03.05.1960
Efri deild: 75. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3099 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

53. mál, lögheimili

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í maímánuði 1958 skipaði þáv. félmrh. nefnd til að endurskoða löggjöfina um sveitarstjórnarmál og til þess að semja frv. um þau efni. Í þessari nefnd áttu sæti Bjarni Þórðarson bæjarstjóri í Neskaupstað, Björn Fr. Björnsson sýslumaður á Hvolsvelli, Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, Jón Guðjónsson bæjarstjóri á Ísafirði og Tómas Jónsson borgarlögmaður í Reykjavík. Þegar þessi nefnd hafði starfað um nokkra hríð, var hún einhuga um að taka þau eiginlegu sveitarstjórnarmál út af fyrir sig, en semja sérstaklega frv. um lögheimili, og það er það frv., sem hér liggur nú fyrir þessari hv. deild.

Í lögum, sem nú gilda, eru hvergi greinileg ákvæði um það, hvar menn skuli eiga lögheimili. Þetta hefur valdið dálitlum óþægindum oft og tíðum, því að í sambandi við lögheimili eru nokkur atriði um réttindi og skyldur þjóðfélagsborgaranna bundin. Það er t.d. kosningarrétturinn, hvar menn eigi hann, það eru ákvæði útsvarslaganna, hvar menn skuli greiða útsvar, það eru ákvæði framfærslulaganna, hvar menn skuli eiga rétt á að snúa sér til sinnar sveitar, sem svo er kallað, en þó er sá réttur ekki eingöngu bundinn við lögheimili, heldur kemur þar einnig til greina, hvort maðurinn hefur áður þurft að leita aðstoðar í því efni eða hvar hann á framfærslusveit, sem svo er kallað.

Þetta lagafrv. er tiltölulega lÍtið og einfalt, en er ætlað að bæta úr þessu. Þar er því slegið föstu, að heimili manns sé sá staður, þar sem hann eigi bækistöð og dveljist að jafnaði, og þar skal einnig lögheimili hans vera. Í næstu greinum á eftir er svo gert ráð fyrir ýmsum tilvikum, sem tvímælis kunna að orka, og þau skýrð nánar.

Í 7.–11. gr. eru sérreglur um hjón, börn, ungt fólk, námsmenn, sjúklinga o.fl. þess háttar, hvernig þeirra lögheimili skuli ákveðið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta frv. mörgum fleiri orðum, það er ákaflega einfalt og ljóst. Það hefur verið afgreitt í hv. Ed. óbreytt, eins og það var lagt fyrir, og ég vildi vona, að þessi hv. deild gæti einnig lokið afgreiðslu þess, til þess að þau ófullkomnu ákvæði, sem hingað til hefur orðið að bjargast við, þyrftu ekki lengur að duga, heldur yrðu um þetta settar nákvæmari reglur.

Þetta frv. hefur áður verið flutt að ósk þáv. félmrh., en náði þá ekki fram að ganga, það var á síðasta þingi, en er nú flutt á ný óbreytt, eins og það var þá, þegar það var afgreitt frá Ed., sem hafði lokið afgreiðslunni fyrir sitt leyti, er frv. strandaði hér í hv. deild þá.

Ég held, að það séu engin atriði hér, sem þurfi að valda neinum ágreiningi. Frv. hefur farið í gegnum ýmsa hreinsunarelda og verið athugað frá öllum hliðum, þannig að ég held, að það ætti að vera tiltölulega auðvelt mál og einfalt að afgreiða það.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. heilbr.- og félmn. og 2. umr.