02.12.1959
Efri deild: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Mér þótti vænt um að heyra af vörum hæstv. fjmrh., að hann teldi það mál, sem í brtt. minni felst. gott og gagnlegt. En hitt þótti mér leitt að heyra, að hann þrátt fyrir það ætlar að snúast gegn þessu máli nú.

1956 flutti hæstv. fjmrh. frv. til l. um hluta sveitarfélaga af söluskatti, samhljóða þeirri brtt., sem ég nú flyt, og sams konar frv. flutti hann aftur 1957. Afdrif frv. í fyrra skiptið urðu þau, að frv. var vísað til n., sem flm. sjálfur átti sæti í. Þar sofnaði málið og fékk aldrei endanlega afgreiðslu á því þingi. Síðara árið var frv. með samkomulagi við fim. afgreitt í formi þáltill. frá hv. Ed., þess efnis, að d. skori á ríkisstj. að undirbúa frv. til i. um tekjustofna sveitarfélaga. Ég endurtek það, að þessi afgreiðsla var með samkomulagi við hv. flm., núv. hæstv. fjmrh. En hæstv. ráðh. sagði áðan, að ég hefði ekki veitt málinu stuðning á þessum þingum. Ef hann þar með vill gefa í skyn, að ég hafi á einhvern hátt lagzt á móti málinu, þá fer hann með rangt mál. Sannleikurinn er sá, að ég var þessu frv. samþykkur og greiddi atkv. í samræmi við það, að svo miklu leyti sem það kom til minna kasta, og þess vegna alrangt að bera mér það á brýn, að ég hafi á einhvern hátt lagt stein í götu frv. á þeim tíma.

Nú skilst mér, að hæstv. ráðh. hafi skipað sérstaka menn til að athuga tekjuöflunarþörf sveitarfélaga. Það er í sjálfu sér gott og blessað, svo langt sem það nær. En það var alveg óþarfi að láta þá staðreynd hafa nokkur áhrif á afstöðuna til þeirrar brtt., sem hér liggur fyrir. Það mál er margathugað og margrætt, sérstaklega af sjálfum hæstv. ráðherra.

Fyrir allmörgum árum var samþ. ályktun í Sþ. um undirbúning nýrrar löggjafar um skattamál og útsvarsmál. Og þar var einnig tekið fram, að n. sú, sem skyldi fjalla um þennan undirbúning, ætti að gera till. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og þá tekjustofna, sem undir þeim verkefnum og útgjöldum ættu að standa. Þessi n. mun hafa starfað eitthvað og jafnvel lagt fram einhverjar till., en aldrei heyrzt frá henni endanlegt orð. Vinstri stjórnin skipaði líka n. til þess að athuga og gera till. um nýja tekjustofna sveitarfélaga. Sú n. mun vera að störfum, eftir því sem ég bezt veit, fram á þennan dag, en hefur ekki skilað áliti. Nú skilst mér, að hæstv. ráðh. telji mikla þörf á því að skipa a.m.k. þriðju nefndina. Ég vona, að það sé ekki í trausti þess, að málið sofni vært hjá þeirri n. En ef litið er á fyrri reynslu, gæti það flogið manni í hug.

Hv. 11. þm. Reykv. (ÓB) skýrði það fyrir mér og öðrum hv. þdm., hvað hann hefði átt við, þegar hann talaði um ágæti söluskattsins. Mér skilst, að hann hafi meint og skýrt, að með því hafi hann átt við, að hér væri um að ræða góðan tekjustofn ríkissjóðs, drjúgan tekjustofn ríkissjóðs. Ég skal ekki bera á móti því. Og ég tel það afar mannlegt af fjmrh. að vera eftirsjá í góðum tekjustofnum. En ég vona samt, að hæstv. fjmrh. falli ekki nú fyrir þeirri freistni, að söluskatturinn er gildur tekjustofn ríkissjóðsins, og að hann þess vegna sé ekki nú að bregða fæti fyrir fram komna till., sem að efni og orðalagi er nákvæmlega eins og sú till. og þau frv., sem hann hefur barizt fyrir á undanförnum þingum. En einhvern veginn finnst mér nú í kvöld, að það sé komið annað hljóð í strokkinn hjá hæstv. ráðherra. Ég vona, að það boði ekki neitt illt. En það er auðheyrt, að tónninn hefur breytzt.

Nú langar mig að mega draga brtt. mína aftur til baka til 3. umr., og ég vil fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann komi því til leiðar, að hv. fjhn. taki þessa till. til athugunar á milli umræðnanna. Mér skilst, að fyrir þessari hv. d. liggi ekki neitt verkefni á morgun, svo að þetta ætti að vera auðsótt mál, og ég vit ekki að óreyndu ætla annað en hv. stjórnarsinnar fallist á, að það sé sanngjarnt, að fjhn. fái að athuga málið og segja sitt álit, þegar til 3. umr. kemur.