09.02.1960
Efri deild: 17. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3086 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

53. mál, lögheimili

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. flytur frv. þetta um lögheimili eftir ósk hæstv. félmrh. Sama frv. var flutt á Alþ. í fyrravetur af heilbr.- og félmn. þessarar d. og þá eins og nú fyrir tilmæli hæstv. félmrh., sem að vísu var ekki sami maður. Árið áður hafði þáv. hæstv. félmrh., þriðji maðurinn, skipað nefnd fyrir áskorun frá Ed. til að endurskoða löggjöfina um sveitarstjórnarmál. Sú n. er skipuð þessum mönnum: Bjarna Þórðarsyni bæjarstjóra, Neskaupstað, Birni Fr. Björnssyni sýslumanni, Hvolsvelli, Hjálmari Vilhjálmssyni ráðuneytisstjóra, sem er formaður n., Jóni Guðjónssyni bæjarstjóra á Ísafirði og Tómasi Jónssyni borgarlögmanni, en hann var ritari og er ritari nefndarinnar.

Þessi n. samdi frv. það, sem hér liggur fyrir. Það á að koma fyrst og fremst í staðinn fyrir lög nr. 95 23. júní 1936, um heimilisfang, sem eru úrelt orðin og mjög ófullnægjandi. Í frv. þessu er, eins og segir í grg, þess, leitazt við að skipa lögum þessum á þann veg, að yfirleitt megi nota það þar, sem réttindi eða skyldur eru bundnar við búsetu eða heimilisfang. Á með frv. þessu þess vegna, ef að lögum verður, að leysa eða a.m.k. auðvelda mjög mikla erfiðleika, sem oft og tíðum hafa á því verið, bæði fyrir sveitarstjórnir og einstaklinga, að vita og fá úr því skorið, í hvaða sveit menn hafa haft rétt sinn og skyldur.

Áríðandi er, að hver maður eigi lögheimili og enginn maður geti átt nema eitt lögheimili, þótt hann dveljist á ýmsum stöðum. Þetta er áriðandi, bæði fyrir sveitarfélög, fyrir ríki og fyrir fólkið sjálf. Slík löggjöf á að geta sparað mikla fyrirhöfn og deilur. Lögin um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 31 frá 1956, hafa mikið hjálpað frá því, sem áður var í þessum efnum, en hafa ekki nein ákvæði inni að halda um lögheimili. Til þess að þau lög komi að fyllsta gagni, þarf að lögfesta glögg ákvæði um það, hvar hver og einn einstaklingur skuli eiga lögheimili.

Þegar heilbr.- og félmn. tók að sér flutning frv. um lögheimili í fyrra, lagði hún mikla vinnu í að kynna sér frv. Hún fékk á fund sinn menn úr n., sem samdi það, formann n. fyrst og fremst og ritara, og hafði samband við fleiri nm. Enn fremur fékk hún á fund sinn hagstofustjórann, Klemenz Tryggvason, því að hann hafði unnið að því að semja frv. með n. vegna þess, hvað það hefur mikla þýðingu í sambandi við þjóðskrána. Með samkomulagi við þessa aðila, nm. og hagstofustjórann, breytti n. frv. ofur lítið, áður en hún lagði það fram, og þær breyt. eru vitanlega í frv. nú. Þá sendi n. einnig frv. til umsagnar til þriggja aðila: lagadeildar háskólans, Lögmannafélagsins og Sambands ísl. sveitarfélaga. Stjórn Lögmannafélagsins gerði eina smávægilega brtt. við frv., en mælti með samþykkt þess að öðru leyti. Þessi brtt. var tekin til greina og felld inn í frv. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga mælti með frv. Lagadeild háskólans lét aldrei neitt til sín heyra, en vitað var, að hún hafði athugað frv. Það var beðið lengi eftir áliti og bendingum frá henni, en þegar það kom ekki, var frv. afgreitt til Nd. Í Nd. dagaði svo frv. uppi í heilbr.- og félmn. þar.

Þetta er í stuttu máli efni, tilgangur frv. og saga þess að undanförnu. Ég sé ekki ástæðu til þess við þessa umr. að fara frekar út í málið eða hafa um það lengri framsögu. Grg. fylgir líka frv., sem er skýr, og þar er upplýsingar að fá um það. Ég legg til, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr., en þar sem það er flutt af n., geri ég ekki till. um, að því verði vísað til n., en get lýst því yfir, að heilbr.- og félmn. mun hafa það til athugunar, meðan það liggur fyrir þessari hv. d. Og ég fyrir mitt leyti mun leggja það til í heilbr.- og félmn., að hún sendi það lagadeild háskólans til umsagnar, ekki sízt af því, að ég hef grun um það, að lagadeildin hafi í undirbúningi eða í uppkasti a.m.k. einhverjar bendingar, sem hún mundi gefa um frumvarpið.