02.06.1960
Neðri deild: 95. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3020 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

175. mál, Háskóli Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Áður en ég vík sérstaklega að því frv., sem hér liggur fyrir, vil ég árétta alveg sérstaklega eitt atriði, sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. (EOI). Þetta atriði var, að það ætti að vinna að því enn betur en gert hefur verið hingað til, að Háskóli Íslands yrði miðstöð norrænna fræða. Ég tel, að það sé alveg rétt fullyrðing hjá honum, að það vanti mikið á, að svo sé, en að því bæri að stefna, og ef einhverjar slíkar breytingar lægju hér fyrir, sem gengju í þá átt, mundi ekki standa á mínum stuðningi.

Ég minntist nokkuð á það við fyrri umr. hér í hv. d., að þetta frv. bæri merki þess, hvernig ekki ætti að leggja mál fyrir Alþingi, og mér finnst rétt vegna margs þess, sem síðar hefur fram komið, að gera þessum atriðum nokkru fyllri skil.

Ég vil þá í fyrsta lagi átelja það enn, hve seint þetta mál er fram komið. Ég álít, að mál, sem hefur í för með sér verulega embættafjölgun, eins og þetta frv., eigi ekki að koma fram seinustu þingdagana. Slík mál ættu að réttu lagi að koma fram snemma á þingi, og ætti jafnvel að setja einhver takmörk um það, að öll slík mál yrðu að vera fram komin t.d. á fyrsta mánuði þingsins og þannig tryggt, að slík mál fengju nægilega athugun. Og ég álit enn fremur, að ef Alþ. samþ. l. um ný embætti, þá eigi þau því aðeins að taka gildi, að búið sé að veita fé á fjárl. til hinna nýju embætta. Sú aðferð að láta slíkt mál koma fyrir þingið, þegar fáir dagar eru eftir af starfstíma þess og mörg mál liggja þá oft fyrir til afgreiðslu, ber þess allt of mikinn keim, að það sé eins og verið að lauma einhverju máli, sem sé ekki nægilega hreint, í gegnum þingið. Og það finnst mér sé líka verið að gera í raun og veru hér.

Önnur ástæðan til þess, að ég áfellist þessa starfsaðferð, er sú, að mér finnst, að hér sé alveg rangt að farið um það, hvernig eigi að fjölga embættum við Háskóla Íslands. Ég álít, að þegar slíkt er gert, prófessorsembættum fjölgað, eigi fyrir að liggja um það ákveðin grg. og ósk frá háskólanum sjálfum. Um öll þau embætti, sem gert var ráð fyrir í frv., eins og það var lagt fyrir upphaflega, gildir það, að ekki lá fyrir ósk frá háskólanum um neitt þeirra. Frumkvæði þeirra hafði átt sér stað á allt öðrum vettvangi.

Í sjálfum háskólal. er líka gert ráð fyrir því, að í raun og veru hafi háskólinn slíkt frumkvæði og engin slík mál séu afgreidd öðruvísi en að þau séu borin undir hann. Í 2. gr. l. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Áður en lögum, er snerta háskólann eða háskólastofnanir, verður breytt eða við þau aukið, skal leita umsagnar háskólaráðs um breytingar eða viðauka, svo og um nýmæli. Nú varðar málefnið sérstaklega tiltekna deild, og skal háskólaráð þá leita álits deildarinnar, áður en það lætur uppí umsögn sína.“

Þetta sýnir, að Alþ. hefur á þeim tíma, sem það setti háskólal., ætlazt til þess, að engar breyt. eða embættismannafjölgun eða prófessorafjölgun ætti sér stað á vegum háskólans öðruvísi en að fyrir lægi áður álit háskólans sjálfs um það efni.

Hins vegar er sá háttur hafður hér á, að t.d. þessi hv. d. afgreiðir þetta mál án þess, að nokkurt slíkt álit liggi fyrir, og munaði sennilega minnstu, ef ekki hefði verið vakin athygli á þessu af mönnum í Ed., að þetta frv. væri látið ganga í gildi með þeim hætti, að þessa álits væri aldrei leitað og háskólal. þannig raunverulega brotin.

En ég vil endurtaka það aftur, að ég álít hér rangt að farið varðandi starfsmannafjölgun við háskólann, að frumkvæðið á að koma frá háskólanum sjálfum, óskirnar um embættismannafjölgun eiga að koma frá háskólanum sjálfum, en ekki frá einhverjum óviðkomandi aðilum, og svo sé reynt að koma þeim í gegnum þingið án þess eiginlega að háskólinn fái sjálfur nokkuð um það að fjalla.

Það, sem ég átel í þriðja lagi í sambandi við meðferð þessa máls, er, að það eru látnar fylgja því algerlega ófullnægjandi og að sumu leyti rangar upplýsingar. Því er t.d. haldið fram, það kemur bæði fram beint eða óbeint í grg. og eins í þeim orðum, sem hæstv. menntmrh. lét falla, þegar hann fylgdi þessu máli úr hlaði, að hér væri um mikil nauðsynjaembætti að ræða og það þyrfti að afgreiða þetta mál sem allra fyrst af þeirri ástæðu. En í ljós kemur svo við athugun málsins, að hér er ekki um meira nauðsynjamál en það að ræða, að háskólinn og forustumenn hans hafa engar sérstakar óskír borið fram um það, að framgangi þessara mála væri hraðað. Og þegar þeir aðilar, sem bezt eiga að þekkja til í þessu sambandi, eins og háskólaráð og forustumenn hinna ýmsu deilda, leggja enga sérstaka áherzlu á, að þessum málum sé hraðað, finnst mér það vera ofmælt hjá þeim, sem að þessu máli standa hér á Alþ., hæstv. menntmrh. og fylgismönnum hans, að halda því fram, að það sé einhver sérstök nauðsyn að afgreiða þessi mál. — Og það er líka komizt svo að orði í grg. frv., og því hefur líka verið haldið fram í ræðum bæði hér í þessari hv. d. og eins í hv. Ed. af menntmrh., að það mundi enginn aukakostnaður fylgja því, að þessi embætti væru sett á laggirnar. Þetta er hins vegar augljóslega rangt. Sá kostnaður, sem hefur verið við geðlækningakennslu eða tilsögn í háskólanum, er ekki eins mikill og sá kostnaður mun verða, sem hlýzt af hinu nýja prófessorsembætti í geðlækningum, sem ætlazt er til að verði stofnað, svo að hér er um augljósa missögn að ræða.

Það kemur líka greinilega fram í áliti núv. landlæknis, að sú breyt. að bæta fullu prófessorsstarfi á yfirlækninn á Kleppi hlýtur að leiða til þess, að þar verður að hafa 2 yfirlækna, að þar verður að bæta við nýju embætti. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi þess, að þær fullyrðingar eru alveg rangar, — og það gildir ekki aðeins um þetta embætti, — þegar því er haldið fram í grg. og af forsvarsmönnum frv., að það muni enginn aukakostnaður fylgja því, að þetta frv. verði í lög tekið.

Það var svo einnig fullyrt af hæstv. ráðh., og það kemur einnig fram í grg. frv., að hér sé í raun og veru ekki um neinar skipulagsbreytingar að ræða, sem einhverju máli kunni að skipta. Þetta álít ég rangt og tel, að þetta sé engan veginn nægilega upplýst og athugað. Á ég þar sérstaklega við það prófessorsembætti, sem ráðgert er að stofna við verkfræðideildina, og þá breyt., sem ráðgerð er í sambandi við það. Mér finnst þess vegna rétt að rifja nokkru nánar upp forsögu þessa máls.

Það var á Alþ. 1955, sem kom saman þá um haustið og stóð fram á vetur 1956, að 5 þm. Framsfl., þeir Skúli Guðmundsson, Vilhjálmur Hjálmarsson, Karl Kristjánsson, Gísli Guðmundsson og Helgi Jónasson, lögðu fram sérstaka till. til þál. um kjarnorkumál, sem hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram rækilega athugun á því, hverjir möguleikar eru til hagnýtingar kjarnorku og geislavirkra efna hér á landi í þágu atvinnuveganna og til lækninga, og gera ráðstafanir til, ef heppilegt þykir að athuguðu máli, að sérstök stofnun fylgist með nýjungum í þeim efnum og hafi með höndum rannsóknir og forgöngu um framkvæmdir, eftir því sem gagnlegt þykir og viðráðanlegt er.“

Þessi till. hlaut góðar undirtektir á Alþ. og var samþ. með þeirri breyt., að í stað þess, þar sem í henni er talað um, að sérstök stofnun annist rannsókn þessara mála, væri það starf falið rannsóknaráði ríkisins eða umsjón þess. Og þetta leiddi til þess, að á vegum rannsóknaráðsins var sett upp svokölluð kjarnfræðinefnd til að sjá um þessar rannsóknir, og beitti þáv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, í sambandi við fjárlög ársins 1957 sér fyrir því, að tekin væri upp sérstök fjárveiting í þessu skyni, 100 þús. kr., og hefur hún verið á fjárlögum síðan. Á vegum kjarnfræðinefndar undir yfirstjórn rannsóknaráðs hefur síðan verið unnið að athugun þessara mála.

Samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, er raunverulega lagt til að fella þessa skipun niður að mestu eða öllu leyti, þessa rannsóknarstarfsemi á vegum kjarnfræðinefndar og rannsóknarráðs og leggja handa undir verkfræðideild háskólans. Og það kom fram óbeint a.m.k. í því áliti verkfræðideildarinnar, sem lesið var upp hér áðan, að hún bersýnilega lætur uppi nokkurn vafa um það, hvort þessi breyt. sé að öllu leyti rétt, óskar m.a. eftir meiri tíma til þess að athuga þetta mál, og kemst svo ekki sterkara að orði en svo, að það geti kannske gengið að leggja þetta verkefni undir verkfræðideildina. En jafnframt tekur verkfræðideildin það fram, að ef þetta verkefni verði lagt undir hana, verði hún að fá aukin fjárráð til skrifstofukostnaðar, og hlýtur þar af leiðandi nokkur aukinn kostnaður að koma til greina, ef þessi skipan verður upp tekin.

Ég verð að játa, að á þessu stigi, vegna þess að ég hef ekki haft aðstöðu til að afla mér nægilegra upplýsinga um það, þá tel ég mig ekki færan um að dæma um það, hvort hér sé um rétta skipulagsbreytingu að ræða eða ekki. Og ég býst við, að það sé þannig um fleiri þm., að þeir hefðu viljað fá rýmri tíma til þess að gera sér grein fyrir því, hvort það sé rétt að taka þetta verkefni af rannsóknaráðinu og kjarnfræðinefndinni og leggja það undir verkfræðideild háskólans. En af hálfu þeirra, sem hafa mælt með þessu frv., hafa ekki neinar fullnægjandi skýringar á þessu atriði verið gefnar. Nefni ég þetta m.a. sem dæmi þess, hve ófullnægjandi undirbúningur þessa máls er, og það ásamt öðru, sem ég hef nefnt, sýnir, að hér er um algerlega óforsvaranleg vinnubrögð að ræða, þar sem jafnstóru máli og þessu er varpað inn í þingið á annan hátt en háskólalögin raunverulega gera ráð fyrir og án þess að nauðsynlegar og réttar upplýsingar fylgi, og svo er ætlazt til þess, að þm. afgreiði þetta athugasemdalaust og án nokkurrar frekari rannsóknar, segi bara já og amen við því, þó að það komi svo upp á eftir, að þeir vita ekki nema takmarkað um það, sem þeir eru búnir að gera, eins og er vafalaust ástatt um flesta þá hv. þm., sem greiddu atkv. með þessu máli í Nd. hér á dögunum. Ég hygg, að eftir að þeir eru búnir að fá frekari upplýsingar um málið, muni þeir vera nokkurn veginn sammála um, að það hefði verið heppilegra, að betri upplýsingar og betri undirbúningur þessa máls hefði átt sér stað.

Það má svo vel vera, — ég skal ekki leggja neinn endanlegan dóm á það, — að þessi embætti eigi einhvern rétt á sér. Ég tel, að það liggi ekki fyrir, eins og ég hef nú reyndar rakið, fullnægjandi upplýsingar um það, að svo sé, og það mun valda því, að á þessu stigi treysti ég mér ekki til þess að fylgja þessu frv. En ég álít hins vegar, að ríkisbákn okkar sé orðið svo stórt og viðamikið, að það eigi að gæta fyllstu varfærni, þegar verið er að bæta við nýjum dýrum embættum. Það eru nú ekki fyrir nema 30 prófessorar við háskólann, sem hafa verið að bætast við hann frá fyrstu tíð, en nú er gert ráð fyrir því að bæta við í einu stökki 4 nýjum prófessorsembættum, án þess að fyrir liggi beinar óskir frá háskólanum sjálfum nema um þetta eina þeirra, sem bætt var inn í frv. í Ed. Ég skal fullkomlega játa, að það væri æskilegt að geta búið háskólann að mörgu leyti betri kennslukröftum en hann hefur nú. En við verðum í þessu tilfelli eins og fleirum að taka tillit til þeirrar getu, sem þjóðin hefur til þess að halda uppí dýrum stofnunum. Við verðum vegna þess, hvað við erum fáir og fátækir, að spara við okkur marga hluti, sem eru nauðsynlegir og þeir, sem stærri eru, geta leyft sér, og þetta lögmál hlýtur að gilda um háskólann eins og aðrar stofnanir.

En ég verð að segja það, að mér finnst nú að undanförnu, og reyndar hefur það átt sér stað oft áður, gæta nokkuð lítillar varfærni í sambandi við fjölgun embætta. Síðan núv. stjórnarsamsteypa tók hér við völdum, er búið að bæta við allmörgum nýjum embættum, sem ég tel að auðvelt hefði verið að komast hjá. Það er t.d. búið að bæta við einu nýju ráðherraembætti, og virtist mönnum þó, að það væri alveg nægilegt að hafa 6 ráðh., eins og var hér áður og var hlutfallslega hærri ráðherratala en þekktist hjá nokkurri þjóð. En þrátt fyrir það hefur núv. stjórnarsamsteypu þótt nauðsynlegt að bæta einum við. Það hefur líka verið bætt við S þm., þótt að ég held flestir geti verið fullkomlega sammála um, að það hefði vel mátt komast af með 52 þm., eins og áður var, og jafnvel færri. Það hefur verið sett á laggirnar nýtt og dýrt ráðuneyti, sem satt að segja er ekki minnsta nauðsyn á að stofnað sé til, þar sem er efnahagsmrn. Þar var aðeins fyrir einn efnahagsráðunautur, en það þótti nú ekki nógu flott að hafa bara ráðunaut og hafa einn mann í því starfi, heldur varð að setja á laggirnar nýtt efnahagsmrn. með ráðuneytisstjóra, deildarstjóra, fulltrúa og skrifstofustúlku, án þess, held ég, að hægt sé að benda á nokkrar eðlilegar röksemdir fyrir því, að til slíks embættisbákns væri stofnað, vegna þess að þær stofnanir, sem fyrir eru, og þá sérstaklega hagstofan og svo hagfræðideildir bankanna, geta fullkomlega annazt þá skýrslusöfnun og upplýsingasöfnun, sem efnahagsmrn. á að hafa með höndum. Þar gerist þess vegna alveg nákvæmlega sama sagan og hv. 3. þm. Reykv. var að rekja hér áðan, þegar Framkvæmdabankinn var settur á laggirnar, að í stað þess að festa og styrkja þær stofnanir, sem fyrir eru, og gera þær færari um að leysa verk sitt af höndum, er bara hleypt af stað nýjum, dýrum ríkisbáknum, eins og efnahagsmrn.

Hér var í dag verið að samþykkja að bæta við einum nýjum bankastjóra við einn af ríkisbönkunum og tveimur bankaráðsmönnum. Það munu flestir hafa haldið, að bankastjórar ríkisbankanna væru orðnir nægilega margir. Hv. stjórnarlið virðist hins vegar ekki líta svo á, og það er talið, að það telji ekki nægilegt, að bæta við þessum eina, heldur hugsi sér enn meiri fjölgun á bankastjórum með haustnóttum, ef stjórnin lifir þá þangað til.

Það mætti halda áfram að nefna fleiri slík dæmi lík þessum, en ég læt þessa upptalningu nægja nú að sinni. Ég held, að þessi dæmi nægi til að sýna, á hvaða braut við erum og hvaða nauðsyn sé að fara að sporna við þeirri þróun, sem hefur átt sér stað í þessum efnum að undanförnu.

Það væri svo ástæða til þess, og það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að vegna þess tilefnis, sem hér hefur gefizt, væri mikil ástæða til þess að ræða starfsemi háskólans í heild og að hvaða leyti væri þar þörf á endurbótum. Ég vil enn á ný taka undir það, sem hann sagði, að það er mikil nauðsyn á því að efla norrænudeildina alveg sérstaklega og gera hana að sannri miðstöð norrænna fræða, sem hefði þá almennu viðurkenningu, að hún skaraði fram úr öðrum slíkum stofnunum í heiminum. Og það er ekki sízt ástæða til þess, að hafinn sé undirbúningur að því að hrinda þessu fram, þar sem við getum gert okkur von um að fá okkar fornu handrit, sem nú eru í Danmörku, innan tíðar, og það leggur okkur þá skyldu á herðar að sýna rannsóknum í sambandi við þau alveg sérstaka alúð. En ég er hræddur um, að eins og nú er í pottinn búið, vanti okkur einmitt aðstöðu til þess að gera það svo, að nokkurt lag sé á. Það væri áreiðanlega vel þess vert, eins og hv. þm. minntist líka á, að þetta mál væri tekið sérstaklega til athugunar í sambandi við það stórafmæli háskólans, sem fram undan er. Og mér þætti líklegt, að þó að menn séu ósammála um þetta frv. af ástæðu, sem eðlileg er, ættu allir þm. og allir flokkar að geta sameinazt um að vinna að því að taka upp þessa hugmynd, sem hv. þm. hreyfði, sem er sú, að þetta sérstaka afmæli háskólans verði notað til þess að koma þessu máli, eflingu norrænudeildarinnar, alveg sérstaklega áleiðis, með tilliti til þess líka, að við getum vænzt þess að fá hingað handritin, sem nú eru í Danmörku, innan tíðar.

Ég hygg, að það sé líka alveg rétt hjá hv. 3. þm. Reykv., að það sé nauðsynlegt að endurskoða starfsreglur læknadeildarinnar. Læknadeildin leysir vafalaust að mörgu leyti starf sitt mjög sæmilega af höndum. En þó er hætt við því, að á víssum sviðum haldi hún kannske enn þá í nokkuð gömul og úrelt form, og það þarf að taka til athugunar, hvort ekki sé hægt að gera þar bætur á. En okkur er að sjálfsögðu mikil nauðsyn, að læknadeildin sé búin sem bezt úr garði, og má í því sambandi minna á, að það prófessorsembætti, sem læknadeildin hefur sérstaklega óskað eftir að væri stofnað og ætti að ganga fyrir öðrum prófessorsembættum, er ekki það prófessorsembætti, sem um er fjallað í þessu frv., heldur prófessorsembætti í kvenlækningum og fæðingarhjálp. Og ég verð að segja það, að mér finnst dálítið einkennilegt, þar sem þessi ósk læknadeildarinnar liggur ákveðið fyrir, að ekki skuli vera tekið tillit til hennar og þetta starf látíð ganga fyrir því, sem hér er verið að stofna til, fyrst á annað borð er verið að stofna til nýs embættis við læknadeildina.

Ég vil svo á ný endurtaka það að lokum, að ég tel þá málsmeðferð, sem hæstv. menntmrh. hefur haft í sambandi við þetta mál, að leggja það svona seint fram og jafnilla undirbúið og raun ber vitni um, vera alveg óverjandi og þess vegna sé ekki hægt að afgreiða málið á þessu stigi, jafnvel þó að það kunni að vera svo, að það upplýsist við nánari athugun, að stofnun þessara prófessorsembætta, sem það fjallar um, hafi nokkuð til síns máls.