16.05.1960
Efri deild: 77. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3128 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

70. mál, sala tveggja jarða í Austur-Húnavatnssýslu

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til, að sýslunefnd Austur-Húnavatnssýslu verði heimilað að selja kristfjárjarðirnar Meðalheim í Torfalækjarhreppi og Hamar í Svínavatnshreppi til núverandi ábúenda, enda verði andvirði jarðanna og það, sem þeim fylgir, eign Afgjaldasjóðs kristfjárjarða í Húnavatnssýslu. Jarðirnar skulu seldar á því verði, sem dómkvaddir menn meta, nema hærra tilboð liggi fyrir, og skal leita samþykkis eftirlitsmanna opinberra sjóða um söluverð þeirra. Um sjóð þennan, Afgjaldasjóð kristfjárjarða í Húnavatnssýslu, var gerð skipulagsskrá hinn 20. júní 1919, sem staðfest var 31. des. sama ár. Það eru eingöngu framangreindar tvær jarðir, sem tilheyra þessum sjóði. Skipulagsskrána vil ég leyfa mér að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar þannig:

„Skipulagsskrá fyrir Afgjaldasjóð kristfjárjarða í Húnavatnssýslu.

1. gr. Kristfjárjarðir þessar eru Hamar í Svínavatnshreppi, er Guðmundur sýslumaður Hákonarson hefur með bréfi, dags. á Þingeyrum þann 15. febr. 1656, gefið fátækum í 11 af þáverandi 18 hreppum Húnavatnssýslu, og Meðalheimur í Torfalækjarhreppi, er Bjarni sýslumaður Halldórsson hefur með bréfi, dags. á Þingeyrarklaustri 10. maí 1763, gefið fátækum í öllum af þáverandi 18 hreppum sýslunnar.

2. gr. Umsjón þessara jarða hefur einn maður, er sýslunefndir Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu kjósa til þess til 5 ára í senn. Hann hefur byggingarráð þeirra með þeim takmörkunum, sem tiltekið er í reglugerð fyrir umsjónarmann kristfjárjarða í Húnavatnssýslu. Fær umsjónarmaður í innheimtulaun og ómakslaun 6% af jarðarafgjöldunum. Ekki er byggingarbréfið gilt, nema sýslunefndir Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu samþykki það.

3. gr. Af afgjaldi jarðanna skulu myndaðir sjóðir, er nefnast kristfjárjarða-afgjaldasjóðir eftirnefndra hreppa, og falla öll afgjöld, bæði landskuld og leigur, að frádregnum þeim 6%, sem um getur í 2. gr., til sjóða þessara og skiptast á milli þeirra þannig:

a) Af Hamri falli í kristfjárjarða-afgjaldasjóði: Vindhælishrepps, Engihlíðarhrepps, Bólstaðarhlíðarhrepps, Svínavatnshrepps, Sveinsstaðahrepps, Áshrepps, Þorkelshólshrepps, Þverárhrepps og Kirkjuhvammshrepps 2/23 hlutar til hvers, en Blönduóshrepps, Torfalækjarhrepps, Fremri-Torfustaðahrepps, Ytri-Torfustaðahrepps og Staðarhrepps 1/23 hluti til hvers. b) Af Meðalheimi falli afgjaldið í kristfjárjarð-afgjaldasjóði: Vindhælishrepps, Engihlíðarhrepps, Bólstaðarhlíðarhrepps, Svínavatnshrepps, Sveinsstaðahrepps, Áshrepps, Þorkelshólshrepps, Kirkjuhvammshrepps, Þverárhrepps og Staðarhrepps 1/12 hluti til hvers, en Blönduóshrepps, Torfalækjarhrepps, Fremri-Torfustaðahrepps og Ytri-Torfustaðahrepps 1/24 hluti til hvers.

4. gr. Höfuðstól sjóðanna má aldrei skerða. Við þá skulu árlega lagðir vextir af þeim og sá hluti jarðarafgjaldanna, sem hverjum þeirra ber, þar til árstekjur þeirra hvers um sig eru orðnar 25 kr., þá má á hverju ári úthluta 4/5 hlutum af öllum árstekjunum, en a.m.k. 1/5 hluti leggist árlega við höfuðstólinn.

5. gr. Umsjónarmaður jarðanna semur árlega reikning yfir sjóðina og sendir þá til oddvita sýslunefndar, og skulu þeir svo lagðir fyrir aðalfundi þeirra til athugunar og úrskurðar. Þegar byrjað verður að úthluta styrk af sjóðum þessum, geta sýslunefndirnar ákveðið umsjónarmanni aukaþóknun fyrir reikningsfærsluna, sem þó má ekki vera meiri en 2% af öllum tekjum sjóðanna.

6. gr. Styrk þann, sem árlega má úthluta samkv. 4. gr., veita hreppsnefndir fátækum mönnum í hreppi sínum án tillits til stöðu þeirra og aldurs. Þó má engum veita styrk þennan, sem þiggur sveitarstyrk eða hefur þegið hann næstu tvö ár áður. Lægri styrkur veitist engum en 20 kr.

7. gr. Áður en farið er að veita styrk af sjóðum þessum, semja sýslunefndirnar reglur um úthlutun hans.

8. gr. Sýslunefndir Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu ábyrgjast hvor fyrir sig og báðar í sameiningu téða afgjaldasjóði, enn fremur að afgjöld jarðanna séu réttilega innheimt, sett tafarlaust á vöxtu á tryggan vaxtastað. Skipt sé jafnframt í sjóðina samkv. því, sem skipulagsskrá þessi greinir, og yfirleitt að farið sé í einu og öllu eftir ákvæðum skipulagsskrár þessarar. Þær ákveða í sameiningu, hvar sjóðirnir skuli ávaxtast. Hagur sjóðanna skal árlega birtur með sýslufundargerðum sýslnanna.

Þannig samþykkt á sýslufundum Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu.

20, júní 1919.“

Til þess að gera grein fyrir, hvernig nú er komið fyrir þessum sjóðum og hvernig ástatt er með þessar jarðir, vil ég enn fremur leyfa mér að lesa hér kafla úr bréfi sýslumanns Húnavatnssýslu, Guðbrands Ísbergs, sem dags. er 6. febr. s.l. og birt er með grg. frv., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eign kristfjárjarðasjóðs í Meðalheimi er ekki nú orðið önnur en landverð jarðarinnar, kúgildi og nokkrir einskis verðir peningshúsakofar. Hér frá verður þó að draga eign erfðafestuábúanda í 30 hektara nýrækt. Á jörðinni hvíla ca. 300 þús. kr. ræktunarsjóðslán og byggingarsjóðslán. Beri eitthvað út af með greiðslu afborgana og vaxta, er ekki um annað að gera en lofa hlutaðeigandi lánsstofnun að ganga að veði sinu, því að fé er sama og ekkert fyrir hendi í sjóðnum og sýslurnar bera enga ábyrgð á þessum lánum, þótt sýslurnar hafi orðið að heimila töku þeirra lögum samkvæmt. Virðist því einsætt að hverfa að því ráði að leyfa að selja þessar jarðeignir, sem fyrir kristfjárjarðasjóð eru nær einskis virði. Hið litla afgjald jarðanna hefur farið til þess að reyna með styrkjum til húsabóta að koma í veg fyrir, að þær leggist í eyði. Þetta gildir enn um Hamar, en ábúendur Meðalheims eiga nú öll hús jarðarinnar, sem að gagni eru.

Jörðin Hamar er að vísu í ábúð, a.m.k. til vors, en á s.l. hausti brunnu þar öll bæjarhús, og peningshús, sem þar eru, þykja lítt eða ekki nothæf lengur. Það þarf því að byggja allt upp af grunni. Nú vill ábúandi ekki leggja fé í nauðsynlegar byggingar á jörðinni, nema hann fái hana keypta og fylgi réttur til brunabótafjárins, sem ekki fæst greitt, nema byggt sé aftur. Og þess er vissulega ekki að vænta, að aðrir geri betri boð. Er því einsætt, að jörðin fer í eyði, ef sala er ekki leyfð. Sýslunefndir Húnavatnssýslna, sem æ ofan í æ hafa gert samþykktir um að freista að fá að selja jarðirnar, leggja nú á það ríka áherzlu, að söluleyfi fáist með einhverju móti til þess að koma í veg fyrir, að Hamar, sem er allgóð jörð með ca. 600 hesta töðufalli, fari í eyði, enda kæmi þá hvort eð er til nauðungarsölu á jörðinni vegna veðskulda, sem á henni hvíla.“

Í gjafabréfum fyrir jörðunum mun, a.m.k. hvað aðra þeirra snertir, vera ákvæði um, að jörðin skuli ævinlega vera kristfjárjörð. Þegar um gerbreyttar aðstæður er að ræða, er þó ríkisvaldinu að lögum talið heimilt að breyta slíku ákvæði varðandi gjafir og sjóði, einkanlega þegar ekki er haggað við tilgangi gefandans, heldur eingöngu breytt reglum um ávöxtun sjóðanna. Með sölu jarðanna yrði á engan hátt hróflað við tilgangi gefendanna, þar sem andvirði þeirra á að renna óskert í afgjaldasjóð kristfjárjarða í Húnavatnssýslu. Yrði því hér eingöngu um breytingu á ávöxtun sjóðsins og arðtöku að ræða, enda verður að hafa hugfast, að þegar jarðirnar voru gefnar, var ekki unnt að stofna sjóði með því að leggja fé inn á banka eða sparisjóði.

Að vel athuguðu máli fæ ég ekki annað séð en allir, sem hlut eiga hér að máli, hafi hagsmuni af því, að jarðirnar verði seldar. Í fyrsta lagi hefur sjóðurinn sjálfur og þeir, sem hans eiga að njóta, hagsmuni af því, þar sem jarðirnar hafa ekki verið sjóðnum arðbærar og jafnvel til byrði og afgjöldin öll farið í húsabætur á jörðunum, og ekkert útlit fyrir, að þetta geti breytzt til batnaðar í náinni framtíð. Í öðru lagi eru það hagsmunir ábúendanna að fá jarðirnar keyptar, þar sem þeir vilja ekki búa og byggja upp á jörðunum að öðrum kosti. Í þriðja lagi eru það hagsmunir þjóðfélagsins, að jarðirnar fari ekki í eyði, en telja má víst, að svo verði, ef sala verður ekki heimiluð.

Landbn. hefur athugað og rætt frv. þetta á nokkrum fundum og er sammála um að mæla með, að það verði samþ. með þeirri einu breyt., að í stað sýslunefndar Austur-Húnavatnssýslu einnar verði það sýslunefndir Austur-Húnavatnssýslu og Vestur-Húnavatnssýslu, sem verði heimilað að selja jarðirnar. Er þetta gert í samræmi við skipulagsskrána, sem ég las hér áðan, en þar er báðum sýslunefndunum veitt forræði sjóðsins.