28.05.1960
Neðri deild: 90. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2972 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

175. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Að formi til er þetta frv. um stofnun þriggja prófessorsembætta við háskólann, tveggja í læknadeild og eins í verkfræðideild. Í reynd er hér þó eingöngu um breyt. á starfsheiti og skipulagi að ræða, en engan veginn stofnun þriggja nýrra embætta. Öll þau störf, sem nú er gert ráð fyrir að unnin verði við háskólann, ef þetta frv. nær fram að ganga, eru þegar unnin, sumpart við háskólann og sumpart við aðrar opinberar stofnanir, svo að samþykkt þessa frv. hefur þá þýðingu eina sumpart að löghelga störfin og sumpart að koma í kring skipulagsbreytingu, sem þeir, sem um málið hafa fjallað, hafa talið eðlilega og sjálfsagða. Þess vegna mun enginn kostnaðarauki hljótast af samþykkt þessa frv. fyrir ríkissjóð. Öll störfin eru þegar unnin og greidd af opinberu fé.

Þessi prófessorsembætti, sem frv. fjallar um, eru þrjú. Hið fyrsta er við læknadeild háskólans í geðveikifræðum. Í ágústbyrjun 1958 varð staða yfirlæknis á Kleppi laus við fráfall dr. Helga Tómassonar. Yfirlæknisstaðan var auglýst laus til umsóknar 1. okt. s.l. með umsóknarfresti til 1. jan. 1959. En um svipað leyti gerði þáv. landlæknir till. um það, að yfirlæknisembættið yrði sameinað prófessorsstöðu við háskólann, og hlaut sú till. fylgi læknadeildar háskólans og Læknafélags Reykjavíkur. Þess vegna var frv. um það efni flutt vorið 1959, en náði ekki það ár fram að ganga, m.a. vegna þeirra stjórnarskipta, sem þá höfðu orðið, og þeirra kosninga tvennra, sem fram fóru á því ári. Núv. landlæknir hefur einnig fjallað um þetta mál og sömuleiðis lýst fylgi sínu við þá tilhögun, að yfirlæknisstaða á Kleppi og prófessorsembætti við háskólann verði gert að einu starfi, svo sem hér er lagt til.

Þess má geta, að þótt yfirlæknisstörf séu nokkru hærra greidd, ef þeim fylgir prófessorsstaða, heldur en yfirlæknisstaðan ein, þá annast nú kennslu í geðveikrafræðum dósent, en sú staða mundi að sjálfsögðu falla niður, ef þetta frv. næði fram að ganga og stofnað yrði prófessorsembætti í geðveikifræðum og prófessorinn hefði jafnframt á hendi yfirlæknisstörf við geðveikrahælið á Kleppi.

Um hina prófessorsstöðuna í læknadeild er það að segja, að þar er um að ræða prófessorsstöðu í efnafræði. Trausti Ólafsson efnafræðingur hefur um næstum þrjá áratugi gegnt því starfi, en lætur nú af störfum af heilsufarsástæðum. Prófessor Trausti hefur haft prófessorsnafnbót og prófessorslaun, þó að starfið hafi ekki verið bundið í lögum um háskólann. Sú eina breyt., sem mundi verða, ef þetta frv. nær fram að ganga, er sú, að starf það, sem prófessor Trausti hefur gegnt, yrði nú talið með reglulegum prófessorsstöðum við háskólann, þannig að hægt yrði að veita það nýjum manni sem prófessorsstöðu. Áhrif á launakjör hefði það engin, þar sem prófessor Trausti hefur um meira en 20 ára skeið haft prófessorslaun.

Um þriðja prófessorsembættið, í eðlisfræði í verkfræðideild, er það að segja, að á vegum kjarnfræðinefndar Íslands hefur undanfarin ár starfað eðlisfræðingur sem framkvæmdastjóri og hefur hann og kjarnfræðinefndin verið ríkisstj. til ráðuneytis í kjarnfræðimálum. Vegna ráðuneytisstarfs kjarnfræðinefndar hefur Alþ. veitt kjarnfræðinefndinni 100 þús. kr. fjárveitingu á fjárlögum undanfarin ár. Nú þykir kjarnfræðinefnd og verkfræðideild eðlilegt, að verkfræðideild háskólans takist þetta ráðuneytisstarf á hendur, enda verði þá fjárveitingin, sem hingað til hefur gengið til kjarnfræðinefndarinnar, flutt yfir til verkfræðideildar háskólans í næstu fjárlögum. Er þá gert ráð fyrir því, að framkvæmdastjórastarf við kjarnfræðinefndina leggist niður, en í stað þess komi prófessor í eðlisfræði við verkfræðideild háskólans. Laun þau, sem framkvæmdastjóri kjarnfræðinefndar hefur notið, eru mjög svipuð prófessorslaunum, svo að 100 þús. kr. fjárveitingin, sem kjarnfræðinefnd hefur haft, gerir meira en duga til þess að standa undir kostnaði við hið nýja prófessorsembætti.

Kjarnfræðinefndin hefur haft nokkurt skrifstofuhald, sem hins vegar ætti að geta fallið niður, ef þessi skipun kemst á, þar eð háskólinn ætti að geta annazt það skrifstofuhald, sem verið hefur á vegum n. og framkvæmdastjóra hennar undanfarið.

Það er von mín, að þær skipulagsbreytingar, þær formsbreytingar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, verði ekki deiluefni hér í hv. d. og að hún sjái sér fært að afgreiða frv. svo tímanlega, að það geti hlotið afgreiðslu á þessu þingi. Það er nauðsynlegt af ýmsum ástæðum. Það er nauðsynlegt að auglýsa sem allra fyrst prófessorsembættið í geðveikifræðum til þess að koma endanlegri skipun á þau mál. Prófessor Trausti Ólafsson mun ekki geta hafið kennslu í efnafræði á næsta hausti, þannig að nauðsynlegt er að ráða mann til efnafræðikennslunnar fyrir næsta haust. Og það er eðlilegt að koma sem allra fyrst á þeirri skipulagsbreytingu, að ráðunautarstörf í kjarnfræðimálum flytjist frá kjarnfræðinefndinni yfir til verkfræðideildar háskólans. Ég vildi þess vegna leyfa mér að óska þess, að hv. menntmn. tæki frv. sem fyrst til meðferðar, og leyfi mér að óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. menntmn.