30.05.1960
Neðri deild: 95. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2974 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

175. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Menntmn. hefur orðið við óskum ríkisstj. um að hraða afgreiðslu þessa máls og hefur þegar komið saman til að ræða frv. Nefndin fékk á sinn fund hæstv. menntmrh. og bauð einnig á sinn fund hv. 9. þm. Reykv. (AGI) sem sérfræðingi í geð- og taugasjúkdómafræðum, en um þau fræði fjallar eitt af þeim embættum, sem hér um ræðir.

Frv. þetta gerir ráð fyrir því að lögfesta þrjú prófessorsembætti. En í raun og veru er hér ekki um ný störf að ræða. Hér er í öllum þremur tilfellunum um að ræða störf, sem hafa verið til, og því skipulagsbreyting eða formbreyt., sem um er að ræða.

Í fyrsta lagi er hér um að ræða að lögfesta prófessorsembætti í efnafræði við læknadeildina. Þessu embætti hefur Trausti Ólafsson efnafræðingur gegnt um langt skeið við góðan orðstír. Hann lætur nú af störfum. En það hefur komið í ljós, að formlega hefur embættið verið bundið við hans nafn, og það er ekki hægt að auglýsa það eða skipa í það eftirmann, nema það verði fest í lög. Er því væntanlega óumdeilt, að embætti þessu verði bætt inn í háskólalögin.

Í öðru lagi er hér um að ræða stofnun prófessorsembættis í geð- og taugasjúkdómum. Aðdragandi málsins er sá, að um langt árabil gegndi yfirlæknir á Kleppi einnig kennslustörfum í þessum greinum við háskólann. Þegar yfirlæknisstaðan var auglýst laus eftir fráfall dr. Helga Tómassonar 1958, benti landlæknir á, að rétt væri að gera nú úr þessu embætti prófessorsembætti, sem jafnframt væri yfirlæknisembætti, á svipaðan hátt og gert er með sameiningu á prófessorsembættum og yfirlæknisembættum við landsspítalann. Við meðferð málsins komu upp tvö ólík sjónarmið. Annað er það að hafa þetta prófessorsembætti tengt yfirlæknisembættinu á Kleppi. Hitt sjónarmiðið var, að nauðsynlegt væri að stofna sérstaka geðveikradeild við landsspítalann, aðalsjúkrahús landsins, þegar slík deild væri komin á laggirnar, mundi eðlilegast, að prófessorsembættið við háskólann í þessum fræðum væri tengt deildinni við landsspítalann. Þetta mun hafa orðið til þess, að málið var ekki afgr. á sínum tíma. En nú standa sakir svo, að landlæknir og forráðamenn læknadeildarinnar, svo og þeir hæstv. ráðh., sem þessi mál heyra undir, hæstv. heilbrmrh. og hæstv. menntmrh., eru sammála um, að rétt sé að stefna að því að koma upp slíkri deild við landsspítalann, og liggur raunar fyrir yfirlýsing um, að í áætlunum um hina nýju landsspítalabyggingu sé gert ráð fyrir slíkri deild. Þegar slík deild verður tilbúin, sem því miður getur ekki orðið fyrr en eftir 3–4 ár, þá sé sjálfsagt, að prófessorsembættið við háskólann í geðsjúkdómafræðum verði tengt þeirri deild, en þangað til deildin verður sett á laggirnar, finnst þessum aðilum eðlilegast og sjálfsagt, að prófessorsembættið sé tengt yfirlæknisstarfinu á Kleppi. Menntmn. hefur fallizt á þetta sjónarmið, eftir að hafa rætt það m.a. við hv. 9. þm. Reykv., sem var nokkur aðili að einni skoðun um málið, þegar það var hér til meðferðar áður. Í nál. segir svo, að nm. áskilji sér rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Þetta var sett inn í álitið á fundi nefndarinnar s.l. laugardag með tilliti til þess, að nm. töldu eðlilegt, að það væri sett örlítið nánari skilgreining á því inn í frv., að ætlun manna væri sú, að þetta prófessorsembætti tengdist í framtíðinni öðru geðveikisjúkrahúsi en Kleppi. Þetta var rætt við nokkra af þeim aðilum, sem málið heyrði undir, og er nú svo komið, að ég vil flytja hér brtt., sem er á þá leið, að í 2. gr. þessa frv., sem fyrir liggur, þar sem segir, að prófessorinn í geð- og taugasjúkdómafræði skuli vera forstöðumaður geðveikrahælisins á Kleppi, bætist við þessi orð: „unz komið hefur verið á fót fleiri sjúkradeildum fyrir geðveika“. Þá er það tryggt í lögum, að þetta skipulagsatriði verði tekið til endurskoðunar, strax og fyrir liggur önnur sjúkradeild fyrir geðveika. Það er ekki bundið við landsspítalann, sökum þess að ýmsir læknar telja hugsanlegt, að slík deild gæti eins orðið við bæjarsjúkrahúsið, en hvor þeirra, sem fyrr kæmist á fót, yrði til þess, að þetta ákvæði endurskoðaðist. Það var um þetta atriði rætt og nm. sammála um þetta á laugardaginn var, en ekki gengið frá till. þá vegna þess, að það var talið rétt að ræða hana við nokkra aðila, og þess vegna flyt ég þessa till. formlega, þótt ég geri ráð fyrir því, að ef tími hefði verið til eða ástæða til að halda sérstakan nefndarfund um það, hefðu aðrir nm. fallizt á, að n. í heild flytti till., því að allir voru sammála um þetta atriði á fundinum s.l. laugardag. — Þetta var um prófessorsembættið í geð- og taugasjúkdómum að segja.

Þriðja embættið, sem frv, gerir ráð fyrir að lögfesta, er prófessorsembætti við verkfræðideild háskólans. Um nokkurt skeið hefur verið til kjarnfræðinefnd Íslands, sem hefur fengið 100 þús. kr. fjárveitingu á fjárlögum. Þetta fé hefur verið notað til þess að kosta einn starfsmann, ungan eðlisfræðing, sem hefur fjallað um kjarnorkumál fyrir ríkisstj. landsins. Hefur þótt sjálfsagt fyrir íslenzka lýðveldið að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að ekki geti gerzt hlutir á hinu tæknilega sviði kjarnorkunnar í öðrum löndum, sem kynnu að hafa áhrif á hag okkar eða afkomu, án þess að nokkur maður vissi um það hér á landi. Það hefur því verið talið sjálfsagt öryggisatriði í þessum efnum og öllu kjarnorkunni viðkomandi, að íslenzka ríkið hefði í sinni þjónustu a.m.k. einn færan ungan mann, sem hefði það að aðalstarfi að fylgjast með þessum málum. Nú er það talið eðlilegt, að þetta starf verði flutt frá kjarnfræðanefnd og inn í verkfræðideild háskólans, þar sem þessi sami maður gæti stundað nokkra kennslu og einnig tekið þátt í öðrum eðlisfræðistörfum, sem þar eru unnin, m.a. mælingum á geislavirkni lofts og annarra hluta hér á landi. Ungur eðlisfræðingur hefur haft þetta starf, en hefur nú um a.m.k. eins árs skeið verið ráðinn til starfa við Busch-stofnunina í Kaupmannahöfn, og þykir það bera vott um traust í hans garð. Er það vitað mál, að þeir menn, sem að þessu standa, vilja ekki sízt gera þessa breyt. til þess að geta tryggt þjóðinni starfskrafta hans áfram, jafnframt því sem þessum málum er komið á fastan fót og í eðlilegan farveg.

Menntmn. mælir með því, að þetta frv. verði samþ., og legg ég hér fram skriflega brtt. um efni, sem n. varð sammála um á fundi sínum og ég hef þegar lesið.