31.05.1960
Efri deild: 89. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2980 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

175. mál, Háskóli Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég hafði vænzt þess, að þessu frv. yrði hér fylgt úr hlaði og höfð framsaga af hálfu ríkisstj. Ég get samt talað um það nokkur orð.

Það er nú svo með þetta frv., sem hér liggur fyrir til l. um breyt. á l. um háskólann, að það er ekki hægt annað en að láta í ljós ánægju sína yfir þeirri rausn, sem í því kemur fram í garð háskólans. En samkv. þessu frv. á að stofna þrjú ný prófessorsembætti við Háskóla Íslands. Það er raunar svo, að háskólinn þarf alls ekki að kvarta undan sambúðinni við ríkisvaldið, og það er vissulega viðeigandi að undirstrika það, að yfirleitt — með fáum undantekningum — hefur sambúð ríkisvaldsins og háskólans verið góð. Ríkið hefur í mörgu tilliti gert stórvel við háskólann miðað við getu sína. Það er auðvitað svo, að þegar okkar háskóli er borinn saman við háskóla annarra landa, þá er hann lítill og honum að ýmsu leyti áfátt og hann vanefnum búinn. En þegar tillit er tekið til aðstæðna hjá okkur, þá hygg ég, að ekki verði annað sagt en ríkið hafi yfirleitt búið vel og myndarlega að háskólanum, og mér er ljúft að taka það fram hér, að núv. hæstv. menntmrh. hefur yfirleitt sýnt málefnum háskólans mikinn skilning og góðvilja. Og fyrir þann góðvilja og þann myndarskap, sem ríkið hefur þannig sýnt háskólanum, er ástæða til að þakka. Þess er að vænta, að viðhorf ríkisvaldsins í garð háskólans verði hið sama framvegis, því að víssulega er það svo, að háskólinn á að vera óskabarn þjóðarinnar allrar.

Eins og ég áðan sagði, er þetta frv. um stofnun þriggja nýrra prófessorsembætta við háskólann. Þrátt fyrir það, sem ég áðan sagði um góðvilja ríkisvaldsins í garð háskólans, má þó segja, að í þessu frv. komi fram alveg óvenjulegur höfðingsskapur í garð háskólans. Það hefur stundum áður verið nokkur fyrirstaða á því, eins og eðlilegt er, að fá stofnað, þótt ekki væri nema eitt nýtt prófessorsembætti við háskólann, alveg nauðsynlegt prófessorsembætti. En nú á í einu vetfangi að stofna þrjú ný prófessorsembætti við háskólann. Hér er um svo stórfellda breyt. að ræða, að það er ástæða til að staldra aðeins við við 1. umr. málsins hér í þessari hv. d. og segja um það nokkur orð. Og það, sem gefur mér sérstakt tilefni til þess, er sú meðferð, sem málið hefur sætt hjá hv. Nd.

Ég lít svo á, að það sé eðlilegast, að stofnun kennaraembætta við háskólann eigi sér stað samkv. óskum háskólans sjálfs, að háskólinn sjálfur eigi frumkvæðið að stofnun þeirra kennaraembætta, sem þar eru stofnuð. En um þessi prófessorsembætti, sem þarna er um að ræða, er það að segja, að þar er lagt til, að yfirlæknir við Kleppsspítalann sé gerður að prófessor. Frumkvæðið að stofnun þess embættis er ekki frá háskólanum komið, heldur mun það vera fyrrverandi landlæknir, sem átti hugmyndina að því. Þeirri hugmynd var svo komið á framfæri við læknadeild háskólans og hún gerði um það ályktun á sínum tíma, 1958, þar sem hún að vísu mælti með þessari hugmynd landlæknis, en benti þó jafnframt á, að hún teldi, að það væri meiri nauðsyn á prófessorsembættum í vissum öðrum greinum, eins og t.d. í kvensjúkdómum o.fl., áður en þetta prófessorsembætti væri stofnað. Um annað prófessorsembætti, sem þarna er lagt til, í efnafræði, er það að segja, að það er meiri formbreyting en efnisbreyting. En um þriðja prófessorsembættíð, sem þarna er um að tefla, prófessorsembætti við verkfræðideild, þar sem gert er ráð fyrir, að framkvæmdastjóri eða sá, sem gegnt hefur framkvæmdastjórastörfum hjá kjarnfræðanefnd, verði gerður að prófessor við verkfræðideildina, er það að segja, að háskólinn hefur þar ekki átt að neitt frumkvæði. Hugmyndin um stofnun þessa embættis er komin frá menntmrh.

Ég lít svo á, eins og ég sagði áðan, að það sé eðlilegt, þegar um það er að ræða að stofna ný kennaraembætti við háskólann, að þá sé það háskólinn sjálfur, sem eigi þar frumkvæði að. Nú er það svo, að ég hefði talið það mjög sjálfsagt og eðlilegt, að háskólinn, háskólaráð, hefði fjallað um þetta frv., áður en það væri a.m.k. komið langleiðis í gegnum þingið. En þetta frv. hefur að því leyti sætt óvenjulegri meðferð, að háskólinn hefur ekki til þessa látið uppi álit um það. En ég álít, að af þremur ástæðum a.m.k. væri sérstaklega eðlilegt, að um málið væri ekki verulega fjallað á Alþ., fyrr en háskólinn hefði látið uppi sitt álit. Það er í fyrsta lagi af því, að það er að mínum dómi sjálfsögð kurteisi gagnvart háskólanum og háskólaráði, að því sé gefinn kostur á að tjá sig um mál, sem háskólann varða sérstaklega, og sá háttur mun raunar áður hafa verið á hafður. Það er í öðru lagi af því, að ég tel það skynsamlegast, vegna þess að háskólinn og stjórnvöld hans munu bezt skynbær um það, hver þörf honum sé á nýjum kennaraembættum eða nýjum prófessorsembættum. Og í þriðja lagi svo af því, að það er fyrir hendi skilorðslaus lagaskylda til þess að leggja frv, sem þetta fyrir háskólaráð. Samkv. háskólalögunum er það svo, að þar segir, í 4. mgr. 2. gr. háskólalaganna: „Áður en lögum, er snerta háskólann eða háskólastofnanir, verður breytt eða við þau aukið, skal leitað umsagnar háskólaráðs um breytingar eða viðauka svo og nýmæli.“ Og enn fremur segir: „Nú varðar málefnið sérstaklega tiltekna deild, og skal háskólaráð þá leita álits deildarinnar, áður en það lætur uppi umsögn sína.“ Og þetta ákvæði er endurtekið í reglugerð háskólans, sem staðfest er af forseta Íslands.

Nú má auðvitað segja, að löggjafinn geti ekki bundið hendur sjálfs sín og hann geti vikið frá þessu ákvæði hvenær sem er. En ég veit, að það dettur ekki nokkrum einasta hv. þdm. í hug að fara að halda því fram, að Alþ. og löggjafinn eigi að fara að víkja frá því ákvæði, sem þannig er sett, og sízt af öllu mun hæstv. menntmrh., sem beitti sér fyrir setningu þessara laga á sinni tíð, halda því fram, að það eigi að víkja frá þessu fortakslausa ákvæði.

En sá háttur hefur samt verið á hafður, að þetta frv. var lagt fyrir hv. Alþ., án þess að það væri borið undir háskólaráð, og hv. menntmn. Nd. lét sig hafa það að skila áliti um málið án þess að senda það til umsagnar háskólaráði, enda þótt til þess væri lagaskylda, eins og ég hef bent á. En auðvitað er samkv. þessu ákvæði, sem ég hef vitnað til, gert ráð fyrir því, að frv. sé sent til háskólaráðs, áður en það er lagt fyrir Alþ. Auðvitað má um það deila, hvort bókstafnum sé ekki fullnægt, ef frv. er sent til umsagnar, á meðan það sætir meðferð hér á Alþingi. En eftir að hv. menntmn. Nd. hafði skilað áliti, þar sem hún lagði til, að frv. yrði samþ., sendi hún háskólaráði frv. til umsagnar, en ekki hefur hv. menntmn. Nd. beðið eftir svari háskólans, vegna þess að málið hefur nú verið rætt í Nd. og farið gegnum allar umr. þar og er komið hingað upp í hv. Ed. án þess, að mikið svigrúm hafi gefizt til þess fyrir háskólaráð að athuga þetta frv.

Ég hef viljað taka þetta fram, vegna þess að frá sjónarmiði háskólans er hér ekki um neitt hégómamál að ræða. Hér er um mikið prinsipmál að ræða frá hálfu háskólans, að það sé ekki gengið fram hjá honum í efni sem þessu, og hann verður að standa fast á sínum rétti í þessum efnum, og ég tel það skyldu mína sem fyrirsvarsmanns háskólans að gæta þess, að það sé ekki gengið á rétt hans að þessu leyti.

Þó að seint sé, hefur þó, eins og ég sagði, frv. þetta verið sent til háskólans. Það barst háskólanum í gærdag, og þær deildir, sem þetta snertir, a.m.k. önnur þeirra, hafa þegar haldið fund um málið. Og fundur mun verða haldinn í háskólaráði nú síðdegis í dag, og þá mun háskólaráð láta uppi sitt álit. Og ég vildi nú mega vænta þess, og mér finnst ástæða til þess að taka það fram vegna þess, hversu málinu hefur verið hraðað, tekið hér á dagskrá viðstöðulaust, að það væri ekki afgr. úr hv. menntmn. Ed., áður en þessi umsögn háskólaráðs berst. Ég býst við því, að sú umsögn, sem háskólaráðið lætur í té um þetta, verði jákvæð að því leyti til, að það fallist á, að þessi prófessorsembætti verði stofnuð, enda má segja, að það sé erfitt að gera annað, þegar — eins og einu sinni var sagt — steiktar gæsir fljúga upp í munninn á manni. — En ég kemst þó ekki hjá því að vekja athygli á því, að það er nokkur hængur á þessari aðferð, sem hér er beitt, að því leyti til, að mér sýnist, að með þessu sé stefnt að því að koma yfir á fjárlög háskólans kostnaði við stofnanir og embætti, sem raunverulega tilheyra fremur öðrum málefnaflokkum. Þessu held ég, að til sé að dreifa um starf yfirlæknisins á Kleppi. Það tilheyrir auðvitað heilbrigðismálum. Yfirlæknirinn á Kleppi kennir ekki við háskólann nema á einu litlu námskeiði, og sú námsgrein, sem hann kennir, er ekki sérstök prófgrein þar. Og hvað því viðvíkur að færa framkvæmdastjóra kjarnfræðanefndar yfir til verkfræðideildar, þá er í raun og veru um sama tilvik þar að ræða. Það er auðvitað sjálfsagt, að það má að einhverju leyti nota starfskrafta hans hjá verkfræðideild, en það er þó ekki beinlínis a.m.k. tekið fram í frv. um hans kennsluskyldu, heldur virðist eftir aths. að dæma hugsunin vera sú, að hann sé ríkisstj. fyrst og fremst til ráðuneytis í kjarnfræðimálum. Það gæti vel verið hugsanlegt, að aðrir vildu fara inn á þessa braut líka. Það væri t.d. hugsanlegt, að seinna væri sett fram till. um það að gera ráðunaut ríkisstj. í utanríkismálum að prófessor við lagadeild háskólans. Lagadeild háskólans mundi væntanlega ekkert hafa á móti því. Og það mætti hugsa sér, að fram kæmi till. um að gera ráðunaut ríkisstj. í efnahagsmálum að prófessor við viðskiptadeildina, og væntanlega mundi ekki verða haft á móti því. En ég held samt, að þetta sé dálítið vafasöm stefna.

Það er að vísu sagt um stofnun þessa prófessorsembættis við verkfræðideildina, að því muni ekki fylgja aukinn kostnaður. Það má vel rétt vera. En það er a.m.k. þó þetta, sem ég hef bent á, að með þessu er í raun og veru verið að færa til liði, sem ég tel ekki alls kostar eðlilegt, og í annan stað er það nú svo, a.m.k. um mörg þau störf, sem lúta að raunvísindum, eins og þessi, eða það er a.m.k. reynsla háskólans — og er náttúrlega eðlilegt, að þau kalla á aukinn kostnað, því að þá þarf að koma til rannsóknarstofa og aðstoðarstarfsmenn, þannig að það er nú venjulega svo, að það er ekki bara embættið, sem er verið að setja á stofn.

Þetta mun vera fyrsta breyt., sem gerð er á háskólal. frá 1957, og ég hef viljað setja þessar aths. fram í sambandi við þetta mál vegna þess, að mér finnst ekki hafa verið farið hér að öllu leyti rétt að. En eins og ég sagði áðan, geri ég ráð fyrir því, að háskólaráð láti í té jákvæða umsögn um þetta frv., en ég vildi mælast til þess, að málinu yrði ekki hraðað hér, svo að sú umsögn gæti legið fyrir, áður en n. skilar áliti.

Ég hef hér á engan hátt viljað draga úr því, að þessi prófessorsembætti væru stofnuð, en ég bendi aðeins á staðreyndirnar í sambandi við aðdragandann að þessu, og skoðun mín er sú, að það séu önnur prófessorsembætti og kennaraembætti við háskólann, sem ekki sé síður þörf á, og ég vil segja meiri þörf á en þessum, og ég vil þar sérstaklega tilnefna prófessorsembætti, sem ég tel að ætti að ganga á undan þessu, og það er prófessorsembætti við viðskiptadeild háskólans eða við laga- og viðskiptadeildina, prófessorsembætti í viðskiptafræðum. En það má einmitt segja, að með háskólalögunum sé sérstaklega gefið undir fótinn um stofnun þess embættis, þar sem þar segir, að lagadeildin og viðskiptadeildin skuli verða skildar að, þegar þriðja prófessorsembætaið hefur verið stofnað við viðskiptadeildina. Þar hafa ekki verið nema tvö prófessorsembætti. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því, að það er of lítið. Það er þörf þar á meiri kennslukröftum. Þau fræði, sem þar eru kennd, verða æ þýðingarmeiri í okkar þjóðlífi, hagfræðileg og viðskiptaleg málefni, og það hefur oft verið rætt um þetta innan d. og þar hafa allir verið á einu máli, og ég hygg, að hæstv. menntmrh. hafi látíð það í ljós oftar en einu sinni, að hann mundi beita sér fyrir því, að þetta prófessorsembætti við viðskiptadeildina yrði stofnað. Og við höfðum satt að segja vænzt þess, að það yrði fyrsta prófessorsembættið, sem stofnað yrði, þegar breyt. yrði gerð á háskólalögunum. Ég get upplýst það, að laga- og hagfræðideild hefur þegar haldið fund um þetta mál og hefur einróma lagt til, að tekið yrði upp í þetta frv. ákvæði um stofnun prófessorsembættis í viðskiptafræðum. Það á eftir að fara í gegnum háskólaráð, en ég vænti þess, að ef háskólaráð mælir einnig með því, taki hv. menntmn. þessarar d. það einnig inn í frv. Það mætti að sjálfsögðu segja mörg orð um nauðsyn á því prófessorsembætti, en ég þarf ekki að gera það, og ég veit, að þar er hæstv. menntmrh. mér fróðari, og veit, að hann muni vera mér að öllu leyti sammála um það.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vil að endingu endurtaka það, að ég vænti þess, að hv. menntmn. taki vel í þá málaleitun, ef hún kemur, að bæta hér einu prófessorsembættinu við. En ef svo færi mót von minni, að hún gerði það ekki, mun ég flytja við frv. brtt. síðar.