtt., sem búizt er við að komi á sama tíma. En vegna þess að nú þarf að nota daginn, vil ég mæla nokkur orð, þó að þessi skjöl liggi ekki fyrir, í von um það, að þau komi eftir fáar mínútur.

Sveitarfélögin eru sjálfstæðar heildir um margt innan þjóðfélagsins, og hefur farið vel á því, og væntanlega getur farið vel á því áfram. Hæstv. fjmrh. hefur oft sem sveitarstjórnarmaður lagt á þetta mikla áherzlu. Ég man eftir ágætu ávarpi, sem hann flutti á síðasta landsþingi Sambands ísl. sveitarfélaga sem borgarstjóri Reykjavíkur, þar sem hann undirstrikaði nauðsyn sveitarfélaganna til þess að gæta sjálfstæðis síns. Hann sagði, að þau ættu að vara sig á valdinu að ofan, þ.e.a.s. ríkisvaldinu. Mér þóttu þetta viturleg orð og þykja það enn. Valdið að ofan, þ.e.a.s. ríkisvaldið, hefur yfirleitt ekki, að mínu áliti, verið nærgætið við sveitarfélögin eða tekið svo sem skyldi tillit til hlutverka þeirra og þarfa.

Hæstv. fjmrh. lagði á það áherzlu í útvarpsræðu sinni síðustu, hvílíkt fjöregg það er fyrir sveitarfélögin að halda sjálfstæði sínu. Þessu er ég alveg sammála. Það er þeim ákaflega mikilsvert, og það er þjóðfélaginu sömuleiðis mikilsvert. En með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er valdið að ofan að gera sig allt of mikið gildandi gagnvart sveitarfélögunum, ekki eingöngu á þá leið að ætla að setja með lagaákvæðum óvenjuleg fyrirmæli til þess að knýja sveitarfélögin til þess að hafa fastar reglur, sem áður hafa ekki gilt, um tekjuöflun sína að því er útsvörin snertir, en útsvörin hafa verið og eru enn mestur hlutinn af þeim tekjum, sem sveitarfélögin hafa. En það, sem ég tel alvarlegast í sambandi við þetta frv., er, að þessi ákvæði á að setja án þess að spyrja sveitarfélögin eða stjórnir þeirra eða gefa þeim tækifæri til íhlutunar og tillagna um löggjöfina. Það hefur verið venja um öll meiri háttar mál, sem Alþingi hefur sett lög um og snerta sveitarfélögin sérstaklega, að senda þeim frv. til umsagnar. Þessi regla hefur verið brotin nú, og þó er hér um að ræða málefni, sem segja má að snerti sveitarfélögin eingöngu og íbúa þeirra heima fyrir. Að þessu finnst mér ástæða til að finna og úr þessu mikil þörf að bæta, því að vissulega er það hægt enn. Ég sé ekki, að þessu máli liggi svo geysilega á nú, að ekki sé hægt að gefa það tóm að senda frv. á því stigi, sem það er nú, til þeirra til umsagnar.

Því er haldið fram, að þetta eigi að vera bráðabirgðalöggjöf. En mér finnst valdið að ofan satt að segja gera sig nokkuð frekt, þegar það ætlar að prófa á sveitarfélögunum sjálfum, bara prófa löggjöfina, sem getur gripið eins sterklega inn í starfsemi þeirra og rekstur og þetta frv. gerir. Með frv. er verið að skipa sveitarfélögunum í flokka og setja þeim með löggjöf reglur fyrir þá þrjá flokka. Það er ofur lítið svipað því og að svo væri fyrir mælt, að klæðskerar hefðu bara 3 númer af fatnaði handa öllum mönnum og þeir gætu valið um 3 númer. Að vísu er ofur lítil teygja í reglunum, en ekki sú teygja, sem að mínu áliti nægi til þess, að þarna sé hægt fyrir hvern að telja stakk við sitt hæfi, og ekki svo mikil teygja, að það sé ekki sjálfsagt að spyrja sveitarfélögin að því, hvort þau þoll þá stakka, sem þeim eru þarna sniðnir. Og það er einmitt það, sem væri hægt að gera, ef málið væri lagt fyrir sveitarfélögin. Þá mundu þeir prófa fötin, án þess að þurfa að vera í þeim, fyrr en búið væri að laga þau, ef þeir treystu sér ekki til að þola stakkinn. Eitt ár skiptir kannske ekki miklu máli — og hálft segja menn hér. En það mundi þykja hart af skósmið, ef hann vildi ekki lofa manni að athuga númerið á skónum öðruvísi en hann væri skyldugur til að vera í skónum svo sem einn árstíma.

Hv. frsm. meiri hl. sagði hér áðan, að af því að þetta væru bráðabirgðalög, fengist reynsla, ómetanleg fyrir þá nefnd, sem er að starfa að samningu útsvarslaganna. Ég vil halda því fram, að sú reynsla fengist líka, ef sveitarfélögin fengju frv., eins og það stendur núna, til þess að athuga það og vita, hvort þau geta búið við þær reglur, og væru látin segja til um það hvert um sig.

Það er enginn vafi á því, að það er vel hægt að setja löggjöf fyrir Reykjavík sem eitt sveitarfélag, og stigi Reykjavíkur virðist vera byggður á reynslunni þar. Það er miklu erfiðara að setja upp stiga, sem hæfir öllum hinum bæjarfélögunum. En það er ákaflega létt að fá umsagnir þeirra um það atriði. En fjarstæðast er þó að ætla hreppsfélögunum, mismunandi stórum, mismunandi efnalega stöddum og hátt á annað hundrað að tölu að búa við einn stiga.

Hv. frsm. meiri hl. las upp till., sem kom fram á fulltrúaráðsfundi sveitarfélagasambandsins, sem haldinn var snemma í aprílmánuði, og felld, í sambandi við þetta mál, sem þar var til umr., eins og ég lýsti hér við 1. umr. Allt var rétt, sem frsm. sagði um þetta. En till., sem samþykktar voru, voru komnar fram og lágu fyrir, þegar þessi till. var borin fram, lágu fyrir frá n., og fundurinn hallaðist vitanlega miklu frekar að þeim, vegna þess að till., sem frsm. las upp, var beinlínis um það að fella frv., en það var ekki andi fulltrúaráðsins yfirleitt að telja það athugavert, þó að gerð væri tilraun til þess að samræma a.m.k. meira en nú er álögureglur sveitarfélaganna, og hann leit yfirleitt á þetta frv. eins og uppkast að tilraun til þess að móta löggjöf, sem gengi í þessa átt. En hann gerði, eins og yfirlýsingin sem samþykkt var, sýnir, margar aths. til ábendingar við frv., sumar þeirra nokkuð stórvægilegar, a.m.k. frá mínu sjónarmiði, og ég tel, að af því að þessi fundur var haldinn og haldinn með tilliti til þess að fjalla um þetta frv., þá sé það hastarlegt og langt gengið af valdinu að ofan gagnvart sveitarfélögunum að taka enga bendingu fulltrúaráðsfundarins til greina, þó að það sé rétt, að fulltrúaráðsfundurinn skoraði ekki á Alþingi að fella frv. beinlínis, en skoraði á það að gera á því breytingar, sumar mjög miklar.

Það er einkennilegt, að sú eina formlega tilraun, sem hefur verið gerð til þess að spyrja sveitarfélög eða fulltrúa þeirra um álit þeirra á þessu frv., hún er ekki höfð að neinu, ekkert gert með álit þeirra, sem spurðir eru um slíkt. Það er von, að þeir, sem vinna að sveitarstjórnarmálum, styrkist í þeirri trú við þetta, að þeir þurfi að gæta sín gagnvart valdinu að ofan. Og þeir, sem líta svo á, að sjálfstæði sveitarfélaganna sé mjög mikilsvert fjöregg fyrir þau, ættu að gæta þess, að með þetta fjöregg sé ekki leikið eins og skessurnar léku stundum samkv. þjóðsögum að fjöreggjum. Mér virðist, að ef hv. meiri hl. eða stjórnarflokkarnir ætla að reka þetta mál áfram og gera frv. að lögum eftir þann lélega undirbúning, sem það hefur fengið, þá séu þeir að fara mjög ómjúkum höndum og gálauslega með fjöregg sveitarfélaganna.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að með þessu frv. væri stigið stórt spor, og það er vissulega rétt. Sporið er nefnilega allt of stórt og stigið fram án tillits til þess, að þetta spor mátti ekki vera til úrslita í þessum skammleik. Ég er alls ekki að tala um það og segi það að gefnu tilefni frá hv. frsm. meiri hl. n., að það hefði átt að láta öll sveitarfélögin semja frv. Nei, það er vissulega rétt að farið að skipa nefnd, láta hana gera uppkast, en leita svo álits hjá sveitarfélögunum og láta þau gefa þær bendingar, sem þau telja hagsmuna sinna vegna að nauðsynlegt sé að gera. Með því eina móti að fara þannig að er ekki skemmt fjöregg þeirra.

Eitt af því, sem fulltrúaráð sveitarfélaganna benti á, var, að ekki væri rétt, að samvinnufélög greiði útsvör af skiptum sínum jafnt við félagsmenn og utanfélagsmenn eftir sömu reglum og kaupmenn sama staðar, svo sem fyrir er mælt í 12. gr. frv., og þetta er líka í samræmi við fjöldamargar áskoranir, sem borizt hafa til þingsins frá fólki úti á landi.

Annað atriði, sem fulltrúaráðið benti á, var, að það væri mjög vafasamt að lögbjóða nú án frekari undirbúnings ákveðna útsvarsstiga í hreppum, og benti á, að rétt væri að fyrirskipa sýslunefndum að samræma útsvarsálagningu, hverri í sínu umdæmi, áður en fastákveðinn er með lögum sérstakur útsvarsstigi fyrir þau. Menn voru yfirleitt, þeir sem þekkja til, sammála um, að það væri mjög örðugt að finna stiga handa þeim mörgu sveitarfélögum, sem nefnast hreppsfélög. Þetta hefur ekki verið litið á hér á Alþingi.

Þá var kvartað yfir því, að óljóst væri um það, hvað ætti að teljast velta, og ekkert hefur verið gert til að bæta úr því.

Bent var á, að varhugavert væri án undirbúnings að taka til frádráttar útsvör, og ég veit ekki til þess, að nokkur undirbúningur eða slík athugun hafi farið fram. Þess vegna tel ég, að úr því að ekkert hefur verið orðið við þessu, þá sé einboðið fyrir þessa hv. deild að fresta nú afgreiðslu málsins með tilliti til þess, að það verði sent sveitarfélögunum, og ég hygg, að það verði allt að einu ómetanleg reynsla, ómetanleg þekking um málið, sem nefndin fær í svörum sveitarfélaganna.

Eitt er það enn, sem er til áherzlu, að hér sé hægar farið, og það er, að það blasir við eftir frv., eins og það liggur fyrir, að hagur sveitarfélaganna og skilyrði til tekjuöflunar eru ákaflega mismunandi. Og það er ekki annað hægt að segja en að áður en ríkisvaldíð fer að fyrirskipa sveitarfélögunum að jafna niður eftir reglum, þar sem t.d. Reykjavík getur komizt af með miklu léttari álagningarreglur en önnur sveitarfélög, þá sé málið á því stigi, að það ætti annað áður að gera heldur en þetta er gert. Það ætti sem sé að jafna aðstöðu sveitarfélaganna fyrst, gera það áður en þeim er sniðinn stakkurinn.

Ég skal játa, að með þeirri hlutdeild, sem sveitarfélög fá á þessu ári í söluskatti frá ríkinu, er stefnt í þessa átt. En það er þó ekki meira en svo, að þeim, sem þetta frv. hafa samið og reiknað með skiptingu söluskattsins milli ríkisins og sveitarfélaganna, sýnist ekki fært annað en að ætla í útsvarsniðurjöfnunarreglunum mjög misjafnlega þungan hlut þessum þremur flokkum sveitarfélaga, sem settir eru upp samkvæmt frv.

Finnst þeim mönnum nú, sem hafa fengizt við það að vinna í félagsmálum, viðkunnanlegt að gefa út slík lög, sem fela í sér þá yfirlýsingu sem þetta frv. gerir um misjafna aðstöðu fólksins í landinu? Finnst þeim virkilega ekki, þegar farið er að athuga þá hliðina, réttara að jafna þessa aðstöðu?

Við, sem erum í minni hl., leggjum til, að strax sé horfið að þessu til viðbótar því, sem búið er þó að gera, með því að taka upp reglu um landsútsvör, sem skiptist milli sveitarfélaganna. Það er sem sé álit okkar, og við tökum það fram í nál., að fyrr en verulegur jöfnuður hefur komizt á, sé ekki tímabært eða viðeigandi að lögbjóða allsherjar útsvarsstiga, t.d. í hreppsfélögum, og ekki tímabært að gera það nú á þessu þingi fyrir önnur sveitarfélög heldur. Þó hefði vel mátt, ef frv. hefði þannig verið tilbúið, gera það í Reykjavík, sem er eitt sérstakt sveitarfélag og þarf bara föt við sitt hæfi sem einstaklingur í hópi sveitarfélaganna. Þannig föt væri hægt raunverulega að sníða.

Það, sem er höfuðnýmæli í frv., er það fyrst, að það á að leggja niður regluna og banna um að jafna niður eftir efnum og ástæðum, en taka upp þá þrjá útsvarsstiga, sem ég er búinn að gera að umtalsefni. Hitt aðalatriðið er svo það, að lögleiða á heimild til að leggja á veltuútsvör. Veltuútsvör hafa verið á lögð í skjóli reglunnar „eftir efnum og ástæðum“, því að menn hafa tekið upp ýmiss konar aðferðir til þess að mæla efni og ástæður. Og þó að ég viðurkenni, að veltuútsvar sé ákaflega gallað álöguform, þá er ég alls ekki reiðubúinn til þess að vera á móti því út af fyrir sig, að þetta form sé notað. En mér finnst ekki liggja á að lögleiða það nú í dag, þó að mér finnist ekki vera rétt heldur eða hefði ekki talið það vera rétt heldur að setja ákvæði um það, að veltuútsvar mætti alls ekki eiga sér stað. Hitt er það, að ég tel nauðsynlegt að marka básinn að því er veltuútsvörin snertir, og það má segja, að það sé betur gert með lagasetningu, sem heimilar, heldur en undir jafnóákveðnu ákvæði og verið hefur í lögunum, þar sem eru efni og ástæður. En þetta tel ég ekki svo aðkallandi, að ekki mætti bíða þess, að lokið væri fullkomlega endurskoðun útsvarslaganna, og gott væri að heyra álit sveitarfélaganna líka um þetta atriði, áður en gengið er frá ákvæðunum, sem eru í frv. satt að segja mjög gölluð frá mínu sjónarmiði, og þar á ég þó sérstaklega við, að það er illa skilgreint, á hvað útsvarið á að leggjast, hvers konar velta það er, þó að hér sé minnzt á það í almennum orðum. Og mér finnst illkynjaðasti gallinn að því er snertir veltuútsvarið samkv. þessu frv., að því er ætlað að ná til viðskipta samvinnumanna í sínum eigin félögum.

Veltuútsvar er mjög hliðstætt söluskatti, það er söluskattur í raun og veru. En það er að því leyti varhugaverðara en söluskatturinn til ríkisins, að með því að hafa þetta form til álagningar á viðskipti samvinnumanna, eru menn á öllu félagssvæðinu, sem víðast hvar nær yfir nokkur sveitarfélög, mismunandi mörg víðast hvar, þá eru þeir skattlagðir til eins sveitarfélags, og það nær í raun og veru ekki neinni átt að skattleggja þannig menn um breiða byggð í ýmsum sveitarfélögum til eins sveitarfélags í gegnum viðskipti þeirra í samvinnuverzlun, sem er bara í raun og veru umboðsverzlun eða viðskipti, ætti að kalla „verzlun“ innan gæsalappa. Að skattleggja þá þannig í gegnum félagið, eins og kaupmaðurinn er skattlagður á staðnum með veltuútsvari, er fjarstæða, vegna þess að þeir njóta ekki þeirra félagslegu réttinda, sem í sveitarfélagi eru veitt og kaupmaðurinn nýtur þar. Kaupmaðurinn er að gjalda sem persóna eins og hver annar maður, sem í sveitarfélaginu býr, en kaupfélagið samanstendur af einstaklingum, sem eru með sinn hag og sín sveitarfélagsréttindi og sínar sveitarfélagsskyldur á öðrum stað. En þegar tekinn er söluskattur fyrir ríkið, í ríkissjóðinn, þá er það sameiginlegur sjóður allra. En veltuútsvarið af samvinnuverzluninni í kaupstaðnum er bara skattur fyrir þann eina kaupstað eða það eina sveitarfélag.

Við, sem í minni hl. erum, flytjum þess vegna tillögu í þessu sambandi til breytinga á þessum ákvæðum, og till. er á þá leið, að viðskipti félagsmanna við samvinnufyrirtæki verði sundurliðuð í bein félagsmannaviðskipti og utanfélagsmannaviðskipti. Og þau félagsmannaviðskipti, sem þar fara fram og ekki eru gerð upp á annan hátt við félagsmanninn en við utanfélagsmanninn, séu útsvarsskyld eins og utanfélagsmannaviðskipti. Með þessu móti álít ég, að það komi af sjálfu sér meira undir veltuútsvarsskylduna hjá kaupfélögunum en nú er, ef bara eru tekin utanfélagsmannaviðskiptin sjálf, og ég álít, að þetta sé réttmætt, vegna þess að starfsemi samvinnufélaganna hefur þannig færzt inn á fleiri svið en var, þegar löggjöfin var sett, og það er tekinn upp ýmiss konar rekstur af samvinnufélögum, sem ég fyrir mitt leyti álít að eigi að gjalda eins og hver annar rekstur.

Ég vona, að menn skilji á þessu, að ég er ekki að segja, að það megi ekki og eigi alls ekki að breyta neitt ákvæðum í sambandi við gjaldskyldu samvinnufélaga til sveita, en hitt er áreiðanlegt, að í frv. er ekki fundin leiðin til þess, og að taka málin þessum tökum, getur leitt af sér mjög alvarlega hluti.

Það var í Nd. töluvert gert að því að lesa upp þær áskoranir, sem komið höfðu fram og lagðar höfðu verið fram á Alþingi, frá ýmsum samtökum úti um land. Hér var mér lánuð yfirlýsing, sem er nýlega komin til Alþingis og hefur ekki heyrzt hér, en hún felur í sér rök til stuðnings því, sem ég hef verið að halda fram hér í sambandi við þetta ákvæði, sem ég var að gera að umtalsefni, og ég vil þess vegna leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hana upp. Hitt dettur mér ekki í hug, að fara að lesa upp það, sem áður er búið að lesa hér í þinginu, og tefja með því fund á síðustu dögum þingsins. Það er aðalfundur Kaupfélags Langnesinga, haldinn á Þórshöfn 17. maí 1960, sem ályktar eftirfarandi:

„Fundurinn lýsir fullkominni andstöðu við frumvarp til laga um útsvör, sem nú liggur fyrir Alþingi, er heimilar bæjar- og sveitarstjórnum að leggja á veltuútsvör, m.a. á félagsmannaviðskipti í samvinnufélögum. Telur fundurinn slíka skattheimtu mjög rangláta, þar sem verulegur hluti veltunnar eru rekstrarvörur atvinnuveganna og framleiðsluvörur, sem samvinnufélögin selja í umboðssölu, enda mundi hún torvelda þeim að veita almenningi þá þjónustu, sem einstaklingar hafa ekki tekið að sér, og valda stórfelldum fjárflutningum úr höndum einstaklinga í sveitum til þorpa og bæja. Með þessum lögum væri ríkisvaldið að heimila eins konar arðrán og leyfa óhæfuverk gegn fámennum sveitarfélögum eða því fólki, sem enn heldur vörð um hina dreifðu byggð. Skorar fundurinn því á hv. Alþingi að fella frv.“

Það getur sem sé haft alveg stórkostlegar afleiðingar, ef slík ákvæði, sem ég hef nú verið að tala um, veltuútsvör á félagsmannaviðskipti, eru í lög leidd. Þau raska jafnvægi milli sveitarfélaga stórkostlega, og það er enginn vafi á því, að ef þau eru í lög leidd og fást ekki fljótt afnumin, þá rís upp krafan um það, að farið verði að skipta slíkum álögum á milli þeirra sveitarfélaga, sem eiga hlut að máli í þessum félagsskap.

Nú er farið að tala um landsútsvör, og við í minni hlutanum leggjum til, að unnið verði að því að taka þau upp, og enginn vafi er á því, að það kemur fljótlega upp úr dúrnum, að slíkt verður að gera. En málið fer að vandast fullkomlega, ef svo þurfa að fara að eiga sér stað á smærri svæðum slíkar skiptingar, og til þess er ekki rétt af stjórninni að beita valdi við sveitarfélögin, — ég segi: valdi við sveitarfélögin, og leyfi mér í því sambandi að skírskota til þess, sem fulltrúaráðsfundur sveitarfélagasambandsins samþykkti um þessi atriði. Það er aðalniðurstaðan í nál., sem við skilum, minnihlutamennirnir, að við leggjum til, að sveitarfélögum og sýslufélögum verði gefið tækifæri til að segja um þetta frv. sitt álit, og þegar það er gert, teljum við líka réttlátt og sanngjarnt, af því að þá gefst ráðrúm til þess, að senda frv. líka til umsagnar heildarsamtökum framleiðenda, atvinnurekenda og launþega. Einstök félög úr röðum atvinnustéttanna hafa líka látið til sín heyra óánægju yfir ákvæðum frv.

Ég er í nokkrum vanda staddur, vegna þess að tillögur þær, sem við gerðum, eru ekki komnar úr prentun, og þó að ég hafi minnzt á sumar þeirra, þá er mér nú ekki unnt að rekja þær allar án þess að hafa þskj. við höndina. Og ég bið bæði sjálfan mig og hv. deild afsökunar á því, að framsaga mín verður dálitíð meir í molum af þessum ástæðum og ekki eins tæmandi og hún hefði getað orðið, með því líka að ég vil ekki tefja lengi tímann. Nú verður málið ekki tekið til afgreiðslu, fyrr en þskj. liggur fyrir. (Forseti: Ef til vill vill hv. þm. fresta ræðu sinni, það verður nú gefið fundarhlé.)

Þessar till., sem ég er að tala um, eru allar varatill. Við leggjum til, að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Fáist hún ekki samþ., viljum við með þessum varatill. gera tilraun til að kippa í lag ýmsu, sem í frv. er, þó að hins vegar sé ógerningur að flytja við það till., sem hefði þurft að gera. Nú á síðustu stundu er það ómögulegt, og í raun og veru þyrfti að umsteypa frv., til þess að það væri að mínu áliti frambærilegt. En ég hugsa mér, að ef rökst. dagskráin yrði samþ., þá mundi það koma mjög af sjálfu sér, að þær bendingar, sem kæmu frá sveitarfélögunum, sem mundu prófa stakkinn án þess að láta hann misþyrma sér, eins og gæti orðið, ef raunverulega á að vera í honum heilt ár, — þær bendingar, sem þessi sveitarfélög mundu gefa, mundu verða ómetanlegar einmitt fyrir n. og sú bezta upplýsing, sem hún gæti fengið.

Ég vil vekja athygli á því, að frv. þetta er nú þegar orðið svo seint á ferðinni, að eftir gildandi lögum um niðurjöfnun útsvara á að vera búið að jafna niður útsvörum í landinu. Ég býst við, að stærri sveitarfélögin séu ekki búin að því, og máske hafa þau dokað, af því að þau víssu, að þetta frv. var á ferðinni. En ekkert þætti mér ólíklegt, að ýmis hreppsfélög væru búin að ljúka þessu starfi og þess vegna næði frv. ekki til þeirra, nema ef svo færi nú, sem hefur ekki verið óþekkt í sögunni, að frv., sem á að vera til bráðabirgða, yrði varanlegt og menn sætu þá í spennitreyjunni lengur en til er ætlazt.

Ég ætla þá ekki að hafa mál mitt lengra núna, en vænti þess að geta fengið að segja nokkur orð, þegar þskj. liggur fyrir, og gera grein fyrir þeim till., sem þar eru og ég hef enn ekki í höndum.