02.12.1959
Efri deild: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það eru nokkuð einkennileg vinnubrögð, sem hafa komið fram á hv. Alþingi í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir. Fyrst er það lagt fyrir þingið sem mörg mál, en síðan er það sameinað í eitt.

Ég hefði búizt við, um leið og rædd eru fjármál og framlengingar á frv., sem fela í sér skatta á þjóðina, að þá hefði verið gerð einhver grein af hálfu þeirra, sem með stjórnina í landinu fara, fyrir fjármálum almennt í landinu og ekki sízt með tilliti til þess, hver var áróðurinn og hver var lýsingin á þessum málefnum fyrir kosningarnar í haust og raunar kosningarnar í vor.

Því var haldið fram fyrir kosningarnar í vor, að þær snerust ekki um kjördæmamálið, það réttlætismál, heldur snerust þær að meira eða minna leyti um starfsferil vinstri stjórnarinnar. Þetta var aðaltónninn í kosningaáróðri sjálfstæðismanna. En að þeim kosningum loknum höfðu þær farið fram bara um kjördæmabreytinguna. Þá hafði verið kosið um kjördæmabreytinguna. Svo kom hér saman þing í sumar og fjallaði náttúrlega áfram um kjördæmamálið, og á síðasta degi þingsins og þegar Morgunblaðið er að lýsa úrslitum þess eina máls, sem afgr. var á því þingi, þá stendur þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Nýr og traustari grundvöllur lagður að íslenzku þingræði og lýðræði.“

Maður skyldi nú ætla út frá þessu, að þessir hv. flokkar, sem stóðu að þessu trausta þingræði og lýðræði, beittu sér fyrir því að nota þingræðið og lýðræðið, en ekki þegar á því fyrsta þingi, sem saman kemur eftir kjördæmabreytinguna, að sýna einhverja þá mestu einræðiskennd, sem nokkru sinni hefur verið sýnd á Alþingi Íslendinga. Þetta er grunntónninn, sem var fyrir kosningarnar. En svo kunna þessir hv. þm. og sú hæstv. ríkisstj., sem að þessu stendur, ekki að meta þetta góða fyrirkomulag, sem þessir hv. frambjóðendur þeirra héldu fram í kosningunum síðustu og kosningunum í vor.

„Kjördæmabreytingin sem lög frá Alþ. var afgr. í gær. Óskir þm. um, að hún tryggi þjóðinni heilbrigt og gott stjórnarfar.“ Heilbrigt og gott stjórnarfar. Það má segja, að vel sé af stað farið, eða hitt þó heldur.

Ed. Alþ. lauk í gær umræðum um frv. um breyt. á stjórnarskrá lýðveldisins og hina nýju kjördæmaskipan. Var frv. síðan samþ. við 3. umr, í deildinni og afgr. sem lög frá Alþingi. Með frv. greiddu atkv. allir viðstaddir þm. Ed. aðrir en þm. Framsfl. Tveir þm., þeir Friðjón Skarphéðinsson dómsmrh. og Vilhjálmur Hjálmarsson, voru fjarstaddir. Var frv. samþ. að viðhöfðu nafnakalli um kl. 7 í gærkvöld með 10 atkv. gegn 5.“ Þetta var síðasta málsmeðferðin á þessu frv. í hv. Alþingi.

Svo var kosið eftir þessa breytingu í haust, og ýmsu var fram haldið í þeim umræðum, sem fram fóru á milli stjórnmálaflokkanna fyrir kosningarnar á síðastliðnu hausti. Og það var ekki minna rætt um fjármál þá en gerist og gengur fyrir kosningar yfirleitt. Því var t.d. haldið fram mjög skýrt af Alþfl.-mönnum, að það væri allt í lagi með fjármálin, að ríkissjóður hefði aldrei staðið sig betur, útflutningssjóður stæði sig með ágætum og dýrtíðin hefði algerlega verið stöðvuð í landinu. Og það má merkilegt heita, að það skuli vera fyrsta áhugamál þeirra manna, sem héldu þessu fram, að leggja frv. fyrir þingið og afgreiða þau í flýti án þess að gera frekari grein fyrir fjármálum þjóðarinnar, og alls ekki vitað, hvort það þarf einu sinni á þessu fjármagni að halda fyrir ríkissjóð. Það getur vel verið, að það megi afnema þær tekjur, sem þetta frv. felur í sér, því að svo vel lýstu Alþfl.-menn hag ríkissjóðs fyrir kosningarnar. En það hefur ekki komið fram í þessum umræðum, hvort þörf muni þessara tekna fyrir ríkissjóðinn í framtiðinni eða ekki, en að fornum venjum þykir sjálfsagt að framlengja þessar tekjulindir ríkissjóðs, og er slíkt einsdæmi, þegar litið er á málflutninginn, sem var um fjármálin almennt fyrir síðustu kosningar. Og mér hefði fundizt, að það hefði gjarnan mátt skýra betur þessi mál og unna þjóðinni þess trausta þingræðis og lýðræðis, sem komið var á á s.l. sumri, en ekki vanmeta það, eins og stjórnarflokkarnir gera nú með því að senda Alþingi heim, án þess að fjárlagafrv. hafi verið vísað til n. og frumvörpum yfirleitt vísað til n. og gerð þá frekari grein fyrir þeim og þau send til umsagnar þeirra aðila, sem nauðsynlegt er að fjalli um þau, áður en málin eru afgreidd frá Alþingi. Það hefur verið venja, þegar um mikilsvarðandi mál er að ræða, að senda þau til umsagnar ýmiss konar aðila, sem hafa sérþekkingu í þeim efnum og geta verið nokkurs konar ráðunautar þingsins og ríkisstj. í þeim málum.

Það gætir því mjög mikils einræðis hjá hæstv. ríkisstj. nú, og er það undarlegt, þegar litið er á hennar málflutning og þeirra flokka, sem að henni standa, á s.l. sumri, þegar við átti að hafa meira þingræði og meira lýðræði en nokkru sinni hefur þekkzt á landi voru til þessa. Það var líka látið í það skína fyrir kosningarnar í haust af bæði sjálfstæðismönnum og Alþfl.-mönnum, að auka bæri alla styrki samkv. almannatryggingalögum, og það var líka látið í það skína, að þeir mundu beita sér fyrir því, að tekjuskattur yrði afnuminn í þeirri mynd, sem hann er nú, — tekjuskattur til einstaklinga. Og það er þeim mun undarlegra, þegar þetta var sagt fyrir kosningarnar, að það skuli ekki vera gerð grein fyrir því nú, hvort nauðsyn er að framlengja þessi lög, — þetta frv., sem hér liggur fyrir Alþ., og þær tekjulindir, sem því fylgja. Hagur ríkissjóðs var svo góður fyrir nokkrum mánuðum, að maður skyldi ætla, að það hefði kannske mátt afnema eitthvað af tekjulindum ríkisins, eins og honum var þá lýst. En hið gagnstæða virðist hafa komið í ljós síðan og kannske erfitt að standa við sum gefnu fyrirheitin fyrir kosningarnar.

Það er talið, að endurskoða þurfi efnahagsmálin í heild, og það er nokkuð undarlegt, þegar Alþfl.-menn héldu því sleitulaust fram fyrir kosningarnar, að þeir hefðu algerlega stöðvað dýrtíðina í landinu, — gersamlega stöðvað hana. Er hægt að gera betur en stöðva dýrtíðina algerlega? Getur nokkur komizt lengra? Ég hygg, að það sé mjög erfitt. Og hvað er það þá, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að endurskoða í efnahagsmálum þjóðarinnar, úr því að dýrtíðarmálin hafa verið stöðvuð og nógir peningar eru í ríkissjóði, nógir í útflutningssjóði og hægt er að auka verulega styrki samkv. almannatryggingalögum og jafnvel að afnema tekjuskatt? Hvaða þörf er þá á því að vera að fresta þinginu nú og athuga efnahagsmálin, úr því að allt var í svona góðu lagi fyrir kosningar, því að ekki hefur það getað komið fyrir, að allt hafi þetta forgörðum farið nú síðan kosningabaráttan var háð? Það hlýtur því eitt af tvennu að hafa hent Alþfl. á s.l. hausti, annað tveggja það að hafa sagt ósatt um efnahagsmálin almennt eða hitt, að hæstv. ríkisstj. segi ekki sannleikann. Hafi Alþfl. sagt satt fyrir kosningarnar, þá er það ekki satt hjá hæstv. ríkisstj. nú, að það þurfi að eyða löngum tíma í að endurskoða efnahagsmálin, — hafi allt verið í ágætu lagi fyrir kosningarnar. Eitt af tvennu hlýtur að hafa skeð.

Því hefur líka verið haldið fram, að það hafi ekkert hækkað í landinu á þessu ári, síðan fyrrverandi stjórn kom til valda fyrir tæpu ári. Þetta er náttúrlega algerlega rangt, vegna þess að eitthvert fyrsta verk hæstv. ríkisstj. Emils Jónssonar var að hækka allar útflutningsuppbætur. En það einkennilega í sambandi við þær hækkanir var það, að það átti ekki að þurfa að hækka neitt skatta eða álögur á þjóðinni vegna þeirra hækkana. Og vera má, að núv. ríkisstj. og hennar flokkar búi yfir það góðum ráðum, að það sé enn þá hægt að hækka eitthvað útgjöld án þess að hækka nokkuð tekjur á móti og jafnvel að lækka tekjur. Vera má, að það sé þeirra hluta vegna, sem hæstv. ríkisstj. þarf svo mikinn tíma til að athuga efnahagsmál þjóðarinnar.

En á sama tíma og Alþfl.-menn og sjálfstæðismenn halda því fram, að það hafi ekkert hækkað á s.l. ári, og í sama blaði og birt er stefnuyfirlýsing Sjálfstfl. nú á s.l. hausti, 2.okt., þá er smátilkynning um eina verðhækkun, þ.e. á síldarmjöli, og þar stendur, með leyfi forseta: „Síldarmjölið kostar kr.426.50. Ríkisstjórnin hefur ákveðið verðið á síldarmjöli á innanlandsmarkaði samkv. till. stjórnar síldarverksmiðja ríkisins, og er verðið kr.426.50 pr. 100 kg fob. í verksmiðjuhöfn.“ Í fyrra var verðið 393 kr. Stafar hækkunin af hækkandi útflutningsuppbótum á bræðslusíldarafurðir frá fyrra ári. Hvernig stendur nú á því, að á sama tíma og bændurnir eru sviptir verðhækkun á þeim afurðum, sem þeim bar á s.l. hausti og þeim hafði verið lofað á s.l. vetri, að um svipaðar mundir er eina hækkunin, sem á sér stað í landinu, á síldarmjöli, sem mjög hefur verið notað af bændastétt landsins til fóðurs búpenings? Hvernig stendur á því, að þetta er gert? Hvernig stendur á því, að Sjálfstfl. hefur ekki staðið betur á verði fyrir bændur landsins en á þennan hátt, að láta hækkun koma á rekstrarkostnaði landbúnaðarins, í staðinn fyrir það, að hann hafði lofað hækkandi tekjum fyrir bændur landsins? Hvernig stendur á þessu?

Þetta talar sínu máli til bændastéttarinnar frá Sjálfstæðisflokknum, að í sama mund og sjálfstæðismenn voru búnir að lofa bændum landsins leiðréttingu á sínum verðlagsmálum, þá hækkar síldarmjölið. Það er svarið, sem bændur landsins fá frá Sjálfstfl. Og í sama mund er því haldið fram á öllum fundum á öllu landinu af Alþfl.-mönnum, að það hafi hvergi neitt hækkað. Mér er það minnisstætt á einum fundi, sem haldinn var í Vesturlandskjördæmi, að þar var þm. sjálfstæðismanna og frambjóðandi, sem hélt því fram, að það væri ekki hægt fyrir bændur landsins að nota erlendan fóðurbæti sakir þess, hversu dýr hann væri og hversu mikið hann hefði hækkað í tíð vinstri stjórnarinnar. Einn fundarmanna greip þá fram í og spurði, hvernig stæði á því, að ríkisstj. hefði nú hækkað síldarmjöl og hvort það væri frekar hægt áð gefa það. Ræðumaður varð hálfhvumsa við, en sagði: Gefið þeim bara rúgmjöl og maís. — Og þá var enn fremur spurt, hvort það væri þá ekki bezt að gefa hveiti líka. Það getur vel verið, sagði ræðumaður, og með því endaði hans ræða.

Vera má, ef þessir flokkar stjórna lengi, sem nú eru við völdin, að það fari svo, að erlendur fóðurbætir verði betri og ódýrari fyrir bændastétt landsins að nota en innlend framleiðsla, sem þó ætti undir flestum kringumstæðum að vera frekar hægt að nota en það, sem kostar þjóðina að einhverju leyti gjaldeyri. En hækkun síldarmjölsins var svarið frá Sjálfstfl. til bændastéttar landsins, í þann mund sem sjálfstæðismenn höfðu heitíð því, að þeir skyldu leiðrétta verðlagsgrundvöll landbúnaðarafurða.

Á meðan hæstv. fjmrh. er hér inni, vildi ég gjarnan minna hann á það, að hann sagði hér nóttina 1. des., að brbl. frá 19. sept. mundu verða lögð fyrir Alþingi. En nú lýkur Alþingi fljótlega, og hvenær verða þessi lög þá lögð fyrir þingið? Sagði hann satt, eða sagði hann ekki satt? Hvenær verða lögin lögð fyrir þingið? Það væri fróðlegt að vita það.

Annars er það undarlegt, að Alþfl.-menn skyldu vera svo mjög á móti því að greiða niður þegar á s.l. hausti verðlag landbúnaðarafurða, þar sem hagur ríkissjóðs og útflutningssjóðs var með ágætum, eins og þeir lýstu á öllum fundum, og undrar mig meira þeirra óvinátta í garð bændastéttarinnar fyrir þetta heldur en annars hefði verið.

Það hefur verið látið í það skína, ekki sízt af sjálfstæðismönnum, að í raun og veru hafi verið aflað of mikilla tekna fyrir útflutningssjóð og ríkissjóð í tíð vinstri stjórnarinnar, að þjóðin hafi verið skattlögð of mikið. Og því hefur verið mjög haldið að bændastétt landsins, að 55% yfirfærslugjaldið hafi komið mjög þungt niður á bændum og það hafi verið óþarft að leggja það á rekstrarvörur landbúnaðarins. En það er eftirtektarvert, að sjálfstæðismenn komu ekki fram með eina einustu brtt. við frv., þegar það var til umræðu vorið 1953, varðandi þessi atriði. Það er enn fremur eftirtektarvert, að sjálfstæðismenn hafa ráðið verulegu um stjórn landsins nú næstum því í heilt ár og hafa forustuna í ríkisstj. nú, og þeir hafa ekki nokkurn hlut látið bóla á því að leiðrétta þetta rangláta gjald á rekstrarvörum landbúnaðarins, eins og þeir hafa viljað vera láta að væri. En þeir hafa gert annað. Þeir hafa svikið það, að bændur landsins fengju inn í verðlagsgrundvöllinn allt það, sem þeim bar út af þessum rekstrarkostnaði. Þeir hafa svikið það. Hið eina, sem þeir hafa fengið í staðinn frá Sjálfstfl., er hækkunin á síldarmjölinu. Það er hið eina, sem þeir hafa fengið. Og sennilega fá þeir ekkert annað frá þeim flokki en hliðstæðar ráðstafanir. Ég hefði búizt við, að sjálfstæðismenn mundu leggja fram frv. um að leiðrétta þetta nú þegar, svo að þeir gætu efnt eitthvað af þeim kosningaloforðum, sem þeir hafa staglast svo mjög á í þeim tvennum kosningum, sem fram hafa farið nú á þessu ári. En sennilega gleyma þeir þessum loforðum eins og fleirum.

Það er alveg merkilegt, hvað þessum mönnum, sjálfstæðismönnum yfirleitt, tekst að lofa fyrir kosningar og blekkja með, en minnast síðan aldrei meira á. Mun einsdæmi, að nokkur stjórnmálaflokkur í landinu viðhafi jafnmikið auglýsingaskrum um alla þessa hluti eins og sjálfstæðismenn hafa yfirleitt, og sýna það bezt þeir smápésar, sem flokkurinn hefur verið að gefa út fyrir kosningar, eins og t.d. fyrir kosningarnar 1956, þegar hann gaf út smárit með mynd af öllum sínum frambjóðendum og kallaði þann pésa „Dóm reynslunnar“. En ég hygg, að þegar næst verður gengið til kosninga, þá verði dómur reynslunnar og dómur þjóðarinnar ekki svo sérstaklega góður fyrir Sjálfstfl. Og á s.l. vori gaf hann út mörg slík rit, og m.a. kallaði hann eitt „Víti til varnaðar“ og „Aldrei framar vinstri stjórn“. En ég hygg, að augu þjóðarinnar séu að opnast fyrir því, að það er ekki allt með felldu, það sem Sjálfstfl. segir og það sem Sjálfstfl. framkvæmir, þegar hann hefur ráð á að efna eitthvað af sínum loforðum. Ég hygg, að þá muni flest falla í öfuga átt við það, sem sagt var fyrir kosningarnar.

Ég verð að játa, að það er dálítið erfitt að taka afstöðu til þessa máls, sem hér er til umræðu. út frá því, sem haldið var fram fyrir kosningarnar, og út frá því, sem haldið er fram nú, að það þurfi langan tíma til að endurskoða efnahagskerfið og efnahagsmál þjóðarinnar. Það getur ekki verið, að hagur ríkisins hafi versnað svo mjög á örfáum vikum eða nokkrum mánuðum. Það hlýtur eitt af tvennu að hafa skeð: annaðhvort hafa þeir flokkar, sem með stjórnina fara nú, sagt ósatt fyrir kosningarnar eða þeir segja ósatt nú. Og þeim mun erfiðara er að vera að framlengja skatta á þjóðina, þegar því hefur verið haldið fram við tvennar kosningar, að þjóðin hafi verið skattlögð að óþörfu að undanförnu, eins og sagt hefur verið við bændastétt landsins.

Það er alltaf sagt fyrir kosningarnar af þessum flokkum, Sjálfstfl. ekki sízt, að fái hann völdin, þá verði batnandi hagur hjá þjóðinni. En eftir kosningarnar er þetta svo erfitt viðfangs, að það þarf langan tíma til þess að reyna að finna leiðir, að þeir telja, út úr þeim ógöngum, sem þeir í raun og veru sjálfir hafa stofnað til. Hjá þessari ríkisstjórn, sem stöðvaði algerlega dýrtíðina og fjárhagur var með ágætum fyrir nokkrum vikum, hafa þó verið afgreidd fjárlög, sem hafa verið hærri en nokkru sinni fyrr hefur þekkzt í sögu íslenzku þjóðarinnar, vegna þess að í fyrsta skipti á þessu herrans ári fóru fjárlögin nokkuð á annan milljarð, og það hefur verið algerlega óþekkt fyrirbrigði hér á landi til þessa. Það mun hafa verið sagt á Alþingi í fyrsta sinn, sem fjárlögin fóru yfir 1 milljón, að íslenzka þjóðin mætti sannarlega fara að athuga sinn gang í fjárhagsmálum. Og ég hygg, að nú, þegar fjárlögin eru komin á annan milljarð, sé ekki minni ástæða fyrir íslenzku þjóðina að athuga gang sinn í fjármálum almennt.

Skattar hafa að sjálfsögðu verið lengi hér á landi og þjóðin verið skattlögð mjög lengi. Fyrstu skattar, sem munu hafa þekkzt hér á landi í fornöld, voru þingfararkaup og hoftollur. En fyrsti maður, sem lagði tíundir á fólkið, var Gissur Ísleifsson biskup, og það var árið 1096. Síðan hafa skattarnir vaxið ár frá ári. Og það er dálítið fróðlegt að rifja upp, til hvers skattarnir eru notaðir núna og til hvers þeir voru notaðir upphaflega. Fyrstu sköttunum mun aðeins hafa verið skipt í fjóra hluta, eða þeim tekjum, sem öfluðust þá, og þeir voru eingöngu teknir af skuldlausum eignum manna. En nú mun eignarskattur hjá okkur vera mjög lítill hluti af öllum skatttekjum ríkissjóðs. Þessar tíundir skiptust í fyrsta lagi í 1/4 hluta til kirkna, annar hlutinn rann til biskups, þriðji til presta og 1/4 til fátækra. En þarfir ríkissjóðs fyrir tekjur og skipting þeirra tekna, sem ríkið fær, það hefur tekið býsna miklum stakkaskiptum frá því á tímum Gissurar biskups. En vera má, að hæstv. ríkisstj. þurfi nokkurn tíma nú, ef hún ætlar að ganga eitthvað til baka í þessum efnum og kannske fara að tíunda líkt og Gissur biskup gerði upphaflega. Um þetta mál hefur ekkert verið upplýst. Það er ekkert upplýst um það, hvað það er raunverulega í skatta- og efnahagsmálum þjóðarinnar, sem hæstv. ríkisstj. hugsar sér að endurskoða.

Það er furðulegt, að ríkisstj. skuli nú vilja skerða það mikla og góða þingræði, sem átti að eiga sér stað undir þessu nýja kosningafyrirkomulagi. Það er merkilegt, að það skuli vera sagt nú við þjóðina: Við höfum ekkert með þessa réttlátlega kosnu fulltrúa að gera.

Þeir geta farið heim, svo að við höfum tíma til að hugsa. — En ég hygg, þó að þetta réttlátlega kosna þing fengi að starfa, að hæstv. ríkisstj. gæti jafnt eftir sem áður haft tíma til að hugsa um sín fjármál og málefni, hvernig hún aflar tekna og hvort yfirleitt sé þörf á að afla meiri tekna fyrir ríkið en verið hefur og hvort það er þörf að afla yfirleitt allra þeirra tekna, sem ríkið hefur haft til þessa, eins og t.d. þeirra, sem hér um ræðir, og láta það þegar koma. Í ljós, en ekki vera að eyða til þess fjármagni og tíma í marga mánuði. Eitt af tvennu hefur gerzt í síðustu kosningum, að Alþfl.-menn hafa sagt ósatt fyrir kosningarnar eða hæstv. ríkisstj. segir öll ósatt um fjármál þjóðarinnar nú. Og ég vil vænta þess, að hæstv. fjmrh., sem hér er viðstaddur nú, reyni að upplýsa það, hver hefur satt að mæla og hver ekki.

Hæstv. forsrh. mun hafa látið þau orð falla á Varðarfundi, að í ríkissjóð og útflutningssjóð vanti 250 millj. kr. Ekki geri ég ráð fyrir, að hann ætli sérstaklega að fara að skattleggja Varðarmenn um 250 millj. kr., ég geri ráð fyrir, að það komi jafnt niður á alla Íslendinga, ef það vantar. Og það skýtur nokkuð skökku við, að því skuli vera haldið fram nú, að það skuli vanta 250 millj., til þess að hægt sé að rísa undir útgjöldum ríkisins, en vera nógir peningar og allt í bezta lagi fyrir nokkrum mánuðum. Ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. gefi okkur skýrar upplýsingar um þessi mál nú, áður en þetta frv., sem hér um ræðir, þessi bandormur, fer héðan úr deildinni.