01.03.1960
Neðri deild: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3105 í B-deild Alþingistíðinda. (1381)

70. mál, sala tveggja jarða í Austur-Húnavatnssýslu

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 134, hef ég leyft mér að flytja eftir óskum sýslunefndarinnar í Austur-Húnavatnssýslu, og eins og hv. þm. geta séð, felur það í sér það eitt, að sýslunefndinni sé heimilað að selja tvær jarðir, sem sýslan er talin eigandi að og eru undir nafninu kristfjárjarðir.

Þannig er háttað um þessar jarðir, að sýslan á í raun og veru ekki annað en landið sjálft, vegna þess að ábúendurnir, sem þar hafa verið, hafa byggt upp á jörðunum. A.m.k. er það svo um jörðina Meðalheim, að þar var byggt upp af ábúanda með miklum kostnaði og ræktað land margfaldað frá því, sem áður var. Nú er það svo, að landverðið er þarna orðið, eins og gefur að skilja, mjög mikill minni hluti.

Það er ósk sýslunefndarinnar að selja jarðirnar og eins ábúendanna að fá þessar jarðir keyptar. En þegar þær voru gefnar í upphafi, var ákveðið, að þær skyldu vera til ævarandi eignar, og svo var um margar fleiri jarðir, m. a. í þessari sýslu, svokallaðar amtmannsgjafajarðir, sem seldar voru fyrir nokkuð mörgum árum samkv. leyfi þáv. dómsmrh.

Varðandi jörðina Hamar í Svínavatnshreppi er svo ástatt, að bærinn þar brann til kaldra kola á síðasta hausti, og er mjög mikil hætta á því, að sú jörð fari í eyði, ef ábúandinn fær hana ekki keypta.

Þessar orsakir liggja til þess, eins og kemur greinilega fram í bréfum sýslumannsins, sem fylgja í afriti þessu frv., að það er langæskilegast, að þessar jarðir séu seldar ábúendunum og það, sem fyrir þær fæst, verði lagt í sjóð, sem sýslan þá á og ætti þá auðvitað aldrei að skerða.

Ég vil að þessari umr. lokinni leggja til, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.