26.04.1960
Efri deild: 65. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3097 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

53. mál, lögheimili

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til 1. umr., benti ég á nokkur atriði, sem mér virtist að þyrftu betri eða meiri athugunar við en þau höfðu fengið í meðferð þeirrar n., sem hefur samið þetta frv. til laga um lögheimili. Í millitíðinni hefur svo hv. félmn. sent þetta frv. til umsagnar lagadeildarinnar, og eins og hv. frsm. hefur gert grein fyrir, hefur lagadeildin látið uppi álit um þetta mál. Þess er auðvitað ekki að vænta, að lagadeildin hafi getað gert beinar till. til breytinga, enda er það ekki hennar hlutverk. Hins vegar hefur lagadeildin bent á í umsögn sinni, að það væru nokkur atriði í þessu frv., sem þyrftu meiri athugunar við, áður en það væri gert að lögum.

Ég skal ekki tefja tíma hv. dm. með því að rifja þau atriði upp eða fara að rekja þau. En ég vil aðeins benda á, að það er mjög óvíst, eftir að þetta frv. yrði að lögum, hversu víðtækt gildi það hefði, í hve ríkum mæli það breyti ýmsum gildandi lagaákvæðum um heimilisfang, þar sem ákvæði eru um heimilisfang, eins og t.d. á sviði sifjaréttar, eins og t.d. á sviði réttarfars, eins og t.d. á sviði ýmissa stjórnarfarslegra málefna.

Ég hjó eftir því, að hv. frsm. sagði, að það ætti að gilda ein og sama regla um lögheimili, í hvaða sambandi sem er. Það má vel vera, að það sé rétt. Þó veit ég ekki, hvort það er nægilega rannsakað, að það sama eigi við í öllum tilfellum. En ef það er svo, að það eigi að setja eina og sömu regluna fyrir öll tilfelli, þá verður það að koma ljóst fram í þessum lögum, að það sé meiningin. Ég hygg hins vegar, að það sé alls ekki meiningin með þessum lögum að raska t.d. ákvæðum laga um varnarþing, svo að nokkuð sé nefnt. Það er sú minnsta krafa, sem gera verður í þessu efni, að það verði þá tekið nokkuð ýtarlega fram í niðurlagsákvæði laganna, hver ákvæði væru felld úr gildi með þessum lögum, en í mýmörgum öðrum lögum eru ákvæði um heimilisfang. En svo er það náttúrlega mikil vöntun í þessu lagafrv., þegar skera á úr um heimilisfang, að reyna að gera það auðleystara en áður, einkanlega hvar leggja eigi á útsvör, að það skuli ekki vera nein ákvæði um heimilisföng félaga, en ég hygg, að það sé ekki hvað sízt á því sviði, sem vafi og ágreiningur hefur risið.

Ég viðurkenni það fúslega, að þetta frv. stefnir að mörgu leyti í rétta átt, og ég efast ekki um, að það muni að ýmsu leyti verða til bóta. En ég held, að það væru skynsamleg vinnubrögð að láta þetta frv. hvílast á þessu þingi og að stjórnin tæki það til athugunar og nánari endurskoðunar fyrir næsta þing. Ég hef trú á því, að það séu mörg atriði, sem þurfi lagfæringar við og lagfæra má, ef tóm er til þess og því er gaumur gefinn. Ég efast um, hversu mikill ávinningur muni verða af því að knýja frv. fram í þeirri mynd, sem það er nú. Að öðru leyti vil ég ekki leggja stein í götu þessa frv.