28.04.1960
Efri deild: 66. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3082 í B-deild Alþingistíðinda. (1314)

52. mál, sjúkrahúsalög

Jón Árnason:

Herra forseti. Við hv. 1. þm. Vesturl. höfum leyft okkur að flytja fram brtt., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Á undan 1. gr. bætist ný grein, svo hljóðandi:

Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. l. bætist nýr málsl.:

Ráðh. getur þó ákveðið, að sama skuli gilda um sjúkrahús, sem er sérstaklega vel búið að tækjum til sjúkdómsgreiningar og meðferðar og hefur fastráðið eða ákveðið að ráða til starfa nægilega marga lækna til þess að leysa af hendi þau störf, sem eru við hæfi þess, þó ekki færri en þrjá.“

Þessi brtt. er í samræmi við brtt. heilbr.- og félmn., sem samþ. var hér við 2. umr. málsins í þessari deild, þar sem hér er um sjúkrahús að ræða, sem telja verður að megi bera fyllilega saman við fjórðungssjúkrahúsin, bæði hvað snertir stærð og tölu starfandi lækna. Þegar fjvn. var að störfum að undirbúa fjárlagafrv, eða yfirfara fjárlagafrv. yfirstandandi árs, þá var n. boðið á landsspítalann til þess að sjá þær framkvæmdir, sem þar eiga sér stað nú, og þær eru vissulega miklar. Yfirlæknir spítalans var þar til þess að sýna og skýra það, sem var verið að gera. Það kom fram hjá lækninum, að þegar rætt var um þessar miklu framkvæmdir við landsspítalann, bæjarsjúkrahúsið, sem verið er að byggja, og enn fremur þær endurbætur og hið nýja hús, sem verið er að byggja í Landakoti, að þegar þessar byggingar væru allar komnar í gagn, þá mundum við standa nokkuð svipað að vígi og við stöndum í dag, þegar tillit væri tekið til þeirrar fólksfjölgunar, sem ætti sér stað. Það er enginn efi á því, að með tilliti til þessa er brýn nauðsyn á því, að það sé unnið að slíkum framkvæmdum sem þessum, byggingu slíkra sjúkrahúsa, sem hér eru til umr. og brtt. þessi fjallar um. Því er það von okkar, að hv. d. verði við tilmælum okkar um það að samþykkja einnig, að styrkurinn nái til byggingarinnar jafnframt rekstrinum. Það er enginn efi á því, enda þótt það yrði ekki gert að þessu sinni, sem virtist þó við 2. umr. vera álit allra hv. alþm. þessarar deildar, að það bæri nú að breyta sjúkrahúslögunum eins og n. lagði til varðandi reksturinn, þá má það telja nokkurn veginn víst, að ef ekki væri nú um leið breytt einnig varðandi byggingarstyrkinn, þá er það bara mál, sem kemur aftur á næsta eða næstnæsta þingi. Þess vegna er eðlilegt og sjálfsagt, að málið verði nú afgreitt á viðunandi hátt, en það getur vart talizt, nema því aðeins að þetta hvort tveggja fylgist að.