01.03.1960
Neðri deild: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3106 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

70. mál, sala tveggja jarða í Austur-Húnavatnssýslu

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Það er rétt fram tekið hjá hv. síðasta ræðumanni, að þessar jarðir voru upphaflega gefnar sýslunni með þeim skilyrðum, að þetta skyldi vera ævarandi eign, og eins var ástatt með hinar svokölluðu amtmannsgjafajarðir, sem voru miklu stærri og verðmeiri jarðir, en nú er fyrir löngu búið að selja og með þeim skilmálum, að andvirðið var lagt í sérstakan sjóð í Söfnunarsjóði Íslands og er þar óhreyfanlegt, og þetta var gert með leyfi þáv. dómsmrh. Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. síðasta ræðumanni, að það er möguleiki til þess að leigja þessar jarðir á erfðafestu, en það hefur ekki gengið mjög vel með það. Þannig er t.d. um jörðina Meðalheim, sem er stærri og verðmeiri jörð, að ábúandinn, sem þar var um nokkurra ára skeið, byggði þar alveg upp íbúðarhús og peningshús úr steinsteypu, fékk leyfi til þess að veðsetja jörðina og á henni hvíldu orðið og hvíla um 300 þús. kr. Sýslan lagði ekki nokkurn eyri í þetta, og endirinn varð sá, að þessi maður, sem með miklum dugnaði hafði þarna brotizt áfram, missti heilsuna og gat ekki haldið áfram búskap, en varð að selja eignir sínar þarna fyrir þau lán, sem á umbótunum hvíldu, og tapaði þess vegna stórfé.

Nú er þetta mál með mörgum öðrum þýðingarmikið úrlausnarefni og vandamál, sem áreiðanlega kemur fyrir það Alþ., sem nú situr, þegar ábúðarlögin koma til meðferðar, sem væntanlega verður hér á þessu þingi. Ég efast ekkert um það, að hv. landbn. kynnir sér þetta mál rækilega, og aðalatriðin í því eru fram tekin í bréfum sýslumanns Húnavatnssýslu. En ég fæ ekki séð, að það sé ástæða til að halda svo fast í þetta gamla form, að það sé gert á móti vilja allrar sýslunefndarinnar og ábúendanna á þessum jörðum að halda í landið, eftir að það er komið í ljós, að þeir verða algerlega að taka á sínar herðar kostnaðinn við umbætur á jörðunum. Þetta er ekki neitt einstakt í sögunni um jarðir, sem eru í opinberri eign. T.d. er þetta svo um margar jarðir, sem ríkið á, að þetta hefur orðið hálfgert vandræðamál, og þessi mál öll koma mjög til athugunar í sambandi við ábúðarlögin, sem munu vera afgreidd úr n.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta meira nú, en vænti þess, að hv. landbn. taki þessu máli með velvilja og afgreiði það á þann hátt, sem sýslunefndin, sem stendur hér öll að, óskar.