02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2920 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

112. mál, útsvör

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja skrifl. brtt. við 7. gr. frv.

Í 5. gr. frv. segir um útsvör í Reykjavík: „Frá útsvari, eins og það reiknast samkvæmt þessum stiga, er veittur fjölskyldufrádráttur, kr. 800.00 fyrir konu, en fyrir hvert barn innan 16 ára aldurs á framfæri gjaldanda samkvæmt þeim reglum, sem hér fara á eftir: Fyrir 1. barn kr. 1000.00, fyrir 2. barn kr. 1100.00, fyrir 3. barn kr. 1200.00 og þannig áfram, að frádrátturinn hækkar um kr. 100.00 fyrir hvert barn.“

Þetta eru reglurnar í Reykjavík.

Í 6. gr. segir um útsvör í kaupstöðum: „Fjölskyldufrádráttur skal vera hinn sami og samkvæmt 5. gr. A. 1.“ M.ö.o.: fjölskyldufrádráttur frá útsvörum á að vera sá sami í Reykjavík og öllum kaupstöðum landsins.

En í 7. gr. segir um útsvör í öðrum sveitarfélögum: „Frá útsvari, eins og það reiknast samkvæmt þessum stiga, er veittur fjölskyldufrádráttur, kr. 500.00 fyrir konu og sama upphæð fyrir hvert barn innan 16 ára aldurs, sem er á framfæri gjaldanda.“

Eins og ljóst er af þessu, er ætlazt til samkv. frv., að persónufrádráttur verði allt annar í sveitarfélögum á landinu en í kaupstöðum og Reykjavík, og munar mjög miklu. Eins og ég gat um við 1. umr. málsins, munar á þessu því, að barnlaus hjón í kaupstöðum fá 800 kr. frádrátt, en í sveitarfélagi 500 kr. Hjón með eitt barn fá 1800 kr. frádrátt í Reykjavík og kaupstöðum, en aðeins 1000 kr. í öðrum sveitarfélögum. Hjón með tvö börn fá 2900 kr. frádrátt í kaupstöðum og Reykjavík, en aðeins 1500 kr. í öðrum sveitarfélögum. Hjón með þrjú börn fá 4100 kr. frádrátt í Reykjavík og kaupstöðunum, en aðeins 2000 kr. í öðrum sveitarfélögum, eða meira en helmingi minna. Og hjón með fjögur börn fá 5400 kr. frádrátt á útsvari í kaupstöðum og í Reykjavík, en aðeins 2500 kr. í öðrum sveitarfélögum.

Mér er gersamlega ráðgáta, hvers vegna á að lögfesta þennan mikla mismun á frádrætti frá útsvari. Samkv. 9. gr. geta sveitarfélög valið um útsvarsstiga til álagningar, eins og hæstv. fjmrh. hefur réttilega tekið fram, en mér sýnist, að um þetta geti þau ekki valið. Í 9. gr. er skýrt tekið fram, að við niðurjöfnun útsvaranna geti sveitar- og bæjarfélög valið á milli skattstiga, en þetta er ekki niðurjöfnun, heldur er þetta ákvæði um, hvað má draga frá útsvarinu, eftir að búið er að jafna niður, og ég sé enga skynsamlega ástæðu fyrir því að hafa þetta lægra í sveitarfélögum almennt heldur en í kaupstöðum og Reykjavík, því að ef þarf að hafa misjafnlega háa útsvarsstiga í hinum ýmsu sveitarfélögum eftir þörfum sveitarfélaganna, sem vel getur komið fyrir, þá kemur það fram í því, að sveitarstjórnirnar annaðhvort velja á milli skattstiga eða notfæra sér ákvæði þessara laga um hækkun eða lækkun allt að 30%. Hitt er fjarri öllu lagi að mínum dómi, að gera þennan mun á fjölskyldunum, á húsmóðurinni og börnunum, eftir því, hvar þau eiga heima. Eða hvaða skynsamleg ástæða er fyrir því, að fjölskylda með fjögur börn, sem á heima úti á Seltjarnarnesi, fái aðeins 2500 kr. frádrátt frá sínu útsvari, þegar jafnstór fjölskylda í Kópavogi eða Reykjavík fær 5400 kr.? Þess vegna hef ég flutt þá skrifl. brtt., að þessi fjölskyldufrádráttur sé alls staðar sá sami. Samkv. frv. á hann að vera sá sami í Reykjavík og öllum kaupstöðunum. Ég legg til, að hann verði alls staðar sá sami, og ég vænti þess, að till. þessi sé svo sanngjörn, að það verði ekki amazt við henni.