31.05.1960
Efri deild: 88. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2946 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

162. mál, verðlagsmál

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um verðlagsmál eða nánar tilgreint um verðlagsákvarðanir, verðgæzlu og verðlagsdóm. Frv. þetta hefur ekki í för með sér neinar verulegar breytingar frá gildandi löggjöf.

Ástæðurnar til þess, að frv. er flutt, eru aðallega tvær. Í fyrsta lagi, að þar sem innflutningsskrifstofan hefur nú verið lögð niður, en hún fór m.a. með yfirstjórn verðlagsmála, þarf að fela nýjum aðila vald til að fara með verðlagsákvarðanir. Í öðru lagi voru ákvæðin um verðlagsmál orðin nokkuð dreifð í löggjöfinni og því sjálfsagt að nota tækifærið til þess að safna þeim saman á ný í heildarlög.

Af öðrum breyt. má nefna, að sektir við verðlagsbrotum verða hækkaðar með tilliti til þeirrar rýrnunar á peningaverðmæti, sem átt hefur sér stað frá því að eldri lög voru sett um þetta efni.

Um aðrar breyt. læt ég nægja að vísa til aths. um frv., þar sem gerð er grein fyrir þeim.

Fjhn. hefur fjallað um þetta frv. á tveimur fundum, og er meiri hl. nm. sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. með þeirri brtt., sem fylgir nál. meiri hl. á þskj. 552. Með frv. er fimm manna n. falið ákvörðunarvald um verðlag, og skulu 4 kosnir af Alþ., en hinn 5., sem er formaður n., skal vera ráðuneytisstjórinn í viðskmrn. Með þessu er tekið upp nýtt fyrirkomulag, sem eykur vald Alþ. á þessu sviði, en dregur úr valdi ríkisstj. eða ráðh., því að samkv. eldri lögum hefur það aldrei verið, að því er ég bezt veit, þingkjörin n., sem hefur fengið þetta vald í hendur.

Meiri hl. n. vill gera á þessu lítils háttar breyt. með því að fjölga hinum þingkjörnu nm. úr 4 í 5, en atkv. formanns skeri úr, ef atkv. verða jöfn. Með þessari breyt. kemur þingvilji skýrar í ljós, og meiri hl. Alþ. fær þá sjálfsagt meiri hl. hinna þingkjörnu fulltrúa. Jafnframt er tryggt mun betur en áður, að allir þingflokkar geti átt þar fulltrúa, en það er einmitt heppilegt, að sem flest sjónarmið fái notið sín, þar sem um þýðingarmiklar ákvarðanir er að ræða.