30.03.1960
Neðri deild: 58. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3066 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

26. mál, útsvör

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn, hefur haft til meðferðar og fjallað um frv. það, sem hér liggur fyrir, þ.e. frv. til l. um breyt. á l. nr. 66 12, apríl 1945, um útsvör, og eru nm. sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Eins og í grg. með frv. segir, felur það í sér þá breytingu á gildandi útsvarslögum, að sveitarfélögum skuli heimilt að leggja útsvar á síldarsöltun og síldarverzlun, þar sem hún er rekin, án tillits til þess, hvort sá, sem það gerir, er þar heimilisfastur eða atvinnureksturinn er skráður þar eða ekki. Í gildandi útsvarslögum felst að vísu heimild til að skipta útsvörum á milli sveitarfélaga, er sérstaklega stendur á, og einnig heimild til að leggja útsvar á atvinnurekstur utan heimilissveitar hans eða annars staðar en atvinnureksturinn er skráður. En þau ákvæði laganna eru harla óljós og loðin og hafa komið að engu haldi, þegar leitað hefur verið úrlausnar dómstólanna þar um. Er það til að taka af allan vafa í þessum efnum, sem frv. þetta er flutt. Finnst víst flestum, sem um þetta mál hugsa, það vera bæði eðlilegra og sanngjarnara, að þessi atvinnurekstrargrein, þ.e. síldarsöltun og síldarverzlun, sé útsvarsskyld þar, sem hún er rekin, en þar sem eigandi hennar er búsettur, ef heimilissveit hans og atvinnurekstrarstaður er ekki einn og hinn sami.

Eins og ég áður gat um, leggja nm. í allshn. einróma til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt.