26.04.1960
Neðri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3072 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

72. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár til vinnuheimila

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. mælir með samþykkt frv. á þskj. 136, þannig þó, að einn nm., hv. 4. landsk. þm., Hannibal Valdimarsson, undirritar nál. með fyrirvara, og hefur hann beðið mig að geta þess, að sá fyrirvari sé eingöngu byggður á því, að hann vilji forðast að gera verksvið sjóðsins of víðtækt. Hins vegar viðurkennir hann nauðsyn þess að veita lán til byggingar elliheimila og gerir ekki ágreining um afgreiðslu frv.

Frv. er um þá breyt. á l. nr. 12 1952, um erfðafjársjóð, að ráðh. skuli heimilt, ef fjárhagur sjóðsins leyfir, að veita lán úr honum til byggingar elliheimila með sömu skilmálum og veitt eru samkv. l., eins og þau eru nú.

Með þessu er engan veginn til þess ætlazt, að aðalhlutverk sjóðsins verði vanrækt. Þvert á móti má benda á, að lán til elliheimilisbygginga, þar sem séð er fyrir vinnustofum fyrir vistmenn með einhverja starfsgetu, samræmast mætavel þeim aðaltilgangi l. nr. 12 1952 að koma upp vinnustofum fyrir öryrkja og gamalmenni. Eins og högum er háttað í þjóðfélagi okkar í dag, megum við ekki við því að láta neina starfskrafta ónotaða, og gamla fólkið, sem getur prjónað, ofið, sett upp veiðarfæri eða smíðað, svo að eitthvað sé nefnt, þarf að hafa til þess aðstöðu, þó að það sé komið á elliheimill. Öldruðu fólki er mikils virði að geta haft eitthvað fyrir stafni, og það er ill meðferð á því að einangra það á hælum, þar sem engin aðstaða er til léttrar vinnu við þess hæfi. Þess vegna er á það bent í nál., að verði frv. að lögum, eigi að binda lánveitingar samkv. því skilyrði um, að séð verði fyrir hentugum vinnustofum í þeim elliheimilisbyggingum, er lán kunna að fá úr sjóðnum.

Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði samþ. og vísað til 3. umr.