09.02.1960
Efri deild: 17. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3088 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

53. mál, lögheimili

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er mjög góðra gjalda vert, að það séu settar fastar reglur um lögheimili. Það er eins og hv. frsm. gat um, að þeim reglum, sem nú eru um það í lögum, er að ýmsu leyti áfátt, og að sumu leyti verða þær að teljast úreltar. Það ber þess vegna að fagna því frumkvæði, sem félmrh. eða ráðherrar hafa átt að því, að frv. væri samið um þetta efni og lagt fyrir Alþingi.

Það er hins vegar svo, að lögheimili skiptir máli í ýmsar áttir. Það skiptir máli um gjaldskyldu manna, hvar þeir eru útsvarsskyldir, það skiptir máli um kosningarrétt manna og kjörgengi, það skiptir máli, hvar þeir eru skyldir til þess að koma fyrir dóm og hvar þeir eru skyldir að þola dóm, og þannig mætti lengi telja. Lögheimili hefur því þýðingu í mjög mörgum samböndum. Það er þess vegna mjög vandasamt og flókið viðfangsefni að setja fastar reglur um lögheimili, sem eigi við í öllum þessum samböndum.

Í upphafi eða fyrirsögn þessa frv. er sagt, að það sé frv. til l. um lögheimili, og sú fyrirsögn gefur til kynna, að þessum lögum sé ætlað að taka til lögheimilis í hvaða sambandi sem er. Af aths. virðist mér samt svo, að það, sem einkum hafi verið haft hér í huga, séu útsvör. Ég er ekki alveg viss um, að þessar reglur, sem hér eru fram settar, eigi eins vel við í öllum öðrum samböndum, t.d. að því er varðar samband þeirra eða samræmi við lög um kosningar til Alþingis og t.d. að því er varðar ýmis ákvæði réttarfarslaga. Þetta held ég einmitt, að n., sem flytur frv. og fær það til athugunar framvegis, verði að taka til athugunar betur en gert hefur verið, annaðhvort að haga reglunum þannig, að þær taki til þessa alls, eða afmarka gildissvið l. skýrar en gert er með fyrirsögn þeirra og taka það þá fram beinlínis í fyrirsögn, í hvaða samböndum þessum lögum er ætlað að gilda.

Eitt þýðingarmikið atriði í sambandi við heimilisfang er t.d. framfærsluréttur. Ég hygg, að það komi fram í aths., að þessum lögum sé ekki ætlað að gilda um það efni óskorað. En fyrst og fremst er lögum þessum ætlað að gilda um útsvör eða skera úr um það, hvar aðili sé útsvarskyldur. En þá er þess að gæta, að þessi lög eiga aðeins við um einstaklinga. En nú er það vitað mál, að það eru ekki aðeins einstaklingar, sem eru útsvarsskyldir, heldur og félög og stofnanir. Og það mætti ætla, að það væri nokkuð auðráðið, hvar félög ættu heima, og það væri nokkuð auðleyst úr því, hvar ætti að leggja útsvar á þau. Félagið er skrásett á tilteknum stað, þegar um skrásetningarskyld félög er að ræða. En þessu er ekki alltaf þann veg farið. Það hafa risið deilur um það mjög oft einmitt, hvar á félag skyldi útsvar leggja. Það er nefnilega þannig, að félag getur verið skrásett á einum stað, það getur haft sína höfuðstarfrækslu á öðrum stað, og stjórnendur þess geta verið búsettir á hinum þriðja stað. Mér sýnist, að þegar verið er að setja almenn lög um lögheimili og sérstaklega með tilliti til útsvarsskyldunnar, þá megi ekki sleppa þessu atriði fram hjá sér, heldur eigi að taka það til athugunar líka og reyna að skapa reglu um það, hvar telja skuli lögheimili félaga í því sambandi, sem l. er ætlað að ná til.

Ég vildi aðeins setja þessar aths. fram hér á frumstigi málsmeðferðarinnar, til þess að n. gæti tekið þessi atriði til athugunar. En að öðru leyti verð ég að segja það, að mér sýnist þetta frv. að ýmsu leyti til bóta, og eins og ég sagði, þá er það vissulega lofsvert, að það skuli gerð tilraun til þess að setja fastar reglur um þetta efni.