02.06.1960
Neðri deild: 95. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3049 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

175. mál, Háskóli Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt, áður en ég kem að þeirri brtt., sem hæstv. forseti hefur lagt fram, að víkja að nokkrum atriðum, sem komu fram í seinustu ræðu hæstv. menntmrh.

Hæstv. menntmrh. sagði, að það hefði ekki verið deilt neitt á málsmeðferðina hér í Nd., þegar málið var þar fyrr til umr. Þetta er ekki rétt. Ég gerði þá strax aths. við málsmeðferðina og átaldi hana. En ástæðan til þess, að málið fór hins vegar umræðu- og athugunarlítið í gegnum d., eins og hann minntist á, var fyrst og fremst sú, að þm. höfðu þá að miklu leyti villandi og rangar forsendur við að styðjast. Ef málið hefði legið jafnljóst fyrir þá og það liggur fyrir nú, er áreiðanlegt, að það hefði ekki gengið eins fljótt gegnum d. og raun varð á.

Hæstv. ráðh. var með nokkrar skýringar á því, hvers vegna frv. hefði verið lagt svona seint fram, og færði það fram sem aðalástæðu, að það hefði þurft að bíða eftir áliti hins nýja landlæknis. Það kemur fram í grg. fyrir þessu frv., að álit hins nýja landlæknis hefur legið fyrir 1. apríl s.l. og þess vegna hefði verið vegna hans auðvelt að leggja þetta mál fyrir þingið fyrir tveimur mánuðum.

Þá var hæstv. menntmrh. með þá skýringu, að þetta hefði dregizt vegna þess, að hæstv. dómsmrh. hefði verið fjarverandi. Trúi því nú hver sem vill, að hæstv. dómsmrh. hafi verið einhver sérstakur dragbítur í vegi þessa máls og þess vegna hafi orðið að fresta að leggja það fyrir þingið. Ef það væri hins vegar svo, að hæstv. dómsmrh. sem heilbrmrh. hefði viljað athuga þetta mál eitthvað sérstaklega og talið það eitthvað vafasamt og þess vegna sé það ekki lagt fyrir þingið fyrr en nú, væri gott að heyra skýringar á því. Og það væri mjög fróðlegt að heyra t.d. álit hæstv. heilbrmrh. á því, hvort það sé vegna einhverrar afstöðu hans og tregðu í málinu, að hefur dregizt að leggja það fyrir þingið.

Þá var hæstv. menntmrh. að færa rök fyrir því, hvers vegna lægi á að afgreiða þessi mál nú þegar. Hann taldi, að það þyrfti að fara að ráðstafa yfirlæknisembættinu á Kleppi. Sú skipan, sem nú er þar á, er búin að standa í nærri því tvö ár, og ég held, að það sé engin hætta, þó að það dragist í nokkra mánuði enn. Ég held, að þetta hafi gengið mjög sæmilega á Kleppi og þess vegna sé engin ástæða til þess hvað yfirstjórnina snertir að vera að gera einhverja sérstaka lagabreytingu nú af þeirri ástæðu. Og ég er ekki viss um a.m.k., ef það hefur verið eitthvað að þar, að það muni neitt breytast við það og menn fái betri heilsu þar, þó að þetta frv. verði samþ. nú þegar í stað þess að dragast til haustsins.

Þá er það hreinn misskilningur hjá hæstv. ráðh., að þessu frv. liggi á vegna þess, að það þyrfti að ráða mann í stað Trausta Ólafssonar. Að sjálfsögðu er hægt að ráða mann í stað Trausta nú strax á sama hátt og Trausti hefur verið ráðinn áður, svo að það er engin ástæða til þess að vera að leggja neitt ofurkapp á þetta mál af þeirri ástæðu. Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að þessu máli lægi ekkert á vegna verkfræðideildar, því að það væri ekki svo aðkallandi að stofna prófessorsembætti þar. Þegar menn fara að kryfja þetta til mergjar, eru þær ástæður harla lítilvægar, sem hæstv. ráðh, færir fyrir því, að þessu máli liggi einhver ósköp á.

Þá var ráðh. að segja, að það sé ekki nein sérstök skylda ríkisstj. að bera till. sínar um fjölgun prófessora undir háskólaráð. Fram hjá hinu kemst hann ekki, að það stendur í háskólalögunum, sem hann hefur sjálfur haft forgöngu um að setja, að það megi ekki breyta lögum eða setja viðauka við háskólalögin, nema því aðeins að það sé borið undir háskólaráð, og ef þeir gera það ekki, sem það flytja, á sú n. að sjálfsögðu að gera það, sem fjallar um slík mál í þinginu. En það er staðreynd, að þetta mál fór í gegnum þessa hv. d. án þess, að nokkurt álit frá háskólaráði lægi fyrir, og fram hjá því kemst hæstv. ráðh. ekki. Það var lagt slíkt ofurkapp á að hraða þessu máli hér athugunarlítið í gegnum d., að það var alls ekki hirt um að leita eftir áliti háskólaráðs, eins og skylt er lögum samkvæmt.

Þá var hæstv. ráðh. í fyrri ræðu sinni með mikinn belging í sambandi við það, að með því frv., sem hér lægi fyrir, væri verið að koma á fastan lagagrundvöll ákvæðum um kjarnorkumál og kjarnorkurannsóknir, en það væru mjög óákveðin og óljós fyrirmæli, sem giltu um þetta núna, og helzt engin lagaákvæði. Ég hef nú, síðan hæstv. ráðh. sagði þetta, verið að reyna að leita eftir því t þessu frv., hvar er að finna þennan lagagrundvöll, sem kemur kjarnorkumálum og kjarnorkurannsóknum á einhvern fastan grundvöll. Hvar er það ákvæði í þessu frv.? Þetta frv. er svo stutt, að það er auðvelt að lesa það til að sjá, hvað hæft er í þessari staðhæfingu ráðherrans, að með þessu frv. sé lagður einhver grundvöllur að slíkum rannsóknum og slíku starfi.

1. gr. frv. hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„a. 1. málsl. 9. gr. l. orðist þannig:

Í Háskóla Íslands eru þessar 6 deildir: guðfræðideild, læknadeild, lagadeild, heimspekideild, verkfræðideild og viðskiptadeild.

b. 3. málsl. 9. gr. fellur niður.“

Er hér að finna nokkur ákvæði um það, að kjarnorkumál séu sett á öruggan lagagrundvöll?

2. gr. hljóðar á þessa leið. (Forseti: Það er óþarfi að fara að lesa lagagreinar, sem þm. hafa fyrir sér.) Ég vona samt, að hæstv. forseti geri ekki athugasemd við það, ef ég bið um leyfi hans til að lesa þær upp. 2. gr. hljóðar þannig:

„1. mgr. 37. gr. laganna orðist þannig:

Við Háskóla Íslands eru þessi prófessorsembætti: 1) Í guðfræðideild 4, 2) í læknadeild 10, 3) í lagadeild 4, 4) í heimspekideild 8, 5) í verkfræðideild 5, 6) í viðskiptadeild 3.“

Hvar er að finna í þessari grein öruggan lagagrundvöll um það, hvernig kjarnorkurannsóknum og ráðuneytisstarfi í kjarnorkumálum skuli fyrir komið?

Ég get gert það til samkomulags við hæstv. forseta, vegna þess að hann virðist vera orðinn eitthvað sérstaklega óþolinmóður, að lesa ekki upp 3. gr., því að það þarf ekki vegna þess, að hún fjallar eingöngu um það, hvernig skipa skuli málum hjá læknadeildinni. Þar er þess vegna ekki að finna neinn öruggan lagagrundvöll um það, hvernig eigi að koma kjarnorkumálunum fyrir í framtíðinni. Þetta er algerlega út í hött hjá hæstv. ráðh., að með þessu frv. sé stefnt í þá átt að koma þessum málum á einhvern öruggari og traustari grundvöll en áður var. — Það skal svo viðurkennt, að í grg. frv. kemur fram, að það sé ætlazt til þess, að verkfræðideildin annist ráðuneytisstarf í samráði við ríkisstj. varðandi kjarnorkumálin. En það, sem stendur í grg., hefur að sjálfsögðu ekkert lagagildi, og það ákvæði, sem þar stendur um starf verkfræðideildarinnar í sambandi við kjarnorkumálin, er miklu veikara en þau ákvæði, sem standa í þáltill. frá 1955, sem hefur verið lesin hér upp og þessi starfsemi er byggð á núna og eins á þeirri grein í fjárl., sem um þessi mál fjallar. Þess vegna er það mikill misskilningur, að með þessu frv. sé verið að koma kjarnorkurannsóknunum á nokkurn öruggari grundvöll, eins og hæstv. menntmrh. hefur haldið fram. Það er þvert á móti ekki nokkurn bókstaf í þessum lögum um þau mál að finna. Hins vegar er sú breyt. gerð, að það er verið að draga stórlega úr starfsemi kjarnfræðinefndarinnar og mestar líkur til þess, að hún verði að hætta störfum, ef þetta verður samþ., og getur það vel orðið til þess, að það verði verri skipan á þessum málum en þó sú, sem nú er.

Hæstv. menntmrh. var að halda því fram, að það væri rangt hjá hv. 1. þm. Austf., að það gæti komið til greina samkv. þessu nýja fyrirkomulagi að leggja kjarnfræðinefndina niður, og vitnaði í grg. frv. þessu til sönnunar. Það segir ekkert um þetta í grg. annað en það, að það sé æskilegt, að kjarnorkunefndin starfi áfram. Það er ekkert fullyrt um það, að hún starfi áfram, og engin trygging þess vegna fyrir því, að hún starfi áfram, ef þessi breyt. verður gerð.

Ég hirði svo ekki að rekja öllu meira það, sem hæstv. menntmrh, hafði um þessi mál að segja. Það, sem hann hefur um þau sagt, breytir ekki þeirri staðreynd, að málsmeðferðin á þessu frv. er fyrir neðan allar hellur. Það er fyrir neðan allar hellur að leggja slíkt mál sem þetta fram seinustu daga þingsins og ætla þá að lauma því í gegn, án þess að þm. hafi nægilega aðstöðu til þess að athuga það. Og það er líka fyrir neðan allar hellur að ætla að reyna að lauma þessu máli í gegnum þingið án þess að bera það undir háskólann, háskólaráð, eins og lög háskólans mæla þó greinilega fyrir um. En það var vissulega viðleitnin, vegna þess að þetta mál var látið ganga í gegnum þessa hv. d., án þess að nokkuð væri eftir áliti háskólans leitað. Og það er líka fyrir neðan allar hellur að gefa jafnvillandi og að ýmsu leyti rangar upplýsingar um þessi mál og hæstv. ráðh. hefur gefið. Þess vegna verður þessi málsmeðferð ekki varin, og hæstv. ráðh. finnur það líka að sumu leyti, vegna þess að hann viðurkenndi tvívegis eða þrívegis hér áðan, að það væru gallar á málsmeðferðinni, þó að hann hafi reynt að gera sem minnst úr þeim.

Ég ætla þá að seinustu að víkja nokkrum orðum að þeirri brtt., sem hæstv. forseti þessarar d., hv. 5. þm. Reykv., hefur lagt fram. Ég viðurkenni, að á vissan hátt gengur hún til móts við þau sjónarmið, sem hér hafa komið fram, því að um eitt það embætti, sem um ræðir í frv., eins og það er núna, er gert ráð fyrir því, að það verði ekki endanlega til þess stofnað, fyrr en fé hefur verið veitt til þess á fjárlögum. Mér finnst hins vegar dálítið einkennilegt að taka þetta eina embætti þannig út úr og setja um það þetta ákvæði, vegna þess að hér er um að ræða það eina embætti af þessum fjórum, sem háskólaráð hefur lagt sérstaka áherzlu á og hefur haft forustu um og frumkvæði að, að tekið yrði upp í þetta frv. Satt að segja finnst mér það vera hálfgerð móðgun við háskólann, að það skuli vera farið þannig með till. frá honum, að einmitt það embætti, sem hann leggur mesta áherzlu á, skuli vera sett undir þetta ákvæði, en ekki hin embættin. Mér mundi finnast eðlilegt, úr því sem komið er, og ég held, að það væri vænlegast til samkomulags um málið, að svipað ákvæði væri látið gilda um embættin öll, og þess vegna leyfi ég mér að leggja hér fram brtt. við 2. gr. á þann veg, að aftan við gr. bætist: „Hin nýju prófessorsembætti við læknadeild og verkfræðideild skulu ekki veitt, fyrr en fé hefur verið ákveðið til þeirra á fjárlögum.“ Ef þessi till. er samþ., fá báðir þeir deiluaðilar, sem hér hafa átzt við, fram nokkuð. Þá verður það lögtekið, að þessi embætti skuli stofnuð, en hins vegar kemur það þó ekki til framkvæmda, fyrr en fé hefur verið veitt til þess á fjárl., og þess vegna gefst nýtt tækifæri til þess að athuga þessi mál að nýju. Þess vegna vil ég nú vænta þess, að þessar löngu og stundum nokkuð hörðu umr. geti endað þannig, að það geti orðið endanlegt samkomulag um þær á þessum grundvelli, því að með því er tryggt, að báðir aðilar fá nokkuð fram og jafnvel það helzta, sem fyrir þeim vakir. Þeir, sem vilja slá stofnun þessara embætta föstum, fá þá sinn vilja, og hins vegar fá þeir, sem vilja þó fá á þessu frekari athugun, það líka fram, að endanlega verði ekki frá þessu gengið, fyrr en fjárlagaheimild liggur fyrir.