28.04.1960
Efri deild: 66. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3083 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

52. mál, sjúkrahúsalög

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og ég gat um við 2. umr. þessa máls hér í d., taldi heilbr.- og félmn. þá breyt., sem þá var gerð á ákvæðinu um rekstrarstyrk þessara sjúkrahúsa, réttlætismál. Um hitt atriðið, sem um er að ræða í brtt. á þskj. 341, er það að segja, að lengi var í lögum um að ræða tvenns konar styrk til byggingar sjúkrahúsa og sjúkraskýla. Það er í fyrsta lagi, að ríkissjóður greiddi 40% til minni sjúkrahúsa og sjúkraskýla, og í öðru lagi var heimild til þess að greiða 60% eða 3/5, ef um var að ræða fjórðungssjúkrahús, eitt í hverjum fjórðungi, þegar slík sjúkrahús höfðu hlotið viðurkenningu. Fyrir skömmu, — ég hygg, að það hafi verið fyrir tveimur árum, — var samþ. breyt. á þessum lögum í þá átt, að heimilt er að greiða 66% til byggingar sjúkrahúsa í bæjarfélögum, þar sem íbúar eru innan við 3000.

Það má vel vera, að það sé kominn tími til þess að endurskoða löggjöfina um styrk til byggingar sjúkrahúsa á Íslandi. En ég vildi fara fram á það við hæstv. forseta, að hann frestaði afgreiðslu þessa máls nú, svo að n. gæfist færi á að athuga þessa till., áður en hún kemur til atkvæða. Ég er ekki tilbúinn að segja til um það, hvaða ákvörðun kann að verða þar tekin. En eins og ég gat um við 2. umr., leggur landlæknir til, að þetta sé ekki tekið í lög nú, og það er sérstaklega einmitt þetta atriði í till. hv. flm., sem landlæknir mælir á móti. Ég hef rætt nokkuð við hann um það, og hann telur einmitt, að það sé kannske tímabært að taka þetta allt til endurskoðunar, og er þess vegna á móti því, að breyting sé gerð nú, auk þess sem hann telur, að þær kvaðir, sem ríkissjóður sé þegar kominn í vegna þeirra sjúkrahúsa, sem nú eru í byggingu, séu svo miklar, að það sé naumast rétt að bæta þar á í svipinn, fyrr en eitthvað sést um það, hvernig gangi að leysa þær.