29.02.1960
Efri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3132 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

64. mál, dýralæknar

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Við hv. 1. þm. Vesturl. höfum leyft okkur að bera fram frv. til l. um breyt. á l. um dýralækna, sem hér liggur fyrir til 1. umr. Breyt. sú, sem hér er farið fram á að gerð verði, er í höfuðatriðum um skiptingu á Borgarfjarðarumdæmi, sem nú er stærsta dýralæknisumdæmið í landinu. En sú breyt. mundi einnig verða á um Dalaumdæmi, að Skógarstrandarhreppur í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu mundi falla undir Snæfellsnesumdæmi. Það er óþarft að taka það sérstaklega fram, að umdæmi á borð við það, sem Borgarfjarðarumdæmi er nú, er algerlega ofviða einum dýralækni, ef veita á þá þjónustu, sem nauðsynleg getur talizt og bændum er mjög mikils virði.

Eins og frá er skýrt í grg. með frv., hefur um langan tíma verið ráðinn aðstoðarmaður með dýralækninum í Borgarfjarðarumdæmi, og hefur aðstoðarmaðurinn verið búsettur á Akranesi. Nú hafa bændur óskað þess eindregið, að umdæminu verði skipt og dýralæknar ráðnir, ef þeirra er völ. Því miður mun málum svo komið, að mikil vöntun er á lærðum dýralæknum, en sú breyting, sem hér er ráðgerð, mun sennilega verða til þess að hvetja fleiri unga menn til þess að leggja stund á dýralæknisnám. Eins og nú standa sakir, er vitað um ungan mann, sem nýlega hefur lokið námi, að hann mun hafa hug á að sækja um eitt þessara umdæma, ef frv. þetta verður að lögum.

Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið hjá yfirdýralækni, er svo ástatt með þá nemendur, sem nú stunda dýralæknanám, að þeir, sem næst munu útskrifast, ljúka ekki námi fyrr en að tveimur árum liðnum. Það er því sýnilegt, að fyrst um sinn verður aðeins um einn dýralækni að ræða til viðbótar því, sem nú er.

Auk þess sem Borgarfjarðarumdæmi er, eins og ég hef áður sagt, mjög stórt að víðáttu og mikill fjöldi búpenings, þá er í umdæminu bændaskólinn að Hvanneyri. Telur skólastjórinn þar, að skólinn hafi á margan hátt þörf fyrir að hafa greiðan aðgang að dýralæknum. Þar er sem kunnugt er rekið mjög stórt bú og af þeim ástæðum oft þörf fyrir dýralækni. Þá telur skólastjórinn, að bændaefnum sé nauðsynlegt að fá nokkra fræðslu í undirstöðuatriðum varðandi heilbrigði búfjár, bæði bóklega og verklega. Enn fremur telur hann, að þess sé ekki síður þörf fyrir framhaldsdeild skólans. Það er hugsanlegt, að með þeirri skipan, sem hér er lagt til, geti e.t.v. sá dýralæknir, sem búsettur yrði í hinu nýja Borgarfjarðarumdæmi, orðið að nokkru liði í þessum efnum.

Ég tel svo ekki þörf að fjölyrða um mál þetta frekar að þessu sinni, en geri það að till. minni, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og landbn. hv. efri deildar.