02.06.1960
Neðri deild: 95. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3053 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

175. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Mér verður satt að segja með hverjum stundarfjórðungnum óskiljanlegra, hvað hv. framsóknarmenn, sem hér hafa talað, meina með pexi sínu um þetta mál. Þeir endurtaka sömu atriðin aftur og aftur, jafnvel þó að búið sé að sýna fram á, að það, sem þeir staðhæfa, eru staðlausir stafir.

Hv. síðasti ræðumaður sagði, tvísagði meira að segja, að ég hefði hér þríviðurkennt í d., að meðferð þessa máls í heild hafi verið mjög gölluð. Allir hv. þdm. vita, við hvað ég átti, þegar ég sagði, að ég harmaði það, að meðferð málsins væri ekki eins og ég hefði kosið að hún væri. Það var þessi síðasta umr. í þessari hv. d. um þá breyt., sem Ed. hafði gert á málinu að frumkvæði háskólans undir forustu hv. vararektors, prófessors Ólafs Jóhannessonar. Fram til þessa var meðferð málsins algerlega eðlileg, og enginn hafði undan henni kvartað. Málið hafði verið afgr. í n. beggja þd. einróma og allir þm. að einum undanteknum goldið frv. jákvæði sitt. Meðferð málsins var því algerlega eðlileg, þangað til fleygur var í það rekinn í hv. Ed. og frv. var þar breytt í verulegu atriði. Það var það, sem ég játaði og stend við enn, að meðferð þeirrar breyt. á einum kvöldfundi hér í hv. Nd. eftir stuttan fund í hv. menntmn. var það, sem að mátti finna. Og það stend ég við enn. En hinu andmæli ég algerlega, að ég hafi nokkurt orð látið um það falla né nokkur ástæða verið til þess að láta slík orð falla, að meðferð málsins hafi verið ábótavant fram til þessa tíma, enda kom engin aðfinnsla fram um það við 6 umr. í báðum d. þingsins.

Þá gerði hv. síðasti ræðumaður, hv. 7. þm. Reykv., mikið veður út af því, að enginn staður fyndist fyrir því í frv., að verkfræðideildin ætti að verða ríkisstj. til ráðuneytis um kjarnorkumál og ekki hinn nýi prófessor. Það finnst heldur enginn stafur fyrir því í háskólalögunum, að kenna skuli t.d. stjórnlagafræði við háskólann eða að það skuli kenna hagfræði eða að það skuli kenna stærðfræði eða að það skuli kenna handlæknisfræði. Það eru engin ákvæði í sjálfum háskólalögunum um það, hvaða einstakar greinar þar skuli kenna. Í háskólalögunum eru eingöngu ákvæði um tölu prófessora í hverri deild, ótiltekið, hvaða fög hver prófessor skuli kenna. Í háskólalögunum eru engin ákvæði um það, hverjar séu starfsskyldur prófessoranna, og hafa aldrei verið, frá því fyrst voru sett lög um háskólann. Hins vegar er stjórnlagafræði kennd, handlæknisfræði er kennd, hagfræði er kennd o.s.frv. eftir ákvörðun háskóladeildanna sjálfra. Það er þeirra réttur og þeirra skylda að kveða á um það, hvernig þær sinna þeim verkefnum, sem þeim eru falin í heild með því, að til skuli vera læknadeild, verkfræðideild, viðskiptadeild eða þær deildir aðrar, sem við háskólann starfa. Ef verkfræðideildin á að vera ráðgefandi um kjarnfræðimál, verður það samkomulagsatriði milli verkfræðideildarinnar og ríkisstj. Verkfræðideildin hefur lýst sig reiðubúna til að takast slík ráðunautarstörf á hendur, ef þetta prófessorsembætti verður stofnað við deildina. Slíkur samningur verður gerður við verkfræðideildina, þegar þetta frv. er komið fram. Þess vegna er það fullkomlega út í bláinn mælt hjá hv. þm., að það sé enginn grundvöllur í frv. sjálfu fyrir þessu ráðunautarstarfi. Það mætti með alveg sama hætti segja, að það væri enginn grundvöllur fyrir því í frv., að kenndar væru helztu greinar lögfræðinnar, læknisfræðinnar eða verkfræðinnar.

Þá sagði hv. þm., að starfsemi kjarnfræðinefndarinnar væri byggð á þáltill. frá 1955. Fyrir þessu er ekki minnsti fótur. Hún er ekki nefnd, kjarnfræðinefndin, í þeirri till. Henni hafði verið komið á fót áður. Hún er eldri en till., svo að það er algerlega rangt, sem þeir hafa endurtekið hvor eftir öðrum, að kjarnfræðinefndin sé einhver afleiðing af þessari þáltill. eða fjárveitingunni, sem samþ. var að minni till. 1956.

Enn fremur sagði hv. þm., að þetta frv., ef samþ. yrði, mundi lama starfsemi kjarnfræðinefndarinnar. Nefndin hefur sjálf mælt með samþykkt frv. Finnst dm. líklegt, að kjarnfræðinefndin mæli með skipan, sem mundi lama hennar eigin starfsemi?

Þá hafði hv. þm. nokkuð stór orð um það, að ég hefði haft viðleitni í þá átt að koma frv. fram án þess að bera það undir háskólann og jafnvel hefði haft tilburði til þess að lauma málinu í gegnum þingið, mér skilst eiginlega bara að þm. forspurðum. En það verð ég að segja, að það er meir en lítil lítilsvirðing á þm. þessarar d. og hv. Ed. að endurtaka það sí og æ, að þm. hafi ekki vitað, hvað þeir voru að gera, þegar þeir svo að segja samhljóða hafa samþ. frv. eftir meðmælum sammála n. Þetta ætti ekki að endurtaka meir í nótt.

Þá sagði hv. þm., og það skal verða hið síðasta, sem ég leiðrétti í ræðu hans, þó að af enn þá meira væri að taka, að nú væri meiningin að binda stofnun eina embættisins af 4, sem háskólaráð hafi lagt til að stofnað yrði, við það, að fé yrði veitt til þess á fjárl. Þetta leyfir hv. þm. sér að segja hér í þessari hv. d., eftir að því hefur verið marglýst, að ákvæðið um stofnun embættisins í geðlæknisfræðum og ákvæðið um stofnun embættisins í efnafræði eru í frv. samkv. bréfum háskólarektors til menntmrn., þ.e. beinum tilmælum háskólaráðs til menntmrn. Samt þarf maður að hlusta á það hér einu sinni enn, að þetta embætti, embættið í viðskiptafræði, sé eina embættið, sem háskólaráð hafi óskað eftir, að því þó slepptu, að hv. þm. hefur haft fyrir framan sig hér í pontunni bréf frá háskólaráði, þar sem það mælir með stofnun allra fjögurra embættanna til þingsins.

Þetta er satt að segja allt þess konar málflutningur af hálfu þessara tveggja hv. framsóknarmanna, sem hér hafa talað, að ég skil ekki, hvað að baki liggur. Þetta meiningarlausa pex er þess eðlis, að það hlýtur að verulegu leyti að vera mælt gegn betri vitund þessara þm., a.m.k. eftir þær upplýsingar, sem nú eru fram komnar í málinu.

Að síðustu aðeins fáein orð um þá brtt. hv. 7. þm. Reykv. að láta það ákvæði gilda um öll embættin 4, að þau skuli ekki taka gildi, fyrr en fé til þeirra hefur verið samþ. á fjárl. Um þetta er það að segja, að þessi till. ber enn vott um, að þm. veit alls ekki, um hvað frv. er. Það eru ákvæði í fjárl. um hin 3 embættin. Það eru fjárveitingar í fjárl. til embættisins í geðlæknisfræði, það eru fjárveitingar í fjárlögum til embættisins í efnafræði, og það eru 100 þús. kr. í fjárl. til að standa undir kostnaði við prófessorinn í verkfræði. Ég mundi segja, að till. væri varla þinghæf, sem fjallaði um það að binda stofnun þessara embætta því, að fé sé veitt til þeirra í fjárl., þegar í gildandi fjárl. eru ákvæði um fé til þessara þriggja embætta.