31.05.1960
Efri deild: 89. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2989 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

175. mál, Háskóli Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður, ég þarf ekki að gera miklar aths. við það, sem fram hefur komið.

Við hæstv. menntmrh. erum að sjálfsögðu sammála um, að það sé æskilegt að fá stofnuð sem flest ný prófessorsembætti við háskólann og að það sé æskilegt, að þeir geti sem flestir verið sem sjálfstæðastir í því starfi og þyrftu sem fæstir að sinna miklum kennslustörfum, heldur gætu gefið sig að sem sjálfstæðustum rannsóknarstörfum. Það er þess vegna ekki ástæða til fyrir okkur að tala langt mál um það. En á hinn bóginn er það svo, að fjárhagsgetaríkisins hlýtur alltaf að setja því nokkur takmörk, hve mörg ný kennaraembætti er hægt að stofna við háskólann, eins og við aðra skóla, og þegar því er þannig háttað, hlýtur hugur manns óhjákvæmilega að beinast að því, hver embættin séu nauðsynlegust, og þá hlýtur að verða reynt að velja þau, sem eru nauðsynlegri en önnur. Og það er þó svo með háskólann, þó að hann eigi að vera, eins og hæstv. menntmrh. réttilega benti á, vísindaleg rannsóknarstofnun, þá hvílir þó fyrst og fremst á honum skylda til þess að halda uppi kennslu í ákveðnum greinum. Og þess vegna er honum nauðsynlegt að hafa yfir að ráða nauðsynlegum kennslukröftum til þess að geta innt þá skyldu af hendi.

Hæstv. menntmrh. staðfesti algerlega í sinni ræðu það, sem ég hafði sagt um tildrög málsins, sem sé það, að af þessum þremur nýju prófessorsembættum, sem hér er lagt til að upp séu tekin, þá er frumkvæðið að tveimur komið utan að, frá öðrum en háskólanum sjálfum. Frumkvæðið að því, að yfirlæknir Kleppsspítala yrði gerður að prófessor, var, eins og hann sjálfur tók fram, upphaflega frá landlækni komið. Það er rétt, að það var borið undir læknadeild haustið 1958. Hún samþykkti að vísu að mæla með þessu, en honum er að sjálfsögðu eins kunnugt og mér, að hún lýsti því þá yfir, að hún teldi, að a.m.k. tvö önnur prófessorsembætti ættu fyrir þessu að ganga. Þeir aðilar, sem þar voru þá nefndir, hafa verið gerðir að dósentum síðar, eins og yfirlæknir Kleppsspítalans. Og það er rétt, úr því að hæstv. menntmrh. vék að því, að yfirlæknirinn hefði síðar verið gerður að dósent, að benda á það, að það hafa einmitt á læknadeildinni verið gerðar stórfelldar breytingar eftir 1958, sem hæstv. menntmrh. er mjög vel kunnugt um. Á því tímabili, sem siðan er liðið, hafa verið stofnaðar þar allmargar dósentsstöður, og ég skal ekkert segja um, hvort það getur haft áhrif á afstöðu læknadeildarinnar til þessa máls. En hvað sem því líður, eru þær breyt. svo miklar, að það hefði að mínum dómi verið eðlilegt að leita álits læknadeildarinnar og háskólans um þetta nú, þrátt fyrir það þótt læknadeildin hefði látið þetta álit uppi á sínum tíma. Og að því er annað embættið varðar, stofnun prófessorsembættis í verkfræði, sem er nú fimmta prófessorsembættið þar, en ekki fjórða, eins og hæstv. menntmrh. sagði, en mun sjálfsagt hafa mismælt sig, þá er það líka, eins og hann réttilega viðurkenndi, að frumkvæðið að stofnun þess er ekki frá háskólanum komið, heldur frá ráðuneytinu.

Nú getur það auðvitað verið gott í sjálfu sér, og ég mun alveg jafnt greiða atkv. með stofnun þessara prófessorsembætta, þó að hugmyndin að þeim sé runnin úr þessum stöðum utan háskólans. En ég tel samt sem áður, að það muni verða affarasælast að láta háskólann sjálfan segja til um það, bæði þegar um kennslustörf er að ræða og eins þegar um rannsóknarstörf er að ræða, hvað hann telur nauðsynlegt, í hvað hann vill ráðast og í hvað hann treystir sér að ráðast.

Viðvíkjandi túlkun á þessu lagaákvæði, sem um er að ræða, þá skal ég ekkert vera að þrátta við ráðh. um það. Ég held tvímælalaust, að sá skilningur, sem ég hélt hér fram, hafi vakað fyrir þeim, sem lögin sömdu.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. menntmrh. sagði svo um þá stefnu, sem í þessu frv. fælist, sem ég hef gert nokkrar aths. við eða látið uppi nokkurn ugg um, þar sem verið er að færa á fjárlög háskólans, ef svo má segja, stofnanir, sem eðli sínu samkvæmt ættu fremur heima annars staðar, þá er ég honum mjög ósammála í því efni. Ég tel það óheppilegt almennt talað fyrir háskólann að fá slíkar aukastofnanir á sinn kontó. Það verður til þess, að kostnaðarreikningur við háskólann lítur þannig út, að hann sé hærri en hann í raun og veru er. Og þetta verður til þess, að þegar svo háskólinn þarf að sækja á um nauðsynleg störf, stofnun nýrra kennaraembætta, sem hann telur alveg óhjákvæmileg, eða önnur störf eða önnur útgjöld, sem háskólinn þarf að hafa, þá getur einmitt þetta staðið því í vegi. Þá geta t.d. hv. alþm. bent á það, að nýlega sé búið að stofna þetta og þetta prófessorsembætti, nýlega sé búið að stofna til þessara og þessara útgjalda fyrir háskólann og útgjöld háskólans séu þetta og þetta há. Þannig geta einmitt slíkar ráðstafanir staðið í vegi fyrir því, að óskir háskólans yrðu teknar til greina. Að þessu leyti til er ég því hæstv. ráðh. algerlega ósammála. Ég álít, að þetta sé hættulegt viðhorf, sem hann í þessu efni hefur tileinkað sér, og ég hygg, að viðhorf flestra háskólamanna sé á þessa lund, að þeir telji það ekki til hagsbóta fyrir háskólann, að verið sé að setja á hans kontó útgjöld, sem eðli sínu samkvæmt eiga fremur að vera hjá öðrum stofnunum, en það er í raun og veru verið að gera með því að stofna þetta prófessorsembætti þarna, raunar bæði þessi prófessorsembætti, því að auðvitað á yfirlæknirinn á Kleppi að taka sín laun í þætti heilbrigðismálanna, því að hans starf er auðvitað það að vera yfirlæknir á Kleppi, og sú litla kennsla, sem hann annast við háskólann, er svo algert aukastarf hjá honum, að það tekur náttúrlega ekki tali og það dettur náttúrlega engum í hug, að hann fari að fást sérstaklega við miklar rannsóknir.

Hann hefur nóg að gera við sitt yfirlæknisstarf, þannig að því er ekki til að dreifa, að þar sé verið að koma af stað nýjum rannsóknum.

Ef það er meiningin, að þessi kjarnfræðiprófessor fari að fást við rannsóknir, getur það verið gott út af fyrir sig, en þá vil ég benda á, að það mun kalla á ný útgjöld og Alþ. verður þá að vera við því búið að veita fé til þess, því að allir, sem koma nálægt þessu, vita, að það kostar nú stórfé að útbúa eina rannsóknarstofu með nauðsynlegum tækjum. En auk þess vil ég taka það fram, að í frv. kemur ekkert fram um það, að þessum prófessor sé ætlað að hafa þannig rannsóknarstarf með höndum. Í grg. frv. er aðeins bent á það, að þessum prófessor sé ætlað að vera ríkisstj. til ráðuneytis í kjarnfræðimálum með svipuðum hætti og framkvæmdastjóri kjarnfræðinefndar og kjarnfræðinefnd hefur verið. Og þetta álít ég líka nokkurt umhugsunarefni, hvort það sé heppilegt, að ríkisstj. fari að setja sína ráðunauta í ýmsum efnum á háskólans reikning. Um þetta greinir okkur á, okkur hæstv. menntmrh., en hins vegar erum við auðvitað sammála um, að það sé æskilegt að stofna sem flest embætti við háskólann, sem fært er. Og ég veit, að við erum algerlega sammála um, að það sé nauðsynlegt að bæta við því prófessorsembætti, sem ég nefndi, prófessorsembætti í viðskiptafræðum, og ég vænti þess, að hann muni gera sitt til þess, ef háskólaráð leggur einróma til, að því verði bætt inn í frv., að þá sé það tekið með, enda verð ég að segja það, að þegar þessi prófessorsembætti, sem nú er um að ræða, eru stofnuð jafngreiðlega og virðist nú ætla að verða, held ég, að það verði erfitt fyrir hv. Alþ. að standa gegn því, að önnur prófessorsembætti verði stofnuð bráðlega.