26.04.1960
Neðri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3118 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

70. mál, sala tveggja jarða í Austur-Húnavatnssýslu

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég gerði ekki ráð fyrir, að ég mundi tala í þessu máli, því að frsm. n., hv. 2. þm. Norðurl. v. (JPálm), er svo vitur maður og rökfimur, að ég reiknaði ekki með, að ástæða væri fyrir mig að taka til máls í þessu máli. En það hafa vafizt inn í þessar umr. ýmis atriði, sem koma þessu tiltölulega lítið við.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) virðist taka þetta sem stefnumál, þannig, að hér sé um eitthvert stórmál að ræða viðvíkjandi eignarrétti jarða yfirleitt. En meðan þetta þjóðskipulag, sem við búum við, er eins og því er varið nú, að þar er eignarrétturinn yfirleitt virtur og það er talið hentugast, að menn eigi það, sem þeir þurfa að nota, þá hefur það lítið að segja, hver á þessar tvær litlu jarðir. Mín skoðun er, að það sé heilbrigt og eðlilegt, að hver maður eigi það, sem hann þarf að nota. Ég álít heilbrigt, að sá, sem býr í kaupstað, eigi íbúðina, sem hann þarf að búa í. Og ég álít heilbrigt, að bóndinn eigi jörðina, sem hann þarf að nota til þess að geta rekið sitt bú. Þetta er mín skoðun. En hitt má deila um, hvort það er ekki ástæða til þess að setja takmörk fyrir því, að einn bóndi eigi fleiri en eina jörð eða eigi réttara sagt margar jarðir, sem hann þarf ekki að nota, og það má líka deila um það, hvort ekki sé rétt að setja einhver takmörk fyrir því, að sami maður eigi margar íbúðir, sem hann leigir út og hefur ef til vill aðstöðu til þess að okra á. En í okkar landi er það nú þannig, að menn fást varla til þess að búa á jörðunum. Þeir vilja heldur fara í kauptúnin eða kaupstaðina og setjast þar að. Ég er ekki að segja, að það sé verra að vera bóndi, það er fjarri því, það er á margan hátt heilbrigt og þroskandi, en það er nú bara þannig í þessu landi, að mönnum finnst léttara að stunda önnur störf.

Viðvíkjandi því, hvort jarðir, sem eru í einstaklingseigu, séu betur settar en hinar, þá ætla ég að benda ykkur á það, að það er t.d. eitt prestssetur í miðju héraði hjá okkur, sem er í eyði. Ríkið á það. Það eru Æsustaðir í Langadal. Það þykist enginn geta verið þar vegna þess, að þar séu svo slæm húsakynni.

Þessa jörð á ríkið og byggði upp á henni fyrir eitthvað 30 árum. Húsakynnin eru orðin þannig, að presturinn þykist ekki geta verið í þeim. Og nú vil ég bara benda á viðvíkjandi þeirri jörð, sem húsið brann á í fyrra, að ábúandinn getur vafalaust fengið lán út á jörðina, hann getur fengið ca. 75 þús. kr. til að byggja fyrir íbúðarhúsið. En hver á þá að borga mismuninn? Til þess að húsa þá jörð, bæði íbúðarhúsið og peningshúsin, þarf áreiðanlega 200–300 þús. kr. Og hver vill borga mismuninn? Hver vill lána mismuninn? Sýslunefndin í Austur-Húnavatnssýslu er kunnug þessum málum, og hún mundi ekki leggja þetta einhuga til, ef hún áliti þetta ekki nauðsynlegt. Ábúendurnir óska að fá jarðirnar keyptar. Þetta eru því þeir tveir aðilar, sem eru kunnugastir hlutunum, sem óska eftir því, að ábúendurnir fái að kaupa jarðirnar. Sýslan fer ekki að lána þessum ábúanda, hún hefur engar ástæður til þess, allt að 200 þús. kr. til þess að byggja upp á jörðinni. Og hver á að lána? Tekjur hafa engar verið af þessari jörð. Sýslunefndin hefur ekki haft annað en tímaeyðslu og erfiði af að fjalla um þessi mál. Þetta var upphaflega gefið til styrktar fátæku fólki, en tímarnir eru gerbreyttir. Það er búið að semja löggjöf til þess að vernda ekkjur og munaðarlaus börn og aðra fátæklinga frá því að þurfa að leita til hreppsfélaganna. En það var svo, þegar þetta var gefið. Það eru ótal sjóðir í þessu landi. Þeir eru allir að verða svo að segja verðlausir fyrir ráðstafanir ríkisvaldsins. Það er alltaf verið að verðfella peningana, svo að þessar krónur, sem upphaflega voru í sjóðunum, eru orðnar einskis virði. Hvað er þá meira viðvíkjandi þessum jörðum, þó að einhverjum ákvæðum sé breytt viðvíkjandi þeim, vegna þess að tímarnir hafa breytzt? Þegar þær voru gefnar, var það talið hið mesta happ að eiga einhverja jörð, en nú vill helzt enginn búa. Og viðvíkjandi því, að þetta skapi brask og ábúendurnir þurfi að kaupa jarðir dýru verði, þá eru þeir tímar algerlega breyttir, vegna þess að það vita allir, að ef faðir ætlar að afhenda barni sínu jörð nú, verður hann að láta jörðina fyrir sama og ekki neitt. Sú jörð, sem ég ólst upp á t.d. og er með stærri jörðum í Húnavatnssýslu, var látin fyrir eitthvað 10–15 þús. kr. til bróður míns. Það datt engum í hug að tala um það. Það eru allir foreldrar fegnir, bara ef eitthvert barnið tollir á jörðinni, og systkinunum dettur yfirleitt ekki í hug að tala um það, þó að það barn, sem vill vera eftir á jörðinni, fái hana með þeim skuldum, sem á henni hvíla, eða fyrir sáralítið verð, ef engar skuldir hvíla á henni. Það má vera, að þetta breytist, en straumurinn er svona nú, og ég get ekki séð, að það sé nokkuð unnið við það, að þessar jarðir fari, önnur eða báðar, í eyði vegna þess, að það á að binda sig við ákvæði, sem eru eins eða tveggja alda gömul og eru búin til við allt önnur skilyrði og miðuð við allt aðrar ástæður en nú eru fyrir hendi.

Það var minnzt hér á það af hv. 3. þm. Reykv., að lóðir hér í Reykjavík væru seldar fyrir hærra verð en heilar jarðir í sveitum. Þarna komum við að kjarna málsins. Þetta er af því, að fólkið vill kaupa lóðirnar dýrt, af því að það vill heldur vera hér en í sveitinni. En þessum jörðum er ekki þannig háttað, að þær liggi við kauptún, þannig að landið geti orðið notað til lóðasölu. Og við skulum bara athuga það, að fólkið vill hafa rafmagn, það vill hafa öll þægindi. Það er ekki fyrir hendi á þessum jörðum, og þeir, sem taka þessar jarðir, verða að leggja á sig stórar fórnir og leggja fram mikið fjármagn, til þess að jarðirnar séu byggilegar. Við skulum vona, að þessi þægindi komi öll í sveitina. En það mun dragast í allmörg ár. Þess vegna er bændum alls ekki of gott að vita af því, að þeir eigi jarðirnar og afkomendur þeirra geti búið á þeim, ef því er að skipta. Það getur orðið þeim til styrktar í þeirri erfiðu lífsbaráttu, sem bændur í flestum tilfellum eiga við að búa í þessu landi, jafnvel þó að það skuli fúslega viðurkennt, að ríkisvaldið hefur mikið gert til að gera kjör þeirra betri en þau voru. Ég mun því greiða atkv. með þessu frumvarpi.