26.04.1960
Efri deild: 65. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3080 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

52. mál, sjúkrahúsalög

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Nefndin hefur rætt frv. á nokkrum fundum og fengið umsögn landlæknis um það. Hann er heldur mótfallinn því að fjölga fjórðungssjúkrahúsunum, vefengir þó ekki þörf þess sjúkrahúss, sem hér á hlut að máli, til aukins styrks, en telur, að ríkissjóður hafi í mörg horn að líta og því ekki rétt að auka byggingarstyrki af hálfu ríkisins, meðan ólokið er meiri háttar verkefnum, sem þegar eru hafin, eins og t.d. viðbyggingu við landsspítalann og byggingu bæjarsjúkrahússins í Reykjavík, aðkallandi sé að hraða þessum byggingum, sem dragist úr hófi vegna ónógra fjárframlaga frá ríkissjóði.

Þá hefur nefndinni borizt bréf frá Læknafélagi Vesturlands, sem skorar á Alþingi að samþykkja frv.

Nefndin leggur til, að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu, að í stað þess að breyta 10. gr. laga nr. 93 30. des. 1953 þannig, að bæta þar inn í fimmta fjórðungssjúkrahúsinu á Vesturlandi, þá verði 11. gr. sömu laga breytt eins og segir í nál. á þskj. 313. Í því felst sú breyting, að veita má sjúkrahúsum, sem fullnægja þeim skilyrðum, er þar greinir, viðurkenningu til að hljóta sama rekstrarstyrk á hvern legudag og fjórðungssjúkrahús fá. Enn fremur eru tekin upp í þessa grein ákvæði, sem þar voru áður um sérstakar greiðslur frá utanhéraðssjúklingum. Þau ákvæði eru í samræmi við það, sem nú tíðkast, ef nágrannasveitarfélög taka ekki þátt í kostnaði við sjúkrahúshaldið.

Þá er að lokum lagt til, að heimilt sé að setja reglugerð um læknaskipan viðurkenndra sjúkrahúsa. Með þessari breytingu fá þau sjúkrahús, sem fullkomna aðbúnað sinn og tryggja sér tilsvarandi læknisþjónustu, möguleika til þess að fá hækkaðan rekstrarstyrk sinn úr 15 kr. í 25 kr. á legudag. Með þessu er mætt hluta af rekstrarhalla sjúkrahúsa, sem hér eiga hlut að máli, en það er einmitt aðalatriðið í grg. hv. flm. fyrir frv. því, er þeir fluttu.

Framfarir í læknisfræði eru nú og hafa á undanförnum árum verið mjög miklar og örar. Við erum svo heppnir, að íslenzkir læknar hafa fylgzt þar vel með, bæði í þekkingu og tækni. Það er stundum kvartað um, að við kostum dýrt og langt nám lækna og að sumir þeirra ílendist erlendis. En við fáum vissulega nokkuð í staðinn, því að þótt því nær allir íslenzkir læknar fari utan til framhaldsnáms, þá koma þeir flestir heim aftur, með þekkingu og reynslu, sem okkur er ómetanleg. Margir læknar, sem koma heim, taka hér við störfum, sem eru mun verr launuð en þau störf, sem þeir gegndu erlendis, áður en þeir hurfu heim. Þeim þykir það stundum nokkuð hart aðgöngu, en fyrir flestum er þó aðalatriðið að fá tækifæri til að nota þá þekkingu og tækni, sem þeir hafa aflað sér. Til þess að það sé mögulegt, þarf búnaður og aðbúð sjúkrahúsanna að fylgjast með tímanum.

Þetta kostar að vísu oft mikið fé. Vönduð röntgentæki kosta t.d. nokkur hundruð þús. kr. Utan Reykjavíkur og næsta nágrennis, þar sem ekki er hægt að ná fyrirvaralaust til Blóðbankans, þarf að skipuleggja blóðgjafasveitir og tryggja þannig blóð til blóðgjafar með litlum fyrirvara, þegar á liggur. Það kostar mikið starfslið. Þetta kostar allt mikið fé, en það bjargar líka mannslífum. Ég held, að við megum ekki horfa í það að bjarga eins mörgum mannslífum og við getum. Yfirleitt horfa bæjar- eða sveitarfélögin ekki í þennan kostnað, þótt hann geti verið allþungur baggi fyrir mörg þeirra.

Áður en ég lýk máli mínu, skal ég gera stuttlega grein fyrir orsökinni til þess, að flest sjúkrahús eru rekin með halla. Daggjöldin eru ákveðin af ráðherra og yfirleitt svo lág, að vitað er, að þau nægja ekki fyrir kostnaði. Þau eru oftast nær álíka há og greitt er fyrir gott rúm í gistihúsi. Að vísu er þrengra um sjúklinga í sjúkrahúsum en á góðu gistíhúsi, og ætti því sjálf gistingin að geta verið ódýrari. En fyrir þessa greiðslu, sem samsvarar greiðslu í gistihúsi, sér sjúkrahúsið sjúklingum auk þess fyrir fæði, þjónustu, lyfjum og læknishjálp.

Sem dæmi um þann mun, sem er á daggjöldum og raunverulegum kostnaði, má nefna, að á fjárlögum, sem afgreidd voru á þessu þingi, er áætlað, að halli landsspítalans á þessu ári nemi rúmum 12 millj. kr. Á fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði nam þessi munur eða hallinn s.l. ár um 30 kr. á legudag, sem bæjarsjóður Ísafjarðar greiddi, en rekstrarstyrkur úr ríkissjóði nam auk þess 25 kr. á legudag, eins og lög mæla fyrir um fjórðungssjúkrahús. Ríkissjóður greiðir því þar tæpan helming rekstrarhallans eða sem svarar vegna utanhéraðssjúklinga, en Ísfirðingar greiða sjálfir hallann vegna heimamanna.

Ég sagði áðan, að læknum væri mikið áhugamál að fá góð skilyrði til starfa. En það er ekki síður áhugamál allra annarra manna, hvar sem þeir búa, að mega vera þess fullvissir, að þeir eða þeirra nánustu muni fá þá beztu hjálp, sem nútímaþekking leyfir, ef slys eða sjúkdóma ber að höndum. Slíka hjálp getur læknirinn ekki veitt, hversu góður og velmenntaður sem hann er, nema starfsskilyrði séu eins og vera ber.