06.05.1960
Efri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3101 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

84. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af heilbr.- og félmn. að beiðni félmrh, og fylgdi því svofelld grg., sem er örstutt og ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Komið hafa í ljós annmarkar á ákvæðum laga um innheimtu iðgjalda til lífeyrissjóðs togarasjómanna. Nokkur togarafélög hafa eigi staðið skil á gjöldum, og hefur orðið að innheimta gjöldin með lögsókn. Hafa tveir togarar verið auglýstir til uppboðs vegna vanskila við ýmsa kröfuhafa, þ. á m. lífeyrissjóð togarasjómanna. Er mjög tvísýnt, hvort sjóðurinn nær kröfum sínum, því að skuldir munu allmiklu meiri en eignin. Lífeyrissjóðurinn hefur ekki tök á því að fyrirbyggja skuldasöfnun, þar sem tryggingin er lögboðin, og þykir því eðlilegt, að hann fái lögveð í hlutaðeigandi skipi.“

Til viðbótar má geta þess, að síðan þetta er ritað, hefur komið til uppboðs á einum togara, og er því talið, að aðkallandi sé að fá þetta frv. samþ. sem fyrst, svo að ekki komi til tapa.

Nefndin hefur rætt þetta frv. milli umr. og mælir eindregið með því, að það verði samþ.