30.11.1959
Efri deild: 6. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég mun ekki halda langa ræðu um þetta frv. nú. Mig langaði til þess að minnast á einn liðinn í þessu frv., þessum bandormi, og það er söluskatturinn. Söluskatturinn er víðfrægt fyrirbæri og mun hafa verið settur hér á árið 1948, og var það upplýst þá, að tekjur af honum skyldu sérstaklega notaðar til að greiða verðuppbætur á útflutningsvörur sjávarútvegsins. Síðan hefur þessum skatti verið haldið, að vísu hefur oft verið breytt til, stundum hefur hann verið hækkaður, eins og 1950, og stundum lækkaður.

Þessi söluskattur á sér mikla sögu, sem ég þó ekki kann að rekja né hirði um að rekja hér. Yfirleitt er söluskatturinn óvinsæll. Hann mun vera einna óvinsælastur allra skatta í landinu. Hann þykir leiðinleg tekjuöflunarleið og að nokkru leyti mjög varhugaverð tekjuöflunarleið. Söluskatturinn er ekki algerlega innlent fyrirbæri. Hann hefur verið tekinn upp og lagður á í ýmsum öðrum löndum, t.d. í Noregi, og við heyrum það í fréttum nú síðustu dagana, að um hann er rætt í sænska ríkisþinginu og veldur þar miklum deilum, svo að við borð liggur, að sænska ríkisstj. falli á honum.

En þessi skattur, söluskatturinn, er sem sagt óvinsæll og leiður skattur. Innheimtan gengur fyrir sig með þeim hætti, að skatturinn er miskunnarlaust innheimtur af neytendum. Hann er innheimtur frá neytendum af milliliðum, sem síðan skila honum til ríkissjóðs. Það hefur þótt við brenna og oft verið um það rætt, að þessir milliliðir, þessir innheimtumenn, væru ekki allir sem heppilegastir. Þeir eru margir og því eðlilegt, að þar sé misjafn sauður.

Það er talið, að talsverður hluti af söluskatti yfirleitt renni út í sandinn, sé innheimtur, en komist aldrei til rétts eiganda. Þetta er eitt af því, sem hefur gert þennan söluskatt svo sérstaklega óvinsælan.

Þráfaldlega hefur um það verið rætt á undanförnum árum af ýmsum aðilum hér á hinu háa Alþingi, að afnema bæri þennan söluskatt, en það hefur aldrei fengizt fram, eins og kunnugt er.

Í sambandi við umræður um söluskattinn hafa komið fram till. um breytingu á því, hvernig skattinum skuli varið. Sérstaklega hafa komið fram till. um það, að hluti af söluskattinum yrði afhentur sveitarfélögunum í landinu. Það hafa komið fram till. um, að helmingur söluskattsins yrði afhentur sveitarfélögunum sem sérstakur nýr tekjustofn. Það hafa líka komið till. um, að 1/4 þessa söluskatts yrði varið til þessara þarfa. Þetta hefur verið borið upp á mörgum þingum, að ég hygg, en aldrei fengizt fram. Nú er það kunnugt, að sveitarfélögin hafa mikla þörf fyrir nýja tekjustofna. Útsvörin hafa hingað til verið svo að segja þeirra eini tekjustofn, og með þeim hefur orðið að innheimta um 90% af því fé, sem sveitarfélögin þurfa á að halda á hverju ári. Það er því mjög eðlilegt, að forstöðumenn og forráðamenn sveitarfélaga hafi rennt hýru auga m.a. til söluskattsins og óskað þess að fá hluta af honum sem sinn tekjustofn. Það hafa margar aðrar till. komið fram um nýja tekjustofna fyrir sveitarfélögin, en allt hefur hingað til staðið við orðin tóm.

Hæstv. fjmrh., sem er fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík og einn af forustumönnum í samtökum sveitarfélaga, hefur a.m.k. á þrem þingum flutt till. um, að 1/4 hluta söluskattsins skyldi varið til þarfa sveitarfélaganna. Hann flutti till. um þetta a.m.k. á þingunum 1951, 1956 og 1957. Í ræðu, sem þessi hæstv. ráðh. flutti á þessum þingum máli sínu til stuðnings, lýsti hann mjög vel þörfum sveitarfélaganna fyrir nýja tekjustofna, og hann lýsti einnig, hvernig forustumenn einstakra sveitarfélaga svo og samtaka allra sveitarfélaganna hefðu hvað eftir annað skorað á hið háa Alþingi að veita sveitarfélögunum nýja tekjustofna og sérstaklega að veita sveitarfélögunum hluta af söluskattinum.

Ég hef orð á þessu af því, að nú er þessi forustumaður þessa máls á undanförnum þingum allmörgum kominn í sæti hæstv. fjmrh. Nú fær hann betri aðstöðu en nokkru sinni áður til að vinna að þessu áhugamáli sínu og margra annarra manna úr öllum flokkum.

Í ræðu, sem hæstv. fjmrh. flutti á þingi 1951, segir hann svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í umræðum á ráðstefnu bæjarstjóranna var það mjög athugað og rætt, hvernig mætti létta byrðum á bæjarfélögunum og afla nýrra tekna. Ég skal ekki ræða þetta frekar, en vegna þess að framlenging söluskattsins er hér á dagskrá, vil ég koma þeirri till. á framfæri, að hluti söluskattsins renni í jöfnunarsjóð sveitarfélaganna.“

Þannig fórust hæstv. ráðh. orð árið 1951. Ég veit, að hann var sama sinnis árin 1956 og 1957.

Nú langar mig, vegna þess að ég hef áhuga á þessu og er sammála honum, að inna hann eftir því, hvort hann sé ekki sama sinnis nú og hann hefur verið og hvort hann vilji ekki, vegna þess að framlenging söluskattsins er hér á dagskrá, koma þeirri till. á framfæri, að hluti söluskattsins renni í jöfnunarsjóð sveitarfélaganna. Hér hafði ég eftir orð hans, eins og þau féllu við umr. 1951. Ég veit, að sveitarstjórnir um land allt og fjöldi manna úr öllum flokkum mænir nú vonaraugum til hæstv. fjmrh. í þessu efni og ætlast til þess af honum, að hann eyði ekki tímanum til ónýtis í sínu háa embætti, en komi þessu máli fram sem allra fyrst. Nú er tækifærið, og nú stendur eins á og 1951, er hann taldi tímabært að koma þessu máli á dagskrá.