26.04.1960
Neðri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3114 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

70. mál, sala tveggja jarða í Austur-Húnavatnssýslu

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. v., frsm. landbn., ræddi hér nokkuð um það, að þær jarðir, sem væru í opinberri eigu, væru yfirleitt verst setnar og það áttu að vera rök fyrir því, að það væri ekki heppilegt, að jarðir væru í opinberri eigu. Ég ætla ekkert að bera brigður á þessa fullyrðingu hjá honum. En ráð við slíku er auðvitað, að ríkið sjálft breyti þar um stefnu og sjái til þess og búi þannig að þeim mönnum, sem ríkisjarðir hafa á leigu, að aðbúnaðurinn að þeim ábúendum, sem þar eru, sé verulega góður, og tryggi þeim, ef þeir óska eftir því, erfðarétt á sinni jörð.

Ég veit ekki, hvort það er svo fjarri lagi að ræða um eignarréttinn á jörðum í sambandi við þetta, og hv. 2. þm. Norðurl. v. þarf ekkert að undrast, þótt slíkar umr, hefjist. Það hafa verið gerðar alveg sérstakar ráðstafanir og það einmitt sérstaklega af þeim mönnum, sem hafa talið sig aðalforvígismenn bændastéttarinnar og það í Sjálfstfl., til þess að afnema einstaklingseignarrétt á jörðum, til þess að tryggja þar með bændur og þeirra afkomendur, að þeir geti notið jarðanna, sem þeir búa á, en jarðirnar lendi ekki í braski. Alveg sérstaklega sá þm., sem hér átti lengi sæti fyrir Skagafjarðarsýslu, Jón Sigurðsson á Reynistað, og sat hér, eins og við munum allir, áratugum saman á Alþ. og var orðinn einn af elztu þm. hér, hann hafði alltaf sérstaklega beitt sér fyrir þeim málum, sem snertu ættaróðulin, og öll löggjöfin um ættaróðul er ekki annað en tilraun til þess að forða bændum og þeirra jörðum frá þeim vandræðum, sem hljótast af braskinu í venjulegu verzlunarþjóðfélagi. Og þetta er ekki í fyrsta skipti, sem þetta kemur upp og það í svo að segja miðri þróun kapítalismans á Íslandi á 20. öld. Þetta hefur verið að gerast allan þann tíma, sem Ísland hefur verið byggt. Það hefur verið leitazt við að losa bændurna og þeirra afkomendur undan því að þurfa að vera alla sína ævi að borga afgjald af jörð, sem bóndi jafnvel verður að kaupa t.d. af sínum systkinum, svo að maður tali nú ekki um, þegar hann verður að kaupa hana af einhverjum öðrum jarðeigendum. Og við þetta miðuðust þessar mjög viturlegu ráðstafanir, sem t.d. ég minntist á áðan í sambandi við gjafabréf Helga í Þykkvabæ, við þetta miðaðist öll löggjöfin um ættaróðulin, og við þetta hefur auðsjáanlega líka miðazt sú hugmynd, sem vakti fyrir þeim mönnum, sem gáfu jarðir sínar upphaflega einhverri slíkri stofnun, sem var þannig um háttað, að það mátti ekki selja þær.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. segir, að þessar jarðir séu í eigu Austur-Húnavatnssýslu. Ég held, að það sé ekki rétt. Í þeirri skýrslu, sem lögð var fyrir Alþ. 1952, eru báðar þessar jarðir meðal þeirra kristfjárjarða, sem þar eru taldar upp og eru raunverulega það, sem kallað mundi vera í eigu Krists eða kristfjárjarðir, það er á þskj. 258 1952. Þar var birt yfirlit yfir þær jarðir, sem kallaðar voru kristfjárjarðir eða jarðir í fátækraeign, og þar er bæði Meðalheimur og Hamar í Húnavatnssýslu, þannig að þarna er því ekki um að ræða jarðir, sem eru í eigu sýslunnar, heldur jarðir, sem eru aðeins í vörzlu hennar. Og meginið af þeim jörðum, sem þarna er um að ræða, — þær voru allar taldar upp einmitt þá, — það eru jarðir, sem hafa verið gefnar, líklega allt frá því á 14. öld og fram á 17. öld, og alltaf með þeim skilyrðum, að þær megi aldrei selja. Í þeim umr., sem þá fóru fram um þetta mál, vitnaði ég í gjafabréf, sem við höfðum þá aflað okkur upplýsinga um, og það var t.d. einmitt í sambandi við jörðina Ytra-Vallholt í Seyluhreppi í Skagafjarðarsýslu. Stendur í gjafabréfinu, með leyfi hæstv. forseta: „Skal jörðin með kúgildum og öllu því, sem henni með réttu tilheyrir, vora ævinlegt kristfé héðan í frá.“ Þessar jarðir hétu ýmist kristfjárjarðir eða jarðir í fátækraeign. Og þetta var ekki aðeins í sambandi við kristfjárjarðir, það eru fleiri jarðir, sem svona háttar um. Þar er t.d. í sambandi við Jóns Sigurðssonar legatið til þurfamanna innan Eyjafjarðarsýslu, þá er tekið fram í því gjafabréfi, að jarðirnar megi aldrei seljast eða á neinn hátt lógast, og meðal þess, sem gjafasjóður Jóns Sigurðssonar í Eyjafjarðarsýslunni á, eru t.d. aðrar eins jarðir og Kristnes og Hvammur, sem er líka góð jörð, og allmargar fleiri jarðir, þannig að þarna er því um að ræða jarðir, sem hafa verið og eru nú ýmsar þeirra mikils virði, þó að það eigi kannske ekki við um þær jarðir, sem þarna er um að ræða, en hefðu verið orðnar lítils virði, svo framarlega sem þær hefðu verið seldar á sínum tíma.

1953 var lagt hér fyrir stjórnarfrv. um kristfjárjarðir og jarðir í fátækraeign, þar sem eiginlega var ákveðið að leggja alveg þennan þátt niður og láta þessar jarðir ekki vera lengur til og láta ríkið geta ráðstafað þeim, leyfa ráðh. að leyfa ríki og sveitarstjórn að selja slíkar jarðir. Þetta frv. mætti allmiklum mótmælum hér í Nd., og það fór svo um þetta stjórnarfrv., að það var ekki afgreitt frá Alþ., þannig að það eru ekki til, svo að mér sé kunnugt um, nein almenn lög um þetta mál núna. Hér er sem sé um það að ræða, að ákveðnir menn hafa fyrir nokkrum öldum gefið þessar jarðir fyrir sálu sinni í sambandi við þá trú, sem þeir þá hafa haft, bæði hvað gott það væri fyrir þeirra eigin sáluhjálp og hvað ábúendum jarðanna vegnaði bezt við. Hér er þess vegna um lagalegt spursmál að ræða, hvort ríkið hefur nokkurn rétt til þess að ráðstafa þessu, hvort við höfum nokkurn rétt til þess með lögum að taka slíkar ákvarðanir. Það er lagt þarna til að stofna sérstakan sjóð, kristfjársjóð. Það er engum kunnara en hv. þm., ekki sízt þm. stjórnarliðsins, sem gert hafa nú nýlega alveg sérstakar ráðstafanir til þess að fella verðgildi peninga á Íslandi, að verðgildi peninga hefur verið ákaflega fallvalt, ekki bara á þessum síðustu og verstu tímum, heldur á undanförnum áratugum og öldum. Löngum hefur þó verðgildi jarða verið a.m.k. allmiklu fastara, og svo mikið er víst, að ég held, að hv. 2. þm. Norðurl. v. flytji sjálfur hér frv. um að athuga að taka upp gamla landaurareikninga og annað slíkt, þannig að það er alveg greinilegt, að hann hefur það algerlega á meðvitundinni, að peningagildi nútímans er allfallvalt, en jarðagildi og það verðgildi, sem forfeður okkar miðuðu við og reiknuðu eftir um margar aldir, var allfast. Ef þess vegna lagt er til að breyta jörðum, sem hér er um að ræða, og þeirra gildi í fallvalt nútíma peningagildi, er verið að gera algera breyt. á þeim tilgangi, sem upphaflega vakti fyrir gefendum þessara jarða, og efni gjafabréfsins. Það er engum efa bundið, að þeir voru að bjarga þessum jörðum undan fallvallleik peningagildisins. Við höfðum mörg dæmin, og í þeim umr., sem ég ætla ekki að fara að rekja hér, en fram fóru um þetta í þessari hv. d. 1953, voru dæmin tekin annars vegar af þeim jörðum, sem seldar voru um 1900 og nokkru eftir 1900 og síðan andvirði þeirra lagt í sérstakan sjóð, sem vissir flokkar hér á Alþ. hafa unnið mjög dyggilega að því að gera að engu, en þar sem jarðirnar hins vegar hafa haldizt, þar eru þær eign.

Og við, sem staddir erum hér í Reykjavík, þurfum ekki annað en líta í kringum okkur til þess að sjá, hvers konar óskaplega vitleysu er búið að gera frá þjóðfélagsins sjónarmiði með því að hafa selt þær jarðir og jarðaparta, sem höfuðborgin nú er byggð á, í einstakra manna eigu á sínum tíma, og skapa þannig með því braskgildi, sem síðar hefur komið á þær jarðir, alveg óskaplegar álögur á hendur þeim mönnum, sem hér eru t.d. að byggja hús. Ég man alltaf eftir því, hvað mig rak í rogastanz, þegar ég fór að athuga fasteignamatið í Reykjavík 1932 og þegar öll þau hús, sem þá voru í Reykjavík, — og þá var fasteignamatið nokkuð rétt, — voru metin á 68 millj. kr., en jörðin hér í Reykjavík, sem þessi hús voru reist á, var metin á 32 millj. kr. M.ö.o.: braskverð á lóðunum hér í Reykjavík metið á meira en helminginn af allri þeirri vinnu og öllu því afli, sem það hafði kostað að byggja þau hús, sem í Reykjavík voru. Þetta sýnir okkur, hvað óskaplega vitlaust það er frá þjóðfélagsins sjónarmiði að ráðstafa þessum jörðum þannig, að að lokum lendi það út í braski, sem þýðir það, að farið er að selja lóðir rándýrt, og slíkur einstaklingseignarréttur, sem aðeins verður raunverulega braskeignarréttur, verður til þess að íþyngja öllum framkvæmdum og leggjast sem skattur, næstum því eins konar landsaðall, á allar þær framkvæmdir, sem gerðar eru í þjóðfélaginu. Ég álít það satt að segja mikinn galla. Í hvert skipti sem hér eru gerðar ráðstafanir, þegar ríkið er að selja meira að segja kaupstöðum eins og Vestmannaeyjum, Kópavogi og öðrum slíkum jarðir ríkisins, þá á að setja inn í slík lög ákvæði um, að slíkir kaupstaðir megi ekki selja þessar lóðir og lendur aftur, þær skuli vera eign þeirra, vegna þess að við vonumst allir saman eftir því þrátt fyrir stefnu núverandi ríkisstj., að þetta land eigi eftir að byggjast, en ekki eyðast, og hér eigi eftir að verða mjög víða mikið þéttbýli, og þá mundi slíkur einstaklingseignarréttur á jörð alltaf vera þar til trafala.

En við erum í þessu sambandi ekki að ræða um það, þó að enginn skuli segja, hvar þéttbýli kynni að vaxa upp. Hér erum við hins vegar að ræða um þá hlið, sem að bændum sjálfum og þeirra afkomendum snýr. Ég held, að það hefði þess vegna verið miklu réttara að reyna að finna þarna út aðferð með að skapa slíkum bændum framtíðarábúðarrétt, erfðaábúðarrétt, en ekki að selja þeim jarðirnar, veita þeim allar þær tryggingar, sem þeir þurfa að fá til þess að geta byggt á þessum jörðum, geta húsað þær vel, geta notað þær, geta látið þann ábúðarrétt ganga í erfð til þeirra afkomenda og þannig að öllu leyti tryggt þeim vinnandi bónda á jörðinni hin beztu afnot af henni og afkomendum hans líka, en um leið losað hann og hans afkomendur við alla þá hættu, sem fylgir því að innleiða brask einstaklingseignarréttarins í sambandi við jörðina.

Þetta er sú hlið, sem snýr að bændunum, sem eiga að hagnýta þessar jarðir, en svo er þá að síðustu sú hliðin, sem snýr að þeim, sem ráðstafaði þessari jörð á sínum tíma á þennan máta. Með þeirri afstöðu, sem enn er gagnvart eignarréttinum í þjóðfélaginu og ráðstöfunum manna, þá álít ég að menn hafi ekki heimild til þess að breyta þeirra ráðstöfunum. Það að breyta þeirra jörðum í peninga er sama sem að fleygja þeim. Ég álít þess vegna, að það sé ekki leyfilegt fyrir okkur að gera þær ráðstafanir, sem hér er um að ræða, og mun þess vegna vera á móti þessu frv., en álít hins vegar, að landbn. ætti að taka þetta frv. til ýtarlegri meðferðir en nefndin nú þegar hefur gert, og hún mætti gjarnan hafa til hliðsjónar, að svo miklu leyti sem hún vill halda fast eða meiri hluti hennar við sína afstöðu, þær breyt., sem gerðar voru á l. eða lagafrv., sem ríkisstj. flutti hér 1953 um sölu á kristfjárjörðunum. Það voru mjög ýtarlegar breytingar og voru einmitt gerðar af n., eftir að frv. kom fram og eftir að það hafði verið rætt allýtarlega við 1. umr., og meira að segja þrátt fyrir þær breyt. hafði frv. samt ekki fengið náð fyrir augum Alþingis. Ég vildi þess vegna eindregið mælast til þess, að hv. landbn. athugaði betur sinn gang, til þess að hér væri ekki verið að gera ráðstafanir, sem væru í senn ólöglegar og rangar.