02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2905 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

112. mál, útsvör

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í umr. um útsvarsfrv. bæði hér í þessari hv. d. og Nd. hefur nokkuð verið vitnað til erinda, sem borizt hafi til Alþingis um þetta mál, og hefur yfirleitt verið svo frá þeim skýrt, að mótmælum rigni hvaðanæva yfir Alþingi gegn frv., og meira að segja var svo komizt að orði í umr. í dag, að m.a. væru eindregin mótmæli frá ýmsum sveitarstjórnum gegn þessu frv.

Mér þykir ástæða til að leiðrétta nokkuð þessar missagnir. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram, að það er alrangt, að nokkur mótmæli hafi borizt Alþingi gegn frv. frá nokkurri bæjarstjórn eða nokkurri hreppsnefnd.

Þær ályktanir eða erindi, sem borizt hafa til Alþingis, hafa að langmestu leyti verið frá einni tegund aðila, þ.e.a.s. frá kaupfélögum eða kaupfélagsdeildum. Það er Blönduósdeild Kaupfélags Austur-Húnvetninga og fleiri samvinnufélög, sem hafa andmælt því, að heimilað sé að leggja útsvar á samvinnufélögin framar en nú er. Út af fyrir sig mátti alltaf búast við slíku. Það er reynsla, og vissulega má segja, að það sé mannlegt, að þeir, sem notið hafa einhverra forréttinda og sérréttinda um langan aldur, eru ófúsir að sleppa þeim og mótmæla, þegar á að koma á meira réttlæti í þessum efnum en verið hefur. Þetta þekkjum við ákaflega vel og þarf í rauninni ekki svo mjög að undra.

En meðal þeirra erinda, sem gerð hafa verið að umtalsefni, er erindi frá Vinnuveitendasambandi Íslands, og hefur verið vitnað i, að Vinnuveitendasambandið mótmæli frv. eindregið. Hér er farið með mjög rangt mál, og vildi ég nota þetta tækifæri til að leiðrétta það.

Í ályktunum frá nýafstöðnum aðalfundi Vinnuveitendasambandsins er vikið nokkuð að skattamálum, m.a. lýst ánægju yfir breytingum á tekjuskattslögunum og enn fremur ítrekuð fyrri mótmæli Vinnuveitendasambandsins gegn veltuútsvörum almennt. Þetta er ekkert nýtt. Við höfum vitað, og það hefur komið fram í ályktunum fyrr, að Vinnuveitendasambandið væri andvígt veltuútsvörum. En um leið og Vinnuveitendasambandið tilkynnti mér þessar ályktanir varðandi skatta- og útsvarsmálin, skýrði það nokkru nánar afstöðu sína, og vildi ég leyfa mér að lesa það upp hér, með leyfi hæstv. forseta, til þess að það liggi þó fyrir réttilega frá skýrt í þingtíðindum. Í bréfi Vinnuveitendasambandsins segir svo:

„Það hefur jafnan verið skoðun Vinnuveitendasambands Íslands, að því aðeins geti heilbrigð samkeppni þróazt og réttur samanburður verið gerður á hagkvæmni og raunverulegri afkomu hinna ýmsu rekstrarforma, að sömu skattar og skyldur séu lagðar á allan atvinnurekstur án tillits til þess, hver eigandinn er. Þess vegna teljum vér það verulega réttarbót, að útsvör verði lögð á samvinnufélög á sama hátt og atvinnurekstur annarra félagsforma, eins og lagt er til í frv. til laga um bráðabirgðabreyting á lögum um útsvör.“

Síðan ítreka þeir fyrri mótmæli gegn veltuútsvörum almennt, en segja síðan:

„Eins og áður hefur komið fram í ályktunum Vinnuveitendasambands Íslands, erum vér meðmæltir því að nema úr gildi ákvæði í lögum um, að leggja megi á útsvör eftir efnum og ástæðum. Vér teljum til bóta í fram komnu frv., að fyrirhugað er að gera útsvör frádráttarbær við álagningu útsvara. Þá teljum vér spor í rétta átt að ákveða í áðurnefndu frv. fast hámark veltuútsvars, meðan það er enn við lýði. Að endingu viljum vér taka fram, að vér teljum hámarksákvæðið í 5. gr. síðast og frv. sem heild framför frá núverandi ástandi“.

Ég tel rétt, að þetta komi fram, vegna þess að hér hafa verið gefnar alrangar myndir af afstöðu Vinnuveitendasambandsins, sem er sem sagt á þá leið, að það telur frv. í heild til verulegra bóta, lýsir sig beinlínis samþykkt aðalákvæðum frv., en ítrekar eins og fyrr, að almennt sé það andvígt veltuútsvörum.

Fyrst minnzt er hér á afstöðu samtaka atvinnuveganna, er kannske rétt að nefna hér einnig ályktun, sem ársþing iðnrekenda nú nýafstaðið gerði um þetta, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ársþing iðnrekenda 1960 telur frv. ríkisstj. um breytingar á útsvarslögunum spor í rétta átt og væntir þess, að það verði lögfest á yfirstandandi Alþingi.“

Ég gat þess hér og sérstaklega að gefnu tilefni úr ummælum hv. 9. þm. Reykv. (AGI), að það er rangt, að nokkur mótmæli hafi borizt gegn frv. frá nokkurri bæjarstjórn eða hreppsnefnd í landinu. Það hefur ekki ein einasta slík ályktun verið gerð.

Í þessum umr. hefur það verið mjög gagnrýnt, að ekki hafi verið haft nægilegt samráð við sveitarstjórnirnar í þessu efni, og sú mynd, sem hv. frsm. minni hl. gefur í þessu efni, er ákaflega ljót mynd af öllum aðförum ríkisstj. varðandi undirbúning og meðferð þessa máls. En vegna þess, að þar er farið mjög villandi með staðreyndir, tel ég rétt að rekja þetta nokkru nánar.

Það er fyrst rétt að geta þess, að tvö sambönd sveitarstjórna eru til hér á landi. Annað er Samband Ísl. sveitarfélaga, þar sem þau öll eru eða flestöll, og hitt er samband kaupstaðanna á Vestur-, Norður- og Austurlandi, og bæði þessi sambönd hafa mjög oft gert ályktanir um tekjustofna og fjárhagsmál sveitarfélaganna og útsvarslögin. Á stofnþingi Sambands ísl. sveitarfélaga var mörkuð stefnan í upphafi, og þar segir svo m.a.:

„Stofnþing Sambands íslenzkra sveitarfélaga samþykkir að skora á ríkisstj. að láta fara sem fyrst fram gagngerða endurskoðun á löggjöf þeirri, sem fjallar um tekjustofna sveitarfélaganna. Sérstaklega nauðsynlegt telur þingið, að útsvarslögin verði rækilega endurskoðuð og upp í þau tekin m.a. nánari ákvæði um reglur þær, er fylgja beri við álagningu útsvara, en nú eru þar.“

Enn fremur ákvað stofnþing sveitarstjórnasambandsins að skipa nefnd sveitarstjórnarmanna til þess að gera tillögur um fast kerfi fyrir álagningu útsvara, sérstaklega að því er tekur til hreppsfélaga, og felur þingið stjórninni að koma þeim till. á framfæri, þegar endurskoðun útsvarslaganna fer fram.

Það er svo greinilegt og skýrt sem verða má, að hér markar stofnþing Sambands ísl. sveitarfélaga þá stefnu, sem það hefur fylgt æ síðan, að útsvarslögin séu rækilega endurskoðuð, að settar séu nánari og fastari reglur um álagningu útsvara og lögboðið fast kerfi fyrir álagningu þeirra og þó alveg sérstaklega að því er tekur til hreppsfélaga. Þeim, sem fylgzt hafa með starfi sambandsins, er það einnig ljóst, að þessi hefur jafnan verið stefnan.

Ekki síður kemur þetta skýrt fram í ályktunum frá fulltrúafundum kaupstaðanna á Vestur-, Norður- og Austurlandi, og vil ég leyfa mér að rekja það nokkuð til skýringar, til þess að sýna hv. þdm. það svart á hvítu, að með þessu frv. er í öllum meginatriðum aðeins verið að framfylgja því, sem þessi sveitarstjórnasambönd bæði hafa markað sem sína eigin stefnu árum saman. Í ályktun fulltrúafundarins á Vestur-, Norður og Austurlandi 1955 segir svo m.a.:

„Bæjarfélögum heimilist að leggja veltuútsvar á rekstur bæði einstaklinga, hlutafélaga og samvinnufélaga. Hámark rekstrarútsvara verði ákveðið með lögum og reglugerð, er samin verði í samráði við stjórn Sambands íslenzkra sveitarfélaga.“

Í ályktun 1956 segir svo:

„Bæjarfélögum og sveitarfélögum, þar sem samvinnufélög eru staðsett, heimilist að leggja veltuútsvör á rekstur samvinnufélaga á sama hátt og rekstur einstaklinga og hlutafélaga. Hámark rekstrarútsvara verði ákveðið með lögum og reglugerð, er samin verði í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Álögð rekstrarútsvör verði frádráttarbær frá skatt- og útsvarsskyldum árstekjum fyrirtækisins.“

Og 1957 segir svo:

„Sett verði ákvæði um hámark veltuútsvara í hinum ýmsu greinum verzlunar og atvinnurekstrar og þau látin ná til alls rekstrar samvinnufélaga sem og alls annars rekstrar. Slík veltuútsvör séu frádráttarbær frá skatt- og útsvarsskyldum árstekjum fyrirtækisins.“

Það má hverjum manni vera ljóst, sem kynnir sér þessar ályktanir, að með þeim er einmitt mörkuð í meginatriðum sú hin sama stefna sem farið er inn á með þessu frv.

Varðandi undirbúning þessa máls er rétt að taka það fram, að ég sneri mér strax til formanns Sambands ísl. sveitarfélaga og óskaði eftir, að haft yrði sem allra nánast samstarf við sambandið um endurskoðun útsvarslaganna og heildarlöggjafarinnar um tekjustofna sveitarfélaga. Og í þá n., sem fjallar um þessi mál, voru valdir formaður sveitarstjórnasambandsins, varaformaður þess, bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum, forseti bæjarstjórnar á Ísafirði og ráðuneytisstjórinn í félmrn., sem sjálfur er þaulvanur sveitarstjórnarmaður, frá því að hann var sýslumaður á Austurlandi. Allir þessir 5 nm. voru því mjög vanir og kunnugir sveitarstjórnarmálefnum og samvinnan og sambandið við sveitarstjórnasambandið tryggt alveg sérstaklega með því að tilnefna formann og varaformann þess í n. Og ég vil segja, að hér var nokkuð annar háttur á hafður en því miður hefur oft verið áður og þá alveg sérstaklega í tíð vinstri stjórnarinnar, þegar hún m.a. skipaði n, til endurskoðunar á sveitarstjórnarmálunum án þess svo mikið sem að ræða við stjórn sveitarstjórnasambandsins eða óska eftir tilnefningu frá því um menn í þá endurskoðun.

En það var ekki nóg, að þessi háttur væri á hafður, heldur var varðandi samningu útsvarsstiga fyrir sveitarfélögin, önnur en kaupstaðina, stjórn sambands sveitarfélaganna alveg sérstaklega beðin um að semja þann útsvarsstiga í samráði við kunnugustu menn. Og hún kvaddi sér til aðstoðar fimm oddvita úr sveitahreppum, eins og getið er í grg. þessa frv., og af þessum reyndu og kunnu oddvitum eru þrír, sem eiga sæti hér á hv. Alþingi. Auk þessa var svo haft alveg sérstakt samráð við stjórn kaupstaðasambandsins á Vestur-, Norður- og Austurlandi, og stjórn þess kom hingað til samráðs við undirbúningsnefndina. Og útsvarsstiginn í 6. gr. þessa frv., fyrir aðra kaupstaði en Reykjavík, er beinlínis saminn í fullu samráði við stjórn þessa sambands.

Þegar litið er á undirbúning málsins og hversu náið samstarf hefur verið haft við sveitarstjórnarmenn og samtök þeirra, þá er það alveg furðulegt, að maður eins og hv. frsm. minni hl. heilbr.- og félmn., sem sjálfur hefur verið töluvert starfandi í sveitarstjórnasambandinu, skuli leyfa sér að viðhafa aðrar eins fullyrðingar og hér, að þetta mál sé í rauninni undirbúið og flutt án nokkurs samstarfs við samtök sveitarfélaga. Þar er hallað mjög réttu máli. Ég verð þvert á móti að segja, að ég veit ekki til þess, að varðandi mál, sem snertir sveitarfélögin, hafi nokkru sinni verið haft jafnnáið samstarf og samráð við samtök sveitarfélaganna og einmitt nú. Ég veit ekki til þess, að það hafi nokkurn tíma verið gert.

Ég verð einnig að segja, að mig undrar mjög á þeim ummælum í ræðum hv. minnihlutamanna úr heilbr.- og félmn., sem og í nál. þeirra, þar sem þeir slá því föstu, að frv. þetta sé mjög lélega undirbúið og sýni hroðvirkni og flaustur, og ég verð að segja, að mér finnst það ákaflega ómaklegt frá þessum mönnum að bera slíkt á borð og saka þessa ágætu og þrautreyndu fimm sveitarstjórnarmenn, sem í undirbúningsnefndinni eru, um flaustursverk, hroðvirkni og lélegan undirbúning, vegna þess að það er vitað mál, að þeir hafa lagt í þetta frv. mjög mikla vinnu og athugun.

Í rauninni er einnig það, sem stendur í nál. minni hl., hrein móðgun í garð þessara manna, þar sem gefið er í skyn, að þeir hafi verið algerlega viljalaus og skoðanalaus verkfæri í minni hendi. Mér skilst á því, sem hv. frsm. minni hl. hefur sagt hér og segir í nál., að þá hafi þessir menn í rauninni engar skoðanir haft og ekki gert annað en skrifa frv. eftir minni fyrirsögn. Ef þau hafa verið vinnubrögðin, þá hefði verið óþarfi að kalla þá til, ég hefði getað samið það sjálfur. En þetta er heldur léleg og vesældarleg tilraun hv. frsm. minni hl. n. til þess að reyna að koma höggi á ríkisstj. Það vita allir, að þetta frv. er verk þessara manna, sem í n. voru, enda er það venja, til þess eru n, skipaðar, sem eiga að undirbúa frv., að nm. láti skoðanir sínar og þekkingu koma þar fram.

Ég vil þvert á móti segja, að þessir fimm nm., sem undirbjuggu málið, eiga miklar þakkir skyldar fyrir þá miklu vinnu, sem þeir hafa í þetta lagt, og hversu þeir hafa alveg sérstaklega gert sér far um að kynna sér skoðanir sem allra flestra sveitarstjórna í landinu á þessu máli. Og þau gögn, sem n. hefur aflað sér úr fjölda, ef ekki flestum sveitarfélögum á landinu, sýna það vissulega, að hér var vel unnið og vandvirknislega.

Hv. frsm. minni hl. gerði hér að umtalsefni þær ályktanir, sem fulltrúaráðsfundur Sambands ísl. sveitarfélaga gerði nú í vor um þetta mál, og túlkun hans á þeim ályktunum er vægast sagt villandi.

Í fyrsta lagi, eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. n., var fyrst og fremst ein almenn tillaga um frv, borin fram, og hún var svo hljóðandi:

„Þar sem fulltrúaráðsfundurinn telur, að sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaganna um sín innri mál sé einn af hyrningarsteinum tilveru þeirra og sjálfstæðis, mótmælir hann eindregið fram komnu frv. um bráðabirgðabreyting á lögum um útsvör, þar sem það gerir m.a. ráð fyrir lögboðnum útsvarsstigum, og skorar því á Alþingi að fella frv.“

Hv. frsm. minni hl. gerði að vísu virðingarverða tilraun þar frá sínu sjónarmiði til þess að fá þessa mótmælatillögu samþykkta, en tókst ekki betur en svo, að aðeins tveir aðrir en hann sjálfur greiddu atkv. með henni, og till. var felld með 9:3 atkv. Út af fyrir sig gefur afgreiðsla þessarar till. nokkra mynd hér af, því að þau mótmæli gegn frv., sem þarna var reynt að koma á framfæri, m.a. þar sem gert væri ráð fyrir lögboðnum útsvarsstigum, var sem sagt felld með svona miklum atkvæðamun. Sú afgreiðsla segir vissulega sína sögu. Varðandi ályktanir fundarins að öðru leyti, þær sem afgreiddar voru, verður því ekki neitað, að þessar ályktanir eru nokkuð loðnar og óljósar, og eru auðsæ fingraför hv. frsm. minni hl. n., 1. þm. Norðurl. e., á þeim, enda vita það allir, sem fylgdust nokkuð með þessum fundi, að hann hafði þar töluverð áhrif á.

Það er margt, sem vekur nokkra undrun í þessu sambandi, t.d. þessi till., sem ég nefndi og felld var með miklum atkvæðamun, um að mótmæla frv., vegna þess að gert væri ráð fyrir lögboðnum útsvarsstigum. Hún var flutt af sama manni sem hafði skömmu áður flutt á fundi Sambands ísl. sveitarfélaga svo hljóðandi till.:

„Þar sem vaxandi ósamræmis gætir í álagningarreglum sveitarfélaganna við niðurjöfnun útsvara, skorar fulltrúaráðsfundurinn á Alþingi og ríkisstj. að láta þegar á þessu ári fara fram endurskoðun á reglum um álagningu útsvara og hafa um það sem nánust samráð við Samband ísi. sveitarfélaga.“

Þessi till., bæði eins og orðalag hennar ber með sér og efni hennar og túlkun, var á þá leið, að það væri brýn nauðsyn að fá lögfestar fastar reglur um niðurjöfnun útsvara. En sá hinn sami sem hafði flutt þetta, hann kemur nú og vill mótmæla frv. um útsvör vegna þess, að það geri ráð fyrir föstum og lögboðnum útsvarsstiga. Það bendir vissulega til þess, að þarna hafi verið einhver öfl að verki, sem höfðu meiri áhuga á öðru en að gæta samræmis við fyrri stefnumál Sambands íslenzkra sveitarfélaga, og það er vitað, að fyrir einstaka manni á þessum fulltrúaráðsfundi mun það hafa vakað öllu meira að reyna að fá einhver andmæli eða einhverja ályktun, sem gæti gert ríkisstj. erfiðara fyrir, heldur en hitt, að þoka fram umbótum fyrir sveitarfélögin.

Ef svo litið er á þessar ályktanir, þá segir í fyrsta lið, að varhugavert sé að lögbjóða án frekari undirbúnings og athugunar framvegis til frádráttar tekjum við útsvarsálagningu útsvar fyrra árs, annað en veltuútsvar. M.ö.o.: það virðist mega lesa út úr þessari till., að fundurinn hafi verið þó samþykkur því, að veltuútsvör væru frádráttarbær, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Niðurlag þessarar ályktunar er svo, að því væri athugandi, að þetta ákvæði yrði aðeins heimildarákvæði. Að því leyti sem eitthvað ákveðið er í þessari loðnu till., þá er það helzt þetta, að fundurinn sé samþykkur því, að veltuútsvörin séu frádráttarbær.

Í öðrum lið ályktunarinnar segir, að ekki sé rétt, að samvinnufélög greiði útsvör af skiptum sínum jafnt við félagsmenn og utanfélagsmenn eftir sömu reglum og kaupmenn sama staðar. Eins og þessi till. var túlkuð á fundinum, var hún ekki mótmæli gegn því, að á samvinnufélög væru lögð útsvör, heldur var aðaláherzlan lögð á það, að þetta væri ekki heppilegt orðalag, að segja, að þau skyldu greiða útsvörin af viðskiptum sínum jafnt við félagsmenn og utanfélagsmenn eftir sömu reglum o.s.frv. En síðast segir í þessari sömu ályktun: „Þyrftu því að vera í frv. nánari ákvæði um það efni og sérstaklega nákvæmari skilgreining á því, hvað orðið velta þýðir í frv., t.d. í sambandi við umboðssölu og framleiðslufélög, sem starfa á samvinnugrundvelli.“

Nú hefur hv. frsm. minni hl. látið sér þau orð um munn fara hér, að allar ályktanir þessa fulltrúafundar hafi verið hunzaðar og ekkert tillit tekið til þeirra. Þetta er alrangt. M.a. gerði ég sérstakar ráðstafanir til þess að freista þess að fá í frv. eftir óskum fulltrúaráðsfundarins nánari skilgreiningu á því, hvað velta þýddi í frv., sérstaklega í sambandi við umboðssölu og framleiðslufélög, sem starfa á samvinnugrundvelli. Undirbúningsnefndinni var falið að athuga þetta, og hún kvaddi tvo mjög reynda menn í útsvars- og skattamálum sér til ráðuneytis um það. Það voru þeir Halldór Sigfússon skattstjóri í Reykjavík og Guttormur Erlendssson formaður niðurjöfnunarnefndar hér. Þeir sögðu svo um þetta efni, að sérstaklega hefði verið óskað eftir því, að athugað væri að ákveða nánar en gert er í frv., hvað telja beri til útsvarsskyldrar veltu, sérstaklega þegar um ýmsar tegundir umboðssölu er að ræða, og þá fyrst og fremst með hliðsjón af því, að ákvæði tilvitnaðrar frvgr. bitnuðu ekki með fullum þunga á sölu innlendra landbúnaðarog sjávarafurða. Þeir athuga það svo rækilega, hvernig væri hægt að koma þessu við, telja, að það gæti komið til orða að setja sérreglur um álagningu veltuútsvars hjá sérstökum félögum og samlögum, sem annast sölu eða úrvinnslu á afurðum meðlima sinna, en telja á því veruleg vandkvæði. Í öðru lagi ræða þeir þann möguleika að sleppa veltuútsvari á einhverju sölustigi framleiðsluvörunnar. Það telja þeir líka annmörkum háð, og till. þeirra beggja er því sú að setja skorður við veltuútsvarsupphæð umfram það, sem gert er í frv., og segja þeir: „Teljum við þá leið heppilegasta og leggjum til, að aftan við 5. og 6. gr. frv. bætist eftirfarandi ákvæði“— og það er sams konar ákvæði og tekið var inn í frv. í 8. gr. 2. mgr.: „Útsvar af landbúnaðarafurðum framleiddum innanlands og seldum í umboðseða heildsölu má eigi meiru nema en 21/2%.“ Þetta er nákvæmlega eftir till. þessara tveggja manna, og þetta hámark, 21/2%, er sett sem öryggisráðstöfun fyrir landbúnaðinn eða landbúnaðarframleiðsluna. Þetta er sem sagt árangurinn af því, að sérstaklega var freistað að verða við þessum óskum fulltrúa sveitarstjórnasambandsins, sem getur hér í 2. lið.

Þriðja ályktun fulltrúaráðsfundarins var svo sú, að rétt væri að fyrirskipa sýslunefndum að samræma útsvarsálagningu hverri í sínu umdæmi, áður en fastákveðinn er með lögum sérstakur útsvarsstigi fyrir hreppsfélög. Ég tel þessa ábendingu ekki til bóta. Ég álít, að það sé ekki fengur að því að blanda þarna enn nýjum aðila í þetta mál, þar sem eru sýslunefndirnar. Sýslunefndir hafa ekkert með niðurjöfnun útsvara að gera í landinu annað en það, að þær hafa visst eftirlit að vísu með niðurjöfnun, að sínu leyti eins og félmrn. hefur visst eftirlit með niðurjöfnun útsvara í kaupátöðum. Ég held, að til þess að samræma útsvarsstigana í landinu séu miklu heppilegri þau vinnubrögð, að það sé gert fyrir milligöngu Sambands ísl. sveitarfélaga og kaupstaðasambandsins á Vestur-, Norður- og Austurlandi, og það sé ekki fengur að því að fara að blanda sýslunefndunum sérstaklega þar inn í. Auk þess er ljóst, að ef sú leið væri farin og einhver árangur yrði af því að samræma útsvarsstigana innan hverrar sýslu, þá skapast enn þeir örðugleikar að samræma svo milli sýslufélaganna innbyrðis, því að ef svo færi, að sýslunefndir gætu samræmt eitthvað hver innan sinna marka, þá er viðbúið, að það yrði ósamræmi milli þessara nýju útsvarsstiga fyrir hverja sýslu, og þyrfti þá að leggja í það alveg nýja vinnu og fyrirhöfn að samræma útsvarsstiga hverrar sýslu, og þyrfti auðvitað þá að nýju að leita um það mál til hreppsnefndanna og gæta þess, að þeir nýju útsvarsstigar hentuðu fyrir hreppsfélögin. Ég tel því, að þessi ábending sé ekki til bóta og væri ekki æskilegt að fara þá leið.

Þegar litið er á afstöðu til sveitarfélaganna og allan undirbúning málsins, þá held ég, að sé óhætt að fullyrða, að um þetta mál og undirbúning þess hafi verið haft meira samráð við samtök sveitarfélaganna en nokkurt annað mál, sem lagt hefur verið fyrir Alþingi, og að meginatriði þessa frv. eru einmitt í beinu samræmi við og í framhaldi af þeim ályktunum, sem ár eftir ár hafa verið gerðar hjá þessum samtökum sveitarfélaganna.

Þá hefur mjög verið vikið að því í umr. á Alþ. um þetta mál, að með þessu frv. sé verið að svipta sveitarfélögin sjálfsforræði og binda hendur þeirra um of. Í rauninni er þá fyrst nauðsynlegt að gera sér nokkra grein fyrir þeim alveg furðulegu mótsögnum, sem úir og grúir af í málflutningi andstæðinga frv. Við heyrum hér, að annars vegar er talað um hinn fornhelga, aldagamla rétt um að jafna niður eftir efnum og ástæðum. Ég hef svarað því áður, hversu fjarri lagi þetta er, því að ákvæði um heimildir fyrir hreppsnefndir eða sveitarstjórnir til að jafna niður eftir efnum og ástæðum eru ekki gömul, það eru ekki gamlar reglur.

Ef við tökum t.d. afstöðu Alþb. fyrst, þá flutti formaður þingflokks þess langar og hávaðasamar ræður í Nd. um þetta mál, þar sem hann annars vegar hélt því fram, að sveitarfélögin ættu að hafa algert frelsi til að jafna niður eftir efnum og ástæðum og þann rétt mættum við undir engum kringumstæðum skerða. En þegar hann var búinn að lýsa þessum helga sjálfsákvörðunarrétti, bætti hann því við, að auðvitað yrði að banna sveitarfélögunum með lögum að leggja útsvör á kaupfélögin og enn fremur yrði að banna sveitarfélögunum með lögum að leggja á tilteknar lágmarkstekjur. M.ö.o.: um leið og sveitarfélögin áttu að hafa algert frjálsræði óháð löggjafarvaldinu, þá var þeim þó ekki treystandi til þess að gera þessa hluti rétt og sanngjarnlega.

Ef við lítum á Framsfl., virðist vera töluvert ósamræmi í skoðunum þar. Það kom t.d. fram í umr. í Nd., og nokkuð hefur bólað á því hér raunar líka, að sumir þm. Framsfl. vilja halda sér ákveðið við regluna um efni og ástæður, og t.d. lýsti einn hv. þm. Framsfl. því yfir í Nd., að hann teldi regluna um niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum réttlátasta. Svo aftur á móti var flokksbróðir hans, sem lýsti því yfir, — það mun hafa verið hv. 4. þm. Reykn., — að þessi regla um niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum væri úrelt og óframkvæmanleg og að það væri til bóta að ákveða í lögum fasta útsvarsstiga. Þar stangast ekki aðeins þetta á, heldur yfirleitt ræðuhöld hér, þar sem annars vegar er því haldið fram, að sveitarfélögin eigi að hafa algert sjálfsforræði í þessum efnum, miklu meira en er í gildandi lögum, en svo um leið er dembt yfir okkur hér brtt, um það að binda hendur sveitarfélaganna miklu meira en gert er í frv. M.a. hefur hv. frsm. minni hl. gert sig sekan um þetta ósamræmi og mótsögn. Hann lýsir því með sterkum orðum, að það sé verið að binda hendur sveitarfélaganna og taka af þeim sjálfsforræði þeirra, en sjálfur flytur hann hér ýmsar till. um það að binda hendur sveitarfélaganna miklu meira en gert er í frv. M.a. má nefna hér eitt lítið dæmi. Ég býst við, að flestar sveitarstjórnir eða niðurjöfnunarnefndir og hreppsnefndir leyfi venjulegan fyrningarfrádrátt, venjulegar fyrningarafskriftir hjá fyrirtækjum, eins og þær eru almennt ákveðnar í skattalögum. Þó er einstaka undantekning þar frá, að niðurjöfnunarnefndir og sveitarstjórnir hafa ekki leyft fyrningarafskriftir. M.a. mun það vera þannig á Akranesi, þar sem einn af flokksbræðrum hv. framsóknarþingmanna er bæjarstjóri og hefur átt sæti um tíma á þessu þingi nú. Þar er sem sagt ekki tekið tillit til fyrningarafskrifta. En svo er einn af flokksbræðrum hans hér, sem ber fram till. um að banna honum beinlínis í þessu frv. eða þessum lögum að hegða sér svona. Hann flutti í hv. Nd. till. um að skylda allar niðurjöfnunarnefndir, allar sveitarstjórnir til þess að leyfa hinn almenna fyrningarfrádrátt. M.ö.o.: hann vill setja sérákvæði, fyrst og fremst væntanlega til þess að banna þessum flokksbróður sínum, bæjarstjóranum á Akranesi, og samherjum hans að hegða sér eins og hans vandi hefur verið varðandi þetta mál.

Í rauninni, þegar litið er almennt yfir mótmælin hér á þingi eða gagnrýnina á þessu frv., þá verður það að segjast, að það, sem undrar mann mest, eru hinar herfilegu mótsagnir í málflutningnum, ekki aðeins milli stjórnarandstæðinganna, þ.e.a.s. Framsfl. og Alþb., innbyrðis, hvort á móti öðru, heldur líka innbyrðis í þessum flokkum, þar sem hver þm. í rauninni stangar annan.

Nú er það svo, að í núgildandi lögum hafa sveitarstjórnir auðvitað ekki alveg frjálsar hendur við niðurjöfnun. Þær eru bundnar við ýmsar reglur. T.d. er sú regla í lögum nú, að heildarupphæð útsvaranna má í engu sveitarfélagi nema hærri upphæð en meðaltali síðustu þriggja ára að viðbættum fimmtungi, nema með sérstöku leyfi ríkisstj. Auk þess eru með sérstökum lögum gerðar ýmsar undanþágur, fyrirtæki og félagsform njóta sérstakra forréttinda, annaðhvort algerlega undanþegin eða að einhverju leyti. Eftir þessu frv. hafa sveitarstjórnirnar auðvitað allfrjálsar hendur. Hér er gert ráð fyrir þremur útsvarsstigum, en þó þannig, að varðandi veltuútsvörin er það aðeins heimild og ekkert sveitarfélag er skylt samkv. þessu frv. að leggja á veltuútsvar, það er engin skylda til þess. Enn fremur geta sveitarstjórnirnar lækkað eða slegið af þeim útsvarsstigum, sem hér eru, alveg ótakmarkað. Þær geta slegið af þeim eins hárri hundraðstölu og þeim sýnist. Á hinn bóginn hafa þær heimild til þess, ef nauðsynlegt er að ná meiri tekjum en útsvarsstigarnir gefa, að hækka útsvarsstigana um allt að 30% . Auk þess er þess að geta, að kaupstaðir aðrir en Reykjavík hafa heimild til þess að velja milli tveggja útsvarsstiga. Þeir geta jafnað niður eftir 6. gr., hinum almenna kaupstaðastiga, eða valið Reykjavíkurútsvarsstigann, ef þeir kjósa það heldur. Varðandi sveitahreppana er valfrelsið enn meira, því að þeir geta valið milli þriggja útsvarsstiga eða allra, sem í frv. eru. Þeir geta jafnað niður eftir 7. gr., þeir geta valið líka kaupstaðastigann og þeir geta valið útsvarsstiga Reykjavíkur, ef þeir kjósa heldur.

Ég ætla, að með þessu frv. sé sveitarstjórnunum veitt svo mikið frjálsræði við niðurjöfnun útsvara, að ég efast um, að nokkur sveitarstjórn í landinu óski eftir að hafa meira frjálsræði, því að það hefur iðulega komið fram, eins og ég gat um áðan, að samtök sveitarfélaganna og ég ætla allur þorri sveitarstjórnarmanna í landinu óskar beinlínis eftir því, að útsvarsstigar séu lögboðnir, m.a. vegna þess, að það skapar þeim, sem jafna niður, svo miklu þægilegri aðstöðu að hafa ákveðna lögboðna stiga, sem jafnað er niður eftir, þó að svo sé nokkurt valfrelsi um hækkun eða lækkun frá þeim stiga.

Þá er um það rætt, að fólki sé mismunað eftir því, hvar það býr, og allsterk orð hafa verið notuð í umr. á Alþ. um þetta. M.a. hafði hv. 9. þm. Reykv. (AGI) orð um það hér áðan, að hann var mjög hneykslaður á því, að með þessu frv, væri fólki mismunað og væri ætlað mismunandi þungt útsvar eftir því, hvar það býr í landinu, og þessu er hann algerlega andvígur. Nú hefur þessi hv. þm. átt í nokkur ár sæti í bæjarstjórn og hefur kynnt sér töluvert bæjarmál. Það er alveg furðulegt að heyra slíka menn, sem eitthvað hafa fengizt við bæjar- og sveitarstjórnarmál, tala eins og þeir hafi ekki hugmynd um, að það séu til nú mismunandi útsvarsstigar eða útsvarskerfi í landinu. Þessir menn tala hér á hv. Alþ. eins og það séu nákvæmlega sömu reglur, sem nú gilda í öllum kaupstöðum og sveitarfélögum landsins um útsvör, það sé bara einn útsvarsstigi, — koma hingað og belgja sig af hneykslun út af því, að nú eigi að fara að mismuna fólki eftir því, hvar það býr í landinu. M, a. talaði hv. 4. þm. Vestf. (SE) um daginn af miklum móð um þessi rangindi. Hér er sannleikanum snúið svo kirfilega við sem frekast er unnt að gera. Það er vitað, að nú eru um eða yfir 200 mismunandi útsvarsstigar eða útsvarskerfi í landinu, og eitt aðalatriði þessa frv. er að fækka þessu og að mismuna fólkinu minna eftir því, hvar það býr, heldur en verið hefur. Það hefur ekki þótt fært í þessu frv. að bera fram till. um einn útsvarsstiga fyrir allt landið, það þarf miklu meiri reynslu og meiri undirbúning til þess. En í meginatriðum er hér um 3 útsvarsstiga að ræða, sem er náttúrlega ákaflega mikil framför og mikið spor í samræmingarátt frá því, sem verið hefur, þannig að þeir, sem hafa mikinn áhuga á því, að fólkinu sé ekki mismunað í landinu eftir því, hvar það býr, ættu að fagna ákvæðum þessa frv., þar sem þó þetta er mjög stórt spor í átt til samræmingar. Að leyfa sér að halda því fram, að með frv. sé sveitahreppunum lögskipað að leggja þyngri útsvör á íbúana þar en er í Reykjavík og öðrum kaupstöðum, er auðvitað hrein fásinna, því að eins og ég gat um áður, þá getur hver einasta sveitarstjórn á landinu jafnað niður eftir 5. gr., eftir lægsta útsvarsstiganum, eftir Reykjavíkurstiganum.

Svo er samræmið í málflutningnum þarna eins og oftar, að þeir sömu menn, sem hneykslast á því, að þetta frv, bindi hendur sveitarstjórna of mikið, þeir hneykslast um leið á því, að það eigi að vera þrír útsvarsstigar. Nei, nei, það átti að vera einn útsvarsstigi, sem sé bindandi fyrir alla. Það má ekki mismuna fólkinu eftir því, hvar það býr. Hvað þýðir það? Það þýðir það, að þá á að vera einn og sami útsvarsstigi fyrir allt landið. M.ö.o.: um leið og þeir segja, að hendur sveitarfélaga séu allt of bundnar með þessu frv., þá segja þeir um leið: Hendur sveitarfélaga þarf að binda miklu meira með því að lögbjóða bara einn stiga.

Það er sama, hvar á er litíð, alls staðar er sama ósamræmið og mótsagnirnar í þessum efnum.

Enn fremur er því svo haldið fram, að þetta útsvarsfrv. sé aðeins til hagsbóta fyrir hátekjumenn, það sé gagnslaust fyrir þá, sem lægri hafa tekjur, miðlungs- eða minni tekjur, jafnvel skaðlegt. Hver er sannleikurinn í þessu efni? Nú er ástandið þannig, að sum sveitarfélögin í landinu hafa ekkert tekjulágmark til að jafna niður. Þau jafna niður útsvörum á allra lægstu tekjur, hversu lágar sem þær eru. Meira að segja er gengið lengra. Þess eru dæmi, að sveitarfélög leggi á útsvör, þó að tekjur séu engar, það sem sumir hafa viljað kalla tilveruútsvar, bara fyrir það að vera til. Þannig er t.d. þess dæmi, að hreppsfélag leggur á útsvar án tillits til tekna, lægst 370 kr., svo byrjar þar að auki álagning á tekjurnar, nettótekjurnar, þegar þær ná 3000 kr. Fyrir utan tilveruútsvarið án tillits til tekna eru mörg sveitarfélög nú, sem leggja á allar tekjur, hversu lágar sem þær eru, stundum er byrjað á 3000 kr., stundum er byrjað á 6000 kr., stundum er byrjað á 7700 kr., stundum er byrjað á 8000 kr.

Nú er það þannig, að öllum þeim sveitarfélögum, sem hafa þessar reglur að leggja á útsvör, annaðhvort tilveruútsvar eða að leggja útsvar á tekjur, sem eru lægri en 7000 kr., þeim er bannað það nú, m.ö.o., að menn með lægstu tekjur verða miklu betur úti eftir þessu frv. en þeir eru nú í mörgum sveitarfélögum. Við getum tekið sem dæmi einn kaupstað, sem er Siglufjörður. Nú er það þannig, að þar er byrjað að leggja útsvör á 8000 kr. Siglufjörður mun falla undir 6. gr., þannig að þar er ekki heimilt að leggja á fyrr en 15 þús. kr. tekjur, m.ö.o.: fyrir hina tekjulægri í þessum kaupstað er því mikill hagur að frv. Við getum ekki aðeins nefnt þessar lægstu tekjur, við skulum nefna einnig Siglufjörð, að á t.d. verkamannatekjum, við skulum segja 50 þús. kr., er útsvar á Siglufirði nú tæpar 8 þús. kr., en mundi eftir útsvarsstiga 6. gr. í frv. lækka í 6200 kr., þannig að ef Siglufjörður léti sér nægja þennan útsvarsstiga án þess að leggja ofan á hann einhverjar prósentur, lækkar verkamaður með venjulegar verkamannatekjur, t.d. 50 þús., um nærri 1800 kr. samkv. frv. Þannig mætti lengi telja, að einmitt fyrir hinar lægstu tekjur er frv. til mikilla hagsbóta í mjög mörgum greinum og væntanlega í flestum sveitarfélögum landsins.

Í þessu sambandi vil ég einnig minna á það, sem ég hef áður upplýst, — það var í sambandi við umr. um söluskatt, — að það er alrangt, að þær breyt. á sköttum, sem gerðar eru nú á þessu þingi með því að lækka beinu skattana og taka almennan söluskatt í staðinn, séu til óhags fyrir fátækari fjölskyldurnar. Ég sýndi fram á það þá, að sú fjölskylda, sem hefur þær tekjur, sem vísitalan er útreiknuð eftir, hagnast á þessari breyt., þannig að afnám 9% söluskattsins og afnám tekjuskattsins og hin fyrirhugaða lækkun útsvara hér í Reykjavík á þessari fjölskyldu, þetta nemur samtals nokkru hærri upphæð en 3% söluskatturinn, sem kemur nýr á. En þær tölur voru í stórum dráttum á þá leið, að þessar lækkanir á sköttum, sem ég gat um varðandi þessa fjölskyldu, nema um 2200 kr., en söluskatturinn um 1400 kr., þannig að það er alrangt, sem hér er haldið fram, að þessar breyt. á skattakerfinu, sem verið er að gera og gerðar hafa verið á þessu þingi, geri hinum fátækari og efnaminni erfiðara fyrir, því að það er þvert á móti, með þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru, — og ég vil taka það fram, að vitanlega verður útsvarsfrv., sem hér liggur fyrir, að skoðast í beinu sambandi við frv. um jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem hefur verið afgreitt, vegna þess að þetta útsvarsfrv. og þeir stigar, sem í því eru, og aðrar reglur, er beinlínis byggt allt saman á því, að sveitarfélögin fái þann hluta af söluskattinum, sem lögfest hefur verið. En einmitt með því að ætla sveitarfélögunum þennan hluta af söluskattinum hafa verið skapaðir möguleikar á því að lækka útsvörin, og útsvörin í heild í landinu eiga á þessu ári að verða 50–60 millj. lægri en þau hefðu orðið, ef ríkisstj. hefði ekki beitt sér fyrir frv. um jöfnunarsjóð og sveitarfélögin fengju ekki hluta af söluskattinum. Um það, hve mikið útsvörin lækka á hverjum stað, get ég ekki fullyrt neitt hér nema varðandi Reykjavík, að þar er gert ráð fyrir, að útsvörin lækki um 10–15% frá því, sem var í fyrra.

Ég skal ekki fara út í mörg fleiri atriði, en vildi aðeins láta þessi sjónarmið koma hér fram og leiðrétta að nokkru þær missagnir, sem slæðzt hafa inn í ræður manna. En varðandi veltuútsvarið, sem hér er mjög gagnrýnt, vil ég endurtaka það, sem ég margsinnis áður hef sagt, að ég tel, að veltuútsvarið sé neyðarúrræði og vandamál, sem við þurfum að glíma við, og að því beri að stefna að losna við veltuútsvarið í núverandi mynd.

En rétt er, vegna þess að veltuútsvarið er mjög rætt í sambandi við þetta mál, að athuga, hvernig veltuútsvörin eru til komin. Það vita allir, að í rauninni eru tvær meginástæður til þess, að veltuútsvör voru upp tekin. Önnur er sú, að framtölum þótti í ýmsum efnum víðs vegar um land mjög áfátt og að niðurjöfnunarnefndum og hreppsnefndum þótti það ekki eðlilegt, að kannske stór fyrirtæki, sem höfðu mikið umleikis og nutu þjónustu og fyrirgreiðslu sveitarfélaganna í stórum stíl, en töldu sig ekki hafa tekjur af rekstri sínum, slík fyrirtæki greiddu ekkert til síns bæjareða sveitarfélags. Í annan stað var það, að útsvarsstigar víða á almenningi voru orðnir svo háir, að ekki þótti á það bætandi, og til þess að ná inn heildarupphæð útsvaranna þurfti því að grípa til þessa ráðs. En í rauninni er meginorsökin til þess, að veltuútsvörin voru upp tekin, skortur sveitarfélaganna á tekjustofni, og nú um heilan áratug hefur það verið aðalbaráttumál sveitarfélaganna og samtaka þeirra að fá lögfesta nýja tekjustofna fyrir sveitarfélögin. En hvernig undirtektir hefur það mál fengið hér á Alþingi? Því er fljótsvarað, að á Alþingi og sérstaklega í þremur stjórnmálaflokkum hefur verið verulegur skilningur á því í þessu efni, þ.e. í Sjálfstfl., Alþfl. og Alþb. eða Sósíalistaflokknum. Hins vegar hefur einn stjórnmálaflokkur frá upphafi verið ákaflega skilningslitill á þessar þarfir. Það kom að vísu fyrir einu sinni, að hv. frsm. minni hl. heilbr.- og félmn. gerði það fyrir siðasakir að verða meðflm. að frv. um hluta sveitarfélaganna af söluskatti, en ekki tókst honum að fá flokk sinn með í það, og þannig var það jafnan, meðan Framsfl. hefur haft ráðh. í ríkisstj., að aldrei hefur fengizt nein leiðrétting á þessum málum. Ég minnist þess t.d. á þinginu 1951, þegar samþykkt var í Nd. till. um það í sambandi við söluskattinn, að hluti hans skyldi renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna, þá gerðist hvorki meira né minna en það, að bæði forsrh. og fjmrh., sem báðir voru úr Framsfl., risu upp og lýstu því yfir, að þeir mundu tafarlaust rjúfa stjórnarsamstarfið, ef þessi firn ættu fram að ganga. Þeim tókst þá að stöðva þetta mál. Ár eftir ár hefur þetta verið borið fram, m.a. flutti ég það mál á þingi 1957, að sveitarfélögin fengju hluta af söluskattinum. Það tókst ekki að fá það samþykkt, enda var þá Framsfl. í stjórn, en þó náðist samkomulag um það hér í þessari hv. d. að samþykkja svo hljóðandi þáltill.:

„Efri deild Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að undirbúa og leggja fyrir næsta Alþ, frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga.“

Þetta var samþykkt í Ed. Alþingis 28. maí 1958. Auðvitað datt vinstri stjórninni ekki í hug að gera handtak í þessu efni. Nú er það fyrst eftir að Framsfl. hefur oltið úr stjórnaraðstöðu, sem þetta mál hefur verið tekið upp og komið fram, og eftir reynslu minni af Framsfl., því að þannig hefur verið með Sjálfstfl., að hann hefur á undanförnum árum verið alllengi í samstarfi við þann flokk, hefur það verið alveg óhugsandi að koma fram nokkrum umbótum í fjárhagsmálum sveitarfélaganna eða fá nýja tekjustofna í samstarfi við Framsfl. Það hefur alltaf strandað á honum, og það er í rauninni þannig varðandi ráðamenn þar og þá ekki sízt formann þingflokks framsóknarmanna, sem lengst af hefur verið fjmrh. og ráðið mest í þessum málum, að í sveitarstjórnarmálum er alveg óhætt að segja, að áhugi hans er neikvæður og þekkingin engin í þeim efnum. Nú hins vegar hefur þetta baráttumál sveitarstjórnanna og samtaka þeirra orðið að veruleika, þannig að lögfest hefur verið, að hluti söluskattsins, 56 millj. á þessu ári, gangi til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna og þaðan sé því úthlutað til sveitarfélaganna. Mín skoðun er sú, að lengra þurfi að ganga í þessu efni og hækka það framlag eða þann hluta af söluskattinum, sem gengur til sveitarfélaganna, en út í það mál skal ég ekki fara á þessu stigi.

Í sambandi við þessar umr. hefur það komið fram, bæði í hv. Nd. og eins við umr. hér, að niðurjöfnunarnefndin í Reykjavík hafi á s.l. ári af ásettu ráði ekki lagt útsvar á Samband ísl. samvinnufélaga, þó að hún hefði getað það. Hv. 1. þm. Norðurl. e. viðhafði orð í þessa átt við 1. umr., sem að vísu var dálítið erfitt að átta sig á, hvað þýddu, þau voru dálítið óljós og loðin, en beindust þó efnislega að því sama, sem hv. 1. þm. Austf. sagði í Nd. um málið, og hann lét þau orð falla, að niðurjöfnunarnefndin hefði ekki lagt á Sambandið af ásettu ráði, manni skildist af pólitískum ástæðum, til þess að gera Sambandið óvinsælt á þennan hátt í Reykjavík og víðar um land, þó að n. hefði vel getað lagt á Sambandið. Í rauninni er þetta afskaplega furðuleg yfirlýsing frá þeim manni og þeim báðum, sem ég gat um, vegna þess að þessi yfirlýsing þýðir í rauninni það, að þessir hv. þm, framsóknarmanna eru að segja, að framtal Sambandsins hafi ekki verið neitt að marka. Það eru alveg fastar reglur um þetta efni, og hæstiréttur hefur kveðið upp skýran dóm um það, eftir hvaða reglum megi leggja á samvinnufélögin, og þegar samvinnufélag eða samvinnusamband hefur ekki tekjur eða hagnað af viðskiptum við utanfélagsmenn, þá má ekki á þau leggja. Nú taldi Sambandið í fyrra, að það hefði á árinu 1958 haft 5 millj. kr. tap á skiptum við utanfélagsmenn, og þess vegna var ekki hægt á það að leggja. Nú segja þessir tveir ráðamenn í Framsfl., að þetta hafi verið tóm vitleysa af n., vegna þess að það hafi ekki verið eitt orð að marka í þessu framtali Sambandsins, og finnst mér það vissulega koma úr hörðustu átt, þegar þessir þm. eru að bera slík brigzl á Samband ísl. samvinnufélaga, að framtöl þess séu markleysa ein. Nei, það, sem niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur gerði í fyrra, var auðvitað það eina, sem hægt var að gera samkv. lögum og samkv. hæstaréttardómi, þannig að ef, þrátt fyrir það að Sambandið taldi sig hafa verulegt tap af utanfélagsviðskiptum, n. hefði samt sem áður lagt á Samband ísl. samvinnufélaga, þá hefði sú álagning vitanlega verið felld niður, annaðhvort af yfirskattanefnd eða ríkisskattanefnd eða þá með dómi, og þetta fyrirtæki hefur ekki vílað fyrir sér að fara alla leið til hæstaréttar til að fá létt af sér útsvörum.

Ég held, að það sé óhætt að segja og slá því föstu, að hin harðvítuga andstaða og barátta framsóknarþm. gegn þessu frv. er ekki sprottin af umhyggju fyrir sveitarfélögunum, engan veginn, og hún er ekki sprottin af umhyggju fyrir lágtekjumönnum. Það má vera, að þeir hugsi þannig sjálfir, að þetta sé af umhyggju fyrir samvinnufélögunum. Ég ætla, að það sé þá mjög misskilin umhyggja, vegna þess að ég er sannfærður um, að það er ekki samvinnuhreyfingunni eða samvinnuhugsjóninni í hag að ætlast til, að sá félagsskapur haldi sérstökum forréttindum í útsvarsmálum, og alveg sérstaklega vegna þess, að þá er það auðvitað lýðum ljóst, að eftir því sem viðskipti í einu sveitarfélagi aukast við samvinnufélögin, minnkar hlutur þess sveitarfélags í útsvörum af verzlunarrekstrinum, og sá hluti hlýtur auðvitað að leggjast yfir á bak almennings, alveg eins og t.d. hér í Reykjavík, að ef þetta stærsta verzlunarfyrirtæki landsmanna greiddi útsvar eins og önnur verzlunarfyrirtæki, þá mundu það vera allmargar milljónir, sem útsvörin á öllum almenningi í Reykjavík gætu verið léttari.

Ég læt þessar aths. nægja, en vísa að öðru leyti til þeirrar almennu grg. um þetta frv., sem ég flutti við 1. umr. málsins.