23.05.1960
Neðri deild: 86. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2938 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

162. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) lét orð liggja að því, að flutningur þessa frv. bæri vitni um, að ríkisstj. hefði sjálf ekki mikla trú á fyrirætlunum sínum um að auka mjög verulega frelsi í innflutningsmálum. Það er þó að sjálfsögðu alger misskilningur, að ekki geti farið saman tiltölulega mjög frjáls innflutningur til lands og eftirlit með verðlagi innanlands, og ætti ég raunar ekki að þurfa að fara mjög mörgum orðum um það. En að gefnu þessu tilefni hv. þm. vildi ég aðeins minna á, að einmitt nú er meiningin að haga þessum málum öðruvísi, að fara öðruvísi að ráði sínu en gert var undir mjög svipuðum kringumstæðum, þegar Framsfl. átti aðild að ríkisstj., eða á árunum 1950–1951.

Í kjölfar gengisbreytingarinnar, sem gerð var 1950, var gerð tilraun til þess að auka mjög verulega frelsi í innflutningi, tilraun, sem því miður mistókst. Ein af ástæðunum fyrir því, að hún mistókst, var einmitt sú, að þá var um leið stigið það mikla víxlspor að afnema nær alveg allt eftirlit með verðlagi innanlands, og hafði það hinar alvarlegustu og hörmulegustu afleiðingar. Hv. Framsfl. stóð á sínum tíma að því, að þetta mikla víxlspor væri stigið. Það víti, sem þá kom í ljós, mun nú verða til varnaðar, og hæstv. ríkisstj. vill ekki stuðla að því, að nú fari eins og þá, með því að létta öllum hömlum af verðlagningu innanlands. Þess vegna er ríkisstj. sammála um, að verðlagseftirliti skuli haldið, meðan ástand er í grundvallaratriðum óbreytt hér á Íslandi frá því, sem nú er. Hún vill ekki eiga á hættu, að neitt líkt gerist og gerðist með góðu samþykki Framsfl. á árinu 1951 og á næstu árum þar á eftir. Þetta raskar að sjálfsögðu í engu þeirri meginstefnu núv. ríkisstj. að hafa innflutning til landsins sem frjálsastan. Hún vill ekki umsvifalaust treysta því, að samkeppni í landinu verði svo mikil, að unnt sé að komast af án alls verðlagseftirlits eða án allra verðlagsákvæða. Ein af ástæðunum fyrir því, að slíku er ekki unnt að treysta, er sú, að samvinnuhreyfingin hér á Íslandi hefur ekki reynzt sá samkeppnisaðili gagnvart kaupmönnum sem æskilegt hefði verið. Er mjög vandalítið að færa rök fyrir því, ef tilefni gefst til. En meðan samvinnuhreyfingin á neytendasviðinu gegnir ekki því sjálfsagða hlutverki sínu að halda uppi strangri samkeppni hér innanlands, getur ríkisvaldið ekki látið sig verðlagsmálin engu skipta, og þá hlýtur það að telja skyldu sína að sjá til þess, að verðlagsákvæði séu í gildi og að þeim ákvæðum sé framfylgt með verðlagseftirliti.

Annars var erindi mitt í ræðustólinn ekki það að flytja fram andmæli gegn þessum almennu bollaleggingum hv. 1. þm. Norðurl v., heldur að láta í ljós nokkra undrun mína yfir þeirri brtt., sem hann sem minni hl. hv. fjhn. hefur flutt við 1, gr. frv. Það hefur, það sem af er þessu þingi, verið helzta ádeiluefni hv. Framsfl. á ríkisstj., að hún gætti ekki sparnaðar í nægilega ríkum mæli, að hún hafi reynzt of treg til þess að sýna sparnaðarvilja sinn í verki. Með hliðsjón af þessu hefði maður mátt búast við því, að eina brtt. hv. Framsfl. við þetta frv. yrði um eitthvað annað en að auka kostnað við verðlagseftirlitið. Um það getur enginn ágreiningur verið, að nauðsynlegt er að fela einhverjum nýjum aðila yfirstjórn verðlagsmálanna, þegar innflutningsskrifstofan er lögð niður. Ríkisstj. valdi þann kost að búa hér um á sem brotaminnstan og einfaldastan hátt og ódýrastan með því að láta Alþingi kjósa 4 menn til þess að bera ábyrgð á yfirstjórn verðlagsmálanna með þeim hætti, að allir flokkar þingsins munu fá fulltrúa í slíka nefnd, en hún yrði síðan undir forustu ráðuneytisstjórans í viðskmrn. sem hlutlauss embættismanns. Ég hygg, að ógerningur sé að benda á nokkra tilhögun, sem líkleg sé til þess að vera ódýrari í framkvæmd en einmitt þessi, jafnframt því sem enginn aðili, sem þarna getur talizt átt réttmætra hagsmuna að gæta, er sniðgenginn. En svo undarlega bregður nú við, að Framsfl. þykir hér of sparlega á haldið og hann leggur fram till. um það, að yfirstjórn verðlagsmálanna skuli ekki vera í höndum 5 manna, heldur 10 manna: 6 manna fastrar nefndar, og skuli þeir tilnefndir af ýmsum samtökum og skuli einn víkja sæti undir víssum kringumstæðum og þá sá sjöundi taka sæti hans. En þessir 7 menn duga ekki til að leysa málið endanlega. Ef ágreiningur er milli þeirra, skulu 3 aðrir menn koma til skjalanna og fella fullnaðarúrskurð um ágreiningsefnið. M.ö.o.: 10 menn skulu hafa yfirstjórn verðlagsmálanna með höndum, og má þá geta nærri, að ekki er annað líklegt en kostnaðurinn verði nákvæmlega helmingi meiri en ríkisstj. hefur gert ráð fyrir með þeirri skipan, sem hún hefur lagt til að hafa á þessum málum.

Þessa till. hv. þm. tel ég óskynsamlega, fyrst og fremst af því, að hún með alveg ónauðsynlegum hætti tvöfaldar kostnað við yfirstjórn verðlagsmálanna, og vildi ég því mælast til þess við hv. d., að þessi till. verði felld.