31.05.1960
Efri deild: 88. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2958 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

162. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég ætlaði satt að segja ekki að blanda mér inn í þennan þátt þessara umræðna um þetta frv. En þær ræður, sem hér hafa verið fluttar af hálfu hv. framsóknarmanna og þá sérstaklega ræða hv. síðasta ræðumanns, gera það að verkum, að ég sit ekki kyrr í stól mínum. Mér satt að segja ofbýður talið. Ég ætla að upplýsa þennan hv. ræðumann og þingdeildarmenn alla um það, að ég hef um alllangt skeið haft náin afskipti af verðlagsmálum, nú undanfarið nokkuð á annað ár sem ráðherra og haft með að gera þá stofnun, sem með verðlagsmál hefur farið. Þar áður, síðan 1956, átti ég sæti í ríkisstj. með þessum flokki og hafði þar af leiðandi náin afskipti af verðlagsmálum þá, sökum þess að í þeim málum gilti áfrýjunarvald til ríkisstj. frá þeirri stofnun, sem með þau fór. Og einu sinni endur fyrir löngu átti ég um nokkurra ára skeið sæti í viðskiptaráði, þegar það fjallaði um verðlagsmál, svo að kynni mín af þessum málum eru orðin nokkuð gömul og þar á meðal kynni af fulltrúum Framsfl. í þeim ráðum og stofnunum, sem með þessi mál hafa farið. Og það ætla ég að segja, að atkvæði fulltrúa þeirra þar hafa sannarlega verið með nokkuð öðrum hætti en ræður þessara manna hér í þessari hv. deild.

Ég þekki varla dæmi þess undanfarin 3–4 ár, að fulltrúar Framsfl. í innflutningsskrifstofunni hafi ekki greitt atkvæði með svo að segja hverrí einustu hækkunartillögu á álagningu, sem þar hefur komið fram. Um það er enginn vandi að afla nákvæmra skýrslna, ef frekara tilefni gefst til. Hitt þætti mér gaman að fá skýrari upplýsingar um, hvaða tillögur fulltrúar þessa flokks hafa flutt í innflutningsskrifstofunni um lækkun á álagningu, annaðhvort yfirleitt eða í einstökum atriðum. Ég þekki það ekki og hef þó haft náin afskipti af þessum málum síðan sumarið 1956. Þvert á móti hefur reynslan verið sú, að fulltrúar þessa flokks hafa stundum haft beinlínis frumkvæði að því, að álagning eða verðlag hefur verið hækkað. Ég endurtek: ég man ekki eftir neinu stórmáli, sem þar hefur verið á döfinni, þar sem fulltrúi flokksins hefur ekki verið með hækkaðri álagningu eða hækkuðu verðlagi.

Með hliðsjón af þessu er sannarlega tómahljóð í þeim ræðum, sem hér eru fluttar af hálfu fulltrúa þessa flokks, og hefðu stóru orðin betur verið ótöluð.