12.05.1960
Neðri deild: 80. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3103 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

110. mál, verslunarstaður við Arnarnesvog

Frsm. (Alfreð Gíslason bæjarfógeti):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir og flutt er að ósk hreppsnefndar Garðahrepps í Gullbringusýslu, er um það, að þéttbýlið við Arnarnesvog í Garðahreppi, sem hefur um 700 íbúa, en í hreppnum öllum eru samtals um 1000 íbúar, verði löggilt sem verzlunarstaður og þar með sem kauptúnshreppur.

Í l. nr. 61 frá 1905 er gert ráð fyrir því, að stjórnarráð Íslands ákveði takmörk verzlunarlóða á löggiltum verzlunarstöðum að fenginni tillögu sýslunefndar, enda er svo fram tekið réttilega í 2. gr. þessa frv., að lög þessi öðlist fyrst gildi, þá er atvmrn. hefur ákveðið takmörk verzlunarlóðarinnar og þau síðan birt í B-deild Stjórnartíðindanna.

Allshn. hefur haft frv. þetta til athugunar og var á einu máli um að mæla með, að það yrði samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 266. Óskast málinu síðan vísað til 3. umr.