02.05.1960
Efri deild: 68. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3084 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

52. mál, sjúkrahúsalög

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur rætt brtt. á þskj. 341. Í henni felst það, að ráðh. geti ákveðið, að úr ríkissjóði skuli greiða sama tillag og til fjórðungssjúkrahúsa, þ. e. 3/5 kostnaðar, til sjúkrahúss bæjarfélags með meira en 3000 íbúa, ef það fullnægir ákveðnum skilyrðum. Rétt er að vekja athygli á því, að það er skoðun nm., að engan veginn sé sjálfsagt, að sú heimild til þess að greiða byggingarstyrk, sem veitt verður, ef þessi brtt. er samþ., og heimildin samkv. 11. gr., eins og lagt er til að hún verði, til þess að greiða rekstrarstyrk, fylgist að. Það hlýtur að fara eftir atvikum á hverjum tíma, alveg eins og það er metið hverju sinni, hvort aðalsjúkrahúsið í hverjum fjórðungi fær viðurkenningu sem fjórðungssjúkrahús eða ekki. Ef sjúkrahús, sem gæti átt rétt á viðurkenningu eftir þessum reglum, er metið hæfilega stórt, gæti það t.d. fengið viðurkenningu til þess að fá rekstrarstyrk án þess sjálfkrafa að fá hækkaðan byggingarstyrk, þótt í ráði væri að byggja við það eða stækka það. Einstaka sjúkrahús fengi hækkaðan byggingarstyrk, ef stækkun væri metin nauðsynleg, þótt svo stæði á, að ekki þætti ástæða til, að það fengi hækkaðan rekstrarstyrk. Eitt þeirra atriða, sem verulegu máli skipta, t.d. um rekstrarstyrk, er hlutfallið á milli innanbæjarsjúklinga og utanbæjar. Því fleiri sem utanbæjarsjúklingarnir eru hlutfallslega, því sanngjarnara er, að ríkissjóður taki aukinn þátt í kostnaði.

Að þessu athuguðu telur n. rétt að verða við óskum flm. og leggur til, að brtt. verði samþykkt.