02.12.1959
Efri deild: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Þeim fjórum tekjuöflunarfrv. til ríkissjóðs, sem legið hafa fyrir hv. d. að undanförnu, ásamt frv. um skemmtanaskatt, sem legið hefur fyrir Nd., hefur nú verið steypt saman í eitt frv., það sem nú liggur hér fyrir til 2. umr.

Það var á það minnzt fyrir helgina af einum hv. þm., að það væri varla von, að ljósmóðurstarf hv. d. í þessum efnum gengi vel, þar sem burðirnir væru fimm og ekki að hans áliti kominn réttur tími fyrir þá til þess að skjótast í heiminn. En ég vona nú, að með hjálp þessa hv. þm., og annarra gangi ljósmóðurstarfið betur, þar sem fimmburarnir eru nú orðnir að einbura. Fjhn. hefur innt af hendi sinn þátt ljósmóðurstarfsins gagnvart frv., og liggur álit hennar hér fyrir, þó að því miður hafi ekki allir nm. orðið sammála um afgreiðslu málsins. Við þrír, sem að meirihlutaálitinu stöndum, leggjum til, að það verði samþykkt óbreytt, en tveir hv. nm., 1. og 5. þm. Norðurl. e., óskuðu bókaða þá afstöðu, sem um getur í okkar nál. á þskj. 43.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um einstaka liði frv.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir framlengingu á heimild til þess að innheimta með viðauka nokkur gjöld, sem þar eru talin. Samkv. sérstakri ósk, sem fram kom hér í deildinni, gaf ég upplýsingar um það, hve miklu væri áætlað að næmi sú tekjuöflun, sem þar var um að ræða. En við þetta hefur nú verið bætt skemmtanaskattinum, sem var til meðferðar í hv. Nd., þannig að heimilað verði fyrir næsta ár að innheimta hann á sama hátt og nú er. Eins og hv. þdm. mun kunnugt, varð samkomulag í hv. fjhn. Nd. um að mæla með þessari framlengingu skemmtanaskattsins, að vísu með þeirri breytingu, að heimildin yrði aðeins framlengd fyrir árið 1960.

3. gr. þessa frv. fjallar um bifreiðaskatt, og að gefnu tilefni skal ég upplýsa það, að samkvæmt upplýsingum frá fjmrn. hefur benzíngjald árið 1958 numið 10 millj. kr., en álag á bifreiðaskatt nam 6–7 millj. kr. samkvæmt áætlun fjmrn. og innflutningsgjald á hjólbörðum og gúmmíslöngum var áætlað að næmi um 2 millj. kr.

Varðandi verðtollsviðaukann, sem 4. gr. frv. í sinni núverandi mynd fjallar um, þá er af fjmrn. áætlað, að álag á vörumagnstoll 1958 hafi numið 28 millj. kr., en 80% álag á verðtoll hafi sama ár numið 112 millj. kr.

Varðandi söluskattinn, sem um getur í 5. gr. frv., þá er hann áætláður í fjárlagafrv. því, sem nú hefur verið lagt fyrir, 148 millj. kr., en árið 1958 nam söluskattur af innflutningi samkv. skýrslu fjmrn. 111 millj. kr., en söluskattur af inntendri þjónustu 34 millj. kr. Hér er um að ræða hluta ríkissjóðs af söluskattinum. En eins og kunnugt er, rennur nokkuð af söluskattinum einnig í útflutningssjóð.

Það hefur hins vegar komið fram í fyrri umræðum um þessi tekjuöflunarfrv., að deila mætti um söluskattinn sem skattstofn, og er það vitað mál.

Söluskatturinn mun fyrst hafa verið lögfestur hér með dýrtíðarráðstöfunum, sem gerðar voru um áramótin 1947 og 1948. Voru þá um söluskattinn allmiklar deilur á Alþingi og næstu ár á eftir. Sósíalistaflokkurinn, sem þá var og hét, háði einkum harða baráttu gegn söluskattinum. En með myndun vinstri stjórnarinnar 1956 hefur orðið á þessu sú breyting, að síðan hefur í rauninni ekki verið neinn ágreiningur meðal hv. þm. um ágæti þessa skattstofns, og söluskatturinn hefur síðan verið afgreiddur í einu hljóði, því að við sjálfstæðismenn fórum ekki að breyta okkar afstöðu til hans, þó að við værum þá komnir í stjórnarandstöðu. Vænti ég þess fastlega, að sú eining, sem hefur verið um ágæti þessa skattstofns, verði ekki rofin nú, því að þrátt fyrir það, þó að okkur greini á um margt hér á þingi, þá er þó ánægjulegt að vita, að um einstöku mál höfum við verið sammála, og undanfarin ár hefur söluskatturinn einmitt verið eitt af þessum fáu málum.

Mér er vitanlega ljóst, að söluskatturinn hefur sína ágalla eins og allir aðrir tekjustofnar ríkisins. En þeir ágallar eru auðvitað ekki meiri nú en ávallt hefur verið, og væri að mínu áliti ástæðulaust að fara að blanda almennum umræðum um það inn í þau framlengingarfrv., sem hér liggja fyrir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira, en vil aðeins taka það fram varðandi brtt., sem minni hl. fjhn. hefur borið fram, þess efnis, að framlengingin gildi aðeins til febrúarloka 1960, en ekki allt árið, að við, sem erum í meiri hl., sjáum okkur ekki fært að mæla með samþykkt þeirrar tillögu.