02.06.1960
Neðri deild: 95. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3031 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

175. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ef eitthvað stórvítavert hefur gerzt við meðferð þessa máls hér í þessari hv. d., þá er það alger fáfræði hv. 1. þm. Austf. (EystJ) um mál, sem búið er að hafa þrjár umr. um hér í d. Ræða hans áðan bar vott um það, að honum er alls ekki kunnugt um neitt af því, sem komið hefur fram af minni hálfu og hv. menntmn. um málið við þrjár umr. málsins í d. Ræða hans í heild bar vott um það, að hann hefur alls ekki gert sér grein fyrir því, hver er kjarni málsins í öllum meginatriðum þess. Og það finnst mér satt að segja ekki vera frambærilegt að stunda ekki þingstörf þrátt fyrir annir betur en svo, að mergur málsins í umr. fari gersamlega fram hjá mönnum.

Í beinu framhaldi af ræðu hv. þm. vil ég benda á það, að þetta frv., eins og það nú liggur fyrir þessari hv. d., hefur verið afgreitt samhljóða í báðum menntmn. Alþ., með atkv. allra nm., atkv. manna frá öllum flokkum, flokksmönnum hans sömuleiðis, og málið var afgr. til 3. umr. hér með shlj. atkv. allra dm. Ekki veit ég, hvort hann var þá viðstaddur eða ekki, en ekkert mótatkv. kom hér fram. Í hv. Ed. var málið samþ. eins og það er nú með atkv. allra dm. gegn einu, og það var að vísu flokksmaður hv. þm. Að viðhafa þau ummæli um þingið, um þessa deild og hv. Ed., að þm. hafi ekki vitað, hvað þeir voru að gera, þegar þeir samhljóða afgreiddu frv. samkv. shlj. meðmælum beggja menntmn., nálgast að vera ósvífni í garð þd. og Ed.

Ég skal nú víkja fáeinum orðum að efnisatriðum, sem komu fram hjá hv. þm. og báru vott um, að hann hefur alls ekki fylgzt með meðferð málsins hér í þessari hv. d. Hann dró í efa, að það væri rétt staðhæfing, að stofnun prófessorsembættis í eðlisfræði við verkfræðideildina mundi ekki hafa í för með sér aukinn kostnað, og sagði, að stjórn Hermanns Jónassonar hefði beitt sér fyrir löggjöf um kjarnfræðinefnd. Engin slík löggjöf er til, og það eru höfuðrökin fyrir því, að talið var eðlilegt af öllum aðilum, sem um máliðfjölluðu, að embættið yrði stofnað og ráðgjafastörfin í kjarnorkumálum yrðu flutt frá kjarnfræðinefndinni í verkfræðideild háskólans, eða a.m.k. að verkfræðideildin hefði þessi ráðgjafastörf ásamt kjarnfræðinefndinni. Ef sett hefði verið löggjöf um kjarnfræðinefnd, eins og þm. hélt að hefði verið gert í hans stjórnartið, mætti segja, að óþarfi hefði verið að leggja til, að embætti í eðlisfræði yrði stofnað við háskólann, sem ætti að hafa það sérstaka hlutverk að vera ríkisstj. til ráðuneytis um kjarnfræðimál. Það, sem gerðist og hv. þm. rámar dálítið í, er, að í stjórnartíð Hermanns Jónassonar var samþ. fjárveiting til kjarnfræðinefndar að upphæð 100 þús. kr. En um n. er engin löggjöf til og þar af leiðandi enginn lagabókstafur til um starf framkvæmdastjóra n., og það hafa allir aðilar talið, kjarnfræðinefndin sjálf og ráðuneytin, að væri mjög óheppilegt. Það er einmitt til þess að koma lagagrundvelli undir þetta ráðunautarstarf við ríkisstj., sem þetta atriði í frv. er flutt. M.ö.o.: frv. er flutt til þess að gera það, sem hv. þm, hélt að hefði verið gert í hans stjórnartíð, en var ekki gert þá, því miður.

Þá sagði hann, sem einnig ber vott um algera fáfræði um það, sem þegar er rækilega upplýst í málinu áður, að hætta kynni að vera á því, það yrði a.m.k. athugað betur, hvort ekki mundi verða svo, að framkvæmdastjórastarf yrði áfram hjá kjarnfræðinefndinni. En það hefur verið skýrt tekið fram, bæði af mér við 1. umr. málsins og af frsm. hv. menntmn. hér, sömuleiðis tvitekið fram í Ed., að svo er ráð fyrir gert, að fjárveiting á fjárl. til kjarnfræðinefndarinnar flytjist til verkfræðideildarinnar, færist til hennar. Framkvæmdastjóralaunin hjá kjarnfræðinefnd hafa verið greidd af þessari fjárveitingu, og þar af leiðir alveg af sjálfu sér, að framkvæmdastjórastarfið hjá kjarnfræðinefnd fellur niður, m.ö.o. flyzt yfir í verkfræðideildina og verður að prófessorsstarfi þar. Hins vegar mun kjarnfræðinefndin starfa áfram, eins og hún hefur starfað, sem frjáls samtök manna, sem áhuga hafa á kjarnfræðimálum, og njóta sömu tekna, sömu frjálsu framlaganna, sem kjarnfræðinefndin hefur haft, en hún mun hins vegar leggja niður sjálfstæða skrifstofu. í því er sparnaður, og það er sannarlega skynsamleg stefna, að kjarnfræðinefndin sé ekki að hafa sérstaka skrifstofu fyrir einn starfsmann, þegar aðstaða er til þess að koma honum fyrir innan veggja háskólans og skapa honum starfsaðstöðu þar. Hér mun því fækka um eina skrifstofu, þótt að vísu lítil sé, og hefði ég haldið, að hv. þm. ætti að geta orðið það nokkurt ánægjuefni. Það, sem þm. sagði um þetta atriði, var því allt saman á hreinum misskilningi byggt eða réttara sagt á vanþekkingu á því, sem fram hefur komið í málinu hér áður.

Þá sagði hv. þm. dálítið svipað um hið nýja embætti, sem stofnað verður við læknadeildina í geðveikisfræðum. Hann dró í efa, að sú staðhæfing væri rétt, að af þessari breyt. mundi ekki hljótast neinn kostnaðarauki, sem máli skipti. Þm. veit auðsjáanlega ekki það, sem þó hefur verið sagt a.m.k. einu sinni hér í hv. d., að nú er dósentsembætti í geðiæknisfræðum við háskólann og það dósentsembætti er greitt með 35 þús. kr. launum á ári. Ef prófessorsembætti verður stofnað, fær prófessorinn hálf önnur yfirlæknislaun, og það er svo að segja alveg sama upphæðin og nú er greidd fyrir yfirlæknisstörf og dósentsembætti. Hinn nýi prófessor, sem mundi verða jafnframt yfirlæknir, mundi fá svo að segja alveg sömu laun og yfirlæknir og dósent fá nú Það, sem því í raun og veru gerist með þessu, er það að sameina yfirlæknisstarf og dósentsstarf fyrir nákvæmlega sömu fjárupphæð.

Hv. þm. gagnrýndi þá stefnu, sem nokkuð hefði verið uppi, að því er hann taldi, að stofna kennsluembætti sem einhvers konar launabót fyrir lækna. Það, sem einmitt er höfuðtilgangurinn með því að gera yfirlæknisstöðuna á Kleppi og síðar yfirlæknisstöðu við landsspítalann að prófessorsembætti, er að koma í veg fyrir, að yfirlæknisstöðurnar séu aukastörf hjá starfandi læknum í Reykjavík, en á því yrði sannarlega mikil hætta, ef þessi breyting næði ekki fram að ganga. Tilgangurinn með þessum hluta frv. er því einmitt að tryggja, að það gerist ekki, sem hann var að vara sérstaklega við.

Þá sagði hv. þm. og hafði um það stór orð, að ég hefði brotið lög um háskólann með því að láta ekki umsögn frá háskólanum fylgja þessu frv., og talaði þannig eins og ríkisstj. væri skylt að leita álits háskólans, áður en hún leyfði sér að flytja till. til breyt. á háskólalögunum. Þetta er auðvitað alger misskilningur og hefur rækilega verið upplýst hér áður í hv, deild, svo að það hefði ekki þurft að henda hann að viðhafa þessa missögn, ef hann hefði hlustað á það, sem hér hefur komið fram áður. Í háskólalögunum segir, að áður en lögum um háskólann sé breytt, skuli leita álits háskólans á þeim brtt. Um þetta ákvæði er að vísu það að segja að dómi lögfræðinga, að það er í sjálfu sér markleysa, því að ekkert þing getur bannað næsta þingi að gera breyt. á hvaða lögum sem er á þann hátt, sem þingi sýnist. En hitt er annað mál, að þetta ákvæði hefur verið skilið sem ábending, þótt hún sé ekki bindandi, til þings um að afgreiða ekki breyt. á l. um háskólann án þess að gefa háskólanum kost á að segja álit sitt um þær breytingar. Mér vitanlega hefur engum dottið í hug að skilja þessi ákvæði þannig, að ríkisstjórn eða þingmönnum væri óheimilt að bera fram brtt. við lög um háskólann án þess að spyrja háskólann áður. Hvar væri þá frelsi þingmanna? Ætti þá t.d. nú að fresta þessum fundi hér vegna tveggja brtt., sem eru komnar fram, og biðja um fund í háskólaráði, til þess að því mætti þóknast að segja álit sitt á þessum till.? Dettur nokkrum manni í hug í alvöru að skilja lögin á þennan hátt? Það hefur heldur engum dottið í hug, að ríkisstj. væri skylt eða óheimilt að bera fram frv. um breyt. á háskólalögum nema láta fylgja umsögn háskólans. Hitt er annað mál, að ég tel sjálfsagða kurteisisskyldu, ekki aðeins við háskólann, heldur hvaða stofnun sem er, ef þingið er að fjalla um till. til breyt. á lögum um þá stofnun, að gefa þeirri stofnun kost á að segja álit sitt á þeim brtt., sem á döfinni eru, í meginatriðum. Það hefur einnig verið gert hér. Háskólinn hefur fengið tækifæri til þess að segja álit sitt á frv., eins og það liggur fyrir, og mælt með því, eins og það liggur fyrir.

Þá staðhæfði hv. þm. ekki aðeins, að ég hefði vanrækt að bera þetta mál undir háskólann, áður en ég flutti það, heldur jafnvel, að háskólinn hafi alls ekki óskað eftir þeim stöðum, sem gert væri ráð fyrir í þessu frv., lét jafnvel orð liggja að því, að engu væri líkara en ég væri að troða prófessorsstöðum upp á háskólann að honum nauðugum. Þetta hefði hv. þm. einnig látið ósagt, ef hann hefði gefið sér tíma til að vera hér við umr. og hlusta á það, sem fram hefur komið í umr., því að meginkjarni þessa frv., fyrsta atriðið í frv., sem er um stofnun prófessorsembættis í geðlækningum við háskólann, er frv., sem hér hefur áður verið til meðferðar í hv. þd. samkv. beinum tilmælum háskólaráðs og læknadeildar háskólans. Háskólaráð og læknadeildin óskuðu eftir því á þinginu 1958–1959, að það frv. yrði flutt, og ákvæðin í þessu frv. eru nákvæmlega samhljóða því frv., sem þá var flutt eftir beinum tilmælum háskólans. Þó hafði ég samráð um það við forseta læknadeildarinnar, áður en frv. var flutt, leitaði álits hans á því, hvort nokkur breyt. væri á afstöðu læknadeildarinnar, og hann sagði: Nei, á henni er engin breyting, og við óskum enn eftir því, að frv. sé flutt í þessari sömu mynd. — Þetta atriði er því sannarlega gert samkv. beinum tilmælum háskólans.

Um hitt embættið í læknadeildinni, prófessorsembættíð í efnafræði, skrifaði háskólarektor menntmrn. bréf fyrir tæpum þremur vikum með tilmælum um, að ég flytti frv. um stofnun prófessorsembættis í efnafræði við háskólann af þeim ástæðum, sem ég er búinn að rekja hér tvivegis áður í þinginu og sé ekki ástæðu til þess að endurtaka hér, þó að hv. þm. hafi ekki nennt að hlusta á það áður. En mér þykir hart að hlusta á það hér eftir þetta, eftir þessar upplýsingar, að hann skuli segja, að þetta frv. sé ekki aðeins flutt, ekki eftir óskum háskólans, heldur jafnvel í óþökk hans. Þessi tvö læknisfræðiembætti eru flutt samkv. beinum bréflegum tilmælum rektors háskólans til menntmrn.

Um þriðja embættið, í eðlisfræði í verkfræðideildinni, gegnir hins vegar nokkuð öðru máli. Það skal ég fúslega játa, að hugmyndina að stofnun þess embættis átti ég og taldi sökum kunnugleika minna á störfum kjarnfræðinefndarinnar í næstsíðustu ríkisstj., að þeim málum yrði miklu betur skipað á þann veg, sem hér er gert ráð fyrir. Hins vegar tók ég ekki ákvæði um það embætti inn í þetta frv. án þess að hafa rætt það við verkfræðideild háskólans, forseta hennar, kjarnfræðinefndina og formann hennar. Ég óskaði eftir því, áður en frv. var flutt, að verkfræðideildin héldi fund um málið og segði skoðun sína um, hvort hún óskaði eftir þessari skipan eða ekki. Og ég óskaði eftir því, að kjarnfræðinefndin héldi fund og segði skoðun sína á málinu. Ég fékk um það skýlausar yfirlýsingar beggja þessara aðila, bæði kjarnfræðinefndarinnar og verkfræðideildarinnar, að þessir aðilar væru á einu máli um, að þessi skipan, sem hér er gert ráð fyrir, sæi miklu, miklu betur fyrir þeim þörfum, sem óumdeilanlegar eru og hv. þm. undirstrikaði einnig að væru réttmætar, að til væri maður eða menn hér í landinu, sem skoðuðu það sem embættisskyldu sína að fylgjast með því, sem væri að gerast á hverjum tíma í kjarnfræðimálum, til þess að það væri öruggt, að á því sviði gerðist ekkert stórkostlegt, sem væri Íslendingum framandi. Þessir aðilar, bæði í kjarnfræðinefndinni og verkfræðideildinni, voru á einu máli um, að nauðsynlegt væri að búa þessu ráðgjafastarfi einhvern lagagrundvöll og væri eðlilegast að gera það með því að stofna kennsluembætti í eðlisfræði, þar sem prófessorinn hefði einnig það hlutverk að vera ríkisstj. til ráðuneytis í kjarnfræðimálum.

Það, sem hv. þm. sagði um þetta, er því líka algerlega úr lausu lofti gripið. Ég hefði ekki flutt frv. í þessari mynd, að því er þetta embætti snertir, nema því aðeins að ég víssi áður, að verkfræðideildin var því einróma samþykk. Ég sá hins vegar ekki ástæðu til þess að senda frv. fullbúið til umsagnar háskólans, því að ég taldi eðlilegu málsmeðferðina þá, að þingnefnd sendi háskólanum frv. til umsagnar, svo sem þingnefnd einnig hefur gert, og háskólinn hefur sent umsögn sína um málið og mælt með stofnun allra embættanna þriggja, sem voru í stjórnarfrv. Tvær hlutaðeigandi deildir mæltu einróma með stofnun embættanna beggja, og háskólaráð mælti einróma með stofnun þessara þriggja embætta, sem í stjórnarfrv. voru. Öll svigurmæli um, að hér hafi eitthvað verið að gerast, sem ég hafi verið að pukra með, jafnvel að smygla hér inn í þingið á síðustu stundu, eru ekki aðeins úr lausu lofti gripin, heldur ósæmileg.

Ég taldi mig hafa fulla ástæðu til þess að gera mér vonir um, að þingið tæki vel á máli, sem væri undirbúið með þessum hætti og allir sérfróðir aðilar, sem um hefðu fjallað, væru sammála um að væri nauðsynjamál, enda kom það líka í ljós, og það er ekki fyrr en nú á elleftu stundu, sem hjáróma raddir heyrast í málinu. Menntmn. þessarar n. tók málinu mjög vel, einnig flokksbróðir hv. 1. þm. Austf., sem skrifaði undir nál. fyrirvaralaust, og sama gerði flokksbróðir hans í hv. Ed. Það, sem kannske skiptir ekki minnstu máli, flokksbróðir hv. þm., sjálfur varaforseti háskólaráðs, stendur hér undir bréfi frá háskólanum, þar sem hann mælir með stofnun allra þriggja embættanna, sem formaður þingflokks hans er nú að lýsa sig algerlega andvígan.

Háskólinn óskaði eftir því, að eitt prófessorsembætti enn yrði stofnað við háskólann. Stofnun þess embættis mundi hafa í för með sér aukin útgjöld háskólans og á fjárlögum, sem nemur prófessorslaunum. Ástæðan til þess, að ég tók ekki ákvæði um það embætti inn í frv., var einfaldlega sú, að ég bjóst við því, að það mundi verða deiluefni, og ég vildi ekki sýna þinginu svo seint till., sem ég gat rennt grun í að yrði deiluefni, vegna þess að hún þýddi útgjöld. Ég bjóst ekki við því, að hitt mundi verða deiluefni, vegna þess að þar var ekki um útgjöld að ræða, eins og líka kom á daginn.

Þegar hins vegar kom á daginn í hv. Ed., að hv. þn., menntmn. þar öllsömun, einnig hv. framsóknarmaður í n., vildi samþykkja þessa útgjaldaaukningu, þá varð ég að sjálfsögðu manna fegnastur. Hins vegar hefur hér komið fram mikil gagnrýni á þessari málsmeðferð, og ég hef þegar lýst því yfir og ég játa, að hún er óheppileg. Ég hefði sjálfur kosið hana öðruvísi og get fyrir mitt leyti fallizt á þá till., sem hv. forseti d. hefur borið fram um, að háskólalögunum skyldi breytt þannig, að þetta þriðja embætti skyldi stofnað, enda hef ég áður gert grein fyrir því, að á því er brýn nauðsyn, en þó ekki fyrr en fé er veitt til þessa á fjárl. Þá er öllu réttlæti fullnægt. Hins vegar virðist það koma í ljós, að hv. Framsfl. vill stofna embættið án þess, að beinlínis sé veitt fé á fjárl.

Ég hef farið þetta mörgum orðum um þetta af því, að ég sé enga ástæðu til þess að sitja þegjandi undir svigurmælum, sem fram koma á elleftu stundu og eiga augljóslega rót sína að rekja til þess, að sá, sem þau viðhefur, hefur ekki fylgzt með umræðum um málið, eins og honum þó bar skylda til.