13.05.1960
Neðri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3100 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

53. mál, lögheimili

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um lögheimili er samið af milliþn., sem skipuð var af félmrh. á sumrinu 1958. Sú nefnd átti að endurskoða alla sveitarstjórnarlöggjöfina og ákvað, eftir að hún hafði gert sér grein fyrir sínu heildarverkefni, að flytja sérstakt frv. um lögheimili. Þetta frv. var tilbúið rétt fyrir lok síðasta þings og var þá lagt fram að beiðni þáverandi félmrh., en komst þá ekki í gegnum þingið. Nú var það aftur lagt fram í hv. Ed., og hefur frv. farið í gegnum þá deild, að ég held alveg óbreytt.

Heilbr.- og félmn. þessarar d. hefur fjallað um frv. og kynnt sér það og telur ekki ástæðu til að gera við það neinar brtt., og er n. þannig sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ.

Ákvæði þau, sem nú eru í lögum um lögheimili, eru óljós, en ákvæði um það er helzt að finna í lögunum um heimilisfang, lögunum um tilkynningar aðsetursskipta og framfærslulögunum, en í þessu frv. eru alltæmandi skilgreiningar á hugtakinu lögheimili. Hin óákveðnu ákvæði, sem í gildi eru um lögheimili, hafa oft valdið ágreiningi milli sveitarstjórna, valdið því, að lögð hafa verið útsvör á menn jafnvel í tveimur eða fleiri sveitarfélögum. Einnig hefur það komið fyrir vegna þessara óákveðnu lagaákvæða, að menn hafa verið víðar en í einu kjördæmi á kjörskrá, og þannig oft verið óvissa um, hvar menn með réttu skyldu teljast hafa lögheimili. Ég hygg, að þetta frv., ef það verður samþ., bæti allverulega úr slíku og fyrirbyggi þess konar ágreiningsmál í mjög mörgum tilfellum.

Heilbr.- og félmn. leggur sem sé til, að frv. verði samþ. óbreytt.