02.06.1960
Neðri deild: 95. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3017 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

175. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég verð að játa, að það er mjög mikið til í því, sem hv. 3. þm. Reykv. (EOI) hafði sem aðalinnihald í ræðu sinni, að meðferð þessa máls hér er því miður ekki með þeim hætti, sem æskilegast hefði verið og ég hefði sannarlega kosið að hún gæti orðið. Hv. d. gefst því miður allt of lítill tími til þess að ræða málið og ég vildi einnig segja of lítill tími til þess að færa fram þau rök, sem ég tel mega færa fram fyrir því, að einnig sú breyt., sem hv. Ed. gerði á frv., er skynsamleg og horfir til bóta.

Ástæðan til þess, að mér fannst þó forsvaranlegt, að málið kæmi til þessarar hv. d„ var fyrst og fremst sú, að hv. Ed. afgr. málið svo að segja alveg ágreiningslaust, þ.e.a.s. með 1 mótatkv. Ef það hefði ekki verið, ef þetta mál hefði reynzt vera harðvítugt deilumál í Ed., hefði ég ekki mælt með því, að það yrði tekið til slíkrar skyndiafgreiðslu hér í hv. Nd. Mér kom satt að segja mjög á óvart, að eftir afgreiðslu málsins í hv, menntmn. Ed. og hv. Ed. í dag skyldi það þurfa að verða ágreiningsefni hér í þessari hv. d., og harma mjög, að svo skuli vera.

Ég átti þess ekki kost að vera á fundi hv. menntmn. og skal ekki lengja þessar umr. með því að telja fram þau rök, sem ég veit að liggja að baki ósk háskólaráðs gagnvart menntmn. hv. Ed. fyrir því að fjölga prófessorum í viðskiptafræðum í þrjá. Þau eru í örstuttu máli þau, að þegar kennslu í viðskiptafræðum var hér fyrst komið á fót árið 1941, var sú kennsla skipulögð sem þriggja ára nám, en hún hefur í reyndinni smám saman verið að aukast og í reyndinni fyrir allmörgum árum er orðið um fjögurra ára nám að ræða. Þegar í upphafi voru skipaðir 2 prófessorar til viðskiptafræðikennslunnar auk nokkurra aukakennara, og þá var það að sjálfsögðu miðað við þá upphaflegu kennsluskrá, þá upphaflegu starfsskrá, sem lögð var til grundvallar og miðuð við þriggja ára námstíma stúdentanna í deildinni. En reglugerðin hefur tvívegis verið endurskoðuð siðan og í þessari deild eins og í öðrum deildum prófkröfur og námskröfur sífellt auknar, þannig að nú er námið í raun og veru orðið fjögurra ára nám. Það hefur enginn stúdent s.l. 5–6 ár lokið prófi á skemmri tíma en 4 árum, en margir hins vegar á 41/2 og jafnvel 5 árum. Og það segir sig sjálft, að þegar námsefni og prófkröfur vaxa frá því að vera miðaðar við 3 ár í það að vera miðaðar við 4 ár hið minnsta, er ekki hægt að komast af með sömu kennslukrafta. Þess vegna hefur það verið ósk d. nú um nokkurt skeið, s.l. 4–5 ár, að einum prófessor verði þarna bætt við.

Ástæðan til þess, að ekki hafa enn ákveðnari kröfur verið um þetta gerðar en raun ber vitni um, er sú, að mikill skortur er á sérmenntuðum hagfræðingum í einmitt þeim greinum, sem nauðsynlegast er að bæta við kennslukröftum í. En á allra síðustu árum hafa nokkrir ungir hagfræðingar einmitt helgað sig þeim greinum, sem ég veit að helzt er hugsað til að veita kennslu í, og gerir það því nú kleift, að hægt mundi vera að fá hæfa kennslukrafta til þessarar nýju kennslu, þó að það hafi ekki verið hægt fyrir 3–4 árum eða a.m.k. erfiðara. Það hefur þess vegna orðið sama þróun í viðskiptafræðikennslunni og í öllum öðrum greinum háskólans, hvort sem mönnum þykir sú stefna eða sú þróun vera æskileg eða óæskileg, að námsefnið er sífellt að vaxa, prófkröfur sífellt að vaxa, og allir, sem til þekkja, eru á einu máli um, að það sé nú orðið alveg ofviða 2 mönnum að kenna það námsefni, sem ætlað er til fjögurra ára náms undir kandídatspróf í viðskiptafræðum.

Þetta eru meginrökin, sem ég veit að liggja til grundvallar ósk laga- og viðskiptadeildarinnar og háskólaráðs um fjölgun prófessora í þessari deild í þrjá.

Í tilefni af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um hlutverk deildarinnar, vil ég aðeins taka fram, að það er réttur skilningur, sem kom fram í ræðu hans, að þrátt fyrir þetta mundi ekki vera unnt að búa menn hér undir kandídatspróf í hagfræði. Starfskraftar þessa nýja manns, ef þessar till. ná fram að ganga, mundu verða að helgast undirbúningi undir viðskiptafræðiprófið, eins og það er nú eða öllu heldur ætti að verða og mundi verða, strax og starfskrafta nýs prófessors nyti við, því að nokkrar breyt. þarf að gera á námsefni og prófkröfum, sem beinlínis er ekki hægt að hrinda í framkvæmd fyrr en þriðja embættið er stofnað við þessa kennslu.

Ég skal láta þessi orð nægja til rökstuðnings erindi háskólaráðs og laga- og viðskiptadeildar við menntmn. hv. Ed. Þó að mér hafi að sjálfsögðu verið kunnugt um óskir laga- og viðskiptadeildar og háskólaráðs um stofnun þessa embættis í tvö til þrjú ár, tók ég ekki inn í þetta frv. ákvæði um stofnun þessa embættis, fyrst og fremst af því, hve frv. var hér seint á ferðinni af ástæðum, sem ég hef áður skýrt, og ég gat búizt við því, að ákvæði um stofnun nýs prófessorsembættis í viðskiptafræðum mundi verða deiluefni hér á hinu háa Alþ. Hins vegar kom í ljós, ég verð að segja mér til mikillar ánægju, í menntmn. hv. Ed., þegar leitað var eftir skoðunum manna á málum þar, að þar voru allir á einu máli um, að þetta væri æskilegt, og sömuleiðis reyndist hv. Ed. á einu máli um að verða við þessum tilmælum háskólaráðs, að einum hv. þm. Ed. frátöldum.

Með hliðsjón af þessari einróma skoðun þeirra meðlima menntmn., sem á fundi voru, og svo að segja einróma skoðun hv. Ed. taldi ég, með tilliti til þeirrar þekkingar, sem ég tel mig hafa á nauðsyn embættisins, ekki forsvaranlegt annað en málið fengi að ganga til úrskurðar þessarar hv. d. En ég fyrirverð mig ekkert fyrir að játa, að meðferð málsins er engan veginn sú, sem ég hefði kosið að hún gæti orðið, fyrst og fremst vegna þess, að ég tel mér ekki hafa gefizt það tækifæri, sem ég vildi þó gjarnan hafa haft, til þess að skýra málið fyrir hv. menntmn. og ekki heldur fyrir hv. þingdeild.