02.06.1960
Neðri deild: 95. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3039 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

175. mál, Háskóli Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af því, sem hæstv. menntmrh. sagði hér áðan. Hæstv. ráðh. var ákaflega hneykslaður yfir því, að ég skyldi finna að meðferð þessa máls, og taldi sumt af því, sem ég sagði, bera vott um mikla fáfræði um þessi efni og raunar vanrækslu á þingstörfum, því að það hlyti að hafa farið algerlega fram hjá mér, sem hann og fleiri höfðu upplýst um málið. En sérstaklega var hann hneykslaður yfir því, að ég skyldi finna að því, hvernig hann hefði undirbúið þetta mál og lagt það fyrir hv. Alþingi.

Ég vil leyfa mér að rifja upp aðeins örlítið, hvernig hæstv. ráðherra hefur unnið að þessu.

Þetta mál var lagt hér fram 27. maí, eins og hér hefur oft verið tekið fram, og hæstv. ráðh. vissi það, að ríkisstj. og þingmeirihluti hennar hafði ákveðið, að þingi skyldi ljúka fyrir hvítasunnu. Þetta vissi hæstv. ráðh. Samt sem áður ætlar hann þinginu þetta innan um öll þau verkefni, sem fyrir voru og voru þannig, eins og ég greindi frá og hann gat ekki vefengt, að þingmönnum var haldið hér á stöðugum fundum út af öðrum málum og svo hart að gengið af hæstv. forsetum, að flokksfundatímarnir voru teknir og var ekki einu sinni hægt að halda flokksfundi. Hæstv. menntmrh. vissi, að svona var ástandið í þinginu. Þá leggur hann fyrir stjórnarfrv. um þetta efni, sem hér hefur verið rætt, og krefst þess eða biður um það, raunar krefst, að það verði gert að lögum, fari í gegnum sex umr. á þeim örstutta tíma, sem til stefnu var, og raunar enginn tími til stefnu til þess að fjalla um þetta mál.

Ofan á þetta bætir svo hæstv. ráðh. því, að hann lætur enga umsögn frá háskólanum fylgja frv., eins og þó raunar er skylt að gera og ég mun koma síðar að nánar, að gefnu tilefni frá hæstv. ráðherra. Hann lætur ekki umsögn háskólaráðs fylgja frv., þegar það kemur fram, þannig að þm. geta ekki haft hana til þess að styðjast við, til að létta sér að taka afstöðu til málsins.

Hæstv. ráðh. er ákaflega hneykslaður yfir því, að það skuli vera fundið að þessari málsmeðferð af hans hendi. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað var hann að gera í allan vetur? Hvers vegna gerði hann þetta? Hvers vegna lét hann ekki þetta mál koma fram fyrr en 27. maí? Hann hefur ekki gefið neina skýringu á því. Ef hann gæti gefið einhverja fullnægjandi skýringu á, hvers vegna hann gat ómögulega komið málinu fyrr fyrir þingið en 27. maí, örfáum dögum áður en þingi lauk, væri kannske hægt að taka þá skýringu til greina. En hver er skýringin á því? Og getur hæstv. ráðh. ekki skilið, að ef hann var ekki tilbúinn með málið fyrr en 27. maí, átti hann aldrei að sýna þetta mál í vor? Hann átti bara að geyma það þangað til á næsta þingi, það var það, sem hann átti að gera.

Ég veit ekki betur en hæstv. ráðh. hafi verið mjög bljúgur hér í kvöld að játa, að meðferðin á þessu máli hafi alls ekki orðið eins og hún hefði þurft að vera. En hvers vegna er hann þá að belgja sig upp út af því, þó að það sé hógværlega að því fundið, sem hann sjálfur hefur játað að er ekki eins og það á að vera?

Gat hæstv. ráðh. ekki búizt við því, að einhver vildi skoða þetta mál eða máske gera brtt. við það? Var það óhugsandi? Og er það sæmilegt að vera þannig á ferðinni með málefni eins og þetta, að það sé fyrir fram sjáanlegt, að enginn tími sé til þess að skoða neinar brtt. eða átta sig á þeim, því að hæstv. ráðh. veit, að þetta mál hefur gengið með fyllsta hraða, meira að segja óeðlilegum hraða gegnum þingið? En samt sem áður er ekki meiri tími til stefnu en svo, að hann verður sjálfur að játa það hér í kvöld í ræðu, að hann hafi ekki tíma til þess að greina eða tína fram þær ástæður, sem þyrftu að koma fram í sambandi við tillöguna um hið nýja prófessorsembætti, sem bætt var inn í frv. í Ed.

Það er engin ástæða til þess fyrir hæstv. ráðh. að vera með neinn hroka eða belging í þessu sambandi. Það er langbezt fyrir hann að játa, að það eru stórfelld missmíði á því, hvernig þetta mál er lagt fyrir. Og allra sízt er ástæða til þess fyrir hann að stökkva upp á nef sér út af hógværum ábendingum í þessa átt, sem allir finna auðvitað inni á sér að eiga fullkomlega rétt á sér. Hver er sá hv. þm., sem finnur ekki inni á sér, að öll meðferðin á þessu máli er alls ekki eins og hún á að vera? Það finna auðvitað allir, og það er kannske þess vegna, sem hæstv. ráðh. reiddist. En hann verður bara að gera sér ljóst, að það er ekki hægt að komast hjá því, að á þetta sé bent. Það finna auðvitað allir, að svona á ekki að halda á málum, eins og hæstv. ráðh. hefur gert í þessu dæmi. Og það er alveg út í hött, að hæstv. ráðh., sem hefur komið svona fram, skuli leyfa sér að rjúka hér upp með brigzlum í garð manna, þó að hógværlega sé að þessu fundið, ásaka menn um fáfræði og annað slíkt, þó að þeir við þau skilyrði, sem menn hafa búið hér undanfarna daga, hafi ekki getað heyrt hvert einasta vísdómsorð, sem fallið hefur af vörum þessa hæstv. ráðh. í sambandi við þetta mál, þar sem jafnvel svo langt hefur gengið, að það hefur orðið stundum að nota beinlínis deildarfundatímana til þess að tala sig saman um afstöðuna í málinu. Flokkarnir hafa ekki getað haldið fundi, þannig að menn hafa verið neyddir til að fara út af deildarfundunum til að tala sig saman um það, hvaða afstöðu eigi að taka í atkvæðagreiðslum og öðru slíku.

Þannig eru vinnuskilyrðin, sem menn eiga við að búa, og svo koma hæstv. ráðh. og leyfa sér að saka menn um fáfræði og vanrækslu á þingstörfum, þó að það hafi farið fram hjá mönnum einhverjar setningar, sem hæstv. ráðh. hafa sagt.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri auðheyrt á því, sem ég hefði tekið fram, að ég hefði ekki gert mér grein fyrir kjarna málsins í öllum meginatriðum þess. Það væri sannarlega ekkert undarlegt, þó að svo væri. Ég veit eiginlega ekki, hvernig hægt er að gera þá kröfu til þm., að þeir hafi getað það, eins og á þessu hefur verið haldið. Og ég hefði gaman af að vita, hvað það væru margir þm., sem vildu segja það með hreinni samvizku, að þeir, við þau skilyrði, sem við höfum búið nú undanfarna daga, hefðu getað kynnt sér til fullrar hlítar kjarna þessa máls í öllum aðalatriðum.

Á hinn bóginn má ásaka menn fyrir að hafa tekið of mikið tillit hér í d. til óska hæstv. ráðh. um að hraða þessu máli. Það kemur nefnilega í ljós, að slíkt á alls ekki að gera, eins og mönnum þó stundum vill verða á. Mönnum vill stundum verða það á að gera of mikið eftir tilmælum frá hæstv. ráðherrum og öðrum, sem hafa áhuga á því að koma málum fram. Það sýnir sig, að það er varasamt að verða of fúslega við slíkum tilmælum. Og það sýnir sig líka, að þeir, sem bera slík tilmæli fram, launa það með brigzlum í garð þeirra, sem verða við tilmælunum, eftir á, þegar þeir hafa tækifæri til, eins og hæstv. ráðh. hefur gert. Það var tekið of mikið tillit til hans hér um daginn, þegar hann vildi fá þetta mál áfram og lýsti því, hvað það væri einfalt, og þakkirnar, sem menn hafa fyrir að hafa í fljótræði orðið við þessum óskum hans, eru brigzl af hans hendi nú um vanrækslu á þingstörfum, fáfræði og flan. Þetta eru þakkirnar, sem menn fá fyrir, að mönnum hefur orðið það á að taka tillit til ráðherrans. Það væri ekkert óeðlilegt, þó að menn létu sér þetta að kenningu verða, sem hæstv. ráðh. hefur nú sagt um þessi efni, og tækju með meiri fyrirvara og meiri tortryggni undir óskir hans framvegis um það að flýta málum langt fram yfir það, sem venja er til og raunar er verjandi.

Hæstv. ráðh. viðhafði þau orð í þessu sambandi, að það stappaði nærri ósvífni — hann notaði það orð — af minni hendi að gefa í skyn aðra eins fjarstæðu og þá, að þm. hefðu afgreitt þetta án þess að hafa grandskoðað það ofan í kjölinn. Ja, þvílík hræsni! Eins og hæstv. ráðh. sé ekki alveg fullkomlega ljóst, að þegar haldið er á máli eins og hann hefur gert í þessu sambandi og það knúið fram með slíkum hraða, þá er því alls ekki til að dreifa, að hv. þm, hafi hver um sig getað rannsakað það ofan í kjölinn? Menn gera slíkt í þeirri trú, þegar þannig stendur á, að það sé óhætt að treysta þeirri forustu, sem þá og þá er fyrir málunum. Menn leiðast út í þetta, þegar þeir eru settir í slíka klemmu eins og gert er, þegar þannig er haldið á málum. Þess vegna finnst mér, að hæstv. ráðh. ætti að vera hógvær, en ekki fullur hroka í sambandi við þetta mál.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það sýndi bezt af öllu, hvað ég væri illa að mér um þessi mál, að ég hefði talað um, að kjarnfræðinefndin hefði verið sett á fót með löggjöf. Hann talaði um þetta lengi nætur, hvað þetta sýndi fádæma vanþekkingu af hálfu þm., að hann hefði haldið þessu fram. En var nú ástæða til þess fyrir hæstv. ráðh. að vera að eyða nóttinni í þetta? Ég efast um það. Ég vil í þessu sambandi upplýsa, ef hæstv. ráðh. kynni að vera búinn að gleyma því, að um þetta efni hafa a.m.k. tvisvar verið gerðar samþykktir á hv. Alþingi. Í annað skiptið er það 1955. Þá er samþ. þáltill. svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram rækilega athugun á því, hverjir möguleikar eru til hagnýtingar kjarnorku og geislavirkra efna hér á landi í þágu atvinnuveganna og til lækninga, og gera ráðstafanir til, ef heppilegt þykir að athuguðu máli, að rannsóknaráð ríkisins fylgist með nýjungum í þeim efnum og hafi með höndum rannsóknir og forgöngu um framkvæmdir, eftir því sem gagnlegt þykir og viðráðanlegt er.“

Þetta er þáltill. um kjarnorkumál, sem samþ. er 1955.

Í framhaldi af þessari þáltill. er svo sett ákvæði inn í fjárl. Og um hvað er það ákvæði, sem sett er inn í fjárl. fyrir árið 1959? Ákvæðið er um kjarnfræðinefnd. Það er sett ákvæði, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Til kjarnfræðanefndar, til rannsókna á hagnýtingu kjarnorku, 100000 kr.“ M.ö.o., kjarnfræðinefndin er stofnuð með fjárlagaákvæði.

Ætli það hefði ekki verið betra fyrir hæstv. ráðh. að sofa þessa stund, sem hann eyddi af nóttinni til að býsnast yfir því, að þm. skyldi leyfa sér að kalla það lagasetningu um kjarnorkunefnd, að n. er ákveðin með ákvæði í fjárl.? Eru fjárl. ekki lög? Eru fjárlagaákvæði ekki lagasetning frá Alþingi?

Ég leyfði mér í sambandi við lagaákvæðið um kjarnorkuprófessorinn að segja, að það gæti verið hætta á því, að þar væri raunverulega verið að stofna alveg nýtt embætti. Og ég færði þær ástæður fyrir þessu, að það gæti vel farið svo, að þegar frá liði, væri það ekki talið samræmanlegt, að kjarnorkuprófessorinn væri framkvæmdastjóri kjarnorkunefndar. En hæstv. ráðh, segir, að þetta sé alveg út í hött. Þetta hljóti að stafa af því, að ég hafi ekki hlustað nógu vel á hann, því að hann hafi tekið þetta fram, hæstv. ráðh., að svo væri ráð fyrir gert, að fjárveiting til kjarnfræðinefndar flyttist til háskólans. Ef ég hefði heyrt þetta, hlyti ég að hafa verið alveg rólegur. Þegar hann hefði sagt, að það væri ráð fyrir þessu gert, þá væri engin hætta á öðru en að það yrði þannig um ófyrirsjáanlega framtíð, af því að hann hefði tekið fram, að það væri ráð fyrir þessu gert. En væri nú alveg óhugsandi, að einhverjum dytti í hug síðar að hafa þetta öðruvísi en hæstv. ráðh. sagði hér um daginn að ráðgert væri? Gæti það ekki einmitt vel komið til, alveg eins og ég var að minnast á í kvöld, að mönnum fyndist síðar, að það gæti ekki farið saman, að kjarnfræðiprófessor yrði framkvæmdastjóri kjarnfræðinefndar?

Má vera, að það vaki fyrir hæstv. ráðh., það er ekki alveg ljóst, en það mætti álykta svo af orðum, sem féllu, að það ætti að leggja kjarnfræðinefndina alveg niður. Það er máske hugsun hæstv. ráðh. En þá er það eitt atriði nýtt og nýtt vafaatriði í sambandi við þetta mál. Er meiningin að leggja kjarnfræðinefndina algerlega niður? Og ef svo er, að meiningin er að leggja kjarnfræðinefndina alveg niður, er það ekki nokkuð vafasamt, að slíkt sé heppilegt? Gæti það ekki verið vafasamt að leggja niður kjarnfræðinefndina, því að henni er ætluð mikilsverð forusta einmitt í kjarnorkumálunum? Og er það víst, að forustan í þeim málum yrði nægilega samræmd og skelegg, ef n. yrði lögð niður? En ef hæstv. ráðh. ætlast til þess, að n. verði ekki lögð niður, kemur þessi spurning aftur, sem ég var að velta fyrir mér áðan: Kemur þá ekki að því, að n. vilji fá annan mann en prófessorinn til þess að starfa sérstaklega fyrir sig? Mér sýnist því, að þetta mál þurfi íhugunar við og það sé alls ekki ófyrirsynju, að minnzt hefur verið á þessi atriði.

Raunar gæti líka það, sem hæstv. ráðh. sagði áðan, — hann sagði, að þarna yrði fækkað um eina skrifstofu, — bent til þess, að ætlunin væri að leggja kjarnorkunefndina niður. En mér sýnist, ef það er meiningin, að þá geti verið fullkomlega vafasamt, að heppilegt sé að skipta þannig algerlega um forustu í kjarnorkumálunum og hafa aðeins háskóladeildina til að sinna þeim efnum. En það er með þetta eins og fleiri atriði í sambandi við þetta mál, sem sýnir, að málið er ekki nægilega rætt hér í hv. Alþ. og ekki hefur gefizt tóm til að skoða það nógu vel.

Hæstv. ráðh. bætir á hinn bóginn ekkert fyrir sér með því að vera að brigzla mér eða öðrum um fáfræði í því sambandi eða vanrækslu á þingstörfum eða annað þess háttar og vera með reiðiyrði út í bláinn. Allt slíkt sýnir, að það er þannig á þessu haldið, að það er ekki von, að menn hafi náð til hlítar tökum á málinu.

Ég þykist ekki vanrækja þingstörf fremur en aðrir hér, en játa það alveg hreinskilnislega, að þegar málið var til meðferðar um daginn, hafði ég alls ekki tóm til þess að sinna því neitt. En mér varð það á að sveigjast fyrir tilmælum þessa hæstv. ráðh., sem aldrei skyldi verið hafa, og mun ég gæta mín í því efni á næstunni, og einnig mun ég gæta þessa, þó að slík tilmæli komi frá þeim hæstv. ráðh., sem rétt í þessu hvíslaði að mér nokkrum orðum, því að það má segja hér um, að laun heimsins eru vanþakklæti.

Kemur það berlega fram í þeim þjösnaskap, sem hæstv. ráðh. hefur sýnt, þar sem hann ræðst nú að mönnum með fúkyrðum fyrir að hafa orðið við hans eigin tilmælum um að skoða ekki málið. Í raun og veru voru tilmæli hæstv. ráðh. um daginn um það að skoða ekki málið, en fara eftir því, sem hann hafði lagt til. Það er sannast að segja nokkuð harðleikið að fá ekki nema dólgslegar skútur fyrir að hafa tekið þetta til greina hér á dögunum í hv. Nd.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það hefði verið mjög ófyrirsynju, að ég fann að því, að ekki hefði verið farið eftir háskólalöggjöfinni varðandi undirbúning málsins. Vildi hæstv. ráðh. alls ekki játa, að þar hefði nokkuð verið farið óeðlilega að. En ég vil í allri vinsemd benda hæstv. ráðh. á, að allt það, sem hann sagði um það efni, staðfesti það, sem ég hafði haldið fram. Skal ég færa að því nokkrar ástæður.

Í lögunum um Háskóla Íslands stendur, með leyfi hæstv. forseta, í 2. gr.:

„Áður en lögum, er snerta háskólann eða háskólastofnanir, verður breytt eða við þau aukið, skal leita umsagnar háskólaráðs um breyt. eða viðauka, svo og um nýmæli.“

Þetta stendur í lögum um háskólann. Nú segir hæstv. ráðh., að það standi ekkert í þessari lagagrein um, að ríkisstj. skuli leita álits háskólaráðs, áður en hún leggur stjórnarfrv. um háskólann fyrir Alþingi, og hæstv. ráðh. heldur sér dauðahaldi í, að þetta standi ekki í lagagreininni. Þess vegna sé það alveg út í bláinn, — og ég man ekki, hvaða viðeigandi orð hann hafði um mig í því sambandi, — alveg út í bláinn að finna að þessu. En ég hygg, að hæstv. ráðh. verði að viðurkenna, að það er ekki hægt að skilja þetta lagaákvæði á aðra lund en þá, að það sé hreinlega skylda ríkisstj. að bera undir háskólaráðið fyrirhugaðar breytingar á háskólalöggjöfinni, það sé sú eina eðlilega framkvæmd á þessu lagaákvæði, að þannig sé farið að af hendi ríkisstj. Og ég efast ekkert um, að inn á sér viðurkennir hæstv. ráðh. þetta. Það er engin önnur aðferð í fullu samræmi við lagaákvæðið, anda þess og efni. Það er ekki hægt að uppfylla þetta lagaákvæði með því að eiga samtal við deildarforseta háskólans, eins og hæstv, ráðh. var að telja fram í þessu sambandi. Það stendur þarna alveg berum orðum, að það skuli leita umsagnar háskólaráðs, og þetta lagaákvæði er því ekki uppfyllt með því að ræða einstök atriði frv. við aðra, eitt atriði við þennan deildarforsetann og annað atriði við hinn o.s.frv. Með slíku er hreinlega verið að fara fram hjá þessum ákvæðum l., því að þessi ákvæði eru auðvitað sett inn til þess, að háskólaráðið, sem er yfirstjórn háskólans, fái þær breyt. til umsagnar í samhengi, sem hugsunin er að gera hverju sinni. Hitt er bara eins og að læðast í kringum hús að vera að ræða við einn og einn á afskekktum stöðum, um eitt atriði hvern af þeim breyt., sem fyrirhugaðar eru.

Við sjáum þá einnig, hversu fáránleg þessi málsmeðferð öll er, að frv. er ekki sent til umsagnar háskólaráðinu, fyrr en það er komið í gegnum Nd., eftir því sem ég bezt veit. Þá fyrst er það sent háskólaráðinu til umsagnar. Ég veit ekki, hvort það var sent háskólaráðinu til umsagnar að frumkvæði hæstv. ráðh. eða hvort það var n., sem hafði frumkvæði um það. En auðvitað er hæstv. ráðh. skylt að sjá um framkvæmd háskólalaganna, og hæstv. ráðh. var því skylt að sjá um, að þessu ákvæði háskólalaganna væri fylgt. Og það var hann, sem átti að senda þetta mál háskólaráðinu til umsagnar, áður en hann lagði það fyrir þingið. Ég veit, að hæstv. ráðh. er alveg ljóst, að þannig átti að halda á málinu. En af einhverjum einkennilegum ástæðum, sem enn eru ótilgreindar, kaus ráðh. að sniðganga þetta ákvæði l. og leita ekki umsagnar háskólaráðs um málið í heild, eins og þó átti að gera.

Ég tel ekki líklegt, að hæstv. ráðh. finnist það í raun og veru vera eðlileg meðferð á málum varðandi háskólann, sem hann virðist hafa hugsað sér í þessu falli, að hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkarnir ákveði, hvernig þeir ætla að breyta háskólal., og taki ákvarðanir um að berja það í gegnum þingið án þess að leita álits hjá háskólaráði. Ég vil leyfa mér að halda fram, að með slíku sé verið að fara algerlega í kringum háskólalöggjöfina, og það er í raun og veru brot á löggjöfinni, eins og ég hélt fram í kvöld.

Ég verð því að telja, að ég hafi fært fullnægjandi rök fyrir því, að meðferð þessa máls er alveg óviðeigandi, og full rök fyrir þeirri afstöðu minni að greiða atkv. á móti málinu, þótt ég leiddist út í að láta það afskiptalaust í fyrra sinnið, sem það fór hér í gegnum hv. d. Og ég verð að segja, að ég hef ekki heyrt frá hæstv. ráðh. eða neinum öðrum nokkur rök fyrir því, að málinu liggi nokkurn skapaðan hlut á og ekki sé hægt að láta það fá þinglega meðferð. En sú ein meðferð væri alveg þingleg að láta málið nú eiga sig og taka það þá upp aftur, þegar þing kemur saman næst.