02.06.1960
Neðri deild: 93. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2965 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

162. mál, verðlagsmál

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hefði raunar verið rétt, að þetta mál hefði farið til fjhn. þessarar hv. d., um leið og það kom aftur frá Ed. Við höfðum fjórir menn í fjhn. verið sammála um málið, eins og það fór héðan, og nú hafa verið gerðar þar tvennar breyt., svo að það hefði verið betra, að það hefði verið fjallað um það þar.

Hins vegar er máske ekki vert að vera að gera kröfur til þess, með tilliti til þess, að mér skilst, að það ríki það ástand í dag, sem Sjálfstfl. óskar mest eftir að fá, að það sé ekkert verðlagseftirlit til í landinu. Það var eitt af því, sem hæstv. ráðh. hafði lagt sérstaka áherzlu á við okkur í fjhn. þessarar hv. d., að þau tvö mál, sem snertu hina frjálsu verzlun og verðlagið, skyldu fylgjast að. Nú skilst mér, að það sé búíð að gera að lögum með sérstakri heimild, sem hæstv. viðskmrh. hefur, lögin um innflutning og gefa þar með frjálst og fella þar með niður allar verðlagsákvarðanir, allt verðlagseftirlit. Ef ekki hafa verið gerðar sérstakar varúðarráðstafanir a.m.k., þá virðist ástandið vera þannig í dag, svo að það er kannske ekki vert að tefja það, að það komist á ný lög um verðlagsmál. En mér sýnist, að þessir tveir dagar, ef ekki hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir, muni verða alfrjálsir hvað álagningu snertir og annað slíkt. En látum það nú vera.

Það, sem hér liggur fyrir, er, að breytt hefur verið í Ed. af hálfu stjórnarflokkanna 1. gr. þessa frv., og ég fæ satt að segja ekki séð, hvers konar ástæður eru til þess, og finnst farið þarna inn á nokkuð nýjar brautir, sem séu að ýmsu leyti óheppilegar. Áður var þetta svo, að það var ákveðið, að fjórir menn væru kosnir af Alþingi og fimmti maðurinn var stjórnskipaður. Þetta er fyrirkomulag, sem tíðkazt hefur um ýmsar nefndir hjá okkur í ríkiskerfinu. Þetta er svo um ýmis bankaráð t.d. og hefur lengi verið og annað slíkt, svo að það er ekki beint neitt nýtt fyrirkomulag, að hæstv. ríkisstj. skipi fimmta mann, þegar Alþingi kýs fjóra, eða þá að hann sé embættismaður ríkisins sjálfskipaður.

Nú hins vegar er þessu breytt þannig, að það á að vera sex manna n., sem með þetta fer, og ráðuneytisstjórinn í viðskmrn. á raunverulega að fara þarna með tvö atkvæði. Það er mjög óviðkunnanlegt fyrirkomulag: Í fyrsta lagi vegna þess, að embættismaður ríkisins er látinn fá þarna alveg sérstakt vald, sem áður hefur ekki tíðkazt gagnvart Alþ., meira vald en nokkur af þeim mönnum, sem Alþingi kýs, vald, sem þýðir það, að þessi embættismaður getur með stærsta flokki þingsins tekið ákvarðanir á móti meiri hl. Alþingis. Þótt fulltrúar þeir, sem t.d. Alþfl., Alþb. og Framsfl. ættu þarna í, stæðu saman um eitthvert mál, getur ráðuneytisstjórinn ásamt þeim tveimur fulltrúum, sem Sjálfstfl. eftir núverandi hlutföllum mundi fá, tekið ákvarðanir á móti þeim, sem fulltrúarnir fyrir meiri hl. Alþingis vilja, og það er óviðkunnanlegt.

Það liggja nú fyrir till. um, að þetta verði fimm manna n. Það er líka hugsanlegur möguleiki, alveg eins og að hafa fimm manna n., þar sem fjórir væru kosnir af Alþingi, að hafa þá fimm manna n. kosna af Alþingi. En þetta fyrirkomulag með sex manna n., þar sem raunverulega séu sjö atkv. og ráðuneytisstjórinn í viðskmrn. geti haft tvö, það kann ég ekki við.

Ég er líka hræddur um, að þarna komi nokkuð annað til greina. Fyrir utan það hreint stjórnarfarslega, sem víð þetta er að athuga og ég nefndi áðan, þá er það pólitískt við þetta að athuga frá mínu sjónarmiði, að það liggja fyrir yfirlýsingar nú í sambandi við einmitt þessa löggjöf, að Sjálfstfl. er henni raunverulega andvígur, að Sjálfstfl. álítur, að það eigi ekkert verðlagseftirlit að vera í landinu. M.ö.o.: hann hefur kannske fallizt hér á einhver lög, sem hann ætlar að lofa að fara í gegnum Alþ., en hann vill raunverulega helzt gera að engu, og það hefur ekki farið neitt leynt síðustu dagana, komið alveg greinilega fram, m.a. í yfirlýsingum í leiðurum Morgunblaðsins, að Sjálfstfl. er alveg á móti verðlagseftirlitinu og álítur það illa nauðsyn, og aðalmálgagn Sjálfstfl. hefur þannig alveg tekið undir við vissa af fulltrúum flokksins hér á Alþingi um, að þetta eigi raunverulega að þolast til sem allra skemmsta tíma.

Ég skal viðurkenna, að það er ekki nema rökrétt hjá Sjálfstfl., að svo miklu leyti sem hann hugsar út frá sjónarmiði verzlunarauðvaldsins, að hugsa þannig. Það kerfi, sem hér er verið að innleiða nú, grundvallast á þeirri siðferðisreglu, ef ég má nota svo fallegt orð um þann hlut, að hver eigi að græða sem bezt hann getur, og ef menn ekki passi sig sjálfir að láta ekki flá sig, megi þeir, sem sterkir eru, flá þá, sem smærri eru, eins freklega og þeim frekast er mögulegt. En það hefur hingað til verið álitið, að ríkið eða þjóðfélagið ætti að reyna að setja einhverjar skorður við því, hvernig þeir sterku geti farið með þá veiku. Hins vegar virðist takmarkið eftír yfirlýsingu Sjálfstfl. vera það, að sem fyrst elgi að skapa þarna það frelsi, að úlfarnir geti étið lömbin.

Það er þess vegna yfirlýst frá hálfu Sjálfstfl., að þetta verðlagseftirlit sé skoðað frá hans hálfu sem ill nauðsyn til sem allra skemmsts tíma. Mér er spurn: Hver mun vera afstaða ráðuneytisstjóra viðskmrn., ef á að fara að skikka þann mann sem sérstakan embættismann til þess að fá sérstök völd til þess að geta skapað meiri hluta á móti meiri hluta Alþingis í n., sem Alþingi annars kýs, fá völd á við tvo af fulltrúum Alþingis í slíkri n. og geta þannig ráðið, þegar hann vill, með einum flokki þess, Sjálfstfl., um, hvaða niðurstöðu sé þarna komizt að? Það er a.m.k. ekkert undarlegt, þó að maður vildi gjarnan vita um slíkar skoðanir. Ég veit t.d. ekki, hvort slíkur ráðuneytisstjóri mundi skoða það sem sitt hlutverk að fara í öllum slíkum málum einvörðungu eftir áliti síns ráðh. Ef það lægi fyrir, að ráðuneytisstjóri í viðskmrn., sem settur væri í slíkt embætti af hálfu Alþingis með slíkum lögum, liti svo á, að hann væri þarna ekki sem bara ráðuneytisstjóri, heldur sem fulltrúi sins ráðh., þannig að það væri ráðh., sem raunverulega færi með þessi atkv., þá náttúrlega lítur málið á vissan hátt dálítið öðruvísi út, og það væri þá a.m.k. gott, að það kæmu yfirlýsingar um það, ef það væri svo.

Eigi hins vegar t.d. núv. ráðuneytisstjóri í viðskmrn., — ég veit ekkert, hvenær það kann að breytast, hann er ráðuneytisstjóri í fleiri rn., og það virðast miklar tilhneigingar núna á Alþingi til að fjölga hálaunuðum embættum, þannig að það má vel vera, að það verði einhverjar breytingar þar á, — en eftir því sem við alþm. þekkjum skoðanir ráðuneytisstjórans í viðskmrn, nú, virðist hann trúa á frelsið, trúa á það, að allir hlutir tempri sig bezt sjálfir. Það komi það bezta út, þegar menn séu látnir slást, hver sem betur getur, og það á náttúrlega líka við um verðlag og undirboð og yfirboð og verðlagsmyndun og að frjáls samkeppni fái yfirleitt að ríkja. Mér sýnist það vera hans skoðun, og mér þætti þá ekki ólíklegt, að hann væri á einhverri svipaðri skoðun og fram hefur komið hjá Sjálfstfl. hér, að máske væri þetta ill nauðsyn til skamms tíma, að dandalast með þetta verðlagseftirlit, kannske m.a. af því, að Alþfl. hafi e.t.v. aldrei þessu vant sótt eitt mál dálítið fast. Mér sýnist nú satt að segja eftír þeim yfirlýsingum, sem ég hef heyrt hér á Alþingi í þessu máli, að það séu bara þessir tveir flokkar, Alþfl. og Alþb., sem séu raunverulega með því, svo að það standi ekki á allt of öruggum grundvelli, þannig að ef ráðuneytisstjórinn í viðskmrn. skyldi vera á einhverjum svipuðum skoðunum viðvíkjandi verðlagsmyndun og hann hefur verið um, hver gifta það sé að fá frjálsa verzlun að öðru leyti, lízt mér ekkert á að gefa honum slíkt vald.

Ég álít þess vegna, að annaðhvort væri réttast að færa þetta til þess forms eins og það var, þegar við fulltrúar þriggja flokka í fjhn. þessarar d. samþ. málið, eins og það fór frá Nd., eða þá, ef ég fyndi það á stjórnarflokkunum, að þess væri enginn kostur að fá slíka breyt., þá álít ég, að það kæmi til mála líka að samþ. þá brtt., sem liggur fyrir á þskj. 597.

Ég held, að þegar ákvarðanir eru teknar um það að kjósa svona n. á Alþ., eigi ábyrgðin þar fyrst og fremst að hvíla á Alþingi og valdið að vera hjá því og það eigi ekki að vera að rugla því á þann hátt, sem þarna er gert, og sízt af öllu álít ég, að það eigi að stofna til þess, að ákveðinn embættismaður í ríkiskerfinu geti haft vald til þess að hindra það, sem meiri hl. þeirra fulltrúa, sem kosnir væru á Alþingi, ella vildi. Ég held, að menn ættu ekki að rugla saman embættisvaldi og valdi Alþingis í þessum efnum.

Hins vegar viðvíkjandi verðlagsdóminum og þeirri breyt., sem Ed. hefur gert á honum, sýnist mér það vera út af fyrir sig góð breyt. og sé rétt að halda henni. Það er vitanlegt, að verðlagsdómur hefur komið að allgóðu haldi, og ég fæ satt að segja ekki séð, að það séu neinar ástæður til þess að draga úr því öryggi, sem í honum eigi að vera, ef verðlagseftirlit á annað borð á að standa. Það hefur kostað allmikla baráttu áður meira að segja að fá fram þann dóm og fá fram þær rannsóknir, sem felldar hafa verið í verðlagsdómi og mesta eftirtekt vakið, og menn hafa séð af því, sem síðast hefur gerzt, að það mun ekki vanþörf á að halda þeim dómi sem sterkustum.

Ég vænti þess vegna raunverulega nánari skýringa frá hálfu stjórnarflokkanna á þessari breyt. viðvíkjandi 1. gr., m.a. þeirra meðnm. minna, sem sammála voru mér um að afgreiða málið frá þessari hv. d. eins og gert var, um, hvernig á þessari breyt. stendur. Maður hélt satt að segja, að það hefði verið búið að athuga þetta mál svo vel af ríkisstj. áður, a.m.k. kom það svo seint fram, að það hefði átt að vera orðið nokkurn veginn fullbúið. Það er engan veginn skemmtileg aðferð, sem stundum hefur tíðkazt og hefur síður en svo gefizt vel, að Ed. sé á síðustu dögum þingsins að taka upp á því að breyta frv., sem Nd. er búin að vinna vel að og afgreiða á þann hátt, sem menn hafa venjulega hugsað sér að afgreiða mál frá Alþingi. Það getur orðið ríkissjóði nokkuð dýrt, kannske kostað nokkra tugi milljóna króna. Menn muna eftir því fyrir 10 árum í sambandi við áburðarverksmiðjuna og hvað búið er að standa út af því, og ég held, að það sé ekki rétt að koma Ed. upp á að vera að hringla svona með frv., sem Nd. er búin að vinna vel að. Þess vegna er ég alveg á móti því, ef ekki koma fram nein sérstök og góð rök fyrir þessari breyt., og álít, að hv. d, eigi að halda fast við það, sem hún ákvað í þessum málum áður.