26.04.1960
Efri deild: 65. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3064 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

73. mál, sala lands í Vestmannaeyjum í eigu ríkisins

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um heimild handa ríkisstj. til að selja Vestmannaeyjakaupstað land það, sem ríkið á í Vestmannaeyjum, eða land það, sem nú er í eigu ríkisins þar, og um eignarnámsheimild á lóðar- og erfðafesturéttindum. Nú er svo háttað, sem kunnugt er, að ríkið á allt land í Vestmannaeyjum, Heimaey og úteyjar, og hefur svo verið um nokkuð langa hríð, en nú hefur bæjarstjórn Vestmannaeyja óskað eftir því, að ríkisstj. yrði heimilað að selja kaupstaðnum landið, og þess vegna er þetta frv., sem hér liggur fyrir, nú flutt.

Það dylst engum, að eðlilegt er og að flestu leyti nauðsynlegt fyrir kaupstaði og kauptún að eiga það land, sem þeir þurfa til afnota fyrir íbúa sína, bæði hvað byggingarlóðir snertir og athafnasvæði. Þetta á ekki sízt við um Vestmannaeyjar, sem nú eru orðnar stór kaupstaður og einn með stærstu, ef ekki stærsti bátaútgerðarstaður landsins og framkvæmdir þess vegna þar mjög miklar á öllum sviðum. Þetta á því ekki sízt við þar.

Án þess að fjölyrða um þetta má benda á ýmis atriði, sem fram eru tekin í grg. fyrir frv. um sönnun á þessu. Hvað hluta ríkissjóðs snertir, þá má segja, að hann missi ekki mikils í, þó að þessi sala færi fram, þar sem lóðargjöld eru mjög lág, og þar að auki hefur ríkið varið helmingi lóðargjaldsins til að verjast landbroti á Eiðinu í Vestmannaeyjum undanfarin ár.

Það má geta þess, að í frv. eru ákvæði um það, að ef af sölu yrði og ríkið eða ríkisstofnanir þörfnuðust byggingarlóða úr landi undir opinberar byggingar, væri ríkinu heimilt að kaupa þær og þá við því sama verði hlutfallslega og Vestmannaeyjakaupstað var gert að greiða fyrir landið. Á þetta einnig að sjálfsögðu við um væntanlegt land, sem þarf að úthluta vegna stækkunar flugvallarins, þó að það sé ekki beint tekið fram í frv.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta mál. Frv. hefur verið til meðferðar í landbn. þessarar hv. d., og hefur n. athugað það og leggur einróma til, að það verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.