02.12.1959
Efri deild: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Till. á þskj. 48 er merkileg till., eins og hún á ætt til. Menn hafa heyrt hana ættfærða við þessa umr., og mér sýnist, að það væri mjög sanngjarnt að verða við þeim óskum flm., að n. athugaði hana og gengið væri úr skugga um það, hvort ekki fyndist flötur á því að gera því þarfa máli einhver skil, flýta fyrir því, að sveitarfélögin, sem eru þurfandi fyrir nýja tekjustofna og hafa einmitt óskað eftir hlutdeild í þessum skatti, fengju a.m.k. fyrirheit um það, að hlutur þeirra yrði réttur. Þess vegna vil ég fyrir mitt leyti styðja þá ósk flm., að till. verði tekin til þinglegri meðferðar en hún fær, ef hún er afgreidd hér við þessa umræðu.

Ég vildi segja það um till. í þessu sambandi, að ég tel, að þó að hún sé vel ættuð, þá þurfi hún athugunar við, og þó að hún sé komin það til ára sinna, sem hún er komin. Sérstaklega tel ég ástæðu til að geta þess, að sú n., sem hv. 9. þm. Reykv. nefndi að skipuð hefði verið, fyrri n., tók þetta atriði töluvert til meðferðar, og í n. skilaði ég þá sérstaklega till. um það, að sveitarfélögin væru látin hafa, ekki fjórða part af söluskatti, heldur 30% af söluskatti þeim, sem ríkið hafði innheimt. Og á þeim tíma fór töluvert mikil rannsókn fram á því, hvað þetta skipti miklu máli fyrir sveitarfélögin, og það kom í ljós, að slík hlutdeild í skattinum munaði verulega miklu. Og ég fyrir mitt leyti held, að áður en þetta er lögbundið, eigi að taka upp athugun á þessu mjög rækilega, hvað það er, sem sveitarfélögin dregur, svo að um muni.

Þá vil ég minnast hérna á 2, liðinn, þ.e. skiptingu söluskatts þess, sem till. gerir ráð fyrir að falli í hlut sveitarfélaganna. Ég held, að það þurfi að athuga, hvort það eigi að láta fólksfjöldann ráða. Ég er svo mikill dreifbýlismaður, og ég tel svo nauðsynlegt að gæta þess, að jafnvægi haldist í byggðum landsins, að ég hygg, að með því að skipta eftir mannfjölda sé einmitt einangrunarfólkinu, strjálbýlisfólkinu gert lægra undir höfði en hinu. Viðskiptin, sem söluskatturinn yrði tekinn af, fara mest fram þar, sem fjölmennið er mest, og þau fara þar að sumu leyti fram fyrir það, að strjálbýlið sækir sín kaup til þéttbýlisins. En þéttbýlið hefur þá aðstöðu, sem dreifbýlið og fámennu sveitarfélögin hafa ekki, að vegna viðskiptanna, sem þar fara fram, skapast aðrir tekjustofnar fyrir þau sveitarfélög, þ.e.a.s. viðskiptafyrirtækin eru sá aðili, sem gefur þéttbýlinu drýgstar tekjur í sveitarsjóðina, og af því að viðskipti dreifbýlisins fara þarna um, þá verða þau undirstaða fyrir álögur hjá þéttbýlinu, sem strjálbýlið leggur því til. Þess vegna tel ég réttmætt, að það njóti í staðinn meira af söluskattinum hlutfallslega en miðað sé við takmarkaðan mannfjölda. Ég get um þetta hér bæði vegna þess, að ég tel rétt, að málið í heild sé athugað í n., og nefni dæmi um, að það þurfi athugunar við, svo og líka vegna þess, að ég fyrir mitt leyti er nokkuð hikandi að greiða atkv. með till. á stundinni, eins og hún er.

Ég álít heppilegast að samþ. till. okkar í minni hl. fjhn. á þskj. 45 um það, að framlengingin sé aðeins til tveggja mánaða og það komi aftur til athugunar, einmitt á sama tíma og fjárl. verða tekin til afgreiðslu, hvort ekki er hægt að láta söluskattinn ganga til sveitarfélaganna. Ég hygg þess vegna, að ef þessi till. verður ekki betur athuguð, þá fari betur á því, að hún bíði þess tíma, en því aðeins að framlengingin verði til tveggja mánaða, eins og við minnihlutamennirnir leggjum til. M.ö.o.: ef till. fer ekki til n. aftur, sem ég mæli með, og fær ekki þar athugun og máske samkomulagsafgreiðslu, — gott væri að ræða hana þar við hæstv. fjmrh., — þá held ég, að það verði að fresta málinu, og ég mun a.m.k. sitja hjá. Þá tillitssemi vil ég líka sýna, þegar óvíst er, hvernig ríkissjóður getur fengið þær tekjur, sem okkur að lokum sýnist nauðsynlegt að hann þurfi að fá. En með því sýni ég ekki þessari till. neina andstöðu, að ég tel, ekki málefninu, sem hún er fram komin fyrir, vegna þess að ég ber fram till. á þskj. 45. Ég held að það væri vel hægt að gefa þinginu tíma til að athuga þessa till. í n. Ég held, að það sé rétt fyrir hæstv. ríkisstj. og hennar flokka að flýta sér hægt í þessu máli. Það er margt, sem styður að því, og það hefur verið margt af því tekið mjög rækilega fram í þessum umræðum.

Ég held, eins og ég minntist á í ræðu minni í kvöld, að hæstv. fjmrh, ætti rækilega að endurskoða afstöðu sína um það, hvort hann heldur sig við það að flytja ekki skýrslu um efnahagsástandið nú, áður en þingfrestur er tekinn. Ég er viss um það, að leynd á þeim málum er mjög hættuleg, og sérstaklega er hún hættuleg eftir það, að ráðuneytisstjóri efnahagsmálaráðuneytisins er búinn að halda þá ræðu, sem hann hélt nú í sambandi við fullveldisdaginn. Það er mannleg náttúra, að ímyndunaraflið gengur lengra en veruleikinn venjulega, og þegar eitthvað er á huldu, sem menn óttast, þá fær ímyndunaraflið fæturna og kraftinn til sköpunarinnar. Ég er viss um það, að þegar almenningur í landinu leggur saman þögli ríkisstj. um þessi mál og þá opinskáu ræðu, svartsýnisræðu, sem ráðuneytisstjórinn hélt, þá slær almenningur því föstu, að fyrir dyrum séu efnahagsaðgerðir, sem þurfi að hafa viðbúnað fyrir, og menn búast við gengisfalli og herða á sér frá því, sem nú er, og hafa þeir þó verið að ýmsir með að bjarga sparifé sínu undan gengisfalli. Ég held þá, að niðurstaðan verði auðvitað sú, sem jafnan verður undir þannig kringumstæðum, að þeir bjarga sér og sínu, sem kunnáttumestir eru og mestir fyrir sér í viðskiptamálum og gætu í raun og veru helzt af hendi látið og mest munaði um að tækju þátt í efnahagsuppgjörinu, en hinir, sem eru ekki spekúlantar, eiga sparifé, af því að þeir hafa í raun og veru fullnægt þeirri dyggð, sem þjóðin hefði þurft að sýna, — þeir muni verða fyrir barðinu á aðgerðunum. Ég hygg, að hæstv. ríkisstj. muni alls ekki vilja til þess stofna. Ef hún býr yfir því að skella á í krafti meiri hluta síns gengisfellingu, þá ætti hún að gera það strax, af því yrði minni skaði. Ef hún býr ekki yfir því, þá ætti hún að segja frá því. Og hún á að gera meira. Hún á að taka undir till. um verðtryggingu sparifjár. Það mundi verða sönnun þess, að fólkið, sem hefur sparað fé, lagt í banka og sparisjóði og þannig lagt til handa þjóðinni framkvæmdafé á undanförnum árum, — framkvæmdafé, sem þjóðin hefði þó viljað hafa meira til, — það fólk mundi þá verða rólegra og spekúlantarnir mundu láta sitt fé frekar liggja kyrrt. Ég held þess vegna, að það ætti nú að fresta umr. þessa máls eða a.m.k. gera ráð fyrir því, að eitthvað töluvert liði á milli 2. og 3. umr. Það liggur ekkert á í málinu, þvert á móti. Það þarf að endurskoða afstöður þær, sem hæstv. ríkisstj. virðist hafa tekið og ályktað er um þöglina.

Ég vil bæta því við, að hv. 5. þm. Austf. benti á margt mikilsvert í þessum málum mjög greinilega, og menn hlustuðu mjög rækilega á hans bendingar um það, sem telja má að væri æskilegt að athugað væri betur í frv., sem fyrir liggur. Eins og form. hv. fjhn. tók fram, er það kannske ekki beinlínis á færi n. sem slíkrar að endurskoða frv. á einum fundi, heldur hefði þurft að leita til þess aðstoðar þeirra, sem í hverju tilfelli eru fyrir framan um hvern þátt þeirra mála, sem þar hafa verið fléttaðir saman, og það tekur sinn tíma. Þetta væri alveg í samræmi við vinnubrögð á þingi, sem vill vanda störf sín.