31.05.1960
Efri deild: 88. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

162. mál, verðlagsmál

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það má segja, að þetta frv., eins og það var flutt hér inn á hv. Alþ. af hæstv. ríkisstj., hafi verið bein afleiðing, eðlileg afleiðing og raunar óhjákvæmileg afleiðing af þeirri breyttu skipan mála, að innflutningsskrifstofan hefur verið lögð niður og þar með felld úr gildi þau ákvæði, sem verið hafa um yfirstjórn verðlagsmálanna. Þetta nýja frv. fól aðeins í sér fremur óverulegar breytingar frá eldri lögum, eins og hér hefur komið fram, um framkvæmd verðlagsmálanna, og öllum eldri lagaákvæðum um þau var safnað í eitt. Sú var ein breyt., sem máli skipti, að sérstök verðlagsnefnd, 5 manna, skyldi kosin, 4 kosnir af Alþ., eins og áður var um forstjóra innflutningsskrifstofunnar, og formaður hennar yrði ráðuneytisstjórinn í viðskmrn. Það mátti segja, að formennska hans og atkv. í svo skipaðri n. væri ekki óeðlileg, miðað við það, sem áður hefði verið, þar sem um leið var afnumið úrskurðarvald ríkisstj. í ágreiningsmálum, sem kynnu að rísa í yfirstjórn verðlagseftirlitsins, en í staðinn ákveðið, að afl atkv. innan n. skyldi nú verða látíð ráða í öllum tilvikum. Með þessum hætti mátti líka heita tryggt, a.m.k. við núverandi aðstæður, að atkv. allra nm. yrðu jöfn á metunum og þingflokkarnir, hvort sem þeir væru tveir eða þrír saman, sem hefðu sameiginlegan meiri hl. á Alþ., réðu líka ákvörðunum um verðlagsnefnd. Þannig var þetta frv., þegar fjhn. þessarar hv. d. tók afstöðu til þess á fundi sínum 25. þ. m. og ég tjáði mig meðmæltan því í aðalatriðum og taldi mig geta staðið að nál. meiri hl. Siðan ber það til tíðinda, að kvaddur er saman fundur í fjhn. seint með kvöldi 27. þ. m., en ég var forfallaður þá til að geta mætt á þeim fundi. Þess er ekki getíð í nál. meiri hl., að ég hafi verið þar fjarstaddur, og má skilja á því, sem þar er skráð, að ég hafi aðeins ekki verið tilbúinn að taka afstöðu til þessarar brtt. En það er fljótsagt, að ég er með öllu andvígur þessari brtt. og tel hana til svo stórfelldra skemmda á frv., að verðlagseftirlitið kunni að verða lítils virði að henni samþykktri.

brtt., sem hv. meiri hl. fjhn, flytur nú, felur það í sér í fyrsta lagi, að nm. verði 6 að tölu, en ekki 5, og í öðru lagi, að verði atkv. jöfn í verðlagsnefndinni, ráði atkv. hins sjálfkjörna formanns, þ.e.a.s. ráðuneytisstjórans í viðskmrn. og efnahagsmrn., sem er, eins og allir vita, einn og sami maðurinn. Það kann nú að virðast í fljótu bragði, að hér sé ekki um mjög veigamikla breyt. að ræða. En ef betur er að gáð, hygg ég, að ljóst verði, að við núverandi aðstæður þýðir þetta í reyndinni, að verið er að afhenda Sjálfstfl. hreint flokksvald yfir öllum verðlagsákvæðum. Ekkert væri í sjálfu sér við þetta að athuga, ef Sjálfstfl. væri í meiri hl. hér á hv. Alþ. og í meiri hl. með þjóðinni, en allir vita, að því fer fjarri, að svo sé. Til þess að ná þessu takmarki á að lögfesta þá lýðræðisreglu — eða hitt þó heldur, að formaður hafi í ýmsum tilvikum og kannske þeim, sem mestu máli skipta, tvöfaldan atkvæðisrétt á við aðra nm. Enda þótt fulltrúar þriggja flokka í verðlagsnefndinni, Framsfl., Alþb. og Alþfl., sem samanlagt hafa mikinn meiri hluta á Alþ., stæðu þar saman, þegar taka á verðlagsákvarðanir, þá stoðar það ekki. Það á að löggilda, að 2 fulltrúar Sjálfstfl. og skoðanabróðir þeirra í öllum þessum málum, Jónas Haralz, hafi samt yfirhöndina. Með öðrum orðum, það er verið að lögbinda flokkseinræði í verðlagsmálunum, sem einmitt nú á tímum stórfelldra verðhækkana og dýrtíðar eru mála viðkvæmust og almenningur á hvað mest undir að sé farið með af festu og einbeitni í hans þágu. Meira virðingarleysi fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum en hér er sýnt er varla hægt að hugsa sér. En hitt er svo annað mál og ekki síður mikilvægt, hvernig líklegt er eða víst, að Sjálfstfl. ásamt Jónasi Haralz tvöföldum muni nota sér það vald, sem Alþfl. er nú að hjálpa honum til þess að fá í hendur. Ég þarf, held ég, ekki að rifja það upp, að Sjálfstfl. hefur alltaf hatazt við allt verðlagseftirlit, öll afskipti af því, hvað kaupsýslumenn tækju til sín stóran hluta af verði þeirra vara, sem landsmenn kaupa og nota. Hugsjón hans hefur alltaf verið sú, að þar sem annars staðar ríkti það frelsi, sem leyfir hverjum að hrifsa til sín það, sem hann getur. Meira að segja nú í sambandi við flutning þessa frv. hafa talsmenn flokksins hér á hv. Alþ. lýst því yfir, svo að ekki verður um villzt, að þeim væri mjög þvert um geð að flytja slíkt mál sem þetta.

Hv. 6. landsk. þm., formaður fjhn. Nd., kallaði verðlagseftirlitið einn af meðlimum Bakkabræðrafjölskyldunnar, og sjálfur hæstv. forsrh. hefur lýst ógleði sinni yfir því, að verðlagseftirlit væri ekki þegar lagt niður. Önnur ummæli og hugleiðingar, sem að vísu hafa ekki komið fram í ræðum nú, en eru þm. jafnkunnar fyrir því, eru t.d. þær, að verðlagseftirlitið herði nú svo mjög að verzluninni, að óhjákvæmilegt sé að hækka álagningu stórlega, en réttast sé að láta opinbert verðlagseftirlit fyrirskipa slíka hækkun, svo að óvinsældir hennar bitni ekki á kaupsýslustéttinni sjálfri, að því afreki unnu megi svo eftirlitið fara sína leið.

Hvers virði halda menn, að verðlagseftirlit verði í höndum slíkra manna og slíks flokks? Þarf nokkur að fara í grafgötur um, að það yrði í bezta falli tilgangslítið eða tilgangslaust og í verra fallinu og því trúlega aðeins skálkaskjól til þess að tryggja sem hæsta álagningu og mestan gróða milliliðanna, en allur kostnaður ríkisins af eftirlitinu héldist eftir sem áður óbreyttur?

Sjálfstfl. hefur látið í það skína, að hann féllist á áframhald verðlagseftirlits fyrst um sinn, vegna þess að Alþfl, sækti málið fast.

Það er þá víst eina málið, sem hann hefur ekki hlýtt húsbónda sínum ljúflega í nú um hríð. En nú virðist fundin kænleg millileið í málinu, sú að láta eftirlitið haldast að nafninu til, en tryggja, að kaupsýslumennirnir eða beinir umboðsmenn þeirra ráði sjálfir öllu um eftirlitið, sem ríkisvaldið á að hafa með þeim. Þannig sættir Alþfl, sig við að beygja sig í duftið, ef það aðeins heitir á pappírnum að standa uppréttur. Þó er því ekki að leyna, að í afstöðu Sjálfstfl. felst nokkur viðurkenning á Alþfl. Sjálfstfl. telur sér ekki nægilegt að treysta á fulltrúa hans í verðlagsnefnd til fulltingis kaupsýslustéttinni. Hann treystir honum ekki fyllilega í því að fylgja sér þar í einu og öllu, trúir því e.t.v., að svo kunni að fara, að fulltrúi hans gæti endrum og eins leiðzt til þess að standa með Alþb. og Framsfl., þegar álagningarkröfur heildsalanna verða áleitnastar og freklegastar. Og honum finnst hyggilegast að eiga ekkert á hættu í slíku máli. En Alþfl., hvernig bregzt hann við þeirri viðurkenningu, sem í þessu felst? Verkin sýna hér merkin. Hann reynir ekki að verða verðugur viðurkenningarinnar með því að standa fast á sínu úrslitavaldi, heldur hamast við að þvo sómann af sér. Fyrst styður hann þessa endemis brtt., sem gerir hann áhrifalausan í þessum málum, og hagræðir sér svo síðar, að húsbóndanum verði sem þægilegast að stjaka við honum og ýta honum til hliðar.

Ég ætla ekki að hefja hér umr. um gagnsemi verðlagseftirlits yfirleitt. Ég vil aðeins segja það, að ég tel, að það hafi miklu og nauðsynlegu hlutverki að gegna og miklum mun frekar í okkar litla þjóðfélagi en víðast hvar annars staðar, þar sem samtök kaupsýslumanna geta hér auðveldlega og hafa í reynd á fjölmörgum sviðum komið í veg fyrir alla raunverulega samkeppni og eiga auðvelt með það. En hitt ætla ég að sé auðsætt, að frá hendi löggjafarvaldsins er ekki og hefur ekki verið gengið svo frá starfsreglum eftirlítsins, — og mun raunar næsta torvelt að gera það, — að allur árangur sé ekki kominn undir framkvæmdinni einni. Allt raunverulegt mat í þessum efnum er lagt í hendur þeirrar yfirstjórnar, sem með málið fer á hverjum tíma. Ég held, að engum geti blandazt hugur um, ekki heldur stjórnarliðinu og áreiðanlega ekki Sjálfstfl., að eftirlit, sem er í höndum flokks og manna, sem eru því með öllu andstæðir og hafa auk þess efst í huga sjónarmið þeirra, sem eftirlitið og hömlurnar eiga að beinast gegn, er einskis virði og sé því betur sæmandi að spara þjóðinni þau útgjöld, sem slíku eftirlitskerfi eru samfara.