07.04.1960
Efri deild: 57. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3068 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

26. mál, útsvör

Jón Árnason:

Herra forseti. Það er ofur skiljanlegt, að það komi tilmæli eða kröfur frá slíkum bæjarfélögum eins og Siglufirði, þar sem síldariðnaðurinn og síldaratvinnan er jafnmikill þáttur í athafnalífi bæjarfélagsins og þar er, og þetta mál hefur komið oftar en í þetta skipti inn á Alþ. og hefur þá ekki náð samþykki. Ég held, að enda þótt það verði að viðurkenna, að það sé réttlætismál að nokkru leyti í þessu sambandi, sem felst í þessu frv., þá séu samt sem áður annmarkar á því, að efni frv. verði framkvæmt. Vil ég sérstaklega benda á í þessu sambandi, að sagt er, að það skuli dregið frá útsvari í heimasveitinni, sem lagt sé á slíkan rekstur annars staðar. Ég held, að það væri aðeins hægt að ná þessu með einu móti, og það væri það, að veltuútsvarið næði til þess hluta af umsetningu fyrirtækjanna, er færi fram á viðkomandi stað, því að það er ýmislegt í sambandi við sjávarreksturinn, sem verður ekki aðgreint hjá fyrirtæki, sem rekur ýmsar greinar sjávarútvegsins, t.d. þorskveiðar, söltun og annað og svo síldarútgerð að sumrinu. Það er yfirstjórn fyrirtækisins og ýmis kostnaður, sem örðugt yrði að greina í sundur. Þess vegna finnst mér, að það verði mjög miklum erfiðleikum háð hverju sinni að meta það, hvað séu raunverulega tekjur af síldarsöltuninni, vegna þess að það fer ekki hjá því, að svo og svo mikið af heildarkostnaðinum verður sameiginlegt í báðum tilfellunum.

Ég held þess vegna, að það væri nauðsynlegt, að þetta yrði athugað nánar fyrir 3. umr. frv. hér í d., hvort ekki væri rétt að skilgreina þetta þannig og koma þá á móti þessum stöðum, sem veita þessa þjónustu, svo sem Siglufirði og fleiri síldarútgerðarbæjum, að þeir fengju sinn hluta sérstaklega í veltuútsvari, en tekjuútsvarið væri undanskilið, með því að ég tel, að það verði mjög miklum erfiðleikum háð að kveða þar rétt á um, hvað mikill hluti sé tekjur fyrirtækjanna í sambandi við síldarsöltunina.